3 minute read
Skólaárið undir rós
Advertisement
Birkir Grétarsson Skemmtanastjóri Politica 2015- 2016
Senn líkur skólaárinu, það er hálf ótrúlegt hvað tíminn líður hratt þegar maður skemmtir sér vel. Að vanda hefur stjórn Politica og raunar allir þeir sem komið hafa nálægt starfinu, unnið hörðum höndum undanfarið ár að því að hafa ofan af fyrir komandi stjórnmálafræðingum landsins. Þrátt fyrir að lesturinn sé hollur og örfi huga duglegra námsmanna er ágætt að taka sér smá pásu frá honum, sér í lagi á föstudagseftirmiðdegi. Þá er stefnan oftar en ekki sett á þingflokka landsins, íslensk fyrirtæki og stofnanir sem taka ölþyrstum stúdentum opnum örmum, gefa þeim örlítið að snæða og sulla í þá votum veigum fram undir næsta hana gal.
Meðal fyrstu verka nýrrar stjórnar var að skipuleggja árlega útilegu Politicu. Að morgni 18. júlí pökkuðu eftirvæntingarfullir stjórnmálafræðinemar í tösku og lögðu af stað í ævintýri, ferðinni var heitið í austur af Reykjavík. Niður kambana, Suðurlandsundirlendið var þverað endilangt, áfangastaðurinn var Hamragarður. Þar var grillað, sungið og dansað, gleðin ríkti langt fram undir morgun. Þegar líða fór að kaffitíma næsta dag og tjaldstæðaverðinum leist ekki lengur á blikuna, skriðu fyrstu stjórnmálafræðinemarnir út úr tjöldum sínum. Þeim til mikillar undrunar hafði allt steini léttara fokið um nóttina og flestir söknuðu einhvers sem vindurinn hafði tekið með sér á haf út. Þrátt fyrir það fóru flestir skælbrosandi heim eftir góða samverustund með vinum og vandamönnum á meðan hinir stoppuðu, grámyglulegir, á KFC á Selfossi á leiðinni heim.
Næst á dagskrá Politicu var nýnemadagurinn en 28. febrúar fylltist HT 103 af bráðefnilegum hópi nýstúdenta sem allir höfðu það sameginlegt að hafa ótæmandi áhuga á stjórnmálum. Eftir að sitja magnþrunginn fyrirlestur helstu stjórnmálafræðinga landsins tók alvaran við. Hópnum var skipt niður í smærri einingar sem innbyrðis kepptu um álit eldri nemenda.
Lið Samfylkingarinnar bar þar sigur úr býtum en yfirburða frammistaða þeirra minnti einna helst á sigurgöngu Chigago Bulls árið 1996, eða 72-10 tímabilið eins og það er kallað. Það er óhætt að segja að nýnemarnir hafi komið sterkir inn í félagslífið því strax á fyrsta kvöldi voru þeir farnir að drekka vana menn og konur undir borðið.
Almennt var föstudagskvöldum vetrarins, samhliða námslánum nemenda, eytt í eymd og volæði á hverfisbörum Stór-Reykjavíkursvæðisins. Þó voru undantekningar á því en af og til setti stjórnin í fimmta gír og skipulagði stærri viðburði. Einn þessara viðburða var Stjórn-hagdagurinn en þar tókust erkióvinirnir, stjórnmálafræðideild og hagfræðideild Háskóla Íslands á í margvíslegum þrautum. Eftir langa og drengilega keppni laut stjórnmálafræðideildin í lægra haldi, en viti hagfræðadeildin það, við komum tvíelfd aftur að ári. Þrátt fyrir tapið skemmtu sér allir konunglega og óhætt er að segja að dagurinn í heild sinni hafi verið einn af hápunktum ársins.
Hrekkjavökunni var fagnað af sér amerískum sið í sal Framsóknarflokksins í Reykjavík. Þar slettu annars háalvarlegir stjórnmálafræðinemar úr klaufunum klæddir sem frægar Hollywood fígúrur, alíslenskir stjórnmálamenn, Maggi Texas og Dóra landkönnuður. Tjúttað var langt fram á nótt og sagan segir að Framsóknarsalurinn hafi ekki boðið upp á betra partý síðan að skuldaleiðréttingin fór í gegn.
Eftir langa og stranga jólaprófatörn héldum við próflokateiti í Leiknisheimilinu. Þar voru spilin dregin fram ásamt því að gömlu dansarnir voru rifjaðir upp. Kvöldið var enn ungt þegar að tattúeraða jólasveina bar að garði. Sveinarnir sungu og spiluðu jólalög auk þess sem að þeir áreittu gesti og gangandi.
Snemma í febrúarmánuði var svo komið að helgistund stjórnmálafræðinema, Sigmundinum sjálfum. Til okkar komu fulltrúar allra þingflokka landsins, að utanskildnum Pírötum sem komust því miður ekki vegna þess að einhver þarf að manna mastrið. Eftir funheita og æsispennandi rökræðu flokksfulltrúana snérum við okkur að mikilvægari málum en þá tók við innbyrgðis keppni meðal stjórnmálafræðinema í almennum ósiðum. Meðal annars var keppt í kappáti, fáfræði, drykkjuskap og ómálefnanlegri ræðulist. Þar vann lið Gunnars Braga sannfærandi sigur í annars bráðskemmtilegri keppni.