
8 minute read
Pride og fordómar: Saga sem læra ber af
Dino Ðula (hann/hans)
Ást. Jafnrétti. Stolt.
Advertisement
Þessi orð koma gjarnan upp í hugann þegar fylgst er með árlega viðburðinum sem snýst um að fagna því hver man er og hvern man elskar - Pride. Þau sem ganga, hins vegar, hafa ekki alveg sömu að segja. Á bak við Pride, sem fyrir mörgum er skrúðganga, er löng saga sem varðar réttinn til þess að vera man sjálft, og sjálfan tilveruréttinn. Saga sem á rætur sínar að rekja meira en fimmtíu ár aftur í tímann, og byrjaði með áhlaupi lögreglu.
Heimsins fyrsta Pride var viðburður sem átti sér stað þann 28. júní árið 1970, haldinn til þess að minnast viðburða ársins á undan - Stonewall uppþotinu. Þó að Ísland hreyki sér af því að vera fremst í flokki jafnréttis, liðu fimm löng ár þar til umhræringar í Bandaríkjunum náðu alla leið til Íslands.
„Sumir hafa kallað það viðtal aldarinnar. Það var birt þann 1. ágúst árið 1975 í tímaritinu Samúel,“ segir Hörður Torfason er hann rifjar upp daginn þar sem þrjú orð hófu atburðarás sem breyttu lífi hans til frambúðar, og vöktu upp samtal á landsvísu. Á þessum tímapunkti, sem íslenskur aðgerðasinni og þekktur trúbador, kom Hörður út úr skápnum og varð fyrsti yfirlýsti hommi Íslands, sem olli því að hann varð að skotspóni hatursorðræðu og fordóma.
„Þetta olli þvílíkum usla í öllu samfélaginu. Ég gekk kannski einn niður Laugaveginn og lenti í því að fólk hrækti framan í mig, kallaði mig nöfnuðum og hótaði mér, þetta var á árunum ‘75, ‘76. Ofbeldishneigt fólk að segja mér hvernig ég ætti að hegða mér, hugsa, klæða mig… en ég var ekki hræddur við það - ég bauð þessu fólki birginn.“
Næstu ár á eftir reyndust Herði erfið, sem fór af landi brott í skamman tíma, þjakaður myrkum hugsunum, þangað til hann áttaði sig á að hann hefði stærra hlutverki að gegna í þessari umræðu. Hann sneri aftur heim til þess að berjast fyrir réttindum samkynhneigðra, og kom að því að stofna Samtökin ‘78, hagsmunafélag hinsegin fólks á Íslandi. Hann lýsir sér þó fyrst og fremst sem skemmtikrafti, og lífi sínu sem leikriti. Leiðir hans og samtakanna skildu fljótlega og hann eyddi næstu 30 árum í að ferðast umhverfis Ísland og koma fram í bæjum og þorpum fyrir þau fáu sem vildu á hlýða. Hann fann fljótt að fólk virtist
skyndilega hræðast hann, hræðast „hommatónlistina“ („Sömu tónlist og þau elskuðu rétt áður!“ bætir Hörður við), en hann lét hvergi undan síga, og laðaði smám saman að sér sömu vinsældir, virðingu og, með tímanum, stærri áhorfendahópa.
„Ég skrifa tónleikana mína eins og leikrit, og hvert og eitt einasta lag hefur ákveðinn tilgang. Lögin mín eru sögur af fólki, fyndnar sögur, sorglegar sögur… allt saman! Ég syng þær bara. Ég hef alltaf heyrt að ég sé sterkur flytjandi. Ég hef fengið að heyra að ég hafi breytt lífi fólks.“
Stórtækar breytingar
Breyttur tíðarandi og inngilding hinseginleikans hríslaðist um landsbyggðina í rólegheitum, en skall á höfuðborginni Reykjavík með talsvert meiri krafti. Þó að fyrsta Pride-gangan ætti sér ekki stað fyrr en áratug síðar, var tíundi áratugurinn undanfari breytinganna sem á eftir komu.
Árið 1991 skaust Páll Óskar upp á stjörnuhimininn með uppsetningu Menntaskólans við Hamrahlíð á leikritinu The Rocky Horror Picture Show. Stuttu seinna tók hann þátt í að stofnsetja fyrsta algjörlega samkynhneigða skemmtistað Íslands, Moulin Rouge, sem varð upphafið að hinsegin skemmtanamenningu á Íslandi.
Í kjölfar mótmælanna sem áttu sér stað árin 1993-1994, sem leidd voru af Samtökunum ‘78, urðu stórtækar breytingar á íslenskum hjúskaparlögum árið 1996, þegar staðfest sambúð var fest í lög þann 27. júní, og lagabreytingunni var fagnað í anddyri Borgarleikhússins. Vigdís Finnbogadóttir, þáverandi forseti Íslands, tók þátt í fögnuðinum og varð fyrsti þjóðarleiðtoginn í sögunni til þess að taka þátt í hátíðardagskrá sem snerist um samkynhneigð. Þessi dagur lifir enn í minni þeirra sem voru viðstödd.
„Við það að rýna í fréttaflutning um hinsegin málefni í byrjun tíunda áratugarins, sést glöggt að umfjöllunin fer að verða jákvæðari,“ segir Íris Ellenberger, sagnfræðingur og dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Mótmælin snemma á áratugnum leiddu af sér fyrsta Pride-viðburðinn árið 1999, þegar umfjöllun um málefni samkynhneigðra hafði aldrei verið meiri, og loks var fyrsta Gay Pridegangan haldin á Íslandi árið 2000, þar sem ekki mættu jafn mörg og þekkist í dag en stemningin var sterk og fólk var stolt.
Höfuð borin hátt
Gay Pride Reykjavíkur, sem í dag er einfaldlega kölluð Pride, hefur undirgengist ýmsar breytingar á síðustu 20 árum, en það sem hefur alltaf einkennt gönguna er að þetta er einn stoltasti dagur ársins, ekki bara fyrir LGBTQIA+ samfélagið sem kom henni á fót, heldur er dagurinn tækifæri til að styðja hinsegin fólk - bæði almenningur og valdhafar.
„Alveg frá byrjun hefur áhersla göngunnar verið gleði og hamingja,“ segir Íris en er fljót að taka fram að nokkrar undantekningar séu þar á. „Leðurhommarnir voru áberandi í dágóðan tíma, í BDSM klæðnaði sem fór dálítið í taugarnar á fólki. Þeir hurfu svo úr göngunni á tímabili - eða ég sá þá allavega ekki - sem var miður, því þeir voru þeir einu sem lögðu sig virkilega fram í að snúa norminu á haus. Árið 2016 varð gangan líka pólitískari en hún hafði verið árið á undan. Trans Ísland var með sterka og pólitíska ádeilu það árið. Þau mótmæltu þeirra eigin birtingarmynd innan heilbrigðiskerfisins, og töluðu opinskátt um þá kerfislægu mismunun sem þau verða fyrir. Og ég man að áhorfendur móðguðust yfir því að gangan væri ekki nógu glöð og skemmtileg.“
Það má færa rök fyrir því að margir sigrar hafi verið unnir hvað varðar Pride gönguna, þó að samtalinu sé hvergi nærri lokið hvað varðar skilning og þörfina fyrir breytingu. Á hinn bóginn hefur umræða síðustu ára, sérsaklega innan hinsegin samfélagsins, kallað eftir því að ákveðinn hópur hverfi algjörlega á brott úr göngunni - lögreglan. Þó að þeirra meginhlutverk sé að stilla til friðar og tryggja öryggi á stórum viðburðum, olli óréttmæt handtaka þátttakanda göngunnar miklum öldugangi. Eftir handtökuna hafa margar háværar raddir kallað eftir brotthvarfi lögreglunnar úr göngunni, og mörg hafa bent á að fyrsta Pride var, eftir allt saman, mótspyrna í kjölfar misbeitingar lögregluvalds. Að fyrsta gangan var ekki ganga - hún var uppreisn.
Hinsegin framtíð
Herði finnst nóg vera eftir hvað varðar breytingar til hins betra. „Bakslag í réttindabaráttunni hefur verið mikið til umræðu, en ég sé það ekki beint. Sagan á það til að endurtaka sig, og hún mun sannarlega gera það ef við höldum ekki áfram að hafa hátt. Við þurfum að halda samtalinu gangandi - það er okkar skylda og okkar réttur, sem fólk.“
„Ég held að framtíðin beri í skauti sér fleiri, öðruvísi hinsegin viðburði - eins og varð raunin í ár, með Hinsegin heift,“ bætir Íris við. Sumum finnst Pride vera orðið að sjónarspili þar sem fyrirtæki og yfirvöld geta byggt upp ímyndina af jafnréttisparadísinni Íslandi, á meðan kerfislæg mismunun hinsegin fólks er enn til staðar. Hinsegin heift, röð tónleika, var haldin í ár sem eins konar mótsvar við Pride, sem og vettvangur fyrir róttækt, hinsegin fólk til að koma saman.
Framtíð Pride er óljós, en framtíð hinsegin viðburða og samstöðu virðist björt. Við megum ekki gleyma því að heimurinn sem við skiljum eftir okkur er sá sem við breyttum þegar við tókum við af fyrri kynslóðum, og hann mun halda áfram að breytast með kynslóðunum sem koma skulu. Rauði þráðurinn í gegnum þennan síbreytilegan heim er það sem gerir okkur að manneskjum - kærleikur og skilningur, þrátt fyrir að við séum ólík innbyrðis.
Stonewall-uppþotin
Um miðbik síðustu aldar kraumaði skipulögð glæpastarfsemi undir yfirborði New York-borgar, oft inni á börum sem glæpahópar áttu og starfræktu. Þetta voru sértækir barir sem löðuðu að sér annan jaðarhóp samfélagsins - hóp sem bar jaðarsetningu sína ekki endilega utan á sér í útliti, út frá kyni eða uppruna, en sætti samt gríðarlegu misrétti. Það var ekkert í boði annað en að fela það sem gerði það að þeim sjálfum og takast á við samfélag sem skipaði þeim að vera öðruvísi, sem gerði að verkum að hinsegin fólk átti sér nánast hvergi samastað. Þar komu slíkir barir til sögunnar, einn þeirra verandi Stonewall Inn sem varð einn vinsælasti hinseginbar New York í enda sjöunda áratugarins.
Á þeim tímapunkti í sögunni var samkynhneigð talið glæpsamlegt og refsivert athæfi, og því fylgdi fjölþætt og kerfislægt misrétti af hálfu réttarvörslukerfisins. Snemma morguns þann 28. júní sauð upp úr þegar lögregla New York-borgar réðst inn í Stonewall Inn og hóf að handtaka alla viðstadda. Þetta fannst þeim liggja beint við þar sem þeir sögðu marga af gestum barsins vera „klæðskiptinga“, þar sem mörg viðstödd skörtuðu fötum sem töldust óviðeigandi miðað við kyn þeirra og voru því beinlínis að brjóta lög þess tíma. Í lok þessa stormasama dags brutust út miklar óeirðir, uppgjör vegna viðmóts yfirvalda og samfélagsins til hinsegin fólks. Óeirðirnar, sem stóðu yfir í sex daga, urðu að hreyfiafli sem hafði gríðarleg áhrif á heiminn allan og mótaði friðsamleg mótmæli framtíðarinnar.

Mynd: Forbidden Vancouver