3 minute read
For Crying out loud
Nú er ég ekki vanur að nota svona orðbragð eins og ég setti í fyrirsögnina, en þar sem ég er að skrifa í háskólarit, blað ungu kynslóðarinnar þá ætla ég að reyna að nota orðfæri unga fólksins... auðvitað án þess að missa reisnina og virðinguna. Ég hef náð vel til ungs fólks í gegnum tíðina, þ.e. þeirra sem eru fyrir ofan meðallag í greind og nógu þroskuð til að skilja mig. Hingað til hefur mér þótt það nóg, því af hverju ætti ég að hafa áhuga á að ná til hinna...?
En í þessu tilfelli ætla ég að brjóta odd af oflæti mínu og reyna að ná til fjöldans, því það sem ég hef að segja er verulega mikilvægt á þessum mikilvægu tímum! Því bið ég ykkur, unga fólk sem hugsar ekki um annað en graðhestatónlist, hormóna og líkamsvessa, gefið ykkur nokkrar mínútur í að lesa þessa mikilvægu grein, því hún getur breytt lífi ykkar. Þið getið hnippt í einhvern af jafnöldrum ykkar sem er betur gefinn og betur lesinn til þess að útskýra hvert ég er að fara og þau flóknu orð sem ég nota, því að þó að ég ætli að stíga niður á ykkar plan og í rauninni tala niður til ykkar, þá get ég ekki farið að tala eins og heilalaus hormónasprengja til þess eins að ná til ykkar! Þið verðið líka að teygja ykkur upp til mín!
Advertisement
Þá er ég kominn að efninu. Landið okkar stendur á tímamótum. 20 ára farsælu tímabili er að ljúka, sem ég hef kallað „The Olafs era“. Nú er kominn tími til að velja nýjan forseta lýðveldisins, því það er orðið útséð um að sitjandi forseti muni halda áfram, þrátt fyrir að mörgum okkar þyki 20 ár vera alltof stuttur tími sem þegnar hans. Þetta ætti að vera spennandi tækifæri fyrir lýðræðisríki, að velja sér nýjan þjóðhöfðingja... en öðru nær, ég er fullur kvíða og efasemda. Því þetta þýðir að almenningur hefur valdið í höndum sér og það eru atkvæði óbreytts almúgans sem muna ráða úrslitum. Það boðar ekki gott og stefnir í stórslys, því almenningur veit yfirleitt ekkert hvað er sér fyrir bestu, langt því frá!
Ég hef lengi barist fyrir því að tekið verði upp menntað einveldi á þessu landi, eða amk. einhverskonar versjón af því. Auðvitað er ekki hægt að búast við því að ómenntað/illa menntað kunni að fara með það vald sem fylgir atkvæðum þeirra.
Ef hægt væri að finna aðila sem væri: Vel menntaður, vel lesinn, hugrakkur, forvitinn um mannlegt eðli, með föðurlegt yfirbragð, (vel) yfir meðallagi greindur, strangur en sanngjarn, smekklegur, ljóðrænn, mannvinur (án þess að vera með aumingjagæsku!), með meðfædda stjórnunarhæfileika, aðlögunarhæfni (kamelljón) og fylginn sjálfum sér... þá er engin spurning að þjóðin væri í miklu betri höndum en ef hún reyndi á klaufalegan hátt að kjósa úr mis-hæfum, athyglissjúkum pótintátum sem væru ekki hæfir til að leiða leikskóla, hvað þá heila þjóð á þessum tvísýnu tímum!
„Frímann, þú ert maðurinn í þetta starf! Við sjáum engan annan sem gæti leitt þjóðina á þessum erfiðu tímum. Engan sem hefur brot af þeim hæfileikum og vitsmunum sem þú hefur. Við grátbiðjum þig um að gefa kost á þér... ekki bara til næstu fjögurra ára, heldur til að taka embættið að þér til langframa, eins lengi og þú sjálfur vilt! Við treystum engum betur en þér til að verða forseti lýðveldisins, auk þess sem við viljum að þú fáir óskorað vald í embætti, því það er orðið fullreynt með þetta þingræði og lýðveldi... það er ekki að virka í núverandi mynd! Frímann, við viljum engan nema þig!!!“
Ef það stigi fram breið fylking menntafólks sem myndi skora á mig, þá myndi ég svo sannarlega hugsa mig um. Og ef það væri hægt að tryggja að ég myndi hljóta embættið þá myndi ég að öllum líkindum ekki bregðast því trausti sem mér hefur verið sýnt. Hvernig væri mér stætt á öðru?!?
Unga fólk, vakniði! „For crying out loud!“
Með vinsemd og virðingu, Frímann Gunnarsson