9 minute read

Lífið snerist um sjóinn“

Berglind með Mont Blanc í baksýni, elska þennan stað

Berglind segist aldrei hafa verið sjóveik. ,,Ég vissi ekki hvað það var og mér fannst gaman á sjó. Helst var það þegar ekki sást til lands vegna þoku að mér fannst þetta óþægilegt.

Berglind Þorbergsdóttir, bókari hjá Síldarvinnslunni, er fædd 1961 í sjávarplássinu Neskaupstað og er miðjubarnið í fimm systkina hópi. Þetta segir hún að hafi þó verið alvanalegt á þeim tíma. ,,Allar fjölskyldur voru með 4-5 börn svo maður hafði nóg af leikfélögum kringum sig!“ Hún segir að lífið hafi snúist um sjóinn. ,,Þegar fólk hittist var spurt: Hvernig ganga veiðarnar? Þetta skipti öllu máli fyrir bæinn. Tengingin við sjóinn er líka sterk hjá mér, ef ég sé hann ekki þá finnst mér það skrýtið; maður elst upp við að horfa á hann alla daga. Ef ég sé sjóinn þá veit ég líka hvernig veðrið er þann daginn.“ Faðir Berglindar var bæði smiður og trillusjómaður. Á veturna var smíðað fyrir íbúa bæjarins en á vorin var trillan undirbúin og svo var farið á sjóinn fram á haust. Þetta gerði hann í rúm sextíu ár. ,,Þetta var ekki óalgengt á þessum tíma,“ segir Berglind. Margir með eigin útgerð en öllu landað hjá Síldarvinnslunni.

Berglind fór öðru hvoru með pabba sínum á sjóinn út fyrir Norðfjarðarhorn að veiða þorsk. ,,Þetta var lítil trilla, ekki nema 2,5 tonn, sem hann erfði frá pabba sínum, Sæbjörg NK 75. Hann hélt henni vel við, enda smiður. Sjálfur byrjaði hann að fara á sjó níu ára gamall en ég var nú orðin eitthvað eldri. Þegar við fórum saman út vorum við alltaf aflahæst og hinir trillukarlarnir fóru að kalla mig Seiðkonuna!“ Farið var af stað klukkan 4 á nóttunni og snúið til baka seinnipartinn. Þá var öllu landað með höndum upp á bryggju. Öll systkini Berglindar fóru öðru hvoru með Þorbergi föður sínum á sjóinn. ,,Tveir bræður mínir héldu áfram að fara á sjó og voru um tíma með eigin útgerð eða á togara.“ Berglind segist aldrei hafa verið sjóveik. ,,Ég vissi ekki hvað það var og mér fannst gaman á sjó. Helst var það þegar ekki sást til lands vegna þoku að mér fannst þetta óþægilegt. Trillan var svo lítil og umkomulaus á þessum stundum.“ Berglind segir að þau hafi auðvitað oft verið hrædd um pabba sinn þegar hann var úti á sjó í litlu trillunni sinni ef veðrið var vont. ,,Hann fór líka alltaf, sama hvernig veðrið var. Hann var alinn upp við þetta og þekkti straumana vel. Sem betur fer kom hann alltaf heim.“

Spilað og sungið á heimilinu

Þorbergur smíðaði mikið af húsgögnum fjölskyldunnar auk þess að gera innviði. ,,Hann byggði svo auðvitað húsið sjálft. Við tókum öll þátt í því, systkinin, og vorum að naglhreinsa og þess háttar. Það var góð samvinna hjá okkur enda vorum við náin systkinin, sérstaklega þau eldri en yngsta systir mín er tólf árum yngri en ég svo hún er lengra frá okkur fjórum elstu.“ Foreldrarnir voru bæði í kirkjukórnum og þau sungu mikið. ,,Sérstaklega mamma, hún var alltaf syngjandi.“ Það var mikið spilað á heimilinu, t.d. manna, kana, vist og fleira. ,,Það vorum ekki bara við systkinin, það voru stórir krakkahópar allt í kringum okkur og krakkarnir í götunni héldu mikið saman.

Bryggjan, fjaran, fjallið

Helsta skemmtun barnanna á æskuárum Berglindar var að leika sér á bryggjunum. ,,Þær voru miðpunktur alls í bænum. Við krakkarnir fylgdumst með bátunum koma inn og veltum fyrir okkur hver væri á hvaða báti; er þetta pabbi? Nei, ekki pabbi. En þetta? Nei, ekki heldur. Svo vorum við að veiða með færi og vorum í leikjum í fjörunni eða uppi í fjalli.“ Eftir að krakkarnir urðu að unglingum var rölt um bæinn og hist milli húsa, á götunni eða við sjoppurnar. ,,Þetta var svona Hallærisplansstemning. Á sumrin vorum svo auðvitað allir að vinna mikið.“ Spurð út í íþróttaiðkun segir Berglind að sjálf hafi hún verið í handbolta um tíma en íþróttamenning hafi ekki verið sterk hjá stelpunum. Strákarnir hafi verið mikið í fótbolta og síðan hafi blakið bæst við. ,,Á veturnar voru allir á skíðum í Oddsskarði og ég fékk gömul tréskíði með leðurólum frá bræðrum mínum. Þegar ég eignaðist börn fór ég svo með þau í fjallið. Núna er ég komin á gönguskíði og fór t.d á námskeið síðasta vetur.“

Samheldið samfélag

Þorbergur faðir Berglindar hélt dagbók öll sín ár þar sem hann skrifaði aðallega hvernig aflaðist og hvernig veðrið var. ,,Það skipti ekki máli þótt hann væri ekki sjálfur á sjó á veturna. Hann var iðnaðarmaður en þegar að veiðar gengu illa þá höfðu iðnaðarmenn ekki vinnu því þá voru ekki til peningar til að borga þeim. Veiðarnar skiptu öllu máli fyrir samfélagið. Fólk talaði um hver kom með þetta og hver kom með hitt að landi, þetta hafði svo mikil áhrif. Sjómannadagurinn var líka miklu stærri dagur en 17.júní, og er enn. Þetta var dagur sjómannanna og hátíðarhöldin standa yfir í þrjá daga, með alls konar viðburðum og keppnum.“ Berglind segir að samfélagið hafi verið samheldið. Það var t.d Samvinnufélag útgerðarmanna á staðnum sem allir bátaeigendur voru í. Síldarvinnslan var svo stofnuð upp úr því, fyrst til að vinna síld en þegar síldin fór komu aðrar tegundir í staðinn. ,,Hér áður var maður alltaf viss um að geta fengið vinnu hjá Síldarvinnslunni. Það þurfti enginn að vera atvinnulaus. Þannig var þetta lengi, þetta var hálfgerð félagsmálastofnun.“

Við krakkarnir fylgdumst með bátunum koma inn og veltum fyrir okkur hver væri á hvaða báti; er þetta pabbi? Nei, ekki pabbi. En þetta? Nei, ekki heldur. Svo vorum við að veiða með færi og vorum í leikjum í fjörunni eða uppi í fjalli.”

Fjölskyldan í Chamonix

Hrein rúmföt með peningalykt

Í sjávaplássi unnu allir í fiski og Berglind segir að það hafi hreinlega verið skrýtið ef maður vann þar ekki. ,,Ég var þrettán ára og vann átta tíma á dag. Maður var heppinn ef maður fékk yfirvinnu! Það var líka svo gaman á föstudögum, þá fékk maður fullt af peningum í umslagi!“ Berglind hefur komið alls staðar að fiskvinnslu, hvort sem það er frysting, saltfiskur eða síldarsöltun. ,,Maður kynntist öllu og mér fannst gaman að þessu. Það var sko fjör í fiskinum þegar allir skólakrakkarnir fóru að vinna. Maður kom oft rennblautur heim, allir unnu hratt og vel því þá fékk maður bónus. Við vorum líka öll svo meðvituð um hvaðan peningarnir komu, bæði okkar eigin og foreldranna. Ef það var nóg að gera höfðu allir nóg. Ef það fiskaðist illa kom það niður á öllum.“ Fólk hafi þó yfirleitt ekki haft mikið á milli handanna og fáir áttu bíla. ,,Allir þurftu að vinna mikið ef bjarga þurfti verðmætum og allir voru mjög meðvitaðir um það. Eftir að bræðslan kom var oft þoka yfir bænum og vond lykt. Það mátti samt aldrei tala um vondu lyktina heldur var hún kölluð peningalykt. Hún gegnsýrði allt og ef maður setti t.d út blaut rúmföt til að þurrka fór maður að sofa í hreinum rúmfötum sem voru með bræðslulykt eftir að hafa hangið úti á snúru.“ Þetta hafi þó breyst mikið með vélvæðingunni. ,,Það eru auðvitað ekki eins margir sem koma að vinnslunni í dag, það þarf færri hendur. Fiskurinn skiptir

Hallór, Jón, Berglind og Þorbergur í Chamonix í Frakklandi. Þorbergur á leið í 170 km hlaup

auðvitað miklu máli ennþá en almenningur er ekki eins meðvitaður um hvað snýr hjólinu.“

Synirnir mikið í íþróttum

Þegar Berglind var sautján ára gömul hitti hún manninn sinn, Jón Valgeir Jónsson, og tveimur árum síðar voru þau gift. ,,Þegar við kynnumst er hann að læra vélstjórn og var á sjó með náminu.“ Þau fóru þá að búa, fyrst á Eskifirði en þegar hún fékk vinnu í Landsbankanum á Norðfirði flutti þau þangað. Jón var á sjó í nokkur ár og fór Berglind nokkrum sinnum með honum í ferðir. Hann fór svo í land og kennir núna vélfræðigreinar í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað. Þau hjónin eiga tvo syni, Þorberg Inga og Halldór Hermann sem báðir búa á Akureyri ásamt konum og börnum. ,,Synirnir hafa báðir gert það gott í íþróttum og eru t.d meðal bestu utanvegahlaupara á Íslandi,“ segir Berglind stolt. Annar þeirra, Þorbergur Ingi sé á topp 10 í Evrópu og hún hafi oft fylgt honum í hlaup erlendis. Reyndar hafi verið á döfinni að fara til Frakklands í ágúst þar sem hann ætlaði að taka þátt í Mont Blanc hlaupinu eins og oft áður en hann hafi hætt við það. ,,Þau hjónin eiga von á barni um þessar mundir og hann vildi ekki hætta á að festast úti vegna covid.“ Berglind segir þennan hlaupaáhuga ekki frá sér kominn. ,,Pabbi var hins vegar svona léttur á fæti. Hann hljóp við smalamennskuna þegar hann var ungur maður og milli bæja þegar hann átti erindi.“

Hún segist mæla eindregið með Síldarvinnslunni sem vinnustað, þeir hugsi vel um sitt fólk.,,Mér finnst starfið skemmtilegt, maður kemur að svo mörgu þannig að fjölbreytnin er mikil.”

Yndislegt að búa í sveitinni

Árið 2018 fluttu þau Berglind og Jón frá Norðfirði yfir á jörðina Sellátra sem er nálægt Eskifirði en Jón er þaðan. Búa þau þar í gamla íbúðarhúsinu sem er 120 ára gamalt en áður höfðu þau notað það sem sumarhús. ,,Þetta er býli en við erum ekki með skepnur, þótt nóg sé af útihúsunum. Við erum bæði að vinna svo það væri erfitt að hafa þær. Mér finnst yndislegt að búa þarna, það er mjög rólegt og rómantískt. Eftir að Norðfjarðargöngin komu er heldur ekkert mál að búa hér og vinna á Norðfirði. Það er auðvitað mikill snjór á veturna en við erum svo heppin að maðurinn á næsta bæ sér um að ryðja á Eskifirði og þegar mikill snjór er keyri ég á eftir honum inn í bæ! “ Berglind segir að það henti sér vel að vera svona út af fyrir sig í kyrrðinni. Garðurinn sé stór og mikil vinna í honum. Sömuleiðis sé líka alltaf eitthvað viðhald vegna húsanna. ,,Mér finnst þetta yndislegt en ég veit svo sem ekki hvort við verðum hérna mikið lengur. Þetta er stundum aðeins of mikil vinna og það styttist í að Jón fari á eftirlaun. Heilsan gæti líka verið betri hjá honum. Við sjáum því aðeins til með framhaldið en við eigum þetta alltaf sem sumarhús.“ Líka hafi það áhrif að þau séu orðin nánast ein eftir fyrir austan. ,,Systkini mín eru farin héðan og þeirra afkomendur. Allt fólk pabba flutti suður fyrir löngu og sömuleiðis fólkið í kringum mömmu. Þannig að það er enginn eftir og þá togar það í mann að færa sig um set. Ætli Akureyri verði ekki fyrir valinu þegar það kemur að þessu, okkur langar að vera nálægt börnunum og barnabörnunum.“

Störf fyrir unga fólkið

Berglind vann hjá Síldarvinnslunni til að verða þrítugt við eitthvað tengt fiski. ,,Börnin voru hálfan daginn á leikskóla og þá var maður að vinna, það var auðvelt að fá hálfsdagsstarf. Mér fannst þetta gott og börnin nutu þess í þá daga að hafa foreldrana heima.“ Berglind menntaði sig svo sem bókara og fór að starfa við það. Hún vinnur núna sem bókari á skrifstofu Síldarvinnslunnar og hefur verið þar frá 2015 en áður vann hún í 27 ár sem aðalbókari hjá Fjarðabyggð. Hún segist mæla eindregið með Síldarvinnslunni sem vinnustað, þeir hugsi vel um sitt fólk.,,Mér finnst starfið skemmtilegt, maður kemur að svo mörgu þannig að fjölbreytnin er mikil.“ Þau eru sautján á skrifstofunni, á öllum aldri og í alls kyns störfum. ,,Síðustu áratugina hefur maður séð unga fólkið mennta sig og vinna við sérhæfð störf, hjá Síldarvinnslunni, í álverinu og fleiri stöðum. Það er auðvitað frábært og skiptir svo miklu máli. Fólk vill ekki vera verkafólk allt sitt líf lengur og það er heldur ekki þörf fyrir það.“

This article is from: