10 minute read

Fjölmörg tækifæri í fiskeldi

Starfsmaður Slippsins við störf á Kópaskeri. Ljósmynd: Aðsend

Flutningur vatns og loftun eru hjartað og lungun í kerfinu, svo þetta má ekki klikka. Svo er einnig mikilvægt að huga að nýtingu vatns og við sjáum mikil tækifæri í því.

Slipurinn á Akureyri er einn stærsti slippur og stálsmiðja landsins en þar hefur viðhaldi og viðgerðum á skipum verið sinnt óslitið frá árinu 1952, og býr fyrirtækið yfir mikilli reynslu í viðgerðum á allt frá smærri bátum upp í nútímalega frystitogara. Slippurinn rekur einnig öflugt framleiðslusvið þar sem hönnun, smíði og uppsetning á ýmsum búnaði fara saman. „Við bjóðum upp á heildarlausnir og viðskiptavinurinn á ekki að þurfa að leita neitt lengra en til okkar.“ segir Páll Kristinsson, sviðsstjóri framleiðslusviðs Slippsins: „En svo erum við líka óhrædd við að kalla til okkar utan að komandi sérfræðinga ef verkefnin krefjast þess.“

Páll Kristjánsson, sviðsstjóri framleiðslusviðs Slippsins Akureyri ehf. Ljósmynd: Aðsend

Ef þú ferð í fiskbúð og skoðar flökin sérðu að sum þeirra eru alveg snjóhvít en önnur aðeins dekkri. Þetta er iðulega hægt að beintengja við það að blæðingarferlið hafi ekki verið nægilega gott.

Páll tók við starfinu fyrir tæpu ári, en þar áður hafði hann starfað í níu ár hjá GPG Seafood á Húsavík. Páll segir ánægjulegt að koma inn í rótgróið fyrirtæki eins og Slippinn: „Þetta er áratugagamalt fyrirtæki sem byggir á gömlum merg en í dag starfa að jafnaði 150 starfsmenn hjá okkur og þar af tæplega 40 á framleiðslusviðinu. Allur minn bakgrunnur er í sjávarútvegi, svo ég uni mér vel hér.“ Á framleiðslusviðinu sem Páll leiðir fer fram fjölbreytt starfsemi: „Við framleiðum til að mynda hinar sívinsælu DNG færavindur sem eru í sífelldri þróun, en þar að auki smíðum við, hönnum og þróum ýmis konar búnað fyrir vinnslu bæði á sjó og landi. Við leitum sífellt nýrra tækifæra og svæða til að sækja á og undanfarið höfum við mikið horft til fiskeldis, bæði á sjó og landi, en aðallega á landi. Með þessu erum við að auka vöruframboð og þjónustu okkar og teljum að það verði öllum til góðs, ekki síst verkkaupanum. Við erum þó ekkert að færa okkur frá hafinu, það er alls ekki þannig. Við erum haftengdir og verðum það áfram.“

Krefjandi verkefni á Kópaskeri

Fram að þessu hefur fiskeldi á Íslandi helst farið fram í sjókvíum en samfara vexti í atvinnugreininni er landeldi farið að sækja í sig veðrið. Fyrirtækið Rifós hf sem er í eigu Fiskeldis Austfjarða fékk Slippinn með sér í byggingu palla, brúa og undirstaða undir búnað í nýja eldisstöð á Kópaskeri. Þar verður tekið á móti seiðum sem koma úr eldisstöð Rifóss í Kelduhverfi. Þegar seiðin eru orðin nægilega stór til að hægt sé að flytja þau í sjókvíar, eru þau flutt með brunnbátum sem sigla með seiðin austur á firði. Framkvæmdin hefur gengið vel. „Þetta er svona fyrsta alvöru fiskeldistengda verkefnið okkar,“ segir Páll. „Við smíðuðum alla palla, brýr og stiga inn í þetta nýja hús á Kópaskeri ásamt undirstöðum undir loftara og tromlufiltera.“ Verkefnið er stórt í sniðum og krefjandi. Í fyrsta áfanga verkefnisins voru sett upp átta eldiskör í tæplega þrjú þúsund fermetra húsi og segir Páll samstarfið hafa gengið vel: „Við hönnuðum allt sem kom að okkar smíði, og höfum hug á því að færa okkur meira inn í smíði á lagnakerfum fyrir vatn sem felur þá í sér alhliða hönnun, smíði og samsetningu. Í verksmiðjum sem þessum þarf allt að passa saman og heildarmyndin að vera skýr.“ Eldisstöðin á Kópaskeri er með þeim stærri sem settar hafa verið upp hér á landi og því er að mörgu að huga. „Það er áskorun að setja saman bæði undirstöður og lagnakerfi svo þau séu traust og að aðgengi sé gott. Pallarnir þurfa ekki bara að hafa mikið burðarþol heldur þarf að koma vatni að og frá þessum tækjum,“ segir Páll og bætir við að þar hafi sú reynsla og þekking sem starfsfólk Slippsins býr yfir komið að góðum notum. Loftunar- og hreinsibúnaðurinn sem settur var upp á Kópaskeri kemur frá NP Innovation í Svíþjóð sem sérhæfir sig í smíði slíkra tækja. „Þetta er alvöru búnaður sem vegur mörg tonn þegar hann er fullur af vatni og í keyrslu,“ segir Páll. „Pallarnir sem við smíðuðum í þessu tilviki undir tromlufiltera og loftara þurfa að geta borið yfir 30 tonn. Það var ákveðin áskorun fyrir hönnuðina okkar. Við teljum að þetta hafi verið leyst á besta mögulegan máta og það ríkir almenn ánægja með það sem við höfum afhent.“ Uppsetningin á búnaðinum í Kópaskeri gekk vel fyrir, en mikið var um að vera á svæðinu á meðan vinnan fór fram, segir Páll: „Það voru að jafnaði fimm til sjö menn frá okkur að vinna að þessu á hverjum tímapunkti og það var mikið umleikis á svæðinu á meðan á uppsetningunni stóð. Það var verið að reisa húsið, leggja allar lagnir, rafmagn og fleira, og svo vorum við auðvitað að vinna í okkar hluta á sama tíma. Allt vann þetta ágætlega saman og við gengum í verk með öðrum verktökum á svæðinu og öfugt.“ Pallarnir, stigarnir og undirstöðurnar frá Slippnum voru engin smásmíði og því þurfti að koma þeim fyrir áður en gengið var frá byggingu hússins: „Við fórum inn í húsið þegar grindin var að hluta komin upp. Við urðum að gera það áður en húsinu var lokað til þar sem þetta er allt stórt í sniðum og ekki auðvelt að koma pöllum brúm og stigum inn ef húsinu hefði verið lokað áður,“ segir Páll og bætir við að hönnunin hafi verið vel heppnuð og uppsetningin því gengið vel: „Umfram allt þá er niðurstaðan góð.“

Hér má sjá palla og búnað sem settir voru upp í seiðastöðinni Rifósi. Ljósmynd: Aðsend

Seiðastöðin er stór í smíðum og mikilvægt að tryggja bæði burðarþol og aðgengi. Ljósmynd: Aðsend

Rekstraröryggi og nýting auðlinda

Að sögn Páls er aukið rekstraröryggi einn af þeim kostum sem fylgir því að hanna allt á einum stað svo skýr mynd liggi fyrir áður en farið er af stað í framkvæmdir: „Flutningur vatns og loftun eru hjartað og lungun í kerfinu, svo þetta má ekki klikka. Svo er einnig mikilvægt að huga að nýtingu vatns og við sjáum mikil tækifæri í því.“ Þó vatn virðist vera til í óendanlegu magni hér á landi er það takmörkuð auðlind eins og allt annað. „Það er allur gangur á því hvort menn greiða fyrir vatn inn, vatn út eða jafnvel bæði. Við höfum heyrt af því að ekki hafi alltaf verið hægt að tryggja nægilegt framboð vatns í fiskeldisstöðvar og þá verður að nýta það sem maður hefur eins vel og hægt er, það má ekki sólunda því út og suður. Við getum horft til Danmerkur í þessum efnum þar sem að sögn er greitt hærra gjald fyrir fráveitu en vatnsveitu. Þar snýst allt um endurnýtingu og að bæta sem minnstu magni af vatni við á hverjum degi,“ segir Páll og bætir við að þó að sú sé ekki staðan hér á landi sé endurnýting engu að síður mikilvæg. Páll segir að Slippurinn sjái mörg tækifæri þegar kemur að fiskeldi. Í fyrsta lagi er það smíði í kringum sérhæfðan búnað annarra framleiðenda, eins og hér hefur verið greint frá, en á vinnsluhliðinni er einnig að finna fjölmörg sóknarfæri: „Við höfum hannað blæðingar- og kælibúnað sem settur verður upp í þremur skipum í haust, og erum að horfa á útfærslu á þeim búnaði inn í sláturfasann í fiskeldi þar sem miklum fjölda einstaklinga er slátrað á hverri mínútu.“ Kynna átti búnaðinn á sjávarútvegssýningunni í ár en vegna heimsfaraldurs varð ekkert af henni. Undanfarin ár hefur Slippurinn einmitt beint athygli

Sjávarlón

Um þessar mundir vinnur Slippurinn hörðum höndum að Sjávarlóni, verkefni sem unnið er í samstarfi við Matís og Háskólann á Akureyri, en í fyrra hlaut verkefnið styrk úr AVS rannsóknarsjóði í sjávarútvegi. Sjávarlón er kerfi til að besta blæðingu á fiski um borð í fiskiskipum, en Páll segir að í framtíðinni mætti einnig útfæra það til notkunar í landi. „Þegar blæðing fer fram um borð í skipum er notast við yfirborðssjó, en ef við lítum yfir árið sjáum við að hitastig sjávar getur verið allt frá núll gráðum og upp í tólf og jafnvel hærra eftir því hvaða árstími er, hérna norðan fyrir land hefur sjórinn farið allt upp í sextán gráður í sumar sem hlýtur að teljast nokkuð óeðlilegt,“ segir Páll. Sveiflur á hitastigi sjávar geta skapað visst vandamál þar sem bolfiski blæðir best við ákveðið hitastig. Miklar sveiflur líkt og þær sem eiga sér stað hér við land geta komið niður á gæðum hráefnisins. Í köldum sjó er blæðingin hæg og fiskurinn verður blakkari á holdið að sögn Páls: „Ef þú ferð í fiskbúð og skoðar flökin sérðu að sum þeirra eru alveg snjóhvít en önnur aðeins dekkri. Þetta er iðulega hægt að beintengja við það að blæðingarferlið hafi ekki verið nægilega gott. Þannig að Sjávarlón gengur út á að á kaldari tímum ársins notum við afgas af kælivélum og öðru slíku til að hita upp sjóinn áður en fiskurinn er blæddur til að flýta fyrir ferlinu og fá fallegri og betri flök. Þegar sjórinn er hlýrri einbeitum við okkur að tímaþættinum og þannig getum við minnkað los án þess að það bitni á holdlitnum. Svona reynum við að tryggja að afurðin sé alltaf eins góð og mögulegt er auk þess sem gæðin verða jafnari allan ársins hring.“ Í á annað ár hafa verið gerðar prufur og gögnum safnað um hitastig og tímalengd blæðingarferlisins ásamt því að gæði afurða eru metin þegar komið er í land. Slippurinn hefur unnið náið með Matís og Háskólanum á Akureyri í að byggja upp og vinna með þennan gagnagrunn. „Við erum í rauninni að nýta þeirra þekkingu og grunn með okkar. Þarna kemur saman bæði hagnýt og vísindaleg þekking í virkilega spennandi samkurli. Við sem þjóð búum svo vel að hjá Matís starfar afar hæft fólk eins og til dæmis Sigurjón Arason sem hefur unnið að rannsóknum í sjávarútvegi í áratugi og er frábært að eiga svoleiðis fólk sem hægt er að leita til.“ Sjávarlón er enn í þróun og segir Páll að endanleg mynd verði komin á Sjávarlón með haustinu. „Í þessum töluðu orðum er verið að setja búnaðinn í fyrsta skipið, Kaldbak, til að eiga þennan hitunarmöguleika. Útgerðarfélag Akureyringa og Samherji hafa verið með okkur í þessu, þannig að þegar við komum inn í nóvember eða desember og sjórinn er orðinn kaldur þá reynir á þetta.“

Ýmislegt á döfinni

Það er nóg um að vera hjá Slippnum þessa dagana að sögn Páls. “Uppsetningu á búnaðinum í Kópaskeri er lokið og við vorum að klára smíði á nýjum búnaði í Oddeyrina frá Samherja og erum að setja hann í núna.“ Segja má að Oddeyrin sé tilraunaverkefni Samherja þar sem ætlunin er að bera að landi lifandi fisk. Skipið var keypt frá írskri útgerð með það fyrir augum að gera á því töluverðar breytingar. Í stað þess að landa fisknum á dekk verður honum dælt í þar til gerða tanka þar sem honum er haldið lifandi ýmist þar til hann er unninn um borð eða honum landað í kvíar. Skipið mun því búa yfir umfangsmiklu sjódælingar- og lagnakerfi til að tryggja ferskleika vörunnar. Það eru því ekki bara viðhald og viðgerðir sem fara fram í Slippnum við Akureyrarhöfn. Fyrirtækið sækir óhrætt á ný mið og segir Páll að það sé einn af helstu styrkleikum félagsins. „Við vinnum að því að hanna og þróa nýjar lausnir sem henta fyrir aðstæður hér norður í Atlantshafi. Við gerum okkar besta til að nýta þá þekkingu sem við búum yfir innanhúss en einnig í samstarfi við stofnanir og háskóla, þegar horft er fram á veginn viljum við til dæmis reyna að efla samstarfið við Háskólann á Akureyri og Háskólann á Hólum.

This article is from: