Birgitta Björg Guðmarsdóttir Tungumálið teygist um góminn. Tungan stritar allan daginn við að mynda orð, hún lyftist inn undir tennurnar, færist ögn framar en hverfur síðan aftur innundir góminn. En auðvitað er það ekki aðeins tungan sem starfar við myndun tungumáls. Raddböndin eru iðulega mikilvægur þáttur, sem og úfurinn, varirnar og tennurnar. Ekki má gleyma huganum. Verkfærið sem mótar tungumálið hvað mest er nokkuð óáþreifanlegt – og enn fremur óáreiðanlegt. Okkur hættir til að hugsa um tungumálið eins og það sé óhagganlegt. Eitthvað sem er óhvikult og þangað getum við alltaf leitað að réttum svörum. Það er góð og auðveld tilhugsun. En raunin er sú að tungumál eru breytileg. Tungumál eru í eðli sínu flæðandi, skapandi, í þeim felst gleymska, - tungumálið er gatasigti. Það fer í gegnum stöðug hamskipti – og ein slík eiga sér stað einmitt nú. Eflaust hryllti mörgum fræðimönnum við þá hugmynd að opna lokaðan orðflokk áður en það var gert, en síðan fornafnið „hán“ var tekið inn í málið hefur ýmislegt gerst. Málnotendur eru mun meðvitaðri um kynjun tungumálsins.
Þeir hugsa sig tvisvar um áður en þeir segja „allir“, því þeir átta sig á því að karllæg óákveðin fornöfn séu ef til vill útilokandi eða aðrandi, og kjósa því jafnvel að nota „öll“ þó það hljómi skringilega í munninum. Ef til vill eru málnotendur einnig meðvitaðri um málvitund sína almennt. Íslenskan er á reiki, kyn orða eru ekki jafn meitluð í stein, til að mynda hef ég heyrt á síðustu dögum beyginguna stúdentur – orð sem samkvæmt hefð er karlkynsorð en var á þennan hátt notað í kvenkyni – ekki til þess að lýsa kvenkyns stúdentum – heldur stúdentum almennt. Þá heyrði ég einnig dæmi um að karlmaður hafi notað orðið vinkonur til að lýsa vinasambandi síns og konu, sem og mörg dæmi þar sem viðskeytinu af orðinu vinur hefur verið sleppt og orðmyndin vin notað yfir einstaklinga sem skilgreina sig utan hefðbundinnar kynjatvíhyggju, og nota þá ef til vill fornafnið „hán“.