10 minute read
Farsælt fiskeldi
Fiskeldi er ung atvinnugrein sem hefur heldur betur sótt í sig veðrið á undanförnum misserum. Mikil uppbygging og vöxtur hefur verið í greininni á austanverðu landinu þar sem aðstæður eru góðar fyrir slíka starfsemi. Ice Fish Farm er annað tveggja fyrirtækja sem eru fyrirferðamikil á Austfjörðum en það stundar laxeldi í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Blaðamaður Sjávarafls tók Guðmund Gíslason, forstjóra Ice Fish Farm tali og spurðist fyrir um upphafið, uppbygginguna og framtíðina.
Nýja seiðaeldisstöðin Rifós sem byggð var í vetur. Ljósmynd: Aðsend
Eins konar tilraun
Þó sögu fiskeldis megi rekja til álaræktunar frumbyggja í Ástralíu fyrir 7.000 árum varð greinin ekki að raunverulegum iðnaði fyrr en á nítjándu öld og hefur verið í stöðugri þróun síðan. Eftir seinna stríð átti sér stað stórt stökk fram á við, með tilkomu nýs fóðurs og bætts búnaðs sem myndaði grundvöllinn fyrir fiskeldi dagsins í dag. Við strendur Íslands hefur fiskeldi verið stundað með misgóðum árangri í um 50 ár, en það fældi Ice Fish Farm ekki frá því að láta á það reyna í Berufirði.
„Við byrjuðum árið 2012. Þá hafði verið þorsk- og laxeldi í Berufirði og sem við tókum og settum saman góðan hóp af fólki til að láta á þetta reyna. Þetta var eins konar tilraun og við settum út fiska strax í júlí það ár, um það bil þrjátíu þúsund laxa og annað eins af regnbogasilungi til að sjá hvort þetta myndi ekki dafna vel,“ segir Guðmundur og bætir við að það hafi verið þrjár breytur sem þau trúðu að myndu skapa meiri farsæld og árangur í fiskeldi en þekkst hafði. „Í fyrsta lagi byrjuðum við með stærri og sterkari seiði. Í öðru lagi hafði komið fram ný tegund af fóðri sem fiskurinn getur melt í köldum sjó. Þetta hafði verið ákveðin hindrun, en með því að setja aðrar olíur í fóðrið yfir vetrartímann, sem hafa meira kuldaþol og harðna ekki trúðum við á að þetta vandamál mætti leysa.“
Loks var það nýsköpun og framþróun á fiskeldisbúnaði sem skipti veigamiklu máli: „Öll tæki og tól eru orðin miklu öflugri heldur en var. Kvíarnar núna eru stærri og fiskarnir hafa það þá betra. Þannig getur eldið staðist þær áskoranir sem íslenskar aðstæður skapa hvað varðar verður og vind. Saman sneru þessi þrjú atriði blaðinu við hvað varðar að framleiða lax á Íslandi í íslenskum fjörðum,“ segir Guðmundur. Þessar aðferðir voru þróaðar í norður-Noregi en sterkur Golfstraumur þar gerir það að verkum að aðstæður þar svipa mjög til aðstæðna hér á landi: „Í dag er sú framleiðsla sem á sér stað nyrst í Noregi sú ódýrasta í heiminum, og þangað stefnum við hér á Íslandi. Við viljum koma okkur upp í skalanlega framleiðslu þar sem við getum fullnýtt stór og öflug tæki til að gera íslenska framleiðslu enn samkeppnishæfari.“
Margföld framleiðsla
Þó fyrstu skrefin sem tekin voru hafi verið smá hefur Ice Fish Farm vaxið statt og stöðugt. Í ár voru um þrjár milljónir seiða settar út en það er fimmtíuföld aukning frá árinu 2012. Guðmundur spáir tvöföldun á næstu árum: „Við erum með stór og sterk seiði sem við ölum á landi í allt að eitt og hálft ár. Við keyptum hluta í seiðastöðinni í Þorlákshöfn og höfum verið að stækka hana.“ Ice Fish Farm kemur einnig að byggingu nýrrar seiðastöðvar á Kópaskeri, Rifósi. „Þar eru einstakar aðstæður og hlýr sjór undir stöðinni sem við dælum upp og nýtum til að stækka seiðin áður en þau fara í kvíarnar,“ segir Guðmundur, en undanfarið hefur fyrirtækið lagt mikla áherslu á landeldið: „Það að ala fiskinn lengur á landi og hafa hann stærri hefur nokkra kosti í för með sér. Stærri fiskar komast síður í gegnum netin og ef þeir sleppa út rata þeir ekki í árnar. Þetta eru svo að segja meiri búskepnur og það dregur verulega úr áhættu og afföllum. Fiskurinn þarf einnig skemmri tíma í sjónum, tólf til sextán mánuði í staðinn fyrir tvö ár. Þá er minni áhætta í skemmri tíma og hægt að nýta firðina betur.“ Guðmundur nefnir einnig að þetta sé hagkvæm leið vegna þess að því stærri sem
Vinnsla á laxi í Búlandstindi á Djúpavogi. Ljósmynd: Aðsend
fiskurinn er þegar hann fer í kvíarnar, því meiri möguleika hefur hann á að stækka. Með því að hagnýta íslenskar aðstæður, svo sem aðgengi að hlýju vatni nálægt sjó til að flytja seiði í kvíarnar, býr íslenskt fiskeldi yfir forskoti á samkeppnisaðila víða um heim.
Í sjóeldinu hefur Ice Fish Farm einbeitt sér að byggja upp stærri og sterkari kvíar til að auka framleiðsluna að sögn Guðmundar: „Við búum einnig yfir öflugum fóðureyjum sem sprauta fóðrinu í kvíarnar til að mata fiskinn. Svona vinnur tæknin með okkur og einn af lykilþáttunum í því er myndavélafóðrun.“ Kvíarnar eru útbúnar myndavélum sem hægt er að færa til og frá og fylgjast með hvernig fiskarnir matast: „Þá sjáum við hvort hann er svangur eða orðinn saddur og getum slökkt á fóðruninni á hárréttum tíma. Þetta er ung atvinnugrein en samt sem áður hefur átt sér stað veruleg tækniþróun og við sjáum það ekkert vera að stöðvast. Þetta heldur bara áfram.“ Guðmundur segir að þrátt fyrir mikinn vöxt og hraða þróun séu enn tækifæri til vaxtar: „Við erum að fullnýta þá möguleika sem við höfum og það tekur auðvitað tíma fyrir fiskinn að vaxa. Við erum að sækjast eftir því að geta stækkað enn þá meira, bæði með því að fá inn ný svæði og nýta svæðin betur með stærri seiðum, þannig að það má stilla margt af til að auka framleiðsluna enn frekar.“
Belti og axlabönd eru kostur
Nú hefur verið fest í lög að fylgja skuli bæði burðarþolsmati fjarða og áhættumati svæða í einu og öllu. Guðmundur segir þetta jákvæða þróun enda sé best að hafa vaðið fyrir neðan sig: „Við höfum kosið að fara mjög varlega í aukningu og hafa vísindin að leiðarljósi til að skapa sem minnsta áhættu. Það er engin önnur þjóð í heiminum með álíka belti og axlabönd hvað varðar fiskeldi og það er náttúrulega bara kostur.“ Fiskeldi af þessari stærðargráðu hófst seinna á Íslandi en á sambærilegum svæðum annars staðar. „Við byrjum tuttugu til þrjátíu árum á eftir öllum hinum og getum því nýtt þá þekkingu sem skapast hefur í millitíðinni, við þurfum ekki að gera sömu mistök og aðrir,“ segir Guðmundur og bætir við að betra sé að hafa færri en öflugri aðila í fiskeldi heldur en marga litla: „Það sköpuðust veruleg vandræði í Færeyjum þegar fjöldinn allur af smærri fyrirtækjum hóf fiskeldi á sama tíma, útsetningar og aðferðir við eldi voru ósamræmdar, upp blossuðu sjúkdómar og árangurinn því slæmur eftir því.“ Í dag eru því aðeins þrjú fyrirtæki sem standa fyrir megninu af eldi í Færeyjum og hefur þeim tekist að skipuleggja eldið með sem hagkvæmustum hætti
Laxi dælt í brunnbát til að flytja í vinnslu. Ljósmynd: Aðsend
fyrir umhverfið, laxinn og fyrirtækið sjálft að sögn Guðmundar: „Það vinnur allt saman ef þú hefur burðina í það og fyrirtækin geta haldið þekkingu og sérhæfðu starfsfólki ásamt öllum tækjum og tólum sem þarf til að gera hlutina rétt.“
Vottuð framleiðsla
Mikill metnaður er hjá Ice Fish Farm að haga framleiðslunni með sem bestum hætti: „Þegar við byrjuðum var markmiðið sett hátt: að framleiða besta lax í heimi. Til marks um það er framleiðslan vottuð bæði lífræn og sjálfbær.“ Ice Fish Farm hefur einnig hlotið hina eftirsóttu AquaGAP vottun fyrir ábyrgt fiskeldi. Ströng skilyrði þarf að uppfylla til að hljóta þá vottun, segir Guðmundur: „Við erum með fullkominn rekjanleika frá hrogni til viðskiptavinar, notum engin skaðleg efni og fylgjumst með fiski inn og fiski út, það er hve mikið fiskihráefni er í fóðrinu og svo hvað við slátrum. Kolefnislosun er mæld og reiknuð út og svo er kannað hvort lögum, reglum og eftirliti sé ekki fylgt til hins ítrasta.“
Samkvæmt AquaGAP staðlinum þarf að sjá til þess að framleiðslan valdi engum skaða á lífríkinu. Hluti af því er að fylgjast vel með mögulegum slysasleppingum. „Við erum með öflugt eftirlit og fylgjumst með kvíunum á hverjum degi, netin eru sterk og öflug og þau eru skoðuð reglulega, sem tryggir okkar góða árangur í að halda ferlinu gangandi í sátt og samlyndi við umhverfið. Við viljum alls ekki missa fisk út og gerum allt til að tryggja að það gerist ekki, enda mikil útflutningsverðmæti í húfi,“ segir Guðmundur og bætir við að áhættumatið sem Hafrannsóknarstofnun framkvæmir geri ráð fyrir verulega miklum sleppingum: „Raunin er allt önnur. Tekið var 10 ára meðaltal sleppinga í Noregi og það margfaldað miðað við íslenskar aðstæður til að fá viðmið. Öryggislínan er mjög ströng en við erum langt undir viðmiðum, þetta er bara brotabrot af því sem áhættumatið gerir ráð fyrir.“ Guðmundur segir að sú reynsla sem byggst hefur upp í Noregi hafi skilað sér í því að sleppingar hafa minnkað þrátt fyrir stóraukna framleiðslu: „Það er það sem við höfum trú á að geti haldið áfram. Traust, ábyrgð og trú á að þetta gangi er lykilatriði. Við viljum fá reynsluna og sýna að okkur sé treystandi til að stunda laxeldi í þessum fallegu fjörðum og einstöku aðstæðum.“ Þrátt fyrir ströng skilyrði telur Guðmundur að ekki sé ástæða til að ráðast í stórtækar breytingar á regluverki: „Þetta er endurskoðað reglulega, á þriggja ára fresti og ég tel það eðlilega framvindu í þessum málaflokki.“
Samstarf, hagkvæmni og þekking
Ice Fish Farm var skráð í norsku Kauphöllina Merkur í miðjum heimsfaraldri, en Norðmenn hafa verið fyrirferðarmiklir í fiskeldi við strendur Íslands. „Þegar við byrjuðum var mjög heppilegt að fá Norðmenn með okkur þar sem þeir kunna þetta. Laxeldið hefur gengið mjög vel þar í landi og því hafa Norðmenn haft fjármagn til að setja í Ísland. Að fá bæði þekkingu og fjármagn í einu kasti var mjög gott,“ segir Guðmundur. Nú hefur hluthafahópurinn stækkað og er samsetningin alþjóðleg að sögn Guðmundar: „Þetta var nokkuð farsælt og eftirspurnin var mjög góð, en það þýðir að fjárfestar treysta á félagið. Laxeldi krefst mikils þolinmóðs fjármagns því það tekur upp í þrjú ár að ala fisk frá hrogni til viðskiptavinar. Uppbyggingarferlið er líka langt og kostnaðarsamt því er þetta langtímafjárfesting sem þar að eiga sér stað.“
Með tilkomu nýrra fjárfesta er hægt að leggja enn meira púður í frekari uppbyggingu. „Við höldum bara áfram, það er það sem við höfum verið að gera, að auka framleiðsluna. Helsta keppikeflið er að komast upp í hagkvæmari stærð þar sem allur búnaður og tæki eru flott. Þetta er þó nokkur tilkostnaður, en því fleiri kíló sem eru á bak við hverja fjárfestingu, því hagkvæmari er hún,“ segir Guðmundur. Samfara hækkandi útflutningstekjum á laxi hafa aukin tækifæri gefist til að fjölga starfsfólki og fjárfesta í geiranum.
Lax frá Ice Fish Farm borinn á borð. Ljósmynd: Aðsend
Ice Fish Farm hefur einnig unnið náið með nágrönnum sínum í Löxum til að ná fram samlegðaráhrifum í rekstri fyrirtækjanna. „Við erum í Berufirði og Fáskrúðsfirði en þau eru í Reyðarfirði. Svo erum við að sækja um leyfi í Stöðvarfirði og Seyðisfirði. Við vinnum svo saman í vinnsluhliðinni og slátrun. Þannig náum við að nýta vinnsluna betur, en það er stór kostnaðarliður sérstaklega þegar nýtingin er ekki góð. Þetta er sama módel og unnið er með í Noregi þar sem fyrirtæki á sama svæði reka ákveðna þætti saman til að bæta afköst allra aðila,“ segir Guðmundur.
Alþjóðleg þörf á hollum matvælum
Fiskeldi er í örri þróun og ekkert lát virðist vera á eftirspurn eftir laxi að sögn Guðmundar: „Þetta er annar verðmætasti fiskurinn okkar. Lax er á bak við fimm prósent af heildarútflutningstekjum Íslendinga og yfir tuttugu prósent af fiskútflutningi. Heimsframleiðsla á laxi nemur um tveimur og hálfri milljón tonna og markaðurinn er eiginlega óþrjótandi. Aukning á eftirspurn er langt um meiri en framleiðsluaukning, svo því meira sem þú getur framleitt því meira getur þú selt.“
Verðmæti laxins hefur því aukist mikið á undanförnum árum. „Laxinn er þrefalt verðmætari en þegar við byrjuðum árið 2012. Aðstæðurnar eru þannig að lax er mjög eftirsótt vara, holl, góð og alþjóðleg. Við seljum lax út um allan heim og finnum fyrir mikilli þörf á hollum matvælum, sem eru vottuð sjálfbær. Þannig er enn frekari hvati til að taka tillit til umhverfisins og hafa ábyrga stefnu og framleiðslu til að tryggja bæði gæði og vönduð vinnubrögð,“ segir Guðmundur að lokum.