1 minute read

Einn maður lést í eldsvoða í skipi

n Annar þungt haldinn á spítala.

Einn maður lést þegar eldur kom upp í fiskiskipinu Grímsnesi

GK í Njarðvíkurhöfn á þriðja tímanum aðfaranótt þriðjudags. Sjö voru um borð í skipinu þegar eldurinn kom upp en fjórir komust strax af sjálfsdáðum frá borði. Tveir voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, HSS. Endurlífgunartilraunir á þeim þriðja á vettvangi báru ekki árangur. Hann var einnig fluttur á HSS þar sem hann var úrskurðaður látinn. Hinn látni er pólskur karlmaður á fimmtugsaldri. Hann lætur eftir sig eiginkonu og börn í Póllandi. Einn var svo fluttur frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja á Landspítalann. Ástand hans var alvarlegt við komuna á Landspítala og honum er haldið sofandi.

Aðstæður á vettvangi brunans voru mjög erfiðar að sögn Sigurðar Skarphéðinssonar, aðstoðarslökkviliðsstjóra Brunavarna Suðurnesja. Mikill hiti var í skipinu og reykkafarar gátu ekki farið hefðbundna leið niður um stiga úr stýrishúsi, þar sem hann var brunninn í burtu. Sigurður lýsti aðstæðum þannig að hitamyndavélar slökkviliðsmanna sýndu um 500 gráðu hita og það fengu slökkvilið- menn staðfest þegar slökkvivatnið kraumaði og sauð. Allir starfsmenn Brunavarna Suðurnesja voru kallaðir út en tuttugu og átta manns frá BS tóku þátt í útkallinu. Allur bílafloti slökkviliðsins og sjúkrabílar voru sendir á vettvang. Jafnframt var fjölmennt lögreglulið frá lögreglunni á Suðurnesjum á staðnum. Það var ljóst þegar viðbragðsaðilar komu á staðinn að ástandið var alvarleg. Mikinn reyk lagði frá skipinu og ljóst að mikill eldur var um borð. Reykkafarar fóru strax um borð og fundu manninn sem saknað var mjög fljótlega. Það var hins vegar erfitt verk að koma honum frá borði en aðstæður í skipum eru með þeim verstu sem slökkviliðsmenn komast í. Þar eru þröngir gangar og flóttaleiðir fáar. Þá segir Sigurður að hitinn hafi verið mikill og eldurinn magnaðist hratt á fyrstu mínútunum eftir að slökkviliðið kom á vettvang. Fljótlega stóðu eldtungur upp frá skipinu.

Slökkvistarf var tímafrekt en eldur gaus aftur upp í skipinu undir morgun á þriðjudag. Slökkvistarfi lauk svo á tíunda tímanum á þriðjudagsmorgun en slökkvilið þurfti einnig að dæla vatni úr skipinu, sem var farið að halla í höfninni. Það var fært undir morgun ofar í höfnina en skipið var bundið við bryggjuna við ísverksmiðjuna þegar eldurinn kom upp.

Vilja byggja 3.000 fermetra verslunarhús við Sjávargötu

Módelhús ehf. hafa sótt um um lóð við Sjávargötu í Njarðvík og heimild til að deiliskipuleggja svæðið. Sótt er um allt að 7.000 fermetra lóð. Áformin eru að reisa 3.000 fermetra atvinnuhúsnæði undir starfsemi Fagkaupa. Undir Fagkaupum eru Johan Rönning, Sindri, S. Guðjónsson, Vatn & veitur og Áltak. Með umsókninni fylgdu drög að deiliskipulagsbreytingu ásamt ásýndum af húsnæði frá arkitektum.

Í afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar segir að unnið er að tillögu að fyrirkomulagi gatnatenginu Grænás, Njarðarbrautar og hafnarsvæðis. Erindi er því vísað til umsagnar starfshóps um þróun og skipulag hafnarsvæða Reykjaneshafnar.

This article is from: