1 minute read
„Fólk á eftir að elska þetta“
– segir Jóhann Smári Sævarsson um Sálumessu
Verdi í Hljómahöll
NÁNARI UPPLÝSINGAR Á ALLTHREINT.IS „Eins og nafnið segir til um þá er þetta sálumessa en þær eru yfirleitt fluttar nálægt páskum eða í minningu stórmennis. Það er til fullt af sálumessum. Við fluttum í fyrra sálumessu Mozart og það er ýmislegt annað til,“ segir Jóhann Smári Sævarsson hjá Óperufélaginu Norðurópi sem mun, ásamt Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, flytja Sálumessu eftir Giuseppe Verdi í Stapa, Hljómahöll í Reykjanesbæ miðvikudaginn 22. febrúar.
Sálumessan er um það bil 90 mínútna langt tónverk fyrir fjóra einsöngvara, kór og sinfóníuhljómsveit og er ein allra þekktasta sálumessa tónbókmenntanna. Verkið er flutt árlega víða um heim en afar sjaldan hér á landi. Víkurfréttir kíktu við á æfingu og hittu þar bræðurna Jóhann Smára og Sigurð Sævarssyni. Sálumessa Verdi er stærsta verkefni sem Norðuróp hefur sett upp á Suðurnesjum. Í kórnum verða nærri 60 manns, 35 manna sinfóníuhljómsveit og þá verða fjórir landsþekktir einsöngvarar.
Sigurður Sævarsson er einn helsti sérfræðingur landsins þegar kemur að sálumessum og hefur sjálfur komið að því að semja slíkar. Í samtali við Víkurfréttir segir Sigurður að formið sé hinn hefðbundna kaþólska sálumessa sem sungin var yfir hinum látna.
„Þetta er vinsælt efni og er flutt á latínu, sem er alheimstungumál og allir geta sungið. Það eru litlar deilur um framburðinn og ég sem öll mín kórverk á latínu og þannig eru þau gjaldgeng hvar sem er,“ segir Sigurður.
Þegar þú ert að semja sálumessu, og þú hefur samið tvær, hvað er í huganum? „Fyrri sálumessan var lokaverkefni mitt í Bandaríkjunum þegar ég var að klára mastersgráðuna. Seinni sálumessuna samdi ég svo í minningu pabba og sú sálumessa var að endurspegla hvernig mér leið í kringum það allt. Hún er mjög persónuleg sálumessa, ekki mikið drama, heldur meira ljúfsár,“ segir Sigurður.
Aðspurður segir Jóhann Smári að það sé vinna að setja upp menning- arviðburð eins og Sálumessu Verdi og hann hafi verið lengi að sannfæra fólk um að þetta væri spennandi verkefni að takast á hendur. Sálumessa Mozart gekk mjög vel og Fiðlarinn á þakinu var sýndur fyrir fullu húsi. „Sálumessa Verdi er í raun stóri bróðir Sálumessu Mozart. Hún er aðeins lengri og er flutt með hléi. Það er ástríða í þessu verki öllu saman og ekki sama hvernig þetta er sungið. Verdi skrifaði þetta eins og óperu og bætir svo tveimur kórum í lokin og er aðeins léttari og fjörugri. Það eru fáránlega fallegir sólókaflar í þessu og fólk á eftir að elska þetta,“ segir Jóhann Smári. Í rafrænni útgáfu Víkurfrétta má horfa á sjónvarpsviðtal við þá bræður um verkefnið sem fer á svið í Stapa 22. febrúar næstkomandi.
Íslenska
ánægjuvogin