Röskun 1.-3. kafli

Page 1


1. kafli

Hera var búin að pakka öllu niður og þrífa herbergið. Ágeng lykt af þrifefnum og raka lá í loftinu, dökkar línur eftir húsgögn á hvítum veggjum stungu í augun. Það yrði gott að komast í eigin íbúð og þurfa ekki að taka tillit til meðleigjanda sem hún átti enga samleið með. Það var tímabært. Örvar gekk inn í herbergið og benti með þumlinum aftur fyrir sig. „Sendibíllinn er kominn.“ Sendibílstjórinn kom álappalegur inn á eftir honum og leit í kringum sig á kassana. „Er þetta allt?“ spurði hann. „Nei, það eru líka húsgögn frammi sem fara með,“ sagði Hera og vísaði honum fram í stofu. Hún benti á það sem átti að fara með og þau urðu sammála um að taka sófann fyrst. Hún tók undir annan endann á sófanum og Örvar undir hinn. „Ég skal,“ sagði sendibílstjórinn og hálfruddi henni frá. Hera hrökklaðist í burtu. Hún setti hendur á mjaðmir og 5

Röskun 135x210mm.indd 5

16/04/2019 10:57


hvessti augun á sendibílstjórann sem tók ekki eftir neinu. Þessi litli og renglulegi maður var örugglega ekki næstum jafn sterkur og hún, það var hún viss um. Hún var kannski ekki hávaxin en hún var sterklega byggð og andskotanum öflugri. Hún snéri sér að kössunum og ferjaði þá niður stigana og út á stétt, henni fannst hún hafa farið milljón ferðir fram og til baka. Hún kannaðist ekkert við að eiga svona mikið af dóti en svo vall það endalaust út úr skápunum eins og það hefði fjölgað sér þar inni í skjóli myrkurs. Hún hafði byrjað á því að grisja vel og henda fullt af dóti, raða mjög skipulega í kassana en undir lokin var hún farin að henda dótinu ofan í þá án mikillar umhugsunar. Þeir yrðu að fara beint inn í geymslu í nýju íbúðinni og skoðast síðar. Hún hafði ekki tíma í þetta núna. Þegar öllu hafði verið hlaðið í sendibílinn lagði hún lykilinn á eldhúsborðið og skellti í lás á eftir sér. Það var ákveðinn léttir. Þessum kafla í lífi hennar var þá að minnsta kosti lokið. Þau Örvar keyrðu á eftir sendibílnum að nýju íbúðinni. Karlmennirnir báru þungu hlutina saman inn í í­búðina, Hera nennti ekki að tuða yfir því. Það var ekki minna vesen að koma hlutunum inn í þessa íbúð en út úr hinni þar sem aðgengið var ekki sérlega gott. Til að komast að úti­dyrunum þurfti að ganga eftir garðstíg sem lá fyrir aftan tveggja íbúða húsið, fyrir hornið hinum megin, niður kjallara­tröppurnar og skáskjóta sér svo inn um innganginn. Þegar allt hafði verið borið inn og sendibíllinn var orðinn tómur leit Hera yfir íbúðina. Hún var full af húsgögnum og kössum hér og 6

Röskun 135x210mm.indd 6

16/04/2019 10:57


þar. Sumir höfðu farið beint inn í geymslu á gólf og í hillur, aðrir voru merktir eldhús, stofa eða svefnherbergi og voru á tilheyrandi stöðum. Sendibílstjórinn kom inn og snéri sér að Heru. „Jæja, þá er þetta komið.“ „Flott, takk fyrir. Þú sendir reikning?“ „Geri það,“ sagði hann og veifaði um leið og hann gekk út úr íbúðinni. „Jæja,“ sagði Hera. „Þetta gekk vel.“ „Jebb,“ sagði Örvar og henti sér í sófann. „Djöfull er ég þreyttur.“ „Viltu ekki fara að drífa þig?“ „Mér liggur ekkert á þannig. Ekkert sérstakt í gangi,“ sagði hann og renndi í gegnum eitthvað í símanum. „Jæja?“ sagði Hera. Hún var með smá samviskubit yfir að halda vini sínum svona lengi. Örvar leit upp úr símanum og strauk yfir rauðbrúnt og liðað hárið. „Ég skal bjóða þér díl. Ef þú pantar pizzu fyrir okkur skal ég hjálpa þér að taka upp úr kössum og tengja þvottavélina.“ Hera brosti. „Díll.“ Hún dró upp símann sinn og pantaði pizzuna. Á meðan þau biðu eftir tilkynningu um að pizzan væri tilbúin sýndi hún Örvari íbúðina betur. Hann rölti með henni og kom með tillögur um hvar færi best á að hafa húsgögnin, það þurfti nokkra útsjónarsemi til að koma þeim vel fyrir. Hún 7

Röskun 135x210mm.indd 7

16/04/2019 10:57


þáði öll ráð frá honum, þegar þau voru par hafði hann margoft sýnt hversu smekklegur hann gat verið. Íbúðin var lítil en notaleg kjallaraíbúð, inngangurinn var stúkaður af með smá veggstubbi sem skildi hann frá eldhúsinu, opinn eldhúskrókur var á hægri hönd og pínulítið bað auk geymslu gegnt innganginum. Stofan var afar lítil og hún var vinstra megin við innganginn. Þar yrði bara hægt að koma sófanum fyrir, litlu sófaborði og sjónvarpi undir glugga sem vísaði út í bakgarðinn. Kannski kæmust litlu hillurnar upp við einn vegginn. Rúmgott svefnherbergi var inn af stofunni. Glugginn þar vísaði líka út í bakgarðinn og Hera sá strax að hún yrði að flýta sér að kaupa gardínur. Hún bætti þeim á innkaupalistann ásamt peru í perustæðin í geymslunni og á baðinu. Það var létt yfir henni, óvenju létt, og henni leið betur en henni hafði liðið í langan tíma. Það var ekki fyrr en hann sagði það sem það dimmdi aðeins yfir. Sagði það sem hún óttaðist mest að gengi ekki eftir. „Það á örugglega eftir að fara vel um þig hérna,“ sagði hann. Var það hvernig hann sagði þetta, fannst henni eins og hann væri að leggja á hana öfug álög, spilla einhvern veginn fyrir með því að segja þetta? Allt í einu varð henni þungt fyrir brjóstinu. Það var svo sem ekki óvenjulegt, hún var vön því. Vön dúndrandi hjartslætti og sveittum lófum, magaóróleika og öllu því sem kvíða fylgir. En hún kannaðist ekki við kalda hrollinn sem skreið niður bak hennar. Henni yrði að líða vel hérna. Það var svo mikið í húfi. Allur hennar bati og sálarheill. 8

Röskun 135x210mm.indd 8

16/04/2019 10:57


Örvar leit á hana. „Er ekki allt í lagi?“ spurði hann og tók létt um axlir hennar. „Jú, allt í fína,“ sagði hún og reyndi að hljóma glaðleg og hress. Á leiðinni í gegnum stofuna tók Hera röndótta og litríka mottu upp af gólfinu og rúllaði henni upp. Hún hafði verið skilin þar eftir. „Nei, hvað er þetta?“ spurði Örvar og benti á blett á parketinu sem hafði verið falinn undir mottunni. Hún laut niður að blettinum og snerti hann. Örvar kraup niður við hlið hennar. „Djöfullinn sjálfur. Ertu ekki að grínast!“ Hera henti mottunni frá sér. „Þetta er ansi ljót skemmd,“ sagði Örvar og strauk yfir blettinn. „Það gengur ekki að fela svona hluti. Þú ættir að heimta afslátt út á þetta.“ „Ég mun alla vega láta þau heyra það,“ sagði hún örg. Sem lögmaður vissi hún að seljendurnir máttu ekki leyna göllum en hún vissi líka að hún hefði átt að skoða íbúðina betur. Það var bara svo andskoti óþægilegt að rífa upp alla skápa og kíkja undir mottur þegar leigjendurnir voru heima. Þeir voru nógu pirraðir yfir heimsókninni og fóru ekki í neinar grafgötur með það. „En hvað ætli þetta sé? Er ég rugluð að segja að þetta líti út eins og blóðblettur?“ Hann skoðaði blettinn betur. „Sko, við vitum að þú ert rugluð svo það er ekkert 9

Röskun 135x210mm.indd 9

16/04/2019 10:57


nýtt. Ég held að þetta sé eftir rauðvín. Það hefur einhver djammað aðeins of mikið hérna.“ „Djöfullinn!“ sagði Hera fúl og stóð upp. „Andskotans djöfull! Ég hef ekkert efni á því að fá mér nýtt parket.“ Örvar reis hægt á fætur. „Það þarf nú örugglega ekki að skipta öllu parketinu út. Það gæti vel verið hægt að pússa þetta upp. Mér sýnist ekkert veita af smá pússun, parketið er orðið nokkuð eytt sem er væntanlega skýringin á því að það komst litur í gegn. En heyrðu alla vega í seljandanum. Þangað til verðurðu bara að fá þér fallegri mottu.“ Hera kinkaði hægt kolli til samþykkis. Það voru ónot í henni. Þessi blettur lagðist verulega illa í hana. Ekki bara af því að hann þýddi auka kostnað og vesen. Það var eitthvað skrýtið við þetta. Af hverju að reyna að fela blettinn? Átti hún von á einhverju fleira svona í íbúðinni, einhverjum göllum hér og þar sem eigendunum hafði láðst að segja henni frá eða þeir falið? Þau höfðu bara átt íbúðina í nokkur ár og leigt hana út næstum allan þann tíma. Þau höfðu verið í námi erlendis og þegar þau snéru til baka höfðu þau fundið draumaíbúðina sína og vildu þess vegna selja þessa. Sögðu þau. Hera hafði fengið íbúðina á mjög sanngjörnu verði miðað við þessa frábæru staðsetningu í Þingholtunum. En nú, þegar hún fann kvíðann rjúka upp, fannst henni allt í einu eins og þeim hefði kannski legið á að losna við íbúðina.

10

Röskun 135x210mm.indd 10

16/04/2019 10:57


2. kafli

Hera lét vera að skipta um föt og fór í þvældum joggingbuxunum að ná í pizzuna. Það yrði að hafa það ef hún hitti einhvern sem hún þekkti. Hún setti Örvar í þvottavélartengingar á meðan. Þegar hún kom til baka gat hún hvergi fundið mataráhöldin. Hún stakk hausnum ofan í alla vega tíu kassa, blótaði heil ósköp en fann þó að lokum tvö glös sem hún hellti kóki í. Þau settust við eldhúsborðið og hámuðu pizzuna í sig án þess að nota diska eða hnífapör. „Hvað er meira pirrandi en drasl í kössum,“ dæsti hún þegar hún hafði hesthúsað fyrstu sneiðina. „Dót sem á eftir að setja ofan í kassa?“ spurði Örvar. „Góður punktur,“ sagði hún og kinkaði kolli. Hún þreif eldhússkápana á meðan hann tók upp úr kössunum og raðaði borðbúnaði og eldhúsáhöldum í skápa og skúffur sem hún hafði þrifið. Eldhúsinnréttingin var gömul og hafði verið lökkuð hvít. Hún rúmaði ekki mikið en Hera var ekki mikið fyrir að elda og átti lítið af eldhúsdóti. Örvar býsnaðist yfir því hvernig hún kæmist af án þess að eiga 11

Röskun 135x210mm.indd 11

16/04/2019 10:57


töfrasprota, eggjasuðutæki og eldhúsvog. Hún bað hann vinsamlegast um að gefa sér ekkert slíkt við nokkurt tækifæri, hún myndi aldrei nota það. Þegar Örvar var farinn snéri hún sér að svefnherberginu. Hún fyllti fötuna aftur af volgu vatni með sápu, náði sér í hreina tusku og snéri sér að stóra skápnum í svefn­ herberginu. Hann var ekki hreinn. Og þó svo hefði verið hefði hún samt farið yfir hann aftur. Þegar hún hafði skrúbbað efri og neðri skápana tók hún skúffurnar út úr skápnum til að þrífa á bak við þær. Hún raðaði þeim á gólfið fyrir aftan sig. Neðsta skúffan sat föst, hún ýtti henni fram og til baka og rykkti loks fast í hana svo hún hrökk út úr skápnum og Hera féll næstum aftur fyrir sig. Undir neðstu skúffunni var fullt af ryki, penni, tvær tölur og lítið blað sem virtist hafa verið rifið úr bók, líklega dagbók. Hún tíndi dótið út og slétti úr blaðinu á skáphurð. Á það var ritað með illlæsilegri rithönd sem bar þess vott að sá sem skrifaði ­línurnar hefði verið að flýta sér. Krassað hafði verið yfir hluta af orðunum. Hera rýndi í textann og náði að lesa í gegnum þann hluta sem ekki hafði verið strikaður út: er að springa finnst ég vera að springa hvenær gerist það og hvað gerist það gerist eitthvað ég veit að það mun eitthvað gerast ég mun springa og þau eru fyrir og verða fyrir þegar ég spring og ég á eftir að meiða þau þau mega ekki vera fyrir

12

Röskun 135x210mm.indd 12

16/04/2019 10:57


Var einhver að reyna að vera fyndinn? Hana hefði grunað Örvar en hann hefði aldrei ruglað svona í henni. Hann vissi allt um hennar ástand og færi ekki að leika sér að því. En hvaða bréfsnifsi var þetta og hafði einhver skrifað þetta í fullri alvöru? Hún las miðann aftur. Það setti að henni hroll. Hafði annað hjónanna sem leigði íbúðina skrifað þetta? Eða eigendurnir? Hún hafði hitt leigjendurna og þau virtust frekar eðlilegt fólk fyrir utan að vera pirraðri en góðu hófi gegndi yfir heimsóknum væntanlegra kaupenda en hver væri það svo sem ekki? Hún hafði bara hitt konuna sem seldi henni íbúðina, maðurinn hennar var erlendis. Hún virkaði að minnsta kosti sæmilega heilbrigð. En það hlaut að hafa verið mjög veikur einstaklingur sem skrifaði þennan miða. Og hvað hafði verið strikað út af miðanum? Hvað var svo slæmt að það þoldi ekki það takmarkaða dagsljós sem þessi miði hafði átt að njóta? Hún velti fyrir sér hvað hún ætti að gera við miðann. Hún vildi helst henda honum en fannst það einhvern veginn ekki rétt. Eins og hún ætti að láta einhvern fá miðann, eins og hann skipti máli í einhverju samhengi en hver gæti haft áhuga á honum? Hún braut hann saman og stakk honum ofan í veskið sitt til að byrja með. Hún myndi finna út úr þessu síðar. Henda honum síðar. Hún velti því fyrir sér að hringja í Örvar og segja honum frá þessu en ákvað að sleppa því. Hann myndi þá kannski vilja koma til hennar og hún vildi ekki trufla hann meira. Hún rótaði í eldhúskassa og fann rauðvínsflösku. Bara smá til að róa taugarnar. Það var auðvitað ekkert gott að 13

Röskun 135x210mm.indd 13

16/04/2019 10:57


drekka ofan í lyfin en fjandinn gæti átt það. Hún hellti rauðvíninu í annað kókglasið og tók vænan sopa. Hún var orðin þreytt en fann sig knúna til að taka fötin upp og raða þeim í skápinn. Hún vissi að hún myndi fljótlega klikkast ef hún gerði það ekki, það var fátt sem hún þoldi verr en að leita að hlutum. Hún náði í tölvuna sína og kveikti á Radiohead til að létta sér vinnuna um leið og hún saup á rauðvíninu. Þegar fötin voru komin inn í skápinn stakk hún hausnum ofan í svartan ruslapoka fullan af rúmfötum og handklæðum og gróf upp ljósgrátt handklæði. Hún skrúfaði frá sturtunni og háttaði sig meðan vatnið hitnaði. Hún tók taglið úr brúnu og sléttu hárinu og leit í spegilinn. Það var ­fallegur litur og gljái á hárinu en hliðartoppurinn var að verða of síður, hún yrði að panta klippingu þegar tími gæfist til. Henni fannst það fara hringlaga andliti sínu best að hafa síðan hliðartopp en hún vildi þó ekki hafa hann of síðan. Sturtan var sjóðandi heit, þannig vildi hún hafa hana. Svo heita að húðin yrði eldrauð á eftir. Hún steig varlega inn í sturtuna og lokaði sturtuklefanum á eftir sér um leið og hún leit í kringum sig. Það var allt mjög hreinlegt þarna en það rann upp fyrir henni að hún hefði átt að þrífa sturtuna fyrst. Hún yrði að passa sig á að koma ekki við neitt. Heitt vatnið bunaði á axlirnar, gufubólstrarnir stigu upp úr sturtuklefanum og lögðust á allt í baðherberginu. Það var eitthvað svo róandi að vera undir sturtunni að hún stóð sem fastast eftir að hafa skolað vel úr hárinu. Hafði augun lokuð og hallaði höfðinu aftur. Hún opnaði augun hægt og leit fram í gegnum glerið á klefanum og hjartað stoppaði­ 14

Röskun 135x210mm.indd 14

16/04/2019 10:57


í smástund í brjósti hennar. Það var einhver inni í bað­ herberginu! Hún sá bara útlínurnar en þetta gat ekki verið neitt annað en manneskja. „Örvar?“ kallaði hún fram. Ekkert svar. Hún skrúfaði fyrir í flýti, opnaði sturtuhurðina og rak hausinn fram. Það var enginn þarna frammi. Henni létti. Henni hafði bara missýnst í gegnum gárað glerið á sturtuklefanum. En hvað hafði valdið þessari missýn? Hún fór aftur inn í sturtuklefann og horfði á sama stað í gegnum glerið. Hún sá ekki lengur móta fyrir því sem hún hafði talið vera manneskju. Það sem hún hafði séð áður var farið.

15

Röskun 135x210mm.indd 15

16/04/2019 10:57


3. kafli

Stella rétti skeið af stöppuðum banönum í áttina til Baldurs. Hann galopnaði munninn og kyngdi stöppunni um leið. „Meia,“ sagði hann og hossaði sér í barnasætinu. „Ertu svona svangur, litli kútur,“ sagði hún og brosti. „Þú ert alveg botnlaus, drengur.“ Hún skóf síðustu bananaleifarnar af diskinum og gaf honum. Hann greip með litlu klístruðu puttunum sínum í skeiðina og sletti mestallri stöppunni á borðið. Stella beindi skeiðinni með restinni af matnum upp í munninn á honum. „Meia,“ sagði hann strax og hossaði sér aftur í sætinu. „Mamma skal ná í meira,“ sagði Stella og stóð upp. Hún náði í nýjan banana í ísskápinn. Henni hafði margoft verið sagt að bananar ættu ekki að geymast í ísskáp en henni fannst þeir alltaf bragðast betur kaldir. Henni varð ósjálfrátt litið á neðstu hilluna í ísskápnum og sá að hún var full af bjórdósum. Nóg til. Hún var að taka utan af banananum þegar útidyrnar

16

Röskun 135x210mm.indd 16

16/04/2019 10:57


opnuðust. Alex skellti hurðinni og henti töskunni sinni á gólfið. „Hæ, elskan,“ sagði hún og brosti til hans. „Hæ,“ sagði hann og endurgalt bros hennar með stuttri grettu og gekk að ísskápnum. Hann tók bjórdós úr neðstu hillunni, opnaði hana og svolgraði úr henni á meðan hann hélt ísskápnum opnum. Hún sá að hann leit yfir birgðirnar og kinkaði kolli eins og hann væri sáttur, eins og birgðastaðan hlyti náð fyrir hans augum. „Hvernig var dagurinn?“ spurði hún og snéri bakinu í hann. Stappaði bananann heldur fastar en þörf var á. „Svona bara,“ sagði hann og hún heyrði hann fá sér annan sopa og loka ísskápnum. Ægilegur hávaði barst frá matarborðinu. Baldur hafði náð í skeiðina. Hann skríkti af kátínu yfir hávaðanum sem hann skapaði. Hún fann höfuðverk læðast aftan að sér. „Baldur, ekki,“ sagði hún og tók skeiðina af honum. Hann öskraði af reiði og fór að hágráta. „Æ, Baldur minn,“ sagði hún og tók hann upp úr sætinu. Hossaði honum á mjöðminni og reyndi að hugga hann. „Sjáðu, Baldur. Þú ert að fá meiri banana.“ Ekki einu sinni það dugði til. Alex gekk inn í stofu og fleygði sér upp í sófa. Hún sá inn um stofudyrnar hvernig fætur hans sveifluðust yfir endann á sófanum. Stuttu seinna var kominn spennuþáttur á skjáinn. „Æ, Stella, geturðu ekki huggað hann?“

17

Röskun 135x210mm.indd 17

16/04/2019 10:57


Hún hossaði Baldri áfram á mjöðminni og reyndi að setja hann aftur í barnasætið. Hann varð enn reiðari. „Alex, hann er þreyttur eftir heilan dag hjá dagmömmunni. Hún sagði að hann hefði sofið lítið í dag. Svona eru bara lítil börn, þau gráta.“ „Já já, ég veit það en það eru bara fleiri þreyttir en hann. Ég get ekki verið í svona miklum hávaða.“ Hún tók þétt utan um Baldur. Setti diskinn með bananastöppunni á borðið og settist svo með drenginn í fanginu. Hún reyndi að gefa honum bananastöppu en hann var of reiður til að taka við henni. Hann ýtti skeiðinni bara frá sér svo bananaklessur flugu út um allt og það var engin leið til að koma matnum upp í hann. „Stella!“ hrópaði Alex. Hún stóð upp og stillti sér upp í dyragættinni inn í stofu með Baldur á mjöðminni. „Alex, ég var líka að vinna í dag. Að reyna að kenna 25 sjö ára börnum að leggja saman og draga frá og bara að þegja! Ég er líka þreytt, kannski þreyttari en þú!“ „Já já já, hef heyrt þetta milljón sinnum áður. Ég skal taka hann á eftir, ókei?“ „Fínt,“ sagði Stella og beit saman tönnunum. Hún vissi betur. Á eftir yrði hann ekki í ástandi til að taka við honum þótt hann vildi það. Á eftir myndi hún ekki treysta honum. Hana grunaði að hann vissi það líka. Hún eldaði hakk og spaghetti á meðan Baldur lék sér á gólfinu hjá henni. Matarilmurinn fyllti eldhúsið. Hún var að skera tómata til að hafa með þegar Alex kom inn í eldhús og 18

Röskun 135x210mm.indd 18

16/04/2019 10:57


gekk að ísskápnum. Hún fann eitthvað innra með sér herðast og hún leit hvasst á hann þegar hann dró fram þriðju bjórdósina. Hún gat ekki látið það vera. Hann yppti öxlum og lét eins og hann vissi ekki af hverju hún léti svona. Síðar, þegar Baldur var sofnaður, hreinn og sæll í rúminu sínu, settist hún hjá Alex. Hún hafði skipt úr þröngum gallabuxunum og óþægilegri blússunni og var komin í mjúk heimaföt. Á borðinu voru sex tómar bjórdósir og ein hálffull. Hún byrjaði að horfa á þáttinn sem hann var að horfa á en fann pirringinn magnast innra með sér þegar bjór­ dósirnar á borðinu þvældust inn í sjónsvið hennar. Bjórdósir sem hann hafði ekki einu sinni fyrir því að reyna að fela. Hún tók fjarstýringuna og slökkti á sjónvarpinu. „Alex, við þurfum að tala saman.“ Hann leit á hana, það sá ekki mikið áfengi á honum en hún vissi að hann var drukkinn. Hún vissi að það þýddi ekkert að tala við hann í þessu ástandi. En það þýddi heldur ekki þegar hann var edrú. Henni fannst bara að hún yrði að gera eitthvað. „Fjandinn, Stella, ég var að horfa á þetta, hvað nú?“ „Alex, finnst þér þetta vera í lagi?“ Hún benti á dósirnar á borðinu og leit svo á hann. „Ég geng frá þessu á eftir.“ „Alex, þú veist alveg hvað ég meina. Finnst þér eðlilegt að drekka meira en kippu af bjór á virku kvöldi?“ Hún beið eftir svari en sá á honum að það var ekki von á því. „Ég skil ekki alveg hvað er að gerast. Einu sinni fékkstu 19

Röskun 135x210mm.indd 19

16/04/2019 10:57


þér eiginlega aldrei bjór í miðri viku. Svo var það einn og einn. Núna er nánast fyllerí á hverju kvöldi. Hvað er í gangi?“ Hann horfði á hana með þessum dökkbláu augum sínum, þessum fallegu augum í dökkri augnumgjörðinni. „Stella … ekki.“ „Alex, þér líður ekki vel. Ég sé það og þetta er ekki eðlilegt. Þú verður að gera eitthvað í þessu. Í alvöru. Þetta gengur ekki svona.“ „Það er allt í lagi með mig, Stella. Komdu nú hérna,“ sagði hann og dró hana til sín. Hann faðmaði grannan og fíngerðan líkama hennar að sér, hún fann hitann frá honum, fann hrjúfa skeggbroddana upp við kinnina. Hún var eins nálægt honum og hægt var og samt saknaði hún hans, hún saknaði hans svo mikið að hana verkjaði.

20

Röskun 135x210mm.indd 20

16/04/2019 10:57


Turn static files into dynamic content formats.

Create a flipbook
Issuu converts static files into: digital portfolios, online yearbooks, online catalogs, digital photo albums and more. Sign up and create your flipbook.