4 minute read

Nýfrjálshyggja í fjölmiðlaumfjöllun um hinsegin fjölskyldur

Rakel Anna Boulter (hún/hennar)

Um fyrirlestur Auðar og Írisar: Mamma, mamma, börn og bíll

Advertisement

Fjölmiðlar eiga ríkan þátt í því að móta viðhorf samfélagsins, en fjölmiðlaumfjöllun um hinsegin fólk hefur ekki verið rannsökuð mikið, hvorki hérlendis né erlendis. Eflaust eru einhverjir lesendur kunnugir þeim Írisi Ellenberger og Auði Magndísi Auðardóttur, en báðar starfa þær við Háskóla Íslands. Auður er lektor í uppeldis- og menntunarfræði og Íris er sagnfræðingur og dósent í samfélagsgreinum við Menntavísindasvið. Íris og Auður hafa unnið að rannsókn um birtingarmyndir hinsegin fjölskyldna í íslenskum fjölmiðlum á árunum 2010 til 2021. Þær fluttu fyrirlestur um verkefnið sem bar titilinn Mamma, mamma, börn og bíll og var fyrirlesturinn kynning á niðurstöðum þeirra.

Stefnur og straumar í hinsegin málefnum síðastliðin ár

Í fyrstu stiklaði Íris á stóru um lagabreytingar sem urðu í hinsegin málefnum á síðustu þrem áratugum og setti þær í samhengi við breytingar sem urðu á orðræðu fjölmiðla um hinsegin fólk eftir aldamótin.

Íris tekur sérstaklega fram og segir mikilvægt að hafa í huga að þær Auður séu hjón sem tilheyra hefðbundinni millistéttar- barnafjölskyldu. „Við erum báðar hvítar, háskólamenntaðar, ófatlaðar, sískynja hinsegin konur. Við tilheyrum þeim hópi sem við erum að rannsaka. Þessi hópur nýtur hvað mestra forréttinda hérlendis innan mengisins ‘hinsegin fólk’. Með þessum greinum viljum við skoða þessi forréttindi ofan í kjölinn og hvaða afleiðingar þau hafa.“

Þá er rétt að skoða hvers lags viðtöl við hinsegin fjölskyldur hafa fengið rými í fjölmiðlum. Auður kynnti gögn rannsóknarinnar, hún sagði mikinn meirihluta viðtalanna vera við samkynhneigt fólk, þar af um þrefalt fleiri við konur. Aðeins eitt viðtalanna er við trans einstakling og átta viðtöl eru við annars konar fjölskyldur. Við þetta má bæta að út frá atvinnustétt má ætla að fólkið sé í millistétt og engin viðmælanda var með sjáanlega fötlun eða fötluð börn.

Nýfrjálshyggja í fjölskyldulífinu

Í rannsókninni eru áhrif nýfrjálshyggju dregin fram, en ris nýfrjálshyggjunnar átti sér stað á sama tíma og jákvæðari umfjöllun um hinsegin fólk fór að líta dagsins ljós. Samkvæmt hugmyndum nýfrjálshyggjunnar er samkeppni blandað inn í uppeldi, þannig nægir ekki að foreldrar veiti börnum sýnum umhyggju, fæði og húsnæði.

„Foreldrahlutverkið fólst fyrst og fremst í þrotlausri vinnu við að vega og meta ólíka kosti til að tryggja að börnin hafi allt sem þau þurfa til að hafa forskot á önnur börn.“

Ekki hinsegin heldur eins og hin

Stórt þema sem dregið er fram í rannsókninni er tilhneiging til að ítreka að hinsegin fjölskyldur séu ekkert frábrugðnar öðrum fjölskyldum. Þetta býr eðlilega til togstreitu, þar sem hinsegin fjölskyldur mæta gjarnan hindrunum eða verða fyrir öráreitni sem aðrar „hefðbundnari fjölskyldur“ lenda ekki í. Annað þema fjallar einmitt um hvernig áðurnefndum hindrunum eða öráreitni er stillt upp sem tækifærum til að verða sterkari einstaklingar og ber það titilinn „Hinsegin foreldrar ala upp þrautseiga borgara.“

Annað fyrirferðarmikið hugtak í rannsókninni er samkynhneigð þjóðernishyggja (e. homonationalism). Þetta á við þegar áður jaðarsettir þjóðfélagshópar fara að teljast til „okkar“ og eru þá innlimaðir í þjóðina, gjarnan á kostnað annarra hópa, sem enn teljast til „hinna“. Í fjölmiðlagreinunum sem Auður og Íris taka fyrir má sjá hvernig sá hópur sem hefur verið innlimaður í þjóðina er einkum samkynhneigt fólk sem fellur vel að ímyndinni um fyrirmyndar millistéttarborgarann, hvað varðar stétt, fjölskyldumyndun, uppruna o.fl.. Sérstaklega segja þær þetta greinilegt þegar ímynd þjóðarinnar um sjálfan sig er að vera fyrirmyndarríki á meðal ríkja, en Ísland hefur einmitt státað sig af því að vera jafnréttisparadís.

Þröng skilgreining á því hvað telst gott líf

Gjarnan lýsa hinsegin einstaklingar því að hefðbundið fjölskyldulíf líf sé hluti af jákvæðri umbreytingu þeirra sem einstaklingar. Ýtir þetta undir þá hugmynd að „hið góða hinsegin líf sé hefðbundið fjölskyldulíf.“ Einkar áhugavert er að skoða þessa afstöðu í samhengi við róttækar áherslur lesbískrar- femínískrar gagnrýni á fjölskyldugildi sem setti sitt mark á hinsegin og feminíska baráttu áttunda og níunda áratugar síðustu aldar.

„Slíkt andóf er hvergi að finna í okkar gögnum. Þau eru rituð af ríkjandi orðræðu nýfrjálshyggjunnar sem felur í sér að hver einstaklingur geti öðlast hitt góða líf með því að taka ábyrgð á eigin lífi…“

Margar hliðar málsins eru skoðaðar í rannsókninni og áhugasamir lesendur eru hvattir til að lesa niðurstöður rannsóknarinnar þegar þær verða birtar.

This article is from: