11 minute read
Sjókvíaeldi í sátt við náttúruna
Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson hefur reynst Hafrannsóknastofnun vel í meira en hálfa öld. Nú stendur til að smíða nýtt skip í hans stað. Ljósmynd: Svanhildur Egilsdóttir
Einn af hornsteinum öflugs og sjálfbærs sjávarútvegs er nýting auðlinda í sátt og samlyndi við náttúru og lífríki. Eitt af hlutverkum Hafrannsóknarstofnunar er að veita sjávarútvegunum vísindalega ráðgjöf út frá bestu mögulegu þekkingu um nýtingu og ræktun nytjastofna sjávar, vatna og áa. Í því skyni stendur stofnunin fyrir viðamiklum grunnrannsóknum ásamt nýsköpunar og þróunarstarfi á ýmsum sviðum. Í apríl á þessu ári tók Þorsteinn Sigurðsson við stöðu forstjóra Hafrannsóknastofnunar. Blaðamaður Sjávarafls tók Þorstein tali, forvitnaðist um nýja starfið og hvernig Hafrannsóknarstofnun styður við fiskeldi hér á landi.
Með hugann við hafið
Þorsteinn er fæddur og uppalinn á Neskaupstað og hefur starfað hjá Hafrannsóknastofnun nær óslitið frá árinu 1994, en hafið hefur alltaf staðið honum nærri: „Ég er nú bara sveitastrákur að austan og tengdur sjávarútveginum frá blautu barnsbeini. Pabbi var sjómaður og afi var sjómaður, þannig að ég á ekki langt að sækja að fylgjast með hafinu,“ segir Þorsteinn. „Á þessum minni stöðum þá snýst lífið að stórum hluta um aflabrögð og að reyna að skilja bæði hafið og fiskinn. Þetta kveikti áhugann á sínum tíma.“ Þorsteinn var sjálfur á sjó með fram framhaldsskólanámi og tvö heil ár eftir það, og þar fékk hann að prófa ýmislegt: „Á þeim tíma náði ég að kynnast veiðum verulega af fyrstu hendi, fara á loðnuveiði, rækjuveiðar og vera á togara í heilt ár. Ég gerðist meira að segja svo frægur að fara í nokkrar siglingar til Þýskalands.“
Þorsteinn hugsar með hlýju til þessa tíma. „Það var margt skemmtilegt, en á þessum árum þegar maður er svona ungur getur líka verið erfitt að dvelja löngum stundum í burtu frá öllu villta lífinu. Þannig að hugurinn leitaði í að skoða þetta frá einhverjum öðrum hliðum.“ Þorsteinn fluttist suður þar sem hann lærði líffræði við Háskóla Íslands, en það var einmitt á háskólaárunum í Reykjavík sem ferill Þorsteins hjá Hafrannsóknastofnum hófst: „Ég byrjaði hér fyrst sem sumarmaður árið 1987 og var það á sumrin á meðan ég var í háskólanum hér fyrir sunnan. Einn veturinn tók ég líka að mér viðbótarverkefni um fæðu loðnunnar og var þá staðsettur hér á stofnunni.“ Eftir líffræðina hélt Þorsteinn til Björgvinjar í Noregi þar sem hann lagði stund á
Snorri Rafn Hallsson
Starfsmenn stofnunnarinnar önnum kafnir við að mynda hafsbotninn fyrir burðarþolsmat. Ljósmynd: Rakel Guðmundsdóttir
framhaldsnám í fiskifræði en að því loknu lá leiðin beinustu leið aftur á Hafrannsóknastofnun þar sem Þorsteinn starfaði meðal annars sem sviðsstjóri uppsjávarsviðs. Árið 2020 var Þorsteinn eitt ár sem sérfræðingur hjá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu en er nú snúinn aftur á sínar heimaslóðir hjá Hafrannsóknastofnun.
Ágætis byrjun
En hvernig kann Þorsteinn við sig í nýja starfinu? „Það er alls konar, þetta er auðvitað aðeins öðruvísi starfsvettvangur en það sem ég var í, en þetta er bæði spennandi og skemmtilegt, starfsfólkið er frábært svo hér ríkir bara gleði.“ Áskoranirnar og tækifærin eru af ýmsu tagi: „Stóra verkefnið er að halda rekstrinum innan þess ramma sem okkur er settur. Þetta hefur verið svolítið krappur dans á undanförnum árum vegna minnkandi tekna, bæði í gegnum fjárlög með hagræðingar- og sparnaðarkröfum en sértekjur hafa einnig minnkað. En á svona vinnustað er sem betur fer mikið um gott starfsfólk sem vill gera miklu meira og betur. Mitt hlutverk er þá að tryggja að við fylgjum sterkri framtíðarsýn í starfseminni. Verkefnin eru mörg og ærin og því þurfum við að forgangsraða til að gera það sem viljum gera og sinna því sem þarf að sinna.“
Nú stendur til að smíða nýtt rannsóknarskip fyrir stofnunina en þessa dagana er smíðin í útboðsferli. „Það er skip sem kemur í staðinn fyrir Bjarna Sæmundsson sem er orðinn rúmlega fimmtíu ára gamall og því kominn til ára sinna. Þó hann sé enn þá góður þá er komin þörf þó fyrr hefði verið til að endurnýja hann.“ Nýja skipið verður útbúið nútímatækni enda hafa hafrannsóknir breyst á undanförnum áratugum. „Þó við séum enn með hefðbundnar rannsóknir eins og togararöll þá liggur framtíðin meira í myndavélatækni og tækni þar sem ekki er notast við gróf veiðarfæri. Þegar við fengum Bjarna Sæmundsson 1967 og gamla Árna Friðriksson árið 1970 snerust fiskirannsóknir að stórum hluta um fiskileit. Í dag er hlutverkið svolítið annað, við fylgjum þeim varúðarsjónarmiðum sem búið er að undirgangast í hinu alþjóðlega samfélagi. Okkar skylda er að veita ráðgjöf á þeim forsendum að ekki sé verið að ganga á auðlindirnar heldur séu þær endurnýjanlegar, að við tökum ekki meira út en framleitt er og að við tryggjum það með okkar ráðgjöf að ástandið á miðunum verði í það minnsta ekki verra fyrir komandi kynslóðir en það er í dag. Og helst betra. Slík nálgun kallar á aukna vöktun og rannsóknir á lífríkinu og við bindum vonir til að geta eflt þær með komu nýja skipsins.“
Ég er nú bara sveitastrákur að austan og tengdur sjávarútveginum frá blautu barnsbeini. Pabbi var sjómaður og afi var sjómaður, þannig að ég á ekki langt að sækja að fylgjast með hafinu. Á þessum minni stöðum þá snýst lífið að stórum hluta um aflabrögð og að reyna að skilja bæði hafið og fiskinn. Þetta kveikti áhugann á sínum tíma.
Sjókvíaeldi
Sjókvíaeldi í fjörðum landsins hefur færst mikið í aukana. Það er hlutverk stjórnvalda að ákvarða hvar hugsanlega skuli leyfa fiskeldi í sjó við strendur landsins og enn sem komið er takmarkast það við
Á Stað í Grindavík er vel búin fiskeldisrannsóknarstöð. Ljósmynd: Svanhildur Egilsdóttir
Okkar skylda er að veita ráðgjöf á þeim forsendum að ekki sé verið að ganga á auðlindirnar heldur séu þær endurnýjanlegar, að við tökum ekki meira út en framleitt er og að við tryggjum það með okkar ráðgjöf að ástandið á miðunum verði í það minnsta ekki verra fyrir komandi kynslóðir en það er í dag. Og helst betra.
Austfirði og Vestfirði. Hlutverk Hafrannsóknarstofnunar er svo að meta hversu umfangsmikið fiskeldið má vera á hverjum stað, en forsenda rekstrarleyfis fyrir sjókvíaeldi er að fram hafi farið svokallað burðarþolsmat á viðkomandi stað.
“Áður en kvíar eru settar upp og eldi hefst er nauðsynlegt að huga að mögulegum umhverfisáhrifum á svæðinu,“ segir Þorsteinn: „Þá er okkar aðkoma að stórum hluta í upphafi að meta burðarþol svæðisins, það er hvert svæði getur borið mikið af fiski í kvíum án þess að það hafi neikvæð áhrif á lífríkið í kring. Sú vinna getur verið mjög umfangsmikil, rannsaka þarf hafstraumana bæði í viðkomandi fjörðum og utan þeirra. Sums staðar er ekki búið að kortleggja hafsbotninn og þá þurfum við að byrja á því til þess að geta gert raunhæf straumalíkön. Að auki þarf að taka stöðuna á lífríkinu áður en farið er af stað og þá loks er hægt að reikna út hversu mikill lífmassinn má vera án þess að raska umhverfinu.“
Að sögn Þorsteins eru slík verkefni stór í sniðum og krefjast aðkomu tuga sérfræðinga í ólíkum greinum, svo sem haffræði, líkanagerð og tegundagreiningu botndýra: „Allt kemur þetta saman og gerir það að verkum að þegar upp er staðið getum við sagt nokkuð nákvæmlega til um hvernig standa skuli að sjókvíaeldi á viðkomandi svæði. Það er mikil ábyrgð sem fylgir því að veita ráðgjöf sem hægt er að gagnrýna ef tölur og forsendur eru rangar og því mikilvægt að vanda til verks. Fiskeldi er stór og vaxandi atvinnuvegur sem við þurfum að standa vel að til að ekki sé gengið á lífríkið. ”
Laxalús hefur aðeins látið á sér kræla fyrir vestan en gegn henni má beita ýmsum mótvægisaðgerðum segir Þorsteinn: „Menn hafa til dæmis verið að hvíla firði inni á milli til þess að forðast kynslóðir af laxalús og önnur óæskileg áhrif. Það er gert þannig að þegar lirfurnar koma til að festa sig á fiskinn þá sé ekkert fyrir þær að bíta. Hrognkelsið hefur einnig verið nýtt til þess að éta lúsina á ákveðnum tíma svo hún verði ekki viðeigandi vandamál. Hingað til hefur tekist að halda umhverfisáhrifum í lágmarki og eru þau bundin við þau svæði sem næst eru kvíunum og þá einungis í skamman tíma.“
Nú þegar hefur burðarþolsmat farið fram á nokkrum svæðum á Austfjörðum og Vestfjörðum og telur Hafrannsóknastofnun að á þeim svæðum sem mæld hafa verið væri samtals hægt að ala 144.500 tonn af fiski. Til samanburðar var heildarframleiðsla alls fiskeldis á Íslandi árið 2020 um 40.600 tonn. Hér á landi eru því enn gríðarleg tækifæri til vaxtar í atvinnugreininni og burðarþolsmatið er langtímaverkefni sem er í sífelldri þróun.
Áhættumatið takmarkandi þáttur
En þó svo að firðir landsins geti borið margfalt meira fiskeldi en nú er stundað þarf einnig að huga að öðrum þáttum. Víða er áhættumat lægra en burðarþolsmatið. Áhættumatið snýr að því hve mikil hætta er vegna erfðablöndunar eldisfiska við villta stofna. „Það er í raun og veru sá þáttur sem hefur verið takmarkandi varðandi þann lífmassa sem við höfum verið að ráðleggja. Það er alltaf ákveðin hætta á slysasleppingum og hér á landi eru laxveiðiár sem þola mjög litla blöndun,“ segir Þorsteinn.
En hvers vegna er mikilvægt að koma í veg fyrir erfðablöndun eldisfisks og villtra stofna? „Hver og ein laxveiðiá er einstök og á sinn eigin villta stofn,“ útskýrir Þorsteinn. „Laxinn leitar alltaf aftur í þá á sem hann elst upp fyrstu æviárin áður en hann heldur til sjávar. Hann dvelur í sjónum í eitt til tvö ár áður en hann heldur aftur heim í sína upprunalegu á þar sem hann hefur aðlagast tilteknum aðstæðum. Eldisfiskur er upprunalega villtur fiskur sem búið er að kynbæta. Þá er valinn fiskur sem vex hraðar en gengur og gerist og hann þá valinn til undaneldis. Með þessum hætti er valið fyrir öðrum þáttum en náttúran gerir í villtum stofnum.“ Erfðablöndun getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir villta stofna og lífríki laxveiðiánna að sögn Þorsteins: „Ef frjór eldisfiskur sleppur upp í á og æxlast við villta stofninn þar, getur sú blöndun haft þau áhrif að stofninn glati hæfni sinni til að takast á við náttúrulegar aðstæður og þannig haft verulega neikvæð áhrif á villta stofninn.“
Áhættumat Hafrannsóknarstofnunar miðar við að fjöldi eldislaxa fari almennt ekki yfir 4% í hverri á og að erfðablöndun verði enn minni. Í því skyni fylgist stofnunin grannt með þeim ám þar sem mikil hætta er á blöndun. Nýlega fékkst styrkur til að setja upp afar fullkominn vöktunarbúnað í Breiðdalsá í Breiðdalsvík: „Verið er að hanna og setja upp fyristöðuþrep með Árvakabúnaði sem allir fiskar fara í gegnum og eru kvikmyndaðir svo í raun er hægt að skoða hvern einasta fisk sem gengur upp ánna.“ Næsta skref er svo að setja upp búnað svo hægt sé að stoppa eldisfiskinn áður en hann kemst alla leið. Þegar fyrir kemur að eldislax finnst í ám er hann erfðagreindur og hægt er að rekja hann til þeirrar kvíar sem hann slapp úr með foreldragreiningu en arfgerð allra klakfiska er þekkt og skrásett. Með nákvæmum upplýsingum sem þessum er hægt að meta áhættuna mun betur og gera viðeigandi ráðstafanir eða breytingar á áhættumati. „Þegar við byrjum á þessu tökum við forsendur sem koma frá öðrum svæðum. Við verðum að byrja einhvers staðar en síðan stillum við okkur af út frá þeim gögnum sem við söfnum. Því meiri upplýsingar sem við höfum því meiri nákvæmni er í því sem við erum að gera,“ segir Þorsteinn.
Tækifæri í kynlausum fiski
Auk þess að framkvæma burðarþols- og áhættumat vinnur Hafrannsóknastofnun einnig náið með innlendum og erlendum aðilum að ýmsum rannsóknum sem tengjast fiskeldi Sú starfsemi fer fram á rannsóknarstöðinni sem Hafrannsóknastofnun heldur úti á Stað í Grindavík, en þar er að finna 50 eldisker af mismunandi stærðum sem telja saman 500m³. Þar er til að mynda að finna hrognkelsaræktun auk ýmissa tilrauna með eldi sjávar- og laxfiska. „Við reynum að varpa ljósi á ýmsa þætti svo sem fóðurnýtingu og vaxtarhraða. Á rannsóknarstöðinni höfum við fullkomna stjórn á hitastigi sjávarins, gott aðgengi að söltu vatni og birtu, þannig að við erum með frábæra aðstöðu þarna til að sinna þessum málaflokki,“ segir Þorsteinn.
Eitt af verkefnum rannsóknarstöðvarinnar er að gera tilraunir með kynlausan fisk sem myndi lágmarka hættuna á erfðablöndun við villta stofna. Til þess er notuð svokölluð genaþöggun þar sem ákveðnum efnum er beitt á hrogn sem hindrar tjáningu þeirra gena sem stýra því hvert kynfrumurnar fara í fisknum. Útkoman er sú að fiskurinn hefur í raun ekkert kyn og verður fyrir vikið ekki kynþroska. Kosturinn við þessa aðferð er að ekki er átt beint við genamengi fisksins og því telst hann óerfðabreyttur. Ef vel tekst til og tilraunirnar gefa góða raun er því möguleiki fyrir hendi að ala fisk við strendur landsins sem litlar sem engar líkur eru á að hafi áhrif á villta stofna. Þá mætti endurskoða áhættumatið og fjölga vaxtartækifærum í sjókvíaeldi til muna án þess að raska umhverfinu.
Það er ljóst að Hafrannsóknastofnun hefur í mörgu að snúast þegar kemur að fiskeldi hér á landi og nýtist þar þekking á fjölmörgum sviðum til að tryggja áframhaldandi þróun iðnaðarins í sátt og samlyndi við náttúruna. En hvert stefnum við í framhaldinu? „Það er alveg sama hvaða málefni við ræðum,“ segir Þorsteinn. „Við stefnum fram á veginn!“
Sjókvíaeldi í Dýrafirði. Ljósmynd: Svanhildur Egilsdóttir, ljósmyndari Hafrannsóknastofnununar.