EUGENIA ALMEIDA
RÚTAN
Rútan © Eugenia Almeida 2007 Titill á frummáli: El colectivo Íslensk þýðing: © Katrín Harðardóttir 2017 Kápuhönnun og umbrot: Aðalsteinn Svanur Sigfússon Prentun: Oddi, umhverfisvottuð prentsmiðja Þýðing bókarinnar er styrkt af: miðstöð íslenskra bókmennta icelandic literature center
Gefin út í Reykjavík, bókmenntaborg UNESCO Salka – Reykjavík – 2017 www.salka.is Bók þessa má ekki afrita með neinum hætti, svo sem ljósmyndun, prentun, hljóðritun eða á annan sambærilegan hátt, að hluta eða í heild, án skriflegs leyfis útgefanda. ISBN: 978-9935-483-20-1 Samkvæmt samkomulagi við Literarische Agentur Mertin Inh. Nicole Witt e. K., Franfurt am Main, Þýskalandi.
I Rútan hefur farið framhjá þrjú kvöld í röð án þess að dyrnar opnist. Þorpið er undir þungbúnum himni, gráum og skýjuðum. Rykið óhreinkar gluggana og hundarnir eru taugatrekktir í þurrkinum. Rubén hallar sér letilega út um gluggann og horfir á fólkið sem er að fara yfir teinana. Það er Poncefjölskyldan, sem býr hinumegin. Þau eru að athuga hvort hægt sé að snúa aftur til borgarinnar. Áður en þau komast að enda óræktarinnar, fer Rubén í dyrnar. Úr fjarlægð sést hönd hans hreyfast eins og pendúll, öfugur klukkukólfur hangandi úr engu, sem slær til þess að segja nei. Ponce lögmaður hnykkir til höfðinu, gefur til kynna að skilaboðin séu móttekin. – Ekki stoppa, við snúum við. Marta hlær. Victoria horfir í átt til hótelsins og lokar augunum þegar rykið feykist til í golunni. Hún veit ekki hvort hún eigi að hrista kjólinn, taka af sér hattinn eða snúa við og ganga til baka. Ponce leysir um hnútinn í hálsinum, stígur í vinstri fótinn og horfir á konuna sína.
5
– Ekki hlæja. Marta lýtur höfði til þess að fela munninn sem er stór kostlegur, opinn, geislandi. Í fjóra daga hefur Ponce-fjölskyldan komið á stoppi stöðina fyrir framan hótelið á sama tíma. Ponce fer í vesti, í betri skóna og setur á sig bindi. Hann ber ferðatösku systur sinnar og þykist ekki hafa fyrir því. Konurnar ganga nokkrum skrefum aftar, tala með höndunum.
Fyrsta daginn komu þau á hótelið á réttum tíma svo Vict oria gæti tekið rútuna klukkan átta. Tíu mínútum áður sá Ponce ljós á veginum sem rútan kemur eftir. Ljósin sáust í beygjunni og lögmaðurinn fór út á malargötuna. Rútan gaf í, þyrlaði upp ryki og yfirgnæfði eilífa, óþreytandi, ágenga tónlist engisprettnanna. Ponce sneri sér við rétt til þess að sjá afturljósin á rútunni sem ók í átt til borgarinnar. Kon unum lá eitthvað á hjarta en maðurinn gaf merki um þögn. – Bíðið hérna. Hann hratt dyrum hótelsins upp og leitaði að Rubén, sem stóð við innstu borðin. – Hver keyrir í dag? – Castro, þessi frá Blinduvötnum. – Hann er sko blindur, því hann sá mig ekki. Síðan Peréz hætti, keyra þeir allir illa. – Sá hann yður ekki? – Nei, hann fór framhjá. Ponce sneri sér við og gekk út. Konurnar þögnuðu þegar skuggi hans féll við fætur þeirra. – Elskan, veistu að þú þarft að bíða til morguns. Victoria kinkaði kolli og gjóaði augunum á Mörtu, sem hélt áfram að brosa.
6
Lögmaðurinn fór yfir teinana og á meðan hann heyrði skvaldrið í konu sinni og systur hugsaði hann um afturljós in á rútunni. „Þessi Castro er hálfviti. Ef hann hefði ekki séð mig hefði hann ekki gefið í. Hann vildi ekki stoppa.“ Vinstra megin götunnar birtist Gómez á hjólinu og þeg ar hann sér þau hrópar hann: – Hva … snerist ykkur hugur? Og stígur pedalana af afli um leið og hann lyftir hendinni til að heilsa. Ponce ætlar að hrópa á móti en röddin er lág, létt, óskýr. – Nei, hann vildi ekki stoppa. Hann gerir sér grein fyrir því að Gómez heyrði ekki til hans og sér bak hans og hnakka í fjarska. Þaðan sést svarta hjólið ekki og svo virðist sem maðurinn hjóli í loftinu. Ponce dregur sígarettu úr vasanum og kveikir í henni. Þegar hann kemur að húsinu bíður hann eftir konunum svo þær fari inn á undan.
„Rétt eins og í skák, þá lagast hlutirnir að taflborðinu og skýrast. Ef maður er athugull, er hægt að sjá hluti fyrir og koma sér þannig fyrir að ekki er hægt að komast hjá máti.“ Ponce heldur biskupnum á milli fingra sér og lætur sígar ettuna brenna upp. Hann heyrir að hinumegin við dyrnar eru Marta og Victoria að leggja á borð. Hann opnar hægri skúffu skrifborðsins og sækir úrklippu úr dagblaði. Með fjaðrapennanum fyllir hann ferhyrninga krossgátunnar. Það heyrist í Mörtu frammi. Ponce opnar dyrnar og gengur til kvennanna. – Ég ætla á hótelið. Marta gefur mágkonu sinni merki, tekur hnífapörin sem voru fyrir hann, fer að glugganum og sér hann ganga í burtu undir ljósastaurunum. Hún tekur af sér svuntuna,
7
opnar skúffu í eldhúsborðinu og stingur hendinni niður. Victoria brosir. Undir plastinu sem geymir hnífapörin, dregur Marta þykkan lófa sinn sem lýkst um álpappír. Hún breiðir úr honum og þrjár sígarettur koma í ljós. Hún leitar að eldspýtunum og sest fyrir framan mágkonu sína. – Á morgun förum við á markaðinn og kaupum ferskjur og apríkósur. Það er betra að þú verðir einn dag í viðbót.
Ponce hvarflar augunum eftir borðinu og nálgast barinn til þess að sækja viðarkassann með taflinu. Rubén þurrkar glösin og lítur eftir könnu sem er á hellunni. Lögmaðurinn kveikir í sígarettu á meðan hann horfir á parið sem situr í enda salarins. Þau eru ekki héðan, það sést á fötum þeirra. Konan er enn ung. Hún er með vesti á öxlunum. Hann, í jakkafötum og með bindi, talar lágt, næstum í hljóði. Þau hljóta að vera elskendur, hugsar hann. Hann leitar eftir hring á fingri en það er ekki nægilega bjart. Hún virðist vera á röngum stað, eirðarlaus, eitthvað illa til höfð miðað við hann. Ponce ímyndar sér hann pússa skóna sína vandlega því þeir skína undir borðinu. Rubén lítur til vinstri og augu þeirra mætast. Yfirvaraskegg lögmannsins hreyfist niður á við og hóteleigandinn skilur. Á meðan hann tekur til tvö viskíglös, horfir Ponce á bak hans, á skyrtuhornið sem hefur losnað undan buxunum og lafir … Hóteleigandinn gengur á milli borðanna þangað til hann kemur að Ponce. Hann tekur tuskuna sem hangir á vinstri framhandleggnum. Höndin hreyfist hratt, í hringi, þrífur borðið. Lögmaðurinn horfir á mylsnurnar, örsmáar örður sem hreyfast í réttri hrynjandi við hreyfinguna. Rubén setur niður glas fyrir framan viðskiptavin sinn og annað aðeins frá. Snýr aftur að barnum og leitar, undir
8
barborðinu, að viskíflöskunni sem er merkt með tveimur krossum. Tveir eins krossar sem gerðir eru með hnífsoddi. Hann gengur að borðinu, setur hana niður og segir: – Flaskan yðar, doktor. Ponce er með sígarettu í munninum og helmingurinn er strax orðinn að ösku. Rubén flýtir sér að barnum og kemur með gylltan öskubakka, þríhyrndan. Lögmaðurinn tekur sígarettuna og slær létt í hana með vísifingrinum. Askan fellur heil. Rubén fer að innsta borðinu. Ponce, sem hafði lokað augunum til hálfs til þess að verjast reyknum, njósnar um hann, fylgist með honum í gegnum tálmana. Hann styttir sér stundir við að horfa á konuna. Hún er augljóslega ekki í undirpilsi. Í myrkrinu sjást leggir hennar heilbrigðir, sterk ir. Honum finnst hann finna hvernig þessir leggir skjálfa þegar maðurinn talar við Rubén. – Hún stoppaði ekki. Hún kom fyrr, einum tíu mínútum á undan áætlun. Ég ætlaði að fara út og gefa merki þegar doktorinn … Rubén snýr sér við og bendir á Ponce. Maðurinn horfir á hann annars hugar, konan hreyfir sig varla. – … kom inn og sagði að hún hefði ekki stoppað. Bíl stjórinn hefur örugglega ekki séð hann. Ponce bítur í enda sígarettunnar og gefur frá sér lágt hljóð, eins og urr. – … þið getið verið þangað til á morgun. Klukkan hálf átta fer ég í dyrnar til þess að vera viss um að hún stoppi … Mennirnir halda talinu áfram og Ponce horfir á konuna. Hún veit að það er horft á sig. Og skelfur. Hljóð úr vörubíl truflar einbeitingu þeirra. Reipi og segl slást í málminn. Í fjarlægð heyrist í hundum ekkju Juárezar gelta að lögreglu stjóranum sem gengur eftir götunni.
9
– Crespi fór hjá á vörubílnum. Eftir hálftíma loka ég, doktor. Ponce leggur frá sér viskíglasið sem hann var að drekka úr og tekur hitt. Hann lítur á það í gegnum ljósið. Hann þurrkar það með munnþurrku og hellir í það. Hann grunar að Rubén setji afgangsviskíið í flöskuna sína. Þess vegna kveikir hann í annarri sígarettu og á meðan hann reykir, slær hann öskunni í notaða glasið. Tuttugu og átta mínút um seinna stendur hann upp. Rubén skilur að nú er kominn tími til að loka. Ponce lítur að innsta borðinu og sér það mannlaust. Hann veit ekki hvenær parið hefur farið. Þau hafa skilið eftir glös, stubba og pappírssnepla sem hún reif á meðan þau töluðu. Borðið líkist hótelherbergi sem rétt í þessu var yfirgefið. Lögmaðurinn er kominn að dyrunum og lyftir vinstri höndinni svo Rubén sjái hana. – Þangað til á morgun doktor, heyrist á meðan hann fer niður steintröppurnar. Bjallan í dyrunum hljómar þangað til hann er kominn að teinunum.
Annan daginn fór Rubén í dyrnar klukkan hálf átta um kvöldið. Að baki hans spjallaði parið á aftasta borði hljóð lega saman, raddirnar flóttalegar, eirðarlausar, þær hljóm uðu eins og froskakór. Rubén sá Ponce-fjölskylduna fara yfir teinana. Doktorinn bar ferðatösku systur sinnar sem gekk nokkrum skrefum aftar með Mörtu. Mennirnir sáu hvor annan úr fjarlægð og kinkuðu kolli svo varla bar á. Þegar að hótelinu kom stoppuðu Victoria og Marta langt frá parinu. Marta gat ekki slitið augun af konunni. Með hönd fyrir brosinu sagði hún beittri röddu við mágkonu sína: – Þessi er ekki í undirpilsi. Og hún er ekki úr þorpinu.
10
Victoria virtist ekki heyra. Hún horfði upp í himininn, þungbúinn og þrúgandi. Síðan í gærmorgun hafði rigningin safnast saman í skýjun um en vindinn sneri ekki og stormurinn skipti um stað án þess að gefa sér lausan tauminn. – Þessi er örugglega ekki úr borginni. Hún er ekki í sokkum. Ekki úr borginni. Örugglega úr öðru þorpi. Victoria horfði í augu konunnar, sem svaraði með hvössu augnaráði. Victoriu brá. Hún reyndi að skilja hvað mágkona hennar var að segja, sem talaði næstum án þess að anda. – ... þetta eru ekki virðulegar konur, hvað gera þær? Afhverju koma þær hingað? Í þetta þorp koma þær aðeins í tilteknum erindagjörðum eða til þess að syndga. Og hann … hlýtur að vera ferðamaður … Victoria leit á Ponce, sem talaði við Rubén. Það var ekki misfellu að sjá á jakkafötum bróður hennar. Skyrta hóteleigandans flíkaði brunagati eftir sígarettu á hægri skyrtuerminni. – … þeir eru allir eins. Þeir eyða tímanum í að ferðast um þorpin og sofa á hótelum. Þeir eiga tvö eða þrjú börn og einhverja einfeldninga sem gæta þeirra. Þeir eru aldrei heima hjá sér, þessir. Þeir koma í þorp og elta uppi konurnar. Það er alltaf ein sem ekki er háttprúð og lætur til leiðast. Svo fara þau saman í annað þorp, þar sem hún þekkist ekki. Manstu eftir Fuentes-fólkinu, þeim í myllunni? Nú jæja, þau áttu eina dóttur sem var alltaf að þessu. Hún bað um leyfi í skólanum, stelpuskjátan. Og hún fór til Trillasþorpsins, í um áttatíu kílómetra fjarlægð. Hún velti sér upp úr þessu. Þetta var vitað hérna í þorpinu, því það sást til hennar á lélegu hóteli, í kjöltunni á einhverjum ferðalangi. Þvílík ósvífni, að eyðileggja svona fjölskyldur. Hún varð að
11
fara, hún varð að fara úr þorpinu. Sagt er að hún hafi farið til borgarinnar. Að þau hafi séð hana … vinnandi … jæja … í leikhúsunum, á kaffihúsum. Úti á lífinu … Victoria tekur um hálsinn, ennið er þakið svitaperlum. – … Fuentesfjölskyldan lætur sem hún sé ekki til. Þau segjast aðeins eiga einn son. Auðvitað er herra Fuentes ekki sá besti … Victoria þreifar eftir mágkonu sinni. – Er allt í lagi með þig? Þú ert náföl. Ponce! Elskunni líður illa. Lögmaðurinn snýr sér við og virðist annar maður. Hann kemur til systur sinnar og styður við hana. Victoria dregur djúpt andann með lokuð augun. Af veginum heyrist í rút unni. Hóteleigandinn kemur út á götu og veifar höndun um. Parið fer að vegarkantinum. Rubén heyrir að skipt er um gír rútunnar og sér hraðann aukast. Hann fer út á miðja götuna og lyftir höndunum. Rútan gefur í og, í einu vetfangi, skýtur hún sér undan hóteleigandanum sem stendur hreyfingarlaus, með hendur á lofti, í rykskýi, á miðri götunni. Parið mótmælir, hann byrstir röddina. Ponce tekur utan um systur sína á meðan Marta sveiflar blævæng sem hún tók upp úr töskunni. – Gerir gusturinn þér gott, elskan, gerir hann það? – Þetta er fínt, segir Victoria, þetta er betra. Takk, Antonio, þetta er fínt. – Það hlýtur að hafa verið skelfiskurinn. Ég vissi það. Hverjum dettur í hug að borða eitthvað úr sjónum í þessu þorpi? Ponce lítur á systur sína og hjálpar henni að setjast á bekkinn. – Allt í lagi, Antonio, allt í lagi. Mér líður betur. Lögmaðurinn horfir á Rubén, sem kemur aftur af göt
12
unni. Hann langar til þess að tala við þau en utanbæjarfólk ið nær honum fyrst. – Þér sögðuð að í dag færum við hvernig sem allt gengi. Þetta myndi ekki vera bragð svo hótelið hafi gesti, eða hvað? Því við þurftum að fara í gær og næsta rúta fer ekki fyrr en á morgun. Rubén stígur eitt skref til baka til þess að losna undan augnatillitinu sem gnæfir yfir honum og segir æfðri rödd: – Sjáið til, ég skil að þér séuð orðin eirðarlaus en mér þykir miður að þér efist um einlægni mína. Ég hef verið hóteleigandi síðan ég fæddist því faðir minn átti þetta hótel. Ef þér efast um heiðarleika minn getið þér spurt hvern sem er í þorpinu … – Nei, nei, segir ferðalangurinn sem sér fyrir sér langa og slítandi ræðu. Ég efast ekki um neitt, það sem … – Jafnvel doktor Ponce, einn af virtustu mönnum … Þegar Ponce heyrir nafn sitt nefnt, nálgast hann, en skilur að enn er ekki tímabært að skerast í leikinn. – Allt í lagi, allt í lagi, mig langar að vita … – … doktorinn getur sagt þér hverskonar maður ég er. En svo enginn vafi leiki á, þá mun hótelið bjóða ykkur að vera eina nótt í viðbót endurgjaldslaust og ég persónulega, mun sjá um að þið komist til borgarinnar á morgun. Það ríkir þögn. Parið ákveður að fara inn. Svo virðist vera sem hann sé að útskýra fyrir henni ákvörðunina. Lög maðurinn kemur til Rubéns, sem er að hrista buxurnar, reyna að dusta rykið af sér. – Hvað kom fyrir? Systur minni leið illa og ég sá ekki hvað gerðist. Sá hann okkur ekki? – Ég veit það ekki, svarar Rubén, hann hlýtur að hafa séð mig. Það hlýtur eitthvað að vera að. Komdu á eftir. Ponce fer til kvennanna og tekur upp töskuna. Fimm
13
mínútum síðar eru þau hinumegin við teinana, á leið heim. Marta er þögul, sem er óvenjulegt.
Ponce kemur inn á barinn og skrækur hlátur fer í taugarnar á honum. Hann snýr sér við og sér konuna, í kjöltu manns ins, leika sér að glasi. Hún er komin í svört undirföt og hlýri brjóstahaldarins hangir út á vinstri arminn. Á kjóln um eru þrír efstu hnapparnir óhnepptir og það sést móta fyrir brjóstunum. Það veldur Ponce óþægindum. Á borðinu eru tóm glösin, kámug og útötuð í varalit. Þau eru eins og þurr lík. Rubén tuldrar og baukar á bak við borðið. Lögmaðurinn spennist upp þegar hann heyrir manninn nota sama gælunafn við konuna og hann notar við systur sína. – Komum elskan, segir drukkin rödd úr myrkrinu. Hún, sem nú er íklædd sokkum, lyftir pilsinu til þess að laga sokkabandið. Þau fara upp stigann og hverfa. Ponce bíður. Rubén sýslar við eitthvað, skýtur spurning unni á frest. Lögmaðurinn horfir í gaupnir sér og bíður. Tíu mínútum síðar ræskir hann sig. Rubén lítur til hans og athugar hvort barinn sé mannlaus, að ástæðulausu. – Ég veit ekki, doktor … Mjólkin yfir eldinum, tuskan í hægri hendinni. – … hvað er að gerast … ég skil þetta ekki … – Hver keyrði? spyr Ponce, þurrlega. – Castro. – Aftur? Stýrði hann ekki í gær? – Jú, og það er það undarlega. Það ætti að hafa verið einhver annar. – Castro aftur. Að hann skyldi vera svo heimskur. – Ég veit ekki …
14
– Hann er ekki það vitlaus að hann færi að setja sig upp á móti mér. Ef þetta er hefnd fyrir það sem varð um býlið … – Nei, doktor … – Því hann verður að skilja að ég er lögmaður, þetta er starf mitt. Ef allir sem tapa takast svona á við mig … Ég get ekki leyft það, það verður að lúta lögunum. Til þess eru þau, er það ekki? Rubén nær í viskíflöskuna. – Nei, doktor, eitthvað er að. Afhverju er hann látinn keyra tvær nætur í röð? Það er skrítið … – Ætli einhver hafi veikst? Ég sá ekki að Vieytes færi á bílnum. Og í Blindufjöllum er enginn læknir. – Sjáið til, doktor, ég skal spyrjast fyrir. Á morgun á Rimoldi að keyra, nýi bílstjórinn. Hann hlýtur að vita eitthvað. – Systir mín þarf að komast aftur til borgarinnar. – Já, og ég er með þessa tvo strandaglópa. Ef ég kem þeim ekki út á morgun mun ég tapa á þessu. Þau voru óróleg svo ég opnaði tvær flöskur. Þegar veislan er búin munu þau verða eirðarlaus. Hávaðinn í vörubílnum ógnar þögninni. – Og Crespi? Afhverju spyrðu hann ekki? – Það er rétt. Ég þyrfti að fara í veg fyrir hann og biðja hann um að nema staðar. Á morgun. Jæja, ég held þess gerist ekki þörf. Á morgun mun rútan stoppa. – Já.
Rita skvettir úr vatnsfötu yfir stéttina og tefst við að sópa. Hún horfir í átt að teinunum og hraðar á þrifunum þegar hún sér Gómez lyfta hjólinu sínu yfir tálmann sem er yfir
15
teinunum. Hann færist nær og Rita þarf varla að hækka röddina til þessa að segja: – Er tálminn niðri? Gómez lítur aftur fyrir sig, snýr sér aftur að hárgreiðslu konunni og svarar um hæl: – Jább. Svo virðist vera. – Þessi maður er aftur orðinn drukkinn. – Primitivo? Hann hefur ekki drukkið í mörg ár. – Hann drekkur ekki vatn … – Nei, donja Rita, hann drekkur ekki lengur. – Þetta segirðu því þið hafið örugglega skálað saman. Goméz gefst upp og horfir upp í himininn. Hann er að þykkna upp í storm sem lætur á sér standa. – Vissirðu að rútan hefur ekki stoppað tvær nætur í röð? – Vidal sagði mér það rétt í þessu. Ég rakst á hann þegar ég var að koma hérnamegin frá. – Segðu frekar hinumegin. Við erum hérna, er það ekki? – Já, já, ég veit, segir Gómez, en fyrir okkur mun hérna megin alltaf verða hinumegin. – Nei, hlær Rita grimmilega. Hinumegin er þarna. Og hún réttir út hægri arminn og bendir með vísifingri á möl ina hinumegin teinanna. – Jú, mikið rétt, fyrst var sest að okkar megin, er það ekki? Hér var ekki neitt þegar Alberti-fjölskyldan kom. – Ítalir …, tuggði Rita. – Jæja, það er ekki hægt að tala við þig. Jú, Ítalir. Þorpið væri ekki til ef ekki væri fyrir þessa „ruddalegu út lendinga,“, er það ekki? – Ég sagði það ekki. Þögnin er óþægileg. Rita lofar sjálfri sér, enn og aftur, að tala ekki alltof mikið við Gómez. Hann hefur alltaf svör á reiðum höndum, alltaf að spyrja um allt. Heimskingi,
16
alltaf að fara yfir á svarta hjólinu, frá annarri hlið þorpsins yfir á hina. Kemur og fer. Hann heldur víst að fyrst hann kemur svo oft hingað yfir muni hann á endanum verða eins og við. Hann heldur að einn daginn, með því að þykjast viðutan, muni hann geta sest að hérnamegin. Og að enginn muni segja neitt. Eins og við myndum ekki taka eftir því. Heimskingi. – Haltu áfram, Gómez, ég vil ekki tefja þig, ekki láta storminn ná þér. – Nei, stormurinn kemur ekki. Himinninn mun verða eins og steinn. Þangað til beinin í okkur springa. En að hann rigni? Nei … Ef hann er ekki bara illa gefinn þessi heimskingi að ætla að fara rífast um veðrið við mig. Eins og ég myndi ekki vita það, sem fæddist hér. Á nú að fara spá fyrir mér? Gómez tekur hjólið og hleypur með því áður en hann sest á það. – Vertu sæl donja Rita. – Vertu sæll, Gómez, það var ánægjulegt að spjalla við þig, eins og alltaf.
Gómez fer hratt í beygjunni hjá apótekinu. Hann sleppir hægri pedalanum og teygir fótlegginn til að ná betra jafn vægi. Hann skransar harkalega og skýst af sætinu. Hann stígur á pedalann í öfuga átt með táberginu og tyllir hjólinu við eina af fáum gangstéttarbrúnum þorpsins. – Viltu að ég taki eitthvað fyrir þig? Orellano sem er á bak við afgreiðsluborðið segir nei með hendinni. Þegar Gómez snýr sér við heyrir hann lyfsalann kalla á hann: – Bíðið, bíðið.
17
Hann fer aftur inn í apótekið. – Já? – Er það satt að rútan hefur ekki stoppað tvær nætur í röð? – Já, Vidal sagði mér það áðan. – Afhverju? – Ég veit það ekki. Var þér sagt eitthvað? - Nei. – Rétt í þessu, þegar ég var að koma hjólinu yfir tálmann þá sá donja Rita mig og… – Yfir tálmann? Er hann niðri? – Já, ég var að segja að donja Rita … – Og afhverju er hann niðri? Er Primitivo dottinn í það? – Nei, það er langt síðan hann hefur gert það. – Já, einmitt. Og dóttir Fuentes-hjónanna gekk í klaustur. Gómez ypptir öxlum en Orellano þykist ekki taka eftir því. – Og afhverju er tálminn niðri? – Ég veit það ekki, ég leitaði að Primitivo en sá hann ekki. Hann hlýtur að hafa skroppið til þess að ná í eitthvað. – Vín. – Þvílík þrákelkni með þetta! Að utan heyrist í þrumu sem brotnar eins og steinn. Högg í hnakkann. – Rignir hann? spyr Orellano. – Það held ég ekki. – Ekki ég heldur. Er eitthvað vitað um rútuna? – Ekkert. Vidal sagði mér að það væru tveir dagar síðan hún stoppaði. – Og hver keyrir? – Castro. – En Castro átti ekki að keyra í fyrradag?
18
– Það er það undarlega. Hann hefur keyrt síðustu tvo daga. – Hvað er í gangi? – Ég veit það ekki. Og einmitt núna þegar systir doktorsins þarf að komast til borgarinnar. – Stoppaði doktorinn ekki rútuna? – Nei. – Guð minn góður, Castro verður rekinn. Voru fleiri sem vildu ferðast? – Par, sem er á hótelinu. Hann virðist vera ferðalangur. – Og hún er líklega úr öðru þorpi … – Ég veit það ekki, ég held ég kannist ekki við hana. – Auðvitað þekkjum við hana ekki, þess vegna kemur hún hingað. – Jæja, ég leita að Primitivo á eftir, og kannski hann geti útskýrt þetta með tálmann. Ætli hann hafi fest, eins og síðast? – Ég veit ekki. Lestin kemur eftir tvo daga, er það ekki? – Jú, ein fór hjá í gær. Kannski festist tálminn þegar hann fór niður. Við skulum sjá. – Jæja, Gómez, ef þú heyrir eitthvað og átt leið um, komdu og við spjöllum í dálitla stund. – Já, don Orellano, vertu blessaður.
Þegar Gómez kemur fyrir hornið, stekkur hann af hjólinu. Hann nær í krumpaðan sígarettupakka úr skyrtuvasanum. Með annarri hendi, eins og sjónhverfingamaður, nær hann í kveikjarann, setur sígarettu í munninn, hallar höfðinu eilítið, og kveikir í. Þessi gata er til þess að reykja, hugsar Gómez. Í einni svipan setur hann upp húfuna og strýkur yfir ennið. Augun
19
eru hálflokuð svo reykurinn angri hann ekki. Í mörg ár hef ur hann stokkið svona af hjólinu og reykt sígarettuna sína á meðan hann gengur bananagötuna. Hundar ekkjunnar hans Juárez hata hjólið heiftúðlega og stökkva upp með gelti og ýlfran sem hræðir hann. Nú fer hann hægt, leiðir hjólið við hlið sér, götumegin. Hann hefur vanist þessari mínútu reykjandi, hann horfir á blöð trjánna, brún eða hvít. Þegar hann nálgast götuna þar sem klúbburinn er fer hann fram hjá lögreglustöðinni. Glugginn er opinn, eins og alltaf, og djúpur andardráttur lögreglustjórans heyrist vel. Á daginn er hann alltaf við. Allir þekkja alla, allir vita hver stelur, hver hatar, hver lýgur. Á næturnar röltir hann meðfram mikilvægu húsunum; húsi Juárez ekkju, húsi Orellanos, húsi Guzmáns, húsi Fuentes-fjölskyldunnar, húsi Vieyetes læknis. Stundum heyrist skothvellur, svo þurr og stutt stuna, líkami sem fellur. En það er alltaf hinu megin við teinanna. Það er alltaf skot sem geigar, mund aður hnífur sem nær ekki að stinga, fylliraftur sem kemst ekki heim til sín. Lögreglustjórinn veit afhverju hann býr líka hérnamegin. Og hann veit að hér eru aðrar reglur; hérnamegin er hótelið, klúbburinn, apótekið, hárgreiðslu stofan, virtu fjölskyldurnar, lögreglustöðin. Hinumegin er að finna kofaskrifli, malargötur, verslanir sem þvinga greiðslu með því að taka fyrir vínið, stunur, blómum skreytt pils, margfeðruð börn, hnefa, hlújárn, riffla. Án lögreglustöðvar. Án læknis. Án mjúka deigsins í Calloisbakaríinu. Hinumegin, vandamál sem leysast eða gleymast eða sem eru hindruð með nokkrum merkjum, hrópum, með flutningum. Þau eru öll eins. Öll vita hvernig á að refsa eða fyrirgefa. Sá eini sem fellur ekki inn í hópinn, sá eini afskekkti, undarlega ráðvillti í landafræðinni, er doktor
20
Ponce. Hann, og konan hans í þröngu kjólunum úr borg inni, hávær jafnvel í þögn sinni, smellpassa við hliðina á hótelinu. Eins og þeim hefði orðið verulega á þegar þau komu sér fyrir hinumegin teinanna. En það voru ekki mis tök, heldur ásetningur. Til þess að ögra. Vieyetes læknir sýndi meira að segja þá gæsku, fyrir þrjátíu og tveimur árum, að útskýra fyrir Ponce afhverju hann ætti ekki að kaupa þetta hús. – Sjáðu til doktor, þér hafið lært í Córdoba … – Já. – Og hafið átt þar mikilvægan starfsferil. Og seinna í Buenos Aires … – Já. – Þér ættuð að kaupa hús Fernández … – Mér fellur ekki við það. – En doktor, þér getið gert það sem þér viljið við það. – Mér fellur ekki við húsið. – Vitið þér hvað er að? Hinumegin munuð þér ekki finna hús við yðar hæfi. – Og hús Alberti-fjölskyldunnar, er það ekki til sölu? – Sjáðu til, ég veit ekki, það sem er að … – Hefur það ekki verið tómt í dágóðan tíma. Ég vil ekki leigja lengur. Við erum ánægð, en mig langar í mitt eigið hús. Hús Alberti-fjölskyldunnar er með stóra glugga. Og perutré í garðinum. Mér líkar vel við það. – Já, doktor, já. En það sem þér skiljið ekki er að vandamálið er ekki húsið heldur staðsetningin. – Vegna sandsins? Var ekki búið að leysa það með ösp unum? – Það er ekki það. – Flæðir inn í það?
21
– Sjáðu doktor. Ég vil að þér hlustið á mig í nokkrar mínútur án þess að trufla. Þér eruð ekki héðan; þér komuð úr borginni. Og sumt þarfnast tíma til þess að skilja. – En það eru tvö ár síðan ég kom hingað í þorpið. – Jú, en þér eruð ekki héðan. Hérna eru hlutirnir mjög skýrir. Alvöru þorpið, sanna þorpið, er hérnamegin tein anna. Og þér vitið það. Hinumegin eru kotin, túnin, nokkrir sveitungar, smábýlin … – Fólk. – … hórur. Hórur, glæpamenn, þorparar, letingjar, fylliraftar. Þau eru ekki eins og við. – Mér fellur við Alberti-húsið. – Verið ekki svona þver, doktor. Þér komuð hingað fyrir tveimur árum. Síðan þér komuð hafið þér haft vinnu. Bestu fjölskyldurnar eru viðskiptavinir þínir. Og þær búa allar hérnamegin. Skiljið þér mig? – Jæja, það er kannski rétt að í þau tvö ár sem ég hef búið hérna hefur enginn hinumegin verið viðskiptavinur minn, en þau munu einhvern tíma þurfa á lögfræðingi að halda. – Nei. Þessi þurfa ekki lögfræðing. Lögin skipta þau ekki máli. Þarna hinumegin stjórna handalögmálin, þau drekka sig full og verða vinir, borga skuldir sínar með dætrum sínum. – Vieytes, eruð þér að segja mér að þér hafið aldrei sinnt sjúklingi hinumegin frá… – Aldrei. – Aldrei? – Þarna sér sú gamla um allt svoleiðis. – Donja Elisa? – Já. Hún hjálpar þeim að fæðast og seinna hjálpar hún þeim að deyja.
22
– En hún getur ekki allt. Það hlýtur að vera eitthvað sem hún getur ekki séð um … – Ef hún getur það ekki, kastar hún fram þremur bænum og bíður eftir að þau deyi. – Vieytes, það getur ekki verið … – Sjáðu, Ponce, þér snúið útúr. Þér eruð lögfræðingur, ekki rétt? Þér hafið vinnu, ekki rétt? Ekki rugla í viðskipta vinunum. Ef þér komið yður fyrir hinumegin munu þeir ekki vita hvernig eigi að túlka það. – Ertu að segja mér að ef ég kem mér fyrir þar þá muni ég ekki eignast viðskiptavini hérnamegin? – Já. – Vieytes, það er ekki hægt að þvinga mig til þess að búa á stað sem mér fellur ekki við. – Einmitt, leitið að fallegu húsi hérnamegin og kaupið það. Það skiptir ekki máli hvort það sé hús Hernándezar eða eitthvert annað. Og ef þér finnið ekki neitt, þá getið þér byggt nýtt. – Mig langar ekki til þess að byggja. Ég veit hvaða hús ég vil. Mig langar í hús Alberti-fjölskyldunnar.
Klukkutíma seinna gengur Ponce eftir teinunum. Síðan hann kom hafði hann búið hérnamegin, sömu megin og Vieytes, Orellano, Fuentes. Það er rétt að hann hafði ekki vantað vinnu. Hann hafði komið með bréf frá Giménez Pardó þingmanni, sem var skólafélagi bróður Guzmáns. Daginn sem Ponce og kona hans komu, skildu þau tösk urnar eftir á hótelinu, fengu sér morgunmat, hann baðaði sig og fór svo að hitta Guzmán. Marta skoðaði þorpið út um gluggann. Maðurinn tók á móti honum eins og þeir
23
væru gamlir vinir. Þetta kvöld buðu þeir honum á sitt vikulega pókerkvöld. Þótt honum fyndist ekki gaman að spilinu, fór hann til þess að kynnast tilvonandi nágrönnum sínum. Pókerinn var afsökun. Sömu spilin voru á sömu hendi tímunum saman. Hann drakk viskí og reykti vindla. Spilin virtust vera skopstæling á blævæng einhverrar döm unnar. Þessir menn líktust glæpamönnum sem voru gripn ir glóðvolgir, og reyndu að leyna glæp. Eins og ef þegar spilin væru gefin, þá legði einhver seðla á borðið og einhver annar, af hendingu, dreifði spilapeningum. Þeir kunnu jafnvel ekki reglurnar í leiknum. En þeir vissu að í þorp inu voru það aðeins konurnar sem komu saman til þess að kjafta. Karlarnir þurfa að gera eitthvað annað, og geta aðeins átt samræður á kantinum. Kannski þess vegna þótt ust þeir spila. Þennan þriðjudag, kynntist Ponce bestu viðskiptavin um sínum. Og þeir mæltu með honum við aðrar fjölskyldur. Erfðaskrár, dánarbú, skipting búa, dómar yfir vinnumönnum sem storkuðu yfirmönnunum, hvattir af Perón. Ekkert óvenjulegt; lítil verkefni, stöðug, eitt leiddi af öðru, sem gerði honum kleift að koma sér fyrir í þorpinu og breiða yfir bræðina sem neyddi hann til að finna stað fjarri öllu. Í tvö ár hafði hann unnið svona, en nú langaði hann til þess að kaupa sér hús Albertis. Kannski hafði Vieytes rétt fyrir sér. Ekki einn einasti viðskiptavinur hinumegin frá. Þeir voru þarna, en fyrir honum voru þeir óþekkt fyrirbæri. Honum hafði ekki tekist að bera kennsl á neinn í þessi tvö ár. Hann hafði heyrt talað um donju Elisu, hann vissi að strákurinn á svarta hjólinu byggi nálægt turninum; hann sá þau, úr fjarlægð, koma út af skemmtistaðnum við teinana. En hann þekkti ekki eitt
24
einasta. Hann vissi ekki nöfn þeirra né myndi hann þekkja þau ef hann mætti þeim í öðru þorpi. En jafnvel þótt Vieytes hefði rétt fyrir sér, hafði hann farið yfir mörkin. Það var ekki hægt að segja honum hvar hann ætti að búa, það var ekki hægt að neyða hann. Ponce horfði á endann á sígarettunni. Allt svart nema glóðin. Það var ekki hægt að segja honum hvaða hús hann ætti að kaupa. Hann hafði áður verið neyddur, valið aðra gildru, hann var að gjalda fyrir það í þessu þorpi sem var upphaflega hreyfingarlaus blettur á landakorti fyrir honum. Og valið, af hreinni tilviljun, þennan stað. Þessa stöð, þessa byggð, þetta hótel. Hann ætti að vera í borginni. Hann ætti að vera með stofu í Rosario. Eða í Córdoba. Hreinn og beinn piparsveinn. Eftir tvö ár með Mörtu sýndist honum sem hún leyndi skömminni, að núna væri henni sama, að reiði hans skipti hana engu máli. Stundum spurði hann sjálfan sig hvort hún gerði sér grein fyrir því að hann hefði holað henni niður í þessu þorpi til þess að refsa henni. Fyrst um sinn var kona hans þögul, þögul og innilokuð. Og skyndilega, af því bara, breyttist hún í kjánalega dúkku, dýr án heila sem gleðst af engu. Heimsk tík sem fagnar jafnt höggi, gælum eða tómlæti. Núna virtist allt vera í lagi. Alltaf allt gott. Og hlátur hennar, áhugalaus, slær tímann eins og kjánaleg bjalla. Hver veit hvað er á seyði þarna inni, hvað olli þessu innantóma viðbragði, þessum hvassa, hvellandi hlátri sem kom Ponce út af laginu.
25