Image: Michal Parzuchowski; Forbidden Vancouver
Pride og fordómar: Saga sem læra ber af
Dino Ðula
PRIDE OG FORDÓMAR: SAGA SEM LÆRA BER AF Ást. Jafnrétti. Stolt. Þessi orð koma gjarnan upp í hugann þegar fylgst er með árlega viðburðinum sem snýst um að fagna því hver man er og hvern man elskar - Pride. Þau sem ganga, hins vegar, hafa ekki alveg sömu að segja. Á bak við Pride, sem fyrir mörgum er skrúðganga, er löng saga sem varðar réttinn til þess að vera man sjálft, og sjálfan tilveruréttinn. Saga sem á rætur sínar að rekja meira en fimmtíu ár aftur í tímann, og byrjaði með áhlaupi lögreglu. Heimsins fyrsta Pride var viðburður sem átti sér stað þann 28. júní árið 1970, haldinn til þess að minnast viðburða ársins á undan - Stonewall uppþotinu. Þó að Ísland hreyki sér af því að vera fremst í flokki jafnréttis, liðu fimm löng ár þar til umhræringar í Bandaríkjunum náðu alla leið til Íslands.
Pride and prejudice: History to learn from
Stonewall-uppþotin Um miðbik síðustu aldar kraumaði skipulögð glæpastarfsemi undir yfirborði New York-borgar, oft inni á börum sem glæpahópar áttu og starfræktu. Þetta voru sértækir barir sem löðuðu að sér annan jaðarhóp samfélagsins - hóp sem bar jaðarsetningu sína ekki endilega utan á sér í útliti, út frá kyni eða uppruna, en sætti samt gríðarlegu misrétti. Það var ekkert í boði annað en að fela það sem gerði það að þeim sjálfum og takast á við samfélag sem skipaði þeim að vera öðruvísi, sem gerði að verkum að hinsegin fólk átti sér nánast hvergi samastað. Þar komu slíkir barir til sögunnar, einn þeirra verandi Stonewall Inn sem varð einn vinsælasti hinseginbar New York í enda sjöunda áratugarins. Á þeim tímapunkti í sögunni var samkynhneigð talið glæpsamlegt og refsivert athæfi, og því fylgdi fjölþætt og kerfislægt misrétti af hálfu réttarvörslukerfisins. Snemma morguns þann 28. júní sauð upp úr þegar lögregla New York-borgar réðst inn í Stonewall Inn og hóf að handtaka alla viðstadda. Þetta fannst þeim liggja beint við þar sem þeir sögðu marga af gestum barsins vera „klæðskiptinga“, þar sem mörg viðstödd skörtuðu fötum sem töldust óviðeigandi miðað við kyn þeirra og voru því beinlínis að brjóta lög þess tíma. Í lok þessa stormasama dags brutust út miklar óeirðir, uppgjör vegna viðmóts yfirvalda og samfélagsins til hinsegin fólks. Óeirðirnar, sem stóðu yfir í sex daga, urðu að hreyfiafli sem hafði gríðarleg áhrif á heiminn allan og mótaði friðsamleg mótmæli framtíðarinnar. „Sumir hafa kallað það viðtal aldarinnar. Það var birt þann 1. ágúst árið 1975 í tímaritinu Samúel,“ segir Hörður Torfason er hann rifjar upp daginn þar sem þrjú orð hófu atburðarás sem breyttu lífi hans til frambúðar, og vöktu upp samtal á landsvísu. Á þessum tímapunkti, sem íslenskur aðgerðasinni og þekktur trúbador, kom Hörður út úr skápnum og varð fyrsti yfirlýsti hommi Íslands, sem olli því að hann varð að skotspóni hatursorðræðu og fordóma. „Þetta olli þvílíkum usla í öllu samfélaginu. Ég gekk kannski einn niður Laugaveginn og lenti í því að fólk hrækti framan í mig, kallaði mig nöfnuðum og hótaði mér, þetta var á árunum ‘75, ‘76. Ofbeldishneigt fólk að segja mér hvernig ég ætti að hegða mér, hugsa, klæða mig… en ég var ekki hræddur við það - ég bauð þessu fólki birginn.“ Næstu ár á eftir reyndust Herði erfið, sem fór af landi brott í skamman tíma, þjakaður myrkum hugsunum, þangað til hann áttaði sig á að hann hefði stærra hlutverki að gegna í þessari umræðu. Hann sneri aftur heim til þess að berjast fyrir réttindum samkynhneigðra, og kom að því að stofna Samtökin ‘78, hagsmunafélag hinsegin fólks á Íslandi. Hann lýsir sér þó fyrst og fremst sem skemmtikrafti, og lífi sínu sem leikriti. Leiðir hans og samtakanna skildu fljótlega og hann eyddi næstu 30 árum í að ferðast umhverfis Ísland og koma fram í bæjum og þorpum fyrir þau fáu sem vildu á hlýða. Hann fann fljótt að fólk virtist