5 minute read
sport
Sóknarmaðurinn sem leggur mikið upp úr góðum varnarleik
Markmið Grindavíkurliðsins er skýrt fyrir sumarið, sæti í Bestu deildinni að ári.
knattspyrnulið grindavíkur, sem leikur í næstefstu deild karla, gerði breytingar á þjálfun liðsins fyrir komandi tímabil en Helgi Sigurðsson, sem lengi lék sem atvinnumaður og á fjölda landsleikja fyrir íslands hönd, tók við. Helgi er ekki að stíga sín fyrstu skref í þjálfun, þjálfaði lið Fylkis í þrjú ár, kom þeim m.a. upp í efstu deild og var svo með lið íbv í tvö ár og kom þeim sömuleiðis upp. á síðustu leiktíð var hann aðstoðarþjálfari Heimis guðjónssonar hjá val, þjálfarateyminu var sagt upp en Helgi var þó endurráðinn sem aðstoðarþjálfari út tímabilið.
Þegar kallið kom frá Grindavík þurfti Helgi ekki að hugsa sig lengi um. „Mér leist strax vel á það sem var lagt á borð fyrir mig.
Það er greinilega mikill metnaður í nýjum formanni og stjórninni og takmarkið er mjög einfalt, að komast í hóp þeirra bestu að nýju. Ég vildi einmitt taka að mér þannig verkefni, þar sem pressa er fyrir hendi. Við ætlum okkur stóra hluti í sumar og takmarkið er mjög skýrt, að komast í Bestu deildina. Ég hef tekið að mér svona verkefni áður, Fylkir var í næstefstu deild þegar ég tók við þeim og við fórum upp í fyrstu tilraun og ég fór upp með Eyjamenn í annarri tilraun nokkrum árum síðar.“
Blaðamanni datt í hug að reyna koma Helga í opna skjöldu og spurði hann hvernig stæði á því að hann hefði verið látinn fara frá Fylki og ÍBV þrátt fyrir gott gengi, spurningin var einfaldlega á þann máta hvort hann væri eitthvað erfiður í samskiptum. „Gott að þú spyrð. Nei, ég verð seint sakaður um að vera erfiður í samskiptum. Ég er mjög „easy“ í öllum samskiptum, það leyfi ég mér að fullyrða. Minn viðskilnaður við öll þessi lið sem ég hef komið að þjálfun á undanförnum árum, var í mjög góðu. Ég var með Fylki í þrjú ár, kom þeim strax upp og við vorum á góðu „run“-i á þriðja tímabilinu, áttum séns á Evrópusæti.
Það var búið að tilkynna mér að ég myndi ekki fá meira „budget“ til leikmannakaupa á næsta tímabili og ég fann þá hvernig mér fannst ég vera kominn með liðið eins langt og ég gæti. Því var það sameiginleg ákvörðun mín og stjórnar Fylkis að ég myndi stíga frá borði í lok leiktíðar. Ég man að ég skutlaði stjórnarmönnum heim eftir þennan fund sem þetta var ákveðið, þeir voru að spyrja mig álits hver ætti að taka við svo það sést greinilega að viðskilnaðurinn var í mjög góðu. Við gerðum mistök að tilkynna þetta þegar þrjár umferðir voru eftir og liðið tapaði síðustu þremur leikjunum.
Að þjálfa ÍBV var mikill skóli, ég áttaði mig á hversu mikilvægt er að vera með öfluga liðsheild en það vantaði upp á það fyrra árið enda var gengið dapurt. Við fórum síðan upp seinna árið. Fjölskyldan var með mér í Eyjum fyrra árið en það var ekki mögulegt seinna árið vegna atvinnu eiginkonunnar. Við tókum því ákvörðun um að seinna árið mitt yrði lokapunkturinn og ég setti undir mig hausinn. Ég myndi klára þetta á góðum nótum og fara með liðið upp, það gekk eftir. Sömuleiðis var viðskilnaðurinn við Eyjafólkið í mesta bróðerni. Ég var því ekki rekinn í þessi tvö skipti en var í raun rekinn í fyrra frá Val sem aðstoðarþjálfari þegar Heimi Guðjóns var sagt upp sem aðalþjálfara. Ég var samt endurráðinn sem aðstoðarþjálfari Ólafs Jóhannssonar, ef ég væri einhver vandræðapési þá hefði ég varla verið endurráðinn,“ segir Helgi.
Gengið vel að fá nýja leikmenn
Undirbúningstímabil Grindavíkurliðsins hófst í byrjun nóvember.
„Við höfum verið að æfa úti í vetur, n.t.t. á gervigrasvellinum á Álftanesi en sömuleiðis inni í Hópinu í Grindavík. Við æfðum á fullu til 20. desember en á þessum tíma fór mesta vinnan í að kynnast mannskapnum og safna liði, að sjá hvar á vellinum þörf væri á liðsstyrk. Það voru miklar breytingar hjá okkur á milli leiktíða, alls ellefu leikmenn sem fóru annað, þar af allir sex útlendingarnir. Ég er mjög ánægður að geta sent unga og efnilega leikmenn að láni, t.d. er Óliver Sigurðsson að fara í læri hjá Grindvíkingnum Óla Stefáni Flóventssyni hjá Sindra á Hornafirði. Óli er frábær þjálfari og það verður mjög gott tækifæri fyrir Óliver að æfa undir hans stjórn og vonandi að spila sem mest. Það var gott fyrir Óliver að æfa með okkur í vetur en hann mun hafa gott af því að fara að láni í sumar. Ungir og efnilegir leikmenn hafa svo gott af því að slíta svona naflastrenginn við foreldrana, flytja í burtu og standa á eigin fótum. Ég vona að Óliver muni nýta tækifærið til hins ítrasta, eins og aðrir ungir leikmenn okkar sem ætla að reyna annars staðar fyrir sér í sumar. Okkur hefur gengið mjög vel að fá nýja leikmenn en mesta athygli vekur væntanlega, endurkoma Óskars Arnar Haukssonar sem er leikjahæsti leikmaður í sögu efstu deildar karla. Ég er mjög ánægður með alla hina leikmennina en hringnum er ekki alveg lokað, við ætlum að bæta við okkur öflugum framherja. Við vorum komnir með öfluga og þekkta stærð, Geoffrey Castillion, en hann sleit hásin á fyrstu æfingunni með okkur í æfingaferðinni á Spáni um daginn.
Við erum að skoða nokkra leikmenn og ég vonast til að hitta á þann rétta. Ef það tekst þá verðum við með mjög öflugt lið í sumar.
„Ég tel einn minn stærsta kost vera hversu auðvelt er að vinna með mér. Ég verð seint flokkaður sem einhver vandræðapési,“ segir Helgi Sigurðsson, þjálfari karlaliðs Grindavíkur í knattspyrnu.
Ég vildi frekar sækja íslenska leikmenn í stað útlendinga, með fullri virðingu fyrir þeim. Ég vil mynda öfluga liðsheild og hef þá trú að íslenskir leikmenn aðlaðist frekar samfélaginu og fór því þessa leið. Við verðum samt að sjálfsögðu með útlendinga en þeir þurfa þá að vera áberandi betri en þeir íslensku. Slóveninn Marko Vardic er öflugur varnarmaður en ég hef mest verið að nota hann aftast á miðjunni og svo fengum við Martin Montipo sem lék með Vestra á síðasta tímabili. Martin, sem er hálfur Ítali og hálfíslenskur, er sóknarsinnaður miðjumaður, alinn upp hjá Parma á Ítalíu, hann hefur líka leikið með Kára á Akranesi. Vonandi tekst okkur svo að finna öflugan framherja.“
Stígandi
Eftir að hafa farið frekar rólega af stað í deildarbikarnum, hefur leiðin bara legið upp á við að undanförnu. „Við byrjuðum illa í fyrstu undirbúningsleikjunum en ég hafði ekki miklar áhyggjur ef ég á að segja alveg eins og er. Ég vissi hvar við vorum staddir, það vantaði leikmenn í hópinn svo ég var nokkuð rólegur. Stemmningin í klefanum hefur verið góð, það hefur verið stígandi í leik okkar og um leið og við fórum að geta haldið markinu hreinu fóru úrslitin að detta með okkur. Sumum kann að finnast það hljóma einkennilega frá sóknarmanni eins og mér en það sem ég er stoltastur af í leik okkar er varnarleikurinn og þá er ég ekki bara að tala um öftustu fjóra. Við erum að verjast mjög vel sem lið en ég vil meina að einn af mínum kostum sem framherji á sínum tíma, hafi verið hversu vel ég vann varnarlega. Ef þeir fremstu verjast vel, þá auðveldar það miðjumönnunum þeirra vinnu og það skilar sér alla leið aftur að öftustu mönnum, við höfum verið að fá lítið af færum á okkur og það er mjög jákvætt. Ef þú færð ekki mark eða mörk á þig, þá eru meiri líkur á að þú vinnir fótboltaleik, það er ekki flókin speki.
Við höfum ekki tapað í sex leikjum í röð, höfum þó verið að spila við lið eins og Val svo ég held að þetta líti bara vel út hjá okkur. Við höfum farið vel af stað, komnir í gegnum tvær umferðir í bikarnum og bíðum spenntir eftir drættinum í sextán liða úrslitum [dregið verður í bikarnum miðvikudaginn 26. apríl]. Íslandsmótið hefst svo í byrjun maí og verður hörkumót með breyttu fyrirkomulagi. Nú fer eitt lið beint upp um deild, liðin í öðru til fimmta sæti heyja svo baráttu um hitt lausa sætið eins og Bretinn gerir þetta en talað er um úrslitaleikinn í Englandi um að komast upp í Premier League sem verðmætasta fótboltaleik heims. Það er mikil stemmning í kringum þetta í Englandi og ég á ekki von á öðru en það sama gildi hér. Við ætlum okkur hins vegar ekki að taka þátt í þeirri úrslitakeppni, við ætlum okkur að vinna deildina,“ sagði Helgi að lokum.