
4 minute read
Orðin þín - líðan mín: Að nýta forréttindi sín til góðs
Qvað felst í forréttindum?
Forréttindi eru forskot og réttindi sem fólk hefur vegna stöðu sinnar í samfélaginu. Forréttindi flestra eru marglaga og tvinnast saman á margbreytilegan hátt. Forréttindi á einu sviði útiloka ekki jaðarsetningu á öðru sviði en samtvinnun þessara þátta mótar hvernig við sjáum heiminn og hvernig heimurinn sér okkur. Forréttindastaða hefur þannig áhrif á það hvernig við sem einstaklingar upplifum samfélagið í kringum okkur, hvar við erum velkomin og hvernig komið er fram við okkur. Flest jaðarsett fólk er meðvitað um þau forréttindi sem það hefur og er því líklegra til að vera vakandi fyrir þeim og sýna samstöðu með öðru jaðarsettu fólki. Þeim mun meiri forréttindi sem einstaklingur hefur, þeim mun auðveldara er að gleyma - eða hunsa - jaðarsetningu annarra.
Advertisement
CheQ your privilege
Það er mikilvægt að vera meðvituð um eigin forréttindastöðu. Þá fyrst er hægt að hjálpa og vera til staðar fyrir jaðarsett fólk. Hjálpin felst fyrst og fremst í að hlusta á og trúa því þegar fólk lýsir upplifunum sínum af því misrétti sem það mætir í samfélaginu. Jaðarsett fólk hefur stundað það lengi vel að fylgjast með grasrótarhreyfingum annarra jaðarsettra hópa og sýnir stuðning í verki og virðingu. ,,Ekkert okkar er frjálst fyrr en við erum öll frjáls“ ber einmitt þennan boðskap. Jaðarsett fólk styður annað jaðarsett fólk og nýtir til þess þau forréttindi sem þau hafa umfram hvort annað á ólíkum stöðum.
Hinsegin fólk á ekki alltaf að þurfa að taka slaginn þegar það mætir fordómum, hatri og ofbeldi. Þá er mikilvægt að til staðar sé óhinsegin fólk sem er tilbúið að taka upp hanskann. Í því að fylgjast með eigin forréttindastöðu felst að fylgjast með jaðarsetningu fólks í kringum okkur, bera kennsl á og viðurkenna það misrétti sem það þarf að þola á hverjum degi. Þá fyrst er hægt að vinna að því að bæta stöðuna.
Qver er vandinn?
Vandinn er í raun sá að of margt fólk lítur á Ísland sem jafnréttisparadís og sem hinsegin paradís. Sú er ekki raunin og við þurfum ekki að leita langt til að finna vísbendingar um það. Hinsegin fólk hefur flest heyrt óhinsegin fólk og annað fólk í forréttindastöðu segja eitthvað í þá átt að það sé svo erfitt að vera að „segja alltaf réttu hlutina“ og að „það megi nú ekkert lengur“. Það sem fólk er í raun að upplifa er það að jaðarsett fólk hefur sett mörk og að fólk í forréttindastöðu þarf að mæta afleiðingum orða sinna. Það hefur aldrei verið í lagi að beita hatursorðræðu, það var bara mun auðveldara að komast upp með það áður.
Er það samt of mikið á fólk lagt að tala um og við jaðarsett fólk af virðingu? Þetta snýst um að tileinka sér orðræðu sem er inngildandi því öll eiga rétt á að fá pláss í tungumálinu. Margt fólk í forréttindastöðu leggur ekki á sig að læra að nota önnur fornöfn en „hann“ og „hún“ um einstaklinga, sem sýnir mikla vanvirðingu og er lítillækkandi fyrir kynsegin fólk sem notar fornöfn eins og „hán“, „héð“ og „hín“. Fólk myndi seint samþykkja það ef nafn þess yrði ítrekað hunsað og hvert og eitt myndi sjálft ákveða hvaða nafn þau nota um fólk í kringum sig. Hvers vegna er það þá í lagi gagnvart hinsegin fólki? Með því að miskynja fólk er verið að hunsa sjálfsskilgreiningar þess og smætta tilvist þeirra. Hinsegin fólk (og eflaust mörg ykkar lesenda líka) heyrir allt of oft niðrandi hugtök í daglegu tali hjá óhinsegin fólki. Þessi orðanotkun verður sérstaklega áberandi hjá unglingum og börnum, sem heyra hana sjálf frá foreldrum sínum og öðru fólki í kringum sig. Þetta á ekki bara við þegar kemur að hinseginleika heldur líka orðræðu sem á við um aðra jaðarsetta hópa, sérstaklega fatlað fólk og svart fólk. Notkun þessara hugtaka er mjög særandi og getur gert það að verkum að fólk velur að koma ekki út í óöruggu rými eða fela hinseginleika sinn.
Stjórn Q–félags hinsegin stúdenta

Mynd: Regn Sólmundur Evu (hán/háns - they/them)