
3 minute read
Hinsegin list
Samantha Louise Cone (she/her)
Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að tala við listafólk sem tók þátt í hinsegin listamarkaði Q–félagsins, félagi hinsegin stúdenta, og ræða það hvað list þýðir fyrir þeim, hvernig þau nýta sér hana, og hvað gerir hinsegin list hinsegin. Á heimasíðu Stúdentablaðsins er að finna lengri útgáfu af þessari umfjöllun, ásamt myndum, nánari upplýsingum um listafólkið auk hlekkja að samfélagsmiðlum þeirra og heimasíðna. Spurningarnar sem ég lagði fyrir listafólkið voru víðtækar en það var gjarnan samhljómur í svörunum - tenging listafólksins við list tengdist oft samfélagi, tengingu, viðurkenningu og öryggi. Ég tók sérstaklega eftir hlýju viðmóti allra viðmælenda minna, og þau áttu það sameiginlegt að íhuga svör sín vel og vandlega. Ástríða þeirra skein í gegnum svörin sem mér voru gefin, ástríða sem teygir anga sína lengra en til listarinnar sjálfar og snertir á tilgangi listarinnar, því hvernig hún getur hreyft við fólki og stuðlað að breytingum.
Advertisement

Émilie Colliar
Instagram: @bloodsweattyr
Flest samþykkti listafólkið að hinsegin list þurfi ekki að einblína á hinsegin málefni, og að hún sé í eðli sínu hinsegin - það að listin sé sköpuð af hinsegin manneskju, með hinsegin sjónarhorn á heiminn, er það sem gerir listina hinsegin. List endurspeglar jú alltaf þá manneskju sem skapar hana, og listafólk setur svip sinn á list sína með sínum hætti. Nokkur sem ég ræddi við svöruðu þessari spurningu á nákvæmari hátt; að hinsegin list sneri oft að samfélaginu og væri verkfæri til að skilja heiminn betur og útvíkka hugtök eins og kynvitund og kynhneigð.

Nireu
Instagram: @_nireu_
Það sem mér fannst einna áhugaverðast var að þó að fólk sammældist ekki alltaf um skilgreininguna á hinsegin list voru svör allra einróma hvað varðar tilgang og mikilvægi hinsegin viðburða. Viðburðir eins og listamarkaður Q– félagsins í sumar gegnir því mikilvæga hlutverki að stuðla að einingu, tryggja að öllum viðstöddum líði eins og þau tilheyri, séu samþykkt eins og þau og séu í öruggu rými. Þessi gildi, að tilheyra og upplifa öryggi og samþykki eru byggingareiningar sem styðja við samfélagið og listsköpun og skapa vettvang fyrir sjálfstjáningu. Stuðningur getur tekið á sig ýmis form, og þó að skýrasta mynd hans sé að styðja fjárhagslega við hinsegin listafólk, lögðu flest þau sem ég ræddi við mesta áherslu á sammannlegu þættina sem eru til staðar á viðburðum eins og listamarkaðnum: sjálfstjáningu og þróun samfélags þar sem öll mega vera þau sjálf, sem er því miður ekki alltaf í boði eins og staðan er í dag.

Hannah Armada
Instagram: @thatgrumpyasian
Það er kýrskýrt eftir samtöl mín við listafólk Q–markaðsins hversu mikilvægir hinsegin viðburðir eru til þess að hlúa að fjölbreyttara samfélagi; að gefa listamönnum, -konum og -kvárum rými til þess að kanna tilveru sína, sjálfsmynd og reynslu í gegnum listina sína, sem á móti gerir öðru fólki kleift að spegla sig í listinni og hugsa um sína eigin reynslu og upplifun. List er djúpur og persónulegur vettvangur, og að tala um list, sjálfstjáningu og samfélagsgildi við þennan hóp listafólks var einstök og auðmýkjandi upplifun. Ég óska þeim öllum góðs gengis með listsköpun sína - man heyrir oft að mynd segi meira en þúsund orð, og ég mæli eindregið með því að öll skoði Instagramaðganga og vefsíður listafólksins og leyfi listinni að tala til sín. Q–félagið hyggst endurtaka leikinn næsta sumar og ég hvet öll eindregið til þess að hafa augun opin fyrir næsta listamarkaði.