
5 minute read
Hugleiðing um hán
Birgitta Björg Guðmarsdóttir
Tungumálið teygist um góminn. Tungan stritar allan daginn við að mynda orð, hún lyftist inn undir tennurnar, færist ögn framar en hverfur síðan aftur innundir góminn. En auðvitað er það ekki aðeins tungan sem starfar við myndun tungumáls. Raddböndin eru iðulega mikilvægur þáttur, sem og úfurinn, varirnar og tennurnar. Ekki má gleyma huganum. Verkfærið sem mótar tungumálið hvað mest er nokkuð óáþreifanlegt – og enn fremur óáreiðanlegt.
Advertisement
Okkur hættir til að hugsa um tungumálið eins og það sé óhagganlegt. Eitthvað sem er óhvikult og þangað getum við alltaf leitað að réttum svörum. Það er góð og auðveld tilhugsun. En raunin er sú að tungumál eru breytileg. Tungumál eru í eðli sínu flæðandi, skapandi, í þeim felst gleymska, - tungumálið er gatasigti. Það fer í gegnum stöðug hamskipti – og ein slík eiga sér stað einmitt nú.
Eflaust hryllti mörgum fræðimönnum við þá hugmynd að opna lokaðan orðflokk áður en það var gert, en síðan fornafnið „hán“ var tekið inn í málið hefur ýmislegt gerst. Málnotendur eru mun meðvitaðri um kynjun tungumálsins.
Þeir hugsa sig tvisvar um áður en þeir segja „allir“, því þeir átta sig á því að karllæg óákveðin fornöfn séu ef til vill útilokandi eða aðrandi, og kjósa því jafnvel að nota „öll“ þó það hljómi skringilega í munninum.
Ef til vill eru málnotendur einnig meðvitaðri um málvitund sína almennt. Íslenskan er á reiki, kyn orða eru ekki jafn meitluð í stein, til að mynda hef ég heyrt á síðustu dögum beyginguna stúdentur – orð sem samkvæmt hefð er karlkynsorð en var á þennan hátt notað í kvenkyni – ekki til þess að lýsa kvenkyns stúdentum – heldur stúdentum almennt. Þá heyrði ég einnig dæmi um að karlmaður hafi notað orðið vinkonur til að lýsa vinasambandi síns og konu, sem og mörg dæmi þar sem viðskeytinu af orðinu vinur hefur verið sleppt og orðmyndin vin notað yfir einstaklinga sem skilgreina sig utan hefðbundinnar kynjatvíhyggju, og nota þá ef til vill fornafnið „hán“.
Önnur kynhlutlaus fornöfn eru til, og má nefna til dæmis „það“, „hé“ og „hín“, en „hán“ virðist vera hvað útbreiddast. Það þykir eflaust, vegna þess hve líkt það er fornöfnunum „hún“ og „hann“ og virðist falla einhvers staðar þar á milli. En þar liggur einnig vandi því „hán“ á það til að renna saman við „hann“ í daglegu tali, enda eru fornöfn sjaldan áhersluorð í setningum. Við styttum þau og klippum gjarnan h‘-ið af þeim, segjum ‘ún fór útí búð eða ‘ann fór í bankann. Við viljum gera slíkt hið sama við „hán“ en þá er hætta á að ‘án fór í bankann verði of keimlíkt ‘ann fór í bankann og þá eigum við á hættu að miskynja þvert á vilja okkar eða þá að annað fólk taki „hán“ í misgripum fyrir „hann“.
Til að sporna við þessu þyrftum við þá að leggja aukna áherslu á „hán“ en það getur líka orkað aðrandi, þar sem við drögum þá fram nýstárleika og annarleika orðsins. Ef þetta gerist síðan ítrekað eigum við á hættu að verða hrædd eða gröm yfir notkun þessa orðs, en það má alls ekki gerast, ef við viljum vinna áfram að því að gera tungumálið að vettvangi jafnréttis. Í staðinn þurfum við að streitast með því í gegnum þessar breytingar - hamskipti eru óþægilegt og jafnvel sársaukafullt ferli, en þau eru nauðsynleg og lærdómsrík.
Þýska er álíka karllægt tungumál og íslenska. Tungumálið er mjög kynjað og eru öll starfsheiti gjarnan fyrst mynduð í karlkyni. Þar er þó einnig ríkjandi málstefna að fyrir hvert starfsheiti þurfi að vera sambærilegt orð í kvenkyni og því hefur því vandræðalega -in viðskeyti verið bætt aftan við flest þessara orða. Lehrer verður þá Lehrerin, Maler verður þá Malerin og Schauspieler verður Schauspielerin. Ljóst er að þess konar hugarfar tilheyrir hugmyndafræði sem gerir ráð fyrir því að konan sé jöfn manninum og að þessi hugmyndafræði þurfi að eiga sér forsendur í regluverki samfélagsins en gerir ekki ráð fyrir tilvist kynsegin fólks. Þar með hefur þýskan málað sig út í horn. Til að koma sér úr þessu klandri þyrftu þýskumælandi þar með annað hvort að finna upp nýtt viðskeyti eða þá sætta sig við að karlkynið sé hvorugkyn og hverfa aftur til hins alhæfða karllæga starfsheitis.
Vert er að taka fram að ekki eru forsendur fyrir því í þessum pistli að rekja allt sem breyst hefur síðan fornafnið var tekið upp, því slíkt er efni í doktorsritgerð og ekki hægt að gera því greinargóð skil í litlum átta hundruð orðum. Hán er orð sem gætt hefur verið töfrum. Það hefur og mun hafa stórkostleg áhrif á íslenska tungu.
Haft er eftir Eiríki Rögnvaldssyni: til hvers er tungumál sem þjónar ekki málnotendum þess? Þetta er góð speki til að byggja málstefnu á. Og að sama skapi má spyrja: Til hvers er hús sem þú kemst ekki inn í? Til hvers er flík sem passar þér ekki? Hugmyndin um að líkamar þurfi að breytast til að passa inn í umgjarðir sem búnar eru til handa þeim er úrelt og úrkynjuð. Þú stækkar inngang hússins. Þú víkkar flíkina eða þrengir. Því er eins háttað með tungumálið. Ef það getur ekki náð utanum alla sína málnotendur svo þeir geti beitt því og liðið vel í eigin skinni, þá þarf að breyta því.