1 minute read

KÆRU GESTIR

Velkomin á Unglingalandsmót UMFÍ

Unglingalandsmót er í mínum huga ein af þeim bestu upplifunum sem við í fjölskyldunni getum hugsað okkur. Þar höfum við á hverju ári notið þess að vera saman um verslunarmannahelgina, börnin að skemmta sér í íþróttum með vinum sínum og við foreldrarnir hitt kunningjafólk. Þetta eru dýrmætar stundir sem skapa eftirminnilegar minningar fyrir fjölskylduna.

Advertisement

Unglingalandsmótið var fyrst haldið á Dalvík árið 1992. Þetta var nokkuð hefðbundið íþróttamót og þangað mættu íþróttahópar með þjálfurum sínum. Fyrstu árin var mótið ekki haldið um verslunarmannahelgi. Í kringum aldamótin var svo samþykkt á sambandsþingi UMFÍ að halda mótið um verslunarmannahelgi.

Þetta þótti nokkuð djörf hugmynd enda mótið sett inn á mestu ferða- og skemmtunarhelgi ársins, oft tengt neyslu áfengis.

Unglingalandsmót UMFÍ er mótvægi við það, mót án neyslu áfengis og annarra vímuefna. En áhyggjur fólks fuku fljótt út í veður og vind.

Margt hefur vissulega breyst frá því fyrsta mótið var haldið fyrir meira en þrjátíu árum. Unglingalandsmótið er nú orðið að íþróttahátíð fyrir alla fjölskylduna, sem getur fengið að njóta alls þess sem í boði er á mótinu.

Unglingalandsmót UMFÍ er í mínum huga á meðal bestu verkefna UMFÍ, enda hittist þar gríðarlegur fjöldi fólks, sem skemmtir sér saman í keppni og leik, nýtur góðrar tónlistar, útivistar og samveru.

Í mínum huga endurspeglar Unglingalandsmót UMFÍ mjög vel hið gamla og klassíska kjörorð UMFÍ: „Ræktun lýðs og lands“. Það umfaðmar þátttakendur, fangar lýðheilsuna og heilbrigða samveru. Það nær líka til kolefnisjöfnunar mótshaldara. Kolefnisjöfnunin felst í gróðursetningu trjáa og verður gaman að fylgjast með vexti þeirra í framtíðinni. Ég er fullviss um að trjáreitir ungmennafélagsmótanna muni dafna vel í góðri umsjón heimamanna á hverjum mótsstað.

Mikil vinna liggur á bak við hvert Unglingalandsmót og koma margar hendur að því verki. Flestir þeirra eru sjálfboðaliðar og vil ég þakka þeim sérstaklega sem koma að undirbúningi og standa vaktina alla helgina. Án ómetanlegs framlags sjálfboðaliða værum við ekki hér á Sauðárkróki að njóta þessarar veislu sem í boði er. Njótið helgarinnar og góða skemmtun.

Ragnheiður Högnadóttir, formaður framkvæmdastjórnar UMFÍ.

This article is from: