1 minute read
VERIÐ HJARTANLEGA VELKOMIN Í SKAGAFJÖRÐ
Nú í ár fer fram 24. Unglingalandsmót UMFÍ og er þetta í fjórða sinn sem mótið er haldið hér á Sauðárkróki. Unglingalandsmótin hafa fyrir löngu skipað sér sérstakan sess í huga fjölskyldufólks enda um afar skemmtilegan en vímulausan viðburð að ræða þar sem fjölskyldur koma saman og eiga ánægjulegar stundir um verslunarmannahelgina ár hvert. Ungmenni geta tekið þátt í mótinu á eigin forsendum og valið sér bæði hefðbundnar keppnisgreinar eða kynnst og prófað að taka þátt í nýjum og óhefðbundnari greinum.
Íþróttaiðkun er rótgróin í Skagafirði og Ungmennasamband Skagafjarðar, sem er mótshaldari í ár, er á meðal elstu héraðssambanda landsins. Skagafjörður er jafnframt heilsueflandi samfélag og er sveitarfélagið mjög stolt af því að styðja við íþrótta- og frístundaiðkun allra aldurshópa. Þessi áhersla hefur meðal annars skilað sér í afreksíþróttafólki í fremstu röð hér á landi frá þessu ríflega 4.300 íbúa samfélagi. Þar á meðal má
Advertisement
nefna nýkrýnda Íslandsmeistara
Tindastóls í körfubolta karla, glæsilegt lið Tindastóls í efstu deild kvenna í knattspyrnu, frjálsíþrótta- og hestaíþróttafólk í fremstu röð og svo má lengi telja.
Íþróttaiðkun og góð hreyfing snýst þó ekki eingöngu um afreksíþróttir. Almenningsíþróttir og regluleg hreyfing hafa sannað gildi sitt fyrir lýðheilsu Íslendinga, bæði líkamlega og andlega. Unglingalandsmót UMFÍ styður einkar vel við þessa áherslu enda miðast mótin ekki við toppárangur í einstökum greinum heldur er þar leitast við að blandaða saman keppni og kvöldvökum, skemmtun, samveru og útivist.
Á Sauðárkróki er frábær íþróttaaðstaða og nær allar keppnisgreinar á sama svæðinu, glæsileg afþreyinga- og skemmtidagskrá þar sem boðið er upp á frábæra viðburði og greinar til að prófa.
Við í Skagafirði erum afar stolt af aðstöðunni og munum taka vel á móti gestum Unglingalandsmótsins. Heimafólk mun líka leggja sig fram um að tryggja ánægjulega samveru og gleði mótsgesta frá morgni til kvölds um verslunarmannahelgina. Þar munu allir sem leggja af mörkum, finna verkefni við sitt hæfi og á sínum forsendum. Ég óska ykkur öllum ánægjulegrar samveru á Unglingalandsmóti UMFÍ 2023 í Skagafirði.
Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar