
7 minute read
Það er dýrmætt að fá að skilgreina sig ekki - viðtal við Klöru Rosatti
Birgitta Björg Guðmarsdóttir (hún/hennar)
Klara Rosatti er listakona, en verk eftir hana voru áberandi á strætóskýlum og auglýsingaskiltum borgarinnar á nýliðnum Hinsegin dögum. Hvítar verur af alls konar stærðum og gerðum í ástaratlotum – við hvorar aðrar eða sjálfar sig. Verurnar skarta gjarnan höttum með fánalitum hinsegin samfélagsins, bera tattoo, þær eru stundum fatlaðar og af og til sést inn í þeirra innri líkamsstarfsemi, leg eða hjörtu eins og á röntgenmynd. List Klöru er mjúk, feminísk og afgerandi kærleiksrík.
Advertisement
Aðspurð því hvernig Klara skilgreinir sig, segist hún lengi hafa kosið það að skilgreina sig ekki, en að í dag skilgreini hún sig sem tvíkynhneigða konu, og noti fornöfnin hún/hennar.
Ég skilgreini mig sem tvíkynhneigða konu. Ég er stundum ekki ennþá alveg viss um hvort ég eigi frekar að skilgreina mig sem pan eða bi, en mér líður bara vel undir bi-flagginu. Það útilokar heldur ekki hrifningu á kynsegin fólki eða transfólki, svo það hentar mér bara prýðilega.
Þegar ég var í menntaskóla til dæmis
þá var ég í löngu sambandi og þá einhvern veginn var ég ekkert rosa mikið að pæla í minni kynhneigð þannig séð. Mér fannst svo eðlilegt að vera umkringd alls konar hinsegin fólki þá, en það var ekki fyrr en seinna að ég fór að spyrja sjálfa mig spurninga um eigin kynhneigð. Fyrsta tinderdeit sem ég fór á eftir þetta samband var með stelpu og samt hugsaði ég bara: ég veit ekki – ég skilgreini ekki kynhneigð mína. Og síðan var ég að hitta stelpur og fara í sleik við stelpur – og sagði alltaf: það sem gerist gerist, ég þarf ekki að skilgreina mig. Sem er líka allt í lagi. Mér fannst bara þægilegra að skilgreina mig ekki þá. Og það er bara þannig. Það ætti ekki að skipta neinu sérstöku máli. Ef ég veit hvernig mér líður þá sé ég ekki hvernig það kemur einhverjum öðrum við. En mér líður allavega vel undir bi stimplinum núna.
Við Austurvöll má finna myndasyrpu eftir Klöru sem sett var upp í tilefni Hinsegin daga, en sýningin ber heitið Furðuleg, og er það eins konar samnefnari yfir þau verk Klöru sem innihalda verurnar hennar. Klara segir að nafnið sé vísun til þess hvað henni finnist leg stundum furðuleg, en að sama skapi furðuleika hennar sjálfrar.
Mér hefur alltaf fundist legið skrýtið og magnað fyrirbæri. Og ég er alltaf mjög tilbúin að ‚embrace-a‘ það á meðan ég er ekki á túr. Svo byrja ég á túr og þá, eins mikið og ég elska legið og þetta blæðingakerfi, eins magnað og það er, þá líður mér eins og ég sé skrímsli, eiginlega, eða eins og ég sé klessa af einhverju... bleh. En með nafnið - mér fannst þetta skemmtilegur orðaleikur. Ég er skrýtin og leg eru skrýtin. Furðuleg getur bæði átt við um mig og skrýtin leg.
Verurnar sem einkenna list Klöru eiga rætur sínar í upplifun hennar á sínum eigin líkama, og lýsir hún þeim sem grafískum dagbókarfærslum.
Ég hef alltaf verið með smá komplexa varðandi líkama minn – hvernig hann lítur út (hef alltaf verið smá feit og þarna var ég að díla við mína eigin svakalegu fitufordóma sem ég hef sem betur fer aflært núna) og hvernig hann virkar t.d. í tengslum við blæðingar og allt svoleiðis. Það var svolítið mikil ringuleið í gangi í hausnum á mér – og ég fann að ég þyrfti að breyta til en ég vissi ekki alveg hvernig ég ætti að fara að því. Ég hef teiknað alveg síðan ég var lítil – og þetta urðu smá eins og dagbækur. Þetta er það sem mér finnst skemmtilegast að teikna – ég veit að það er alveg mitt.
Mér fannst yfirleitt minna skemmtilegt að teikna raunverulega útlítandi líkama svo ég reyndi að taka allt sem eg var óánægðust með með minn eigin likama og setja það fram á þann hátt að mér þætti ekki ljótt að horfa á það eða – þannig að ég þyrfti að horfa á það í jákvæðu ljósi. Og af því að verurnar eru svolítið mjúkar í sér þá vildi ég hafa mjúkar línur í bakgrunni. Verurnar eru alveg svona in-your-face en ekki á óþægilegan hátt (allavega ekki fyrir mér). Þetta er ekki broddóttur femínismi. Þetta er einhvers konar – radíkal mýkt. Að miðla einhverju stóru í gegnum eitthvað mjúkt. Ég er svona sjálf, radíkal inní mér en líkamlega soft.
Klara segir að það hafi verið óvænt ánægja að taka þátt í Hinsegin dögum og fá að halda sýningu á Austurvelli.
Það var ótrúlega skemmtilegt og ég bjóst ekkert við því. Í fyrra var keppni fyrir forsíðumyndina, ég tók þátt og vann ekki, en í ár höfðu þau samband við mig og spurðu hvort ég hefði áhuga á að gera forsíðuna. Ég sagði náttúrulega bara JÁ.
Þau höfðu aðeins minnst á að kannski myndu þau setja á strætóskýli, en síðan var ég bara að fá sendar myndir frá skýlum og auglýsingaskiltum út um alla Reykjavík. Ég bjóst ekki við því og þetta var úti um allt. Mér fannst pínu leiðinlegt að vera ekki á landinu að sjá, en það var kannski bara til góðs, annars hefði ég kannski dottið í eitthvað mega egó-tripp. Það hefði ekki verið gott. Ég er rosalega þakklát fyrir þetta allt saman.
Með sýninguna á Austurvelli – þau buðu mér að vera yfir Hinsegin daga – þannig ég hélt að það yrði bara yfir Hinsegin daga, en svo er þetta ennþá uppi! Og ég vissi það ekki fyrr en ég fékk póstinn um að skemmdarverk hefðu verið unnin á þeim. Það kom á óvart að þau væru enn uppi – en svo sá ég að það væru nýnasistar sem hefðu gert þetta.
Aðspurð því hvernig henni leið í kjölfar skemmdarverkanna á sýningunni, segir hún að þau hafi varpað ljósi á það hve mikilvægt það er að sýna hinsegin samfélaginu samstöðu.
Ég reyndi að pæla ekkert of mikið í því. Ég fékk slatta af mjög jákvæðum skilaboðum. Og ég áttaði mig alveg á því að ef þetta hefðu ekki verið myndirnar mínar hefði þetta verið eitthvað annað. Það sem er leiðinlegt er að þetta kom mér ekki það mikið á óvart. Að þetta er búið að vera að gerast og að þetta getur komið fyrir hvern sem er. Þetta var ekki persónuleg árás á mig, heldur var þetta árás á hinsegin samfélagið. Það er augljóst að það þarf alltaf mikla samstöðu, og að svona hlutir ýta fólki frekar saman, það er svo margt sem þarf að berjast fyrir, alltaf.
Svo er líka gott að hugsa að ef nýnasistarnir fíla ekki það sem þú ert að gera þá hlýtur það að vera eitthvað jákvætt.
Klara stundar nám í Frakklandi um þessar mundir. Hún hyggst einbeita sér að náminu og halda áfram að skapa.
Námið sem ég er að byrja í núna er eins konar linkur milli vísinda og listar – að læra að kenna eða útskýra fræðilega hluti í gegnum list. Margir sem útskrifast úr þessu námi teikna fyrir læknisfræðibækur og alls konar þannig. Þetta er list í tengslum við vísindi, alls konar vísindi. Ég er byrjuð að selja smá af verkum mínum og mun halda því áfram. Næstu tvö árin mun ég reyna að einbeita mér að náminu. Ég fann nákvæmlega það sem mig langar að gera – það sem ég brenn fyrir.Ég reyni að miðla ást í gegnum verurnar mínar, bæði sjálfsást og ást á milli tveggja eða fleiri einstaklinga. Ég er að reyna að vera opnari. Leyfa mér að finna ástina. Vera móttækilegri fyrir henni. Leyfa mér að elska og vera elskuð.

Mynd: Klara Rosatti