6 minute read

Sódóma, 3. Mósebók og rökvillan í hómófóbískri túlkun Biblíunnar

Maicol Cipriani (hann/hans) & Lísa Margrét Gunnarsdóttir (hún/hennar)

Ljóðræn pílagrímsferð Dante Alighieri í gegnum eftirlífið lýsir sjöunda hring helvítis og þeim týndu sálum sem gerðust sekar um saurlifnað sem stríðir gegn náttúru mannsins. Í helvíti snúast hlutirnir við og náttúran stríðir gegn þeim, og þær eru dæmdar til þess að hlaupa stefnulaust með logandi sand undir iljum sínum á meðan eldi rignir af himnum ofan. Þessi eilífa refsing er skírskotun í gjöreyðingu Sódómu og Gómorru sem lýst er í Mósebók.

Advertisement

Í Biblíunni segir frá því þegar Guð tilkynnir Abraham áætlanir sínar um að útrýma Sódómu og Gómorru vegna ófyrirgefanlegra synda þeirra. Guð minntist hins vegar ekki á hvaða syndir íbúar þessara bæja hefðu framið til þess að eiga þau örlög skilið. Abraham og Guð gerðu í framhaldi samning; Guð samþykkti að hlífa borgunum tveimur ef hægt væri að ganga úr skugga um að að minnsta kosti 10 manns væru syndlausir. Tveir englar í mannslíki voru sendir til Sódómu þar sem maður að nafni Lot tók þeim opnum örmum og bauð þeim heim til sín. Hins vegar umkringdi múgur borgarbúa húsið og hvatti Lot til að færa þeim gesti sína svo þeir gætu nauðgað þeim. Englarnir sögðu Lot og fjölskyldu hans að þau væru einu réttsýnu íbúar borgarinnar og að þeim bæri að yfirgefa heimaborg sína samstundis. Brennisteini rigndi yfir Sódómu og Gómorru í framhaldi af því. Englarnir vöruðu Lot við því að líta til baka á meðan þeir flýðu glötun. Hins vegar freistaðist eiginkona Lots til að líta til baka og breyttist í saltstólpa.

Sagan um Sódómu hefur í aldaraðir verið notuð til þess að réttlæta þá stefnu kristinnar trúar að samkynhneigð sé synd (peccatum Sodomiticum). Í verki sínu Summa Theologiae lýsir heilagur Thomas Aquinas (1225-1274) því hvernig sódóma (e. sodomy) sé synd sem stríði gegn náttúrunni (peccata contra naturam). Hann skilgreinir sódómu sem samkynja kynlíf, maður með manni og konu með konu, og syndin sem Dante lýsir í sjöunda hring helvítis er að einhverju leyti byggð á skilgreiningu Thomasar á hugtakinu sódóma. Ef við lítum til dagsins í dag, sjáum við enn dæmi um það að kristnar kirkjur viðurkenni ekki samkynhneigð.

Ef við lítum til sjálfrar Biblíunnar og rökfærslu kirkjunnar hvað varðar gjöreyðingu Sódómu og Gómorru vegna samkynhneigðar, stenst það ekki skoðun ef vel er að gáð. Í fyrsta lagi ákvað Guð að útrýma Sódómu og Gómorru löngu áður en englarnir voru sendir til Sódómu og þegar hann tilkynnti Abraham um áform sín minntist hann ekkert á samkynhneigð. Í öðru lagi vildu menn Sódómu ekki eiga í samkynhneigðu ástarsambandi við englana, þeir vildu nauðga þeim. Það er allt annar hlutur. Ennfremur, samkvæmt sumum nútímatúlkunum, var Guð reiður vegna ógestrisni íbúanna en ekki samkynhneigð þeirra. Dante skilgreindi sjöunda hring helvítis á tíma þar sem guðfræðileg hugsun miðalda var allsráðandi, og fleygði sódómítum dýpst í sjöunda hring helvítis. Verra verður það varla. Á hinn bóginn kom Dante fram við sódómítana af meiri virðingu en nokkurn annan syndara. Hann sýndi þeim kurteisi og jafnvel væntumþykju. Meðal sódómítanna rakst Dante á læriföður sinn Brunetto Latini. Dante var hissa á að sjá hann þarna og spurði hann: „Ert þetta virkilega þú hérna, Ser Brunetto? ("Siete voi qui, ser Brunetto?") Í þessum hluta frásagnarljóðs síns vottaði Dante Brunetto virðingu sína með því að heiðra hann og kynna hann sem föðurímynd. Brunetto kallaði Dante „Ó, sonur minn.“ Dante ræddi við Brunetto á rökfræðilegum nótum, ekki guðfræðilegum. Á dögum Dantes, þar sem samkynhneigð var álitin alvarleg synd af hálfu kirkjuyfirvalda, var hún ekki litin jafn hörðum augum hvað varðar borgaraleg lög. Hins vegar byrjaði guðfræðileg mótun sódómssyndarinnar að hafa mikil áhrif á siðferðislegar skoðanir almennings, og síðar var hörðum refsingum beitt þegar samkynhneigð var annars vegar.

Saga kristinnar hefðar er afdráttarlaus hvað varðar gagnkynhneigðarhyggju, og lofar eingöngu kynlíf milli karls og konu, innan hjónabands, þar sem typpi fer inn í leggöng. Allar aðrar tegundir kynferðislegra athafna eins og kynlíf þar sem serðing kemur ekki við sögu, sjálfsfróun, munnmök og samkynja kynlíf, hafa verið álitnar syndsamlegar og skilgreindar sem „sódóma“.

Mósebók (Leviticus 18:22) hefur einkum verið notuð sem rökstuðningur gegn réttmæti samkynhneigðar, þar sem stendur: „Þú skalt ekki liggja með karlmanni eins og með konu, það er viðurstyggð“. Hins vegar hafa nýlegar rannsóknir á þessu tiltekna versi Gamla testamentisins sett stórt spurningarmerki við þýðingu Leviticusar. Málfræðingurinn K. Renato Lings hefur til dæmis varpað ljósi á það hversu flókinn hebreski frumtextinn er, og bent á að til að þýða hann á nútímamál sé nauðsynlegt að skoða samhengið sem versið er skrifað í. Þegar Lings lítur á kaflann í 3. Mósebók segir Lings að hann „fjalli um ýmis óæskileg kynferðisleg sambönd: að giftast tveimur systrum (18:18), samræði við konu á tíðablæðingum (18:19), framhjáhald (18:20), og að leggjast með dýrum (18:23).“ Þar ber líka að nefna að mestöllum hluta 3. Mósebókar 18 er varið í að fjalla um sifjaspell. Málvísindarannsókn Lings færir rök fyrir því að Leviticus 18:22 sé áframhaldandi umfjöllun um sifjaspell. Samkvæmt Lings er nákvæmari þýðing á vísunni eitthvað á þessa leið: „Kynmök við náinn karlkyns ættingja ættu að vera þér jafn viðurstyggileg og sifjaspell við kvenkyns ættingja.“

Stuttar og hómófóbískar túlkanir og þýðingar á upprunalega hebreska textanum í Biblíunni standa einfaldlega ekki traustum fótum. Þegar túlkun Biblíunnar er annars vegar er mikilvægt að lesa guðfræðilegar útskýringar með söguna og hefðina á bak við textann til hliðsjónar, í stað þess að trúa í blindni á ritningu sem er upprunnin úr mjög ólíku samfélagslegu umhverfi og hefur verið þýdd aftur og aftur í gegnum aldirnar. Að hengja sig á kafla úr Gamla testamentinu og vopnvæða til þess að úthýsa samkynhneigð er óásættanlegt, því ef kristin trú á að eiga erindi við nútímann verður að setja hana í nútímalegt samhengi. Kristin trú getur og ætti að vera hinsegin - er ekki Nýja testamentið til staðar, eftir allt saman, til þess að taka við af Gamla testamentinu, og er kjarni kristinnar trúar ekki falinn í einingu og kærleika í garð alls mannkyns?

This article is from: