1 minute read
Húsatóftavöllur er einn fallegasti golfvöllur landsins
Árlega gerir Gallup skoðanakönnun um ánægju með þjónustu meðal íbúa 20 stærstu sveitarfélaga landsins. Síðasta könnun var birt í árslok 2020 og er mikil ánægja meðal íbúa Grindavíkur um þjónustu sveitarfélagsins þegar á heildina er litið. Þegar spurt var um ánægju landsmanna með aðstöðu til íþróttaiðkunar í þeirra sveitarfélagi var hvergi meiri ánægja en í Grindavík.
Golfklúbbur Grindavíkur er einn af burðarásum íþróttalífs í bæjarfélaginu. Í gildi er samningur milli klúbbsins og Grindavíkurbæjar og með samningnum er ætlunin að efla golfíþróttina í Grindavík til hagsbóta fyrir samfélagið í heild.
Í því sambandi skal m.a. boðið upp á fjölbreytt starf þannig að allir fái tækifæri til þátttöku í samræmi við áhuga, vilja og getu.
Þá er mikil áhersla lögð á að rækta einstaklinginn og að styrkja sjálfsmynd iðkenda, meðal annars með öflugu íþrótta-, forvarna- og tómstundastarfi fyrir börn og ungmenni.
Til að klúbburinn geti ræktað hlutverk sitt styrkir Grindavíkurbær hann árlega með beinum og óbeinum framlögum.
Húsatóftavöllur er einn fallegasti golfvöllur landsins.
Sem dæmi um sérstöðu vallarins hefur verið nefnt að einstakt sé að á einum og sama vellinum sé spilað golf í hrauni, meðfram sjó og að kúlan sé jafnvel slegin yfir flekaskil á milli heimsálfa.
Venjulega er opnað fyrir sumarflatir snemma vors, en gjarnan er unnt að nýta völlinn á hvaða árstíma sem er. Félagsmenn taka virkan þátt í starfsemi klúbbsins og hafa unnið dyggilega að uppbyggingu hans. Starfsemin er fjölþætt og efnismikil.
Mikill fjöldi móta fer fram á vellinum á hverju sumri og svo mikil var aðsóknin 2020 að erfitt gat verið að fá rástíma fyrirvaralítið.
Þessi orð eru höfð eftir Arnold Palmer sem talinn hefur verið einn færasti kylfingur sögunnar. Grindvíkingar eru heppnir og jafnframt stoltir yfir því að Húsatóftavöllur skuli vera í bæjarfélaginu.
Félögum klúbbsins eru færðar bestu hamingjuóskir í tilefni afmælisins með ósk um bjarta framtíð.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur