1 minute read

Ávarp Auðar Karlsdóttur, formanns Politica

Ávarp formanns

Það er mér sannur heiður að fá tækifæri til að segja nokkur orð við ykkur kæru samnemendur og vinir.

Advertisement

Þegar ég lít til baka yfir skólaárið sem er að líða get ég ekki annað en verið stolt. Stolt af bæði stjórn og meðlimum Politica sem gerðu þetta skólaár ógleymanlegt.

Fráfarandi stjórn lagði upp með það strax í byrjun að halda vikulegar vísindaferðir og árlega viðburði eins og hefur verið gert síðustu ár. Það mynduðust biðlistar í nær hverja einustu vísindaferð sem er kannski ekki skrýtið þar sem Politica er orðið eitt af virkustu nemendafélögum innan Háskóla Íslands.

Nefndir Politica hafa staðið sig með prýði. Forum Politica hélt minnisstæðan málfund um valdatíð Davíð Oddssonar þar sem til okkar komu stórskemmtilegir ræðumenn á borð við Ögmund Jónasson, Vilhjálm Egilsson og Hannes Hólmstein.

Málfundafélagið hefur einnig staðið fyrir svokölluðum „Hvað er að frétta?“ fundum þar sem málefni líðandi viku eru rædd. Alþjóðanefnd skipulagði ferð annars og þriðja árs nema til Brussel. Ferðin gekk eins og í sögu og eiga stelpurnar í nefndinni mikið hrós skilið fyrir. Árshátíðarnefndin stóð algjörlega fyrir sínu og héldu árshátíð á Selfossi sem tókst einstaklega vel. Ritnefndinni, sem hefur unnið hörðum höndum síðustu mánuði við gerð þessara frábæra blaðs vil ég óska innilega til hamingju með afraksturinn.

Politica hefur samanstaðið af skoðanasterkum, klárum og fjölhæfum einstaklingum í gegnum árin og í þann hóp bættust fyrsta árs nemar núna í haust. Meðlimir Politica eru mismunandi eins og þeir eru margir en samt höfum við náð einstaklega vel saman og það er svo meiriháttar skemmtilegt að vera í kringum alla alveg sama þó rökrætt sé fram og tilbaka um það sem er að gerast í samfélaginu, eins og til dæmis um núverandi ríkisstjórn eða frambjóðendur til forsetaembættis (við viljum bara að Baldur og Felix fari á Bessastaði).

Þetta skólaár mun seint fara úr huga mínum og ég vil þakka ykkur öllum innilega fyrir að taka þátt í þessu með mér og treysta mér fyrir þessu hlutverki.

Auður Karlsdóttir

Formaður Politica 2015- 2016

This article is from: