10 minute read
HJALLI LÖGGA
Bæjarpólitíkus og fyrrum keppnismaður
„Ég hef held ég alltaf verið frekar fylgjandi sjálfstæðisstefnunni“, segir Hjálmar Hallgrímsson, formaður bæjarráðs Grindavíkur, lögreglumaður og fyrrum keppnismaður í knattspyrnu, körfuknattleik og júdó.
Grindav K
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson sigurbjorn@vf.is
Hjalli eins og hann er betur þekktur, fluttist ekki til Grindavíkur fyrr en hann var þrettán ára. „Ég er fæddur árið 1966 og ólst upp í Reykjavík. Svo fluttum við fjölskyldan til Krýsuvíkur þegar ég var tíu ára, vorum þar með búskap og þar þurfti maður að ganga í öll störf og hafði gott af. Ég gekk í Landholtsskóla þá en svo fluttum við til Grindavíkur árið 1979 og þar hef ég verið allar götur síðan og geri ekki ráð fyrir að flytja úr því sem komið er. Það var gaman að flytja til Grindavíkur og ég féll tiltölulega fljótt inn í hópinn, byrjaði strax að æfa körfu- og fótbolta. Ég hafði verið að æfa fótbolta með ÍR áður en ég flutti til Krýsuvíkur en á aldrinum 10-13 ára var ekkert slíkt í boði, bara að taka til hendinni í sveitinni. Því leið ekki langur tími frá því að ég flutti þar til ég var byrjaður að æfa íþróttir og bætti meira að segja júdóinu við. Jói júdó eins og hann er kallaður í Grindavík, var að þjálfa júdó í Grindavík og hafði gert lengi. Það átti vel við mig, ég bjó að ákveðnum styrk þar sem ég hafði þurft að taka til hendinni sem ungur pjakkur. Við vorum mjög öflugir, tókum Reykvíkingana og tuskuðum þá til, hér voru strákar byrjaðir að vinna baki brotnu, bæði á sumrin og með skóla á veturna svo við bjuggum yfir meiri styrk en margir jafnaldrar okkar.“
Keppti í öllum þremur greinunum á Landsmótinu 1990
Hjalli æfði og keppti í knattspyrnu, körfuknattleik og júdó. „Það var mjög algengt á þessum tímum að æfa fleiri en eina íþróttagrein. Um tíma var ég að æfa allar þessar þrjár greinar í einu en hætti svo í júdóinu og einbeitti mér að fót- og körfubolta. Það var hentugt því þá slapp maður að mestu við undirbúningstímabilið í þeirri greininni sem var í dvala og mætti sprækur til leiks þegar tímabil viðkomandi greinar hófst. Ég spilaði þessar tvær greinar jöfnum höndum til ársins 1992 þegar ég lagði körfuboltaskónum en þá vorum við Grindvíkingar búnir að koma okkur upp í úrvalsdeildina og vorum með ansi gott lið. En þegar aldurinn færðist yfir þá fór að verða erfiðara að sameina þessar greinar svo ég lagði körfuboltaskónum og einbeitti mér bara að fótboltanum. Ég lék til ársins 1999 en í heildina á ég rúmlega 300 leiki skráða í fótbolta og um 200 leiki í körfubolta. Gaman frá því að segja að júdóferillinn fékk snubbóttan endi en á Landsmótinu sem haldið var í Mosfellssveit árið 1990 eins og bærinn hét þá, þá ætlaði ég að keppa í fót- og körfubolta en hitti á Jóa júdó sem sagði að ég yrði að skella mér í júdógallann, það vantaði mann. Ég var tregur til en lét undan, mætti Ómari Sigurðssyni frá Keflavík, landsliðsmanni og hann var laglega fljótur að afgreiða mig, var næstum búinn að svæfa mig á 30 sekúndum þegar ég klappaði í gólfið. Ég stóð upp og gekk til Jóa sagði honum að nú ég væri hættur í Júdó. Jói svaraði að bragði að þetta væri ekkert að marka en Ómar væri margfaldur meistari! Frekar súr endir á júdó - ferlinum en yfir höfuð er ég stoltur af íþróttaferlinum mínum, ég barðist alltaf til síðasta svitadropa og held ég hafi smitað út frá mér til liðsfélaga minna en löstur minn þá var líka kostur, ég þoldi ekki að tapa,“ segir Hjalli.
Lögregluferillinn og fjölskyldan
Hjalli vann hina og þessa verkamannavinnu eftir grunnskólann en fann svo fjölina. „Ég fór eitthvað í FS en fann mig ekki, reyndi fyrir mér á sjónum en það var nánast vonlaust sökum ægilegrar sjóveiki og aumingjaskaps. Ég vann um tíma í múrverki með Gulla Hreins en svo var það árið 1986 að auglýst var eftir afleysingamanni hjá lögreglunni og ég prófaði. Fann mig strax vel, fór í lögregluskólann og útskrifaðist 1989. Fyrstu árin var ég eingöngu að vinna hjá lögreglunni í Grindavík en svo sameinaðist embættið lögreglunni í Keflavík árið 2000. Síðar meir sameinaðist svo það batterý lögreglunni á Keflavíkurflugvelli og í dag er þetta lögreglan á Suðurnesjum. Við erum tveir lögreglumenn hér í Grindavík sem stöndum vaktina í sitthvoru lagi en þurfum auðvitað reglulega að kíkja annað á Suðurnesin þegar eitthvað kemur upp á.“ n Rafbyssan er gífurlega öflugt öryggistæki n Hefur keppt í úrvalsdeild með Grindavík í fótog körfubolta
Rafbyssuumræðan hefur verið nokkuð hávær að undanförnu, Hjalli hefur sína skoðun á því. „Þjóðfélagið hefur breyst mjög mikið á undanförnum árum, það er varla að ég muni eftir einu tilviki fyrir tíu árum þar sem ógn stafaði af vopni en það er orðið mun algengara í dag. Hnífaburður er miklu meiri í dag en áður. Ég skil ekki alveg þessa umræðu og hvernig hægt er að vera á móti þessu. Rafbyssa er gríðarlega öflugt varnartæki fyrir lögreglu ef á hana er ráðist. Einnig sem valdbeitingartæki ef önnur úrræði duga ekki við handtöku. Að handtaka fílhraustan aðila sem er einnig ölvaður eða hvað þá undir áhrifum annara vímuefna er aldrei hættulaust. Rafbyssa yrði ekki notuð nema í mjög sérstökum aðstæðum. Mér er stundum hugsað til félaga minna úti á landi sem eru ýmist að vinna einir eða í fámennu liði, rafbyssan myndi auka öryggi þeirra gífurlega. Það er einfaldlega allt sem mælir með þessu, rafbyssuúrræðið er margfalt hættuminna og öruggara fyrir alla, ekki síst þann aðila sem lögreglan er að reyna yfirbuga. Þau valdbeitingarúrræði sem lögreglan hefur í dag, kylfa, piparúði eða hvað þá skotvopn, gera viðkomandi mun meiri skaða heldur en rafbyssan. Þetta er ósköp einfalt, rafbyssan eykur gífurlega á öryggi allra, ekki síst okkar lögreglufólksins,” segir Hjalli.
Of margar bandarískar fréttamyndir?
Hann hélt áfram. „Maður hefur aðeins á tilfinningunni að þeir sem eru á móti hafi horft á aðeins of margar bandarískar fréttamyndir og við munum misbeita þessu varnartæki en það er ekki hægt nema upp um það komist því rafbyssan log-ar allt sem við gerum. Það er innbyggð myndavél í henni og við þurfum að skila skýrslu eftir notkun. Með fullri virðingu fyrir bandarískum lögreglumönnum þá hef ég þá trú á mínum starfssystkinum að við beitum skynseminni og eins og ég segi, ef einhver verður uppvís að vafasamri notkun, þá mun það koma fram og viðkomandi þarf að svara fyrir gjörðir sínar. Á enda dagsins snýst þetta alltaf um færni lögreglumannsins til að takast á við þær aðstæður sem upp koma,“ segir Hjalli.
Fjölskyldan og pólitíkin
Hjalli kynntist konunni sinni og saman eiga þau þrjú börn og þrjú barnabörn. „Ég kynntist Ágústu 1983 en þá var ég sautján ára gamall.
Við eignuðumst Grétu Dögg árið 1986, Hallgrímur kom árið 1992 og Unnar árið 1997. Barnabörnin eru orðin þrjú, Katrín Eva,13 ára, Unnur Embla 11 ára og Hjálmar Logi 7 ára. Fjölskylduáhugamálin eru samvera að flestu leiti eins og matarboð, allskyns spilamenska, íþróttir, ferðalög og veiðitúrar.” Keppnismaðurinn dembdi sér síðan í bæjarpólitíkina í Grindavík. „Ég hef held ég alltaf verið frekar fylgjandi sjálfstæðisstefnunni, frelsi til athafna er kjörorðið. Hef kannski ekki alltaf verið helblár en heilt yfir er ég fylgjandi þessari stefnu. Það má ekki gleyma að fjórðungur þjóðarinnar kýs Sjálfstæðisflokkinn og auðvitað hefur fólk ólíkar skoðanir á einstökum málum en við myndum okkur stefnu á Landsfundinum. En það er ekki svo að allir eru sammála í flokknum enda tekist á um mörg mál. Stundum þarf fólk að sætta sig við að það er ekki hægt að gera öllum til hæfis í svo stórum stjórnmálaflokki. Ég vissi ekki hversu sterkt afl þessi Landsfundur er fyrr en ég mætti en þar eru málstofur um hin og þessi mál og á enda dagsins er kosið um hvert og eitt, lýðræðið einfaldlega ræður. Ég hafði ekki mikið spáð í pólitíkina þannig séð en hef alltaf haft skoðanir á hlutunum og þegar umræðan var á sínum tíma í Grindavík með nýja búningsklefa, nýtt íþróttahús eða stækka það gamla, þá fór ég að spá í hvort ég myndi ekki bara vilja leggja mitt af mörkum í stað þess að þrasa við eldhúsborðið. Fór í prófkjörið hjá Sjálfstæðisflokknum í Grindavík árið 2014, fékk góða kosningu og hef verið á kafi í bæjarpólitíkinni síðan þá. Það sem ég er stoltastur af er líklega það sem við fórum af stað með árið 2014, bygging félagsaðstöðu eldri borgara sem vonandi verður opnuð 2024 og við bættum við sex íbúðum við Víðihlíð. Við byggðum nýtt íþróttahús í stað þess að stækka það gamla og ekki nóg með það, höfðum vit á að byggja í leiðinni aðstöðu fyrir júdóið sem hafði verið á algjörum hrakhólum. Það hefur komið mjög vel út og í leiðinni er komin frábær aðstaða fyrir pílukastið sem er á mikilli uppleið í Grindavík. Hvað ég hefði viljað að við hefðum gert öðruvísi á þessum árum, alltaf gott að vera vitur eftir á, ég skal ekki segja. Það er auðvitað heilmargt og ég er ekki viss um plássið í blaðinu rúmi þær breytur,“ sagði Hjalli að lokum.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson stendur vaktina fyrir Víkurfréttir í Grindavík.
Ef þú vilt koma á framfæri efni eða ert með ábendingu um áhugavert efni sem á erindi við miðla Víkurfrétta, þá endilega hafðu samband í gegnum póstfangið sigurbjorn@vf.is
Spurningar og svör um Suðurnesjaháspennulínu
Þorvaldur Örn Árnason
Ekki er deilt um það að tvær háspennulínur milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins gefa meira öryggi en ein lína. Spurningin er hvers eðlis ný lína eigi að vera og hvar hún eigi að liggja þannig að ávinningur verði sem mestur og sjónmengun sem minnst – og fjármunum best varið. Um það er deilt. Meirihluti nýrrar línu myndi liggja um Sveitarfélagið Voga og því eðlilegt að íbúar þar, landeigendur og bæjarstjórn, taki afstöðu til þess hvernig þeim málum verði háttað.
Nýlega lagði ég spurningar fyrir Landsnet. Þær voru birtar hér í Víkurfréttum 02.02.2023, ásamt svörum Landsnets. Skoðum málið nánar.
Eflaust hefði straumleysið staðið styttra ef önnur háspennulína hefði verið til staðar. En fleira skiptir máli. Raforkuöryggi á Suðurnesjum líður verulega fyrir það að ekki skuli vera hægt að skipta snurðulaust yfir í „eyjarrekstur“ virkjana á Suðurnesjum ef samband við meginraforkukerfi landsins rofnar. Þær virkjanir geta annað um tvöfaldri aflnotkun á Suðurnesjum ef þar til gerður stýribúnaður, sem getur skipt virkjunum snurðulaust yfir í eyjarekstur, væri til staðar. Í versta falli gæti hraunrennsli fyrirvaralítið slitið sambandið við höfuðborgarsvæðið, jafnvel þó búið væri að byggja aðra línu samhliða núverandi línu. Ef báðar lílnurnar væru úti gætu jarðgufuvirkjanirnar hæglega séð öllum Suðurnesjum fyrir nægu rafmagni í langan tíma í eyjakeyrslu. Þennan stýribúnað vantar hugsanlega vegna þess að raforkukerfið hér er í megindráttum hannað þegar til stóð í upphafi aldarinnar að byggja hér álver sem myndi nota gríðarmikla raforku. Firnasterkt og dýrt flutningskerfi hefði þá verið byggt fyrir álverið og Suðurnesin og þá hefðu Gufuaflsvirkjanir á Suðurnesjum hvergi nærri dugað fyrir eyjarkeyrslu Suðurnesja. Þegar hætt var við álverið hefði átt að vera ljóst að grípa þyrfti til annarra leiða til að tryggja raforkuöryggi á Suðurnesjum. Ein leið hefði verið að byggja Suðurnesjalínu 2 en þar sem leyfi fékkst ekki fyrir loftlínunni þá hefði átt að grípa til annarra ráða t.d. leggja jarðstreng eða að tryggja snurðulausa skiptingu rafstöðva á Suðurnesjum yfir í eyjakeyrslu. Hvar liggur ábyrgðin?
Stefna Landsnets að ætla að hafa
Suðurnesjalínu 2 óþarflega afkastamikla (220 kV) er að líkindum arfur frá þessum tíma stóriðjudrauma.
Suðurnesjalína 1 er að flytja (frá
Suðurnesjum) u.þ.b. helming þess afls sem hún getur flutt. Jarðstrengur sem flutt getur álíka mikla eða jafnvel meiri orku ætti því að nægja.
Enn og aftur fullyrðir Landsnet í fyrrnefndum svörum sínum: „Ekki hefur verið hægt að bæta við afhendingu raforku á Suðurnesjum í langan tíma sem hefur bitnað bæði á íbúum og atvinnulífi á svæðinu.“ Það getur ekki verið vegna skorts á afli virkjana á Suðurnesjum sem er um tvöfalt meiri en notkun. Ekki heldur vegna skorts á flutningsgetu, því eftir því sem notkun á Suðurnesjum eykst minnkar þörfin á flutningi raforku milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins! Reyndar er unnið að stækkun Reykjanesvirkjunar og gert ráð fyrir að uppsett afl hennar aukist úr 100 í 130 MW á næstu árum. En það breytir litlu ef raforkunotkun á Suðurnesjum eykst jafnframt næstu árin og Landsnet hefur burði til að afhenda þá raforku og stýra raforkukerfinu af sæmilegu öryggi. Það má því spyrja hvort fullyrðing Landsnets um "að ekki sé hægt að bæta við raforku á Suðurnesjum...“ megi í raun rekja til ófullnægjandi ráðstafana til að tryggja raforkuöryggi en ekki til aflskorts, s.b.r. hér á undan? Hvar liggur þá ábyrgðin?
Í fyrrnefndu svari telur Landsnet það vandkvæðum bundið að tengja nýja 132 kV línu/jarðstreng inn á 132 kV kerfið á höfuðborgarsvæðinu þó það sé ekki vegna flutningsgetu. En þarf spennir sem tengir 132 kV kerfið á Suðurnesjum við 220 kV kerfið í höfuðborginni endilega að vera á
Suðurnesjum? Gerði hann ekki sama gagn í þessu sambandi þó hann væri í tengivirki í Hafnarfirði og báðar
Suðurnesjalínurnar á 132 kV? En ef 220 kV jarðstrengur er fýsilegur kostur þrátt fyrir mun hærri kostnað en 132 kV jarðstrengur þá er hvorutveggja ásættanlegt frá sjónarhóli íbúa í Vogum. Af framansögðu ætti að vera ljóst að það getur EKKI ráðið úrslitum um afhendingaröryggi raforku á Suðurnesjum hvort ný lína, til viðbótar þeirri sem fyrir er milli Hafnarfjarðar og Suðurnesja er 220 kV loftlína, eins og Landsnet heimtar, eða 132 kV (eða jafnvel 220 kV) jarðstrengur – sams konar og sá sem liggur yfir mikið jarðsprungukerfi og tengt hefur Nesjavallavirkjun snurðulaust við höfuðborgarsvæðið í meira en áratug. Ekki er lengur teljandi verðmunur á loftlínu og 132 kV jarðstreng.
Stjórnendur Landsnets eru enn þeirrar skoðunar að meira öryggi felist í því að tengja Suðurnes og höfuðborgarsvæðið með tveimur samliggjandi loftlínum, heldur en með einni loftlínu og einum jarðstreng. „Samkvæmt bestu upplýsingum sem Landsnet býr yfir eru jarðstrengir mjög viðkvæmir fyrir höggvunarhreyfingum og því ekki ákjósanlegir á stöðum þar sem líkur á jarðhræringum eru jafn miklar og á Reykjanesi.“ Þetta svar bendir til þess að Landsnetsmenn þurfi að leita áreiðanlegri upplýsinga. Ég mæli með að þeir lesi t.d. greinargerð dr. Ástu Rutar Hjartardóttur hjá Jarðvísindastofnun Háskólans frá 12. desember sl., þar sem segir m.a.: „Á Reykjanesi fyrirfinnast sem kunnugt er svæði sem eru með töluvert mörgum sprungum. Þessi sprungusvæði eru hins vegar ekki öll eins, þau hafa eiginleika sem breytast eftir því hvar þau eru á skaganum. Því eru sprungukerfi Reykjanessins ekki einsleit fyrirbæri, til dæmis eru sprungur í nágrenni Voga við enda sprungusveims og mun minna virkar heldur en sprungur á sunnanverðum og miðjum skaganum.“ Ásta segir ennfremur: „Við norðurhluta Rauðavatns liggur nú þegar jarðstrengur, á svæði sem er nokkuð keimlíkt svæðinu þar sem umræddur jarðstrengur er teiknaður við Reykjanesbraut. Því er mikilvægt að huga að þeim jarðstreng ef talið er að ekki sé skynsamlegt að leggja jarðstreng við Voga vegna sprunguhreyfinga.“
Ég ráðlegg Landsnetsmönnum að lesa niðurstöður Ástu vandlega og komast hjá því að gera afdrifarík mistök.
SUÐURNESJABÆR
Hilmar Bragi Bárðarson hilmar@vf.is