7 minute read

Stórhuga draumar Golfklúbbs Grindavíkur

Til hamingju með 40 ára afmælisárið hjá Golfklúbbi Grindavíkur! Það má segja að það sé í raun kraftaverk að við eigum og séum að halda úti 18 holu golfvelli í Grindavík. Það er ekki sjálfgefið að slíkt sjáist í 3.500 manna samfélagi. Það er hins vegar staðreyndin í Grindavík, en þeir fiska sem róa og það þekkja Grindvíkingar vel. Stórhuga draumar stofnenda golfklúbbsins og vinnuframlag allra sem hafa síðan í hendur lagt, annaðhvort sem stjórnarmeðlimir, félagsmenn eða sjálfboðaliðar, hafa byggt upp auðlindina sem er Húsatóftavöllur.

Húsatóftavöllur er einstakur golfvöllur þar sem gestir þreyta sig í gegnum þrískiptan golfvöll. Byrjunin á golfvellinum er talin vera erfið en hraunið á þeim hluta vallarins veldur mörgum kvíða og þar geta kylfingar tapað niður höggum ef nákvæmni var ekki tekin með í farteskinu. Um miðjan völl tekur svo við grashluti vallarins og með þeirri skiptingu má oft sjá kylfinga anda aðeins léttar. Hérna gefst mörgum tækifæri til vera djarfari og bregða til sóknar til að bæta upp hugsanlegan höggfjölda sem tapaðist í hrauninu. Þessi hluti vallarins er talinn auðveldastur og þar finnum við þær holur sem gefa oftast flesta fugla á hringnum og það einstaka tækifæri til að slá á milli heimsálfa. Þegar það er svo gengið niður á neðri hluta vallarins tekur við þriðja og jafnframt elsta útgáfan en það er strandvöllurinn. Á þeim hluta ræður vindurinn oft miklu og þar finnum við bæði holur sem hægt er að sækja á og sem eru fljótar að refsa kylfingum. Húsatóftavöllur er hentugur golfvöllur fyrir byrjendur sem lengra komna, unga sem aldna og allir sem keyra suður með sjó getað fundið eitthvað einstakt við það að spila Húsatóftavöll, enn eina auðlindina sem hægt er að finna í Grindavík.

Önnur auðlind sem sækir vestur í hverfi eru okkar félagsmenn og þar á golfklúbburinn stóran og dyggan hóp sem samviskusamlega greiðir sín félagsgjöld og stundar íþróttina ár eftir ár - sterkur grunnur sem er klúbbnum mikilvægur. Á árinu 2020 var metaukning í nýjum félagsmönnum og afar ánægjulegt að sjá hversu öflug aukningin var hjá kvenkylfingum en þar tvöfaldaðist félagafjöldinn á milli ára. Fyrir árið 2021 er stefnan hjá okkur að fara vel yfir tvö hundruð og fimmtíu félagsmenn og við teljum niður dagana þangað til við fögnum þeim áfanga að félagatalið fari yfir þrjú hundruð félagsmenn. En það þarf meira til en félagsmenn til að tryggja reksturinn á golfvellinum.

Við erum afar þakklát að eiga jafn góðan og breiðan hóp fyrirtækja í bænum sem eru tilbúin að opna budduna sína og styðja við reksturinn - það sýnir hversu mikil samheldni og samfélagsábyrgð ríkir í Grindavík. Ómetanlegur stuðningur frá þeim fjölmörgu fyrirtækjum í bænum hefur gert golfklúbbnum kleift að stækka og viðhalda perlunni á Húsatóftum. Þrátt fyrir þá erfiðaleika sem þjóðin er að ganga í gegnum standa styrktaraðilar þétt við bakið okkar.

Grindavíkurbær hefur ekki síður stutt við golfklúbbinn í gegnum árin og eru það forréttindi að vera með svona góðan stuðning frá sínu bæjarfélagi. Hlutverk Grindavíkurbæjar er og verður ávallt mjög mikilvægur hlekkur í áframhaldandi uppbyggingu á þessari fjölskylduvænu íþrótt. Í núverandi rekstri eru nokkrir þættir hjá golfklúbbnum sem eru erfiðir fyrir golfklúbbinn að bæta eða framkvæma nema með frekari aðkomu og aðstoð frá Grindavíkurbæ. Opin og heiðarleg samtöl við fulltrúa bæjarins voru tekin á haustmánuðum í fyrra. Góð undirbúningsvinna og skýr framtíðarsýn skiluðu sér og nú inn á fjárhagsáætluninni fyrir árin 2021-2024, er Grindavíkurbær búinn að eyrnamerkja 305 milljónir króna til uppbyggingar á aðstöðuhúsi (til að hýsa tól og tæki í eigu golfklúbbsins) og æfingaaðstöðu (til að hlúa að þörfum og væntingum félagsmanna til golfklúbbsins og golfvallarins). Golfklúbburinn á Grindavíkurbæ miklar þakkir að færa.

Í fyrra var Grindavík rísandi bær en er nú hið nýja Ísland og jafnframt heitasti bær á landinu (ég þakka Jóni Þórissyni fyrir þetta skemmtilega orðalag) en þegar ég fyrst flutti til Grindavíkur árið 2009 var algengasta spurningin sem ég fékk ,, af hverju Grindavík,,? Ég viðurkenni fúslega að í fyrstu var svarið oftast að konan væri frá Grindavík og var svarið nærri því að hljóma sem afsökun frekar en einhverskonar sannfæring á búferlum. Ég man vel að það eina ef hægt væri að kalla skilyrði, var að mig langaði að fara að spila golf og þá helst til þess kynnast einhverjum í bæjarfélaginu en fyrir flutningana þekkti ég nánast engan í Grindavík.

Árið 2010 var jómfrúarárið mitt í Golfklúbbi Grindavíkur. Það ár var eins og hjá mörgum öðrum kylfingum sem eru að byrja en það ár prófaði ég mig aðeins áfram á æfingasvæðinu, spilaði oftast þegar fáir voru á vellinum og tók lítið þátt í golfmótum - vildi ekki vera fyrir þeim sem kunnu fagið. Ég var staðráðinn í að fara inn í annað árið mitt með nýtt hugarfar. Það ár tók ég þátt í nánast öllum innanfélagsmótum og kynntist um leið mörgum. Meira að segja afrekaði ég það að spila í einu Stigamóti á 76 höggum, þremur dögum eftir að hafa spilað völlinn á 104 höggum á lokadegi Meistaramótsins. Ég hef alltaf sagt að þessi 76 högga hringur var upphafið að því að mér fannst ég eiga heima í Grindavík. Það Stigamót vann ég með 50 punktum og fljótlega fór ég að fá ansi margar fyrirspurnir um hvað gerðist á hringnum og hreinlega hvernig ég fór að þessu - og, jú, ég spilaði allar 18 holur báða dagana. Reyndar fékk ég líka nokkur skemmtileg augnaráð frá reyndum félagsmönnum enda ekki á hverjum degi að 50 punktum sé skilað inn í hús en það er önnur saga. Eitt gott samtal var með formanni golfklúbbsins á þeim tíma, Páli Erlingssyni en það var einmitt Palli sem fékk mig í stjórn árið 2013 og á ég honum mikla þakkir fyrir það framtak - og í stjórn hef ég verið meira og minna síðan.

Árið 2020 var mitt fyrsta ár sem formaður og eitt af mínum markmiðum sem mig langar að deila með ykkur dregur einmitt af minni reynslu að ofan. Ég deildi markmiðinu mínu bæði með stjórninni og Helga Dan Steinssyni framkvæmdastjóra - einfaldlega ætlaði ég mér að spila með tuttugu félagsmönnum sem ég hafði aldrei áður spilað golf með. Sá fyrsti var Gísli kenndur við PGV en Gísli var einmitt að byrja spila golf aftur eftir nokkurra ára hlé. Eftirminnilegasti hringurinn var með þeim unglömbum Willard Ólafssyni og Reyni Jóhannssyni en það hafði lítið sem ekkert við golfið að gera heldur voru það sögurnar og minningarnar sem þeir rifjuðu upp um afa minn heitinn sem fylltu hjartað mitt þann dag. Og lægsti hringurinn minn í Grindavík var einmitt í fyrra og spilaður með mæðgunum Gerðu Hammer og Ragnheiði Árnýju en með þeim hafði ég aldrei áður spilað. Á endanum náðist markmiðið mitt og lokatalan fyrir sumarið voru tuttugu og fjórir félagsmenn í hús og vil ég þakka þeim öllum fyrir.

Það má segja að fólk muni gleyma hvað er sagt við það, fólk mun gleyma hvað var gert fyrir það en fólk mun aldrei gleyma hvernig því var fengið til að líða. Það þarf hugreki til að hafa áhrif - við getum öll haft áhrif á okkar nærumhverfi ef við gefum okkur tíma fyrir einlæg hrós og ef við viljum koma einhverju á framfæri að gera það á uppbyggilegan hátt frekar en bara ausa fram sinni skoðun. Það er nefnilega stutt á milli hreinskilni og dónaskapar en uppbyggileg endurgjöf er jú gjöf. Ég hvet alla félagsmenn til að hugsa um áhrifin sem þeir geta haft á aðra félagsmenn og þora að skrá sig eða jafnvel bjóða öðrum með sér í rástímana sína. Ég hvet alla félagsmenn til að þora að gefa sér aðeins meiri tíma og þolinmæði þegar nýir og/eða óreyndir kylfingar eru nálægt—það byrja allir á sama stað með sitt fyrsta högg.

Golfklúbbur Grindavíkur er okkar golfklúbbur og á þessu ári munum við sjá margar skemmtilegar breytingar til hins betra á vellinum, vetrarhúsnæði verður tekið í notkun og margt fleira sem við eigum eftir að fagna. Höfum jákvæð áhrif á okkar golfklúbb og félagsmenn. Hætturnar eru víða þannig að farið varlega á vellinum, fögnum því að eiga 18 holu golfvöll sem við getum spilað nánast þegar okkur hentar og umfram allt, hafið gaman af því að spila þessa mögnuðu íþrótt sem hugsanlega getur fylgt ykkur til æviloka. Til þeirra sem eru eða hafa verið að hugsa um að taka upp golf, verið hugrökk og komið í lið með okkur— það verður tekið vel á móti ykkur.

Að lokum langar mig að deila því hér að ég ætla mér að endurtaka leikinn frá árinu 2020 og spila aftur með tuttugu félagsmönnum sem ég hef aldrei áður spilað með þannig að tilhlökkunin að kynnast enn fleiri félagsmönnum og fyrir golfsumrinu framundan er mikil hjá mér.

Golf- og sumarkveðja, Sverrir Auðunsson Formaður Golfklúbbs Grindavíkur

This article is from: