6 minute read
Fræ fyrir kynslóðir Framtíðarinnar
20
Fræ fyrir kynslóðir framtíðarinnar
Advertisement
Árið 1996 var bókinni Virkjum Bessastaði dreift á öll heimili landsins. Var það hluti af framboði Ástþórs Magnússonar til embættis forseta Íslands. Tuttugu árum síðar býður Ástþór sig fram á ný – í þriðja skipti – til forseta. Stefnumál hans eru þau sömu og þá enda eiga þau ekki síður við í dag. Ástþór ræddi við Íslensku leiðina um árin tuttugu í baráttu sinni fyrir frið og virkara lýðræði.
Viðtal: Hildur Ásta Þórhallsdóttir
Ástþór er fæddur og uppalinn í Reykjavík, stúdent frá Verzlunarskóla Íslands og á ýmis konar menntun og starfsreynslu að baki. Hann hefur verið með sjálfstæðan rekstur tengdan ljósmyndun, auglýsingagerð, tölvum, forritun og flugrekstri. Um miðjan níunda áratug síðustu aldar tók Ástþór skyndilega fyrstu skrefin í stjórnmálum.
Árið 1995 var Kalda stríðinu nýlega lokið og eflaust margir sem upplifðu þann tíma sem friðsælan. Hvað varð til þess að þú ákvaðst
þá að stofna samtökin Frið 2000? Það má segja að ég hafi orðið fyrir andlegri uppljómun árið 1994 eftir að hafa gengið vel í viðskiptum og áttað mig á því að bílar, þotur og annað slíkt veraldlegt glingur er ekki það sem lífið snýst um. Ég vildi láta gott af mér leiða. Eftir að hafa lesið yfir 200 bækur og rit um alþjóðamál áttaði ég mig á því að Ísland, sem herlaust land með elsta starfandi þjóðþing heims, gæti valdið straumhvörfum til friðar í heiminum. Þetta varð til þess að ég stofnaði samtökin Friður 2000 og gaf síðan út bókina Virkjum Bessastaði með hugmyndafræðinni. Meðal stofnenda Friðar 2000 var Steingrímur Hermannsson sem var forsætisráðherra árið 1986, þegar leiðtogafundurinn var haldinn að Höfða.
Hvað felur slagorð þitt og nafn bókar þinnar frá 1996, Virkjum
Bessastaði, í sér? Að virkja áhrifamátt forseta Íslands á innlendum og erlendum vettvangi. Mér finnst embættið tilgangslaust sem skrautembætti. Hins vegar getur forsetinn haft mikinn slagkraft á alþjóðlegum vettvangi ef hann er virkjaður í alþjóðlegri umræðu um friðar-, mannréttinda- og náttúruverndarmál. Forsetar hafa aðgang að öðrum þjóðhöfðingjum og leiðtogum svo og mörgum af áhrifamestu ráðstefnum heims. Forsetar hafa einnig greiðari aðgang að fjölmiðlum en flestir aðrir. Þannig getum við látið rödd Íslands hljóma um alla heimsbyggðina með nýja hugmyndafræði til friðar í heiminum.
Af hverju telur þú Ísland hafa það sem þarf til að hýsa höfuðstöðvar
Sameinuðu þjóðanna? Ísland er frábært fordæmi sem herlaust og friðsælt land með elsta starfandi þjóðþing heims. Á Íslandi mætast jarðskorpuflekar austurs og vesturs sem er táknrænt fyrir verkefni S.Þ. Við liggjum nánast mitt á milli höfuðborga stórveldanna Moskvu og Washington. Leiðtogafundurinn að Höfða fyrir þrjátíu árum markaði upphaf að endalokum Kalda stríðsins.
Sífellt háværari kröfur heyrast um að flytja höfuðstöðvar S.Þ. frá New York á hlutlausari stað, ekki síst eftir að sendinefnd Rússlands hætti við að mæta á alþjóðlega ráðstefnu hjá S.Þ. á síðasta ári eftir deilur um vegabréfsáritun til Bandaríkjanna fyrir forseta rússneska þingsins.
Landsvæðið á milli Keflavíkur og Hafnarfjarðar yrði kjörið byggingarland fyrir S.Þ. Flugvöllurinn, sem áður hýsti herstöð, gæti einnig orðið að höfuðstöðvum og þjálfunarbúðum fyrir friðargæsluliða. Ef okkur Íslendingum tekst að laða þessa starfsemi til landsins gæti það skapað 21.000 störf og 600 milljarða verðmætasköpun á hverju ári. Þetta yrði þriðji stærsti atvinnuvegur Íslendinga og myndi virka eins og öflug vítamínsprauta inn í íslenskt þjóðlíf.
Hvernig telur þú Ísland geta gert betur í friðarmálum? Ég veit ekki til þess að við höfum gert neitt. Því miður hafa stjórnvöld hér ítrekað stutt hernað Bandaríkjanna í MiðAusturlöndum. Stjórnvöld studdu
einnig það, að velta úr sessi löglega kjörnum forseta í Úkraínu, og refsiaðgerðir gegn Rússum í kjölfarið. Aftur í blindni eltir fjórflokkurinn vestræna öfgastefnu. Í stað þess að stuðla að friði hefur þetta uppátæki komið til valda enn spilltari klíku en forsetinn var og aukið ófrið og hörmungar í landinu. Nú stefnir
Úkraína í þjóðargjaldþrot með auknum straum flóttamanna til Evrópu og Rússlands. Það er kominn tími á forseta á Bessastöðum sem leiðir menn út úr þessum ógöngum.
Í áratugi var því haldið fram að málskotsréttur forseta væri ekki virkur, þar til Ólafur Ragnar Grímsson neitaði að skrifa undir fjölmiðlafrumvarpið árið 2004. Óhætt er að segja að ákveðin óvissa hafi síðan ríkt um þetta ákvæði stjórnarskrárinnar. Hvernig vilt þú að málskotsréttinum
sé beitt? Ég er algerlega á móti því að einn maður hafi geðþóttavald yfir því hvaða mál fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Eitt af mínum fyrstu verkum á Bessastöðum yrði að setja ákveðnar reglur um hvað þurfi til að forseti beiti málskotsréttinum. Ég myndi styðjast við reglurnar sem settar voru af Stjórnlagaráði um þjóðaratkvæðagreiðslur þannig að þjóðin og þingið viti fyrir fram hve margar undirskriftir þurfa að berast forseta. Ég hef stungið upp á því að hraðbankakerfið verði nýtt sem kjörklefar í þjóðaratkvæðagreiðslum. Ég vil skoða þann möguleika að fækka þingmönnum um helming og fá samhliða slíku þingi kosningakerfi þar sem þjóðin yrði beinn þátttakandi í ákvörðunarferlinu í stærri málum. Ég tel að slíkt kerfi yrði skilvirkara, ódýrara í rekstri og myndi auka ánægju þjóðar-innar með helstu ákvarðanir í sínum málum.
Margar hugmynda þinna eru í takti við stefnumál Pírata, sem nú hafa mælst langstærsti stjórnmálaflokkurinn um allnokkurt skeið. Hefur þú íhugað
einhvers konar samstarf með Pírötum? Það er mér mikil ánægja að sjá að sumar hugmynda minna hafa fengið farveg í nýju stjórnmálaafli sem nú mælist stærst á Íslandi. Það er mér mikil hvatning til að halda áfram. Hins vegar er ég þverpólitískur og þarf að vera óháður stjórnmálaflokkum sem boðberi friðar.
Annars er skemmtilegt að segja frá því að ég hitti fyrst Pírata árið 1996, þegar ég hitti dóttur Bergþóru Árnadóttur en Bergþóra var einn af mínum helstu stuðningsmönnum og aðstoðaði mig mikið með forsetaframboðið. Dóttir hennar heitir Birgitta og það hefur heldur betur ræst úr þeirri konu, sem ég spái að eigi mikla framtíð fyrir sér í íslenskum stjórnmálum.
Þú hefur allt frá upphafi talað fyrir beinu lýðræði, virkjun málskotsréttarins og friði. Þó þú hafir ekki verið kjörinn sjálfur hafa tvö þinna stefnumála, beint lýðræði og málskotsrétturinn, verið ein helstu deiglumál íslenskra stjórnmála síðastliðin tuttugu ár. Telur þú að friðarmál verði brátt meðal áherslna vinsælla íslenskra stjórnmálaafla?
Klárlega. Ég vona að í aðdraganda þessara forsetakosninga takist mér að stimpla friðarmálin þannig inn að þau verði eitt helsta baráttumál íslensku þjóðarinnar á næstu árum. Ekki aðeins er þetta lykilatriði (eða „Major-Key“ eins og unga fólkið segir í dag) hvað varðar að tryggja friðsamlega framtíð okkar þjóðar og mannkyns, þetta er einnig eitt stærsta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar til verðmætasköpunar. Vegna sögu okkar og legu landsins höfum við einstaka stöðu sem fæstar þjóðir hafa til að laða til Íslands starfsemi tengda friðarmálum og S.Þ. Við höfum hreinlega ekki efni á því að sleppa þessu tækifæri. Sú 600 milljarða verðmætasköpun sem skapast við að virkja Bessastaði myndi gera okkur kleift að veita öllum landsmönnum ókeypis heilbrigðisþjónustu, bæta kjör aldraðra og öryrkja og gera þjóðlífið á Íslandi bæði betra og skemmtilegra.
Að hvaða leyti er nálgun þeirra sem hafa náð framgangi með sömu stefnumál ólík
þinni? Það tekur tíma að opna huga fólks fyrir nýjum hugmyndum. Ég sagði alltaf að ég myndi ekki endilega sjá afrakstur þessa starfs persónulega. Ég er að sá fræjum fyrir kynslóðir framtíðarinnar. Ég er aðeins lítið hjól í stóru verki. Ég er klukkan sem vekur þjóðina.