7 minute read

Hýrorðalisti

Um þessar mundir er að eiga sér stað öflug nýyrðasmíð í íslensku til þess að ná utan um ensk orð og hinsegin hugtök. Stúdentablaðið tók saman nokkur lykilhugtök sem vert er að kynna sér, en sum þeirra birtast til að mynda í greinum blaðsins. Orðalisti þessi er unninn upp úr vef Samtakanna ‘78, Hinsegin frá Ö til A, og er alls ekki tæmandi. Fleiri hugtök og skilgreiningar má finna á vefnum otila.is. Við bendum einnig á orðalista Trans Ísland, fyrir þau sem vilja læra meira um hýryrði, en hann er aðgengilegur á transisland.is/ordalisti.

Gagnkynhneigðarhyggja: Gagnkynhneigðarhyggja er kerfi hugmynda sem meðvitað eða ómeðvitað setur fólk sem ekki er gagnkynhneigt skör lægra en það sem er gagnkynhneigt.

Advertisement

Bleikþvottur: Lýsir því hvernig þjóðríki og fyrirtæki nota hinsegin fólk og málefni þeirra til að skapa sér jákvæða ímynd.

Hinsegin: Regnhlífarhugtak yfir allt það fólk sem er ekki gagnkynhneigt og/eða fellur ekki inn í það sem teljast hefðbundinð kyn eða kynhlutverk.

Jaðarsetning: Jaðarsetning er ferli þar sem tilteknum hópum samfélagsins er ýtt út á jaðar þess. Þessir hópar hafa þá ekki jafn greiðan aðgang að völdum, upplýsingum, menntun og virðingu í samfélaginu.

Kvár: Fullorðin manneskja sem skilgreinir sig utan tvíhyggjunnar; kynhlutlaust orð sambærilegt orðunum karl og kona.

Kyn og kyngervi: Kyn og kyngervi eru lykilhugtök bæði innan hinseginfræða og kynjafræða. Í þessum fræðum þykir oft gagnlegt að greina á milli líffræðilegs kyns annars vegar, sem þá er einfaldlega nefnt kyn (e. sex), og hins vegar félagslega mótað kyns, sem þá er nefnt kyngervi (e. gender). Í almennu talmáli hérlendis vísar þó kyn oftast bæði til kyns og kyngervis.

Kynjatvíhyggja: Sú hugmynd um að fólk sé annaðhvort kvenkyns eða karlkyns.

Óhinsegin: Kemur fyrir í þessu tölublaði og lýsir þeim sem ekki skilgreina sig sem hinsegin, s.s. gagnkynhneigðu fólki sem skilgreinir sig út frá því kyni sem þeim var úthlutað við fæðingu (sískynja).

Regnbogakapítalismi: Þegar fyrirtæki nota regnbogann og önnur tákn hinsegin samfélagsins í markaðslegum tilgangi, án þess að taka þátt í hinsegin samfélaginu á merkingarbæran hátt, t.d. með virkri baráttu gegn fordómum og misrétti eða fjárhagslegum stuðningi við hinsegin samtök.

Síshyggja (transfóbía): Síshyggja er kerfi hugmynda sem setur trans fólk skör lægra en sís fólk.

Öráreitni: Öráreitni er hugtak sem notað er yfir hversdagslegar athafnir, athugasemdir eða umhverfisþætti sem eru niðrandi eða niðurlægjandi fyrir fólk sem tilheyrir jaðarsettum hópum og eiga sinn þátt í jaðarsetningu þess. Hver athöfn, umhverfisþáttur eða athugasemd er ef til vill ekki stórvægileg ein og sér en þegar jaðarsett fólk finnur fyrir slíku reglulega, jafnvel daglega, eykur það álagið sem það verður fyrir samfélagsstöðu sinnar vegna og gerir jaðarstöðuna áþreifanlega.

Transútilokandi femínismi (TERF): TERF-ismi (Trans Exclusionary Radical Feminist) kennir sig við femínisma en hann snýst um það að transkonur búi aðyfir forréttindum karlmanna, þekki ekki kúgun kvenna af eigin raun og eigi þar með ekki erindi hvað réttindabaráttu kvenna varðar. TERF-ismi gengur út frá því að trans konur séu í raun að ráðast inn á svæði kvenna og styrki með því feðraveldið.

KYNHNEIGÐ* - Til eru mun fleiri kynhneigðir sem hægt er að kynna sér betur á vef Hinsegin frá Ö til A, otila.is.

Gagnkynhneigð: Að laðast að gagnstæðu kyni; karl laðast að konu og öfugt. Athugið að þetta orð er litað af þeirri hugmynd að kynin séu einungis tvö og gagnstæð hvort öðru.

Samkynhneigð: Að laðast að sama kyni og man sjálft tilheyrir; hommi er samkynhneigður karlmaður og lesbía er samkynhneigð kona.

Tvíkynhneigð: Að laðast að fleiri en einu kyni. Upprunalega átti hugtakið við um fólk sem laðast bæði að körlum og konum, en það getur einnig átt við um t.d. karl sem laðast bæði að konum og trans fólki sem skilgreinir sig utan kynjatvíhyggjunnar.

Pankynhneigð: Að laðast að öllum kynjum; konum, körlum og fólki af öðrum kynjum. Athugið að hugtakið á ekki endilega við um að pankynhneigt fólk laðist jafnt að öllum kynjum, heldur einfaldlega þann eiginleika að geta hrifist af öllum kynjum. Forskeytið pan- á rætur sínar að rekja til gríska orðsins pâs, sem merkir allt.

Eikynhneigð: Að laðast sjaldan eða aldrei kynferðislega að öðru fólki. Sumt eikynhneigt fólk hefur kynhvöt en hefur ekki áhuga á að fullnægja henni með öðru fólki; annað eikynhneigt fólk hefur litla eða enga kynhvöt. Sumt eikynhneigt fólk hefur einvörðungu áhuga á rómantískum samböndum og/eða ókynferðislegri snertingu (t.d. faðmlögum og kúri). Fólk sem hefur ekki áhuga á rómantískum samböndum telst eirómantískt. Annar undirflokkur eikynhneigðar er grá eikynhneigð, og vísar til þess að sumt fólk upplifir kynferðislega aðlöðun sem róf, ekki annaðhvort/eða. Grá-eikynhneigt fólk staðsetur sig nálægt eikynhneigð á þessu rófi, og finnur því til lítillar kynferðislegrar aðlöðunar.

KYNVITUND OG KYNTJÁNING

Kynvitund: Það hvernig fólk vill lifa og hrærast í sínu kyni. Athugið að kynvitund vísar ekki til kynfæra, líffræði eða útlits heldur upplifunar fólks af eigin kyni. Við búum öll yfir kynvitund, því öll upplifum við kyn okkar á einhvern hátt.

Sískynja: Kynvitund samræmist því kyni sem viðkomandi var úthlutað við fæðingu. Sem dæmi má nefna að sís karlmaður er karlmaður sem var úthlutað kyninu strákur við fæðingu, og er sáttur við það.

Trans: Regnhlífarhugtak fyrir fólk sem er með kynvitund sem samræmist ekki því kyni sem því var úthlutað við fæðingu. Undir trans regnhlífina falla trans karlar og trans konur, fólk sem fer í kynleiðréttingaraðgerðir, fólk sem fer ekki í kynleiðréttingaraðgerðir og kynsegin fólk.

Kynsegin: Hugtak sem nær yfir allt fólk sem skilgreinir kyn sitt utan kynjatvíhyggjunnar, og er því líka trans. Sumt kynsegin fólk upplifir sig sem bæði karl- og kvenkyns, annað fólk sem hvorki karl- né kvenkyns, og enn annað fólk skilgreinir einfaldlega ekki kyn sitt.

Kynleiðrétting: Ferli sem sumt trans fólk fer í gegnum til þess að leiðrétta kyn sitt. Kynleiðrétting getur falið í sér hormónainntöku, brjóstnám og/eða aðgerðir á kynfærum. Kynleiðrétting á ekki eingöngu við um skurðaðgerðir. Sumt trans fólk fer eingöngu á hormóna en sleppir öllum aðgerðum, annað fólk fer í aðgerðir eins og brjóstnám en sleppir öðrum þáttum kynleiðréttingar. Fólk getur verið trans hvort sem það kýs að fara í kynleiðréttingarferli eða ekki.

Kynhlutlaus persónufornöfn: Sumt kynsegin fólk kýs að nota kynhlutlaus persónufornöfn í stað kynjuðu fornafnanna hann/hún. Íslenska hefur þrjú kyn, en hlutlausa fornafnið það er almennt ekki notað um manneskjur. Því hafa kynhlutlaus persónufornöfn nýlega orðið til í tungumálinu, hán, hé og hín. Fallbeyging fornafnsins hán er sem fylgir: hán, hán, háni, háns.

Athugið að hán er ekki nafnorð (sbr. „er þessi svona hán?“), heldur fornafn sem tekur með sér hvorugkyn. Eftirfarandi eru nokkur dæmi um fornafnið hán í setningu: „Er hán að koma?”; „Hán er svo fallegt”; „Ég fékk lánaða bókina háns”.

Kyntjáning: Á við um það hvernig fólk tjáir kynvitund sína dagsdaglega, til dæmis með klæðavali og líkamstjáningu. Sumt fólk tjáir kyn sitt á óhefðbundinn hátt, með því að vera með skegg og á háum hælum, á meðan kyntjáning annarra einkennist af norminu (gagnkynhneigðri, sískynja kyntjáningu).

Kynami: Orð yfir þá tilfinningu sem skapast þegar kynvitund einstaklings stangast á við líkamleg kyneinkenni. Þessari tilfinningu fylgir oft mikil vanlíðan og aftenging einstaklings við líkama sinn.

INTERSEX

Intersex: Intersex er hugtak sem, eins og kemur fram á vef samtakanna Intersex Ísland: „nær yfir breitt svið af meðfæddum líkamlegum einkennum eða breytileika sem liggja á milli okkar stöðluðu hugmynda um karl- og kvenkyn. Intersex einstaklingar fæðast með einkenni sem eru ekki algjörlega karl- eða kvenkyns; sem eru sambland af karl- og kvenkyns; eða sem eru hvorki karl- né kvenkyns.“

This article is from: