4 minute read
Fyrsti sigurinn er líklega eftirminnilegastur
Sigrún Ragna Sigurðardóttir, eða Sigrún hans Jonna Péturs eins og ég hef alltaf þekkt hana, er ein af fyrstu konunum í starfi GG en þótt hún hafi ekki byrjað sjálf að spila golf fyrr en árið 1986, þá var hún viðloðandi golfið í gegnum Jonna sinn og soninn Sigurð sem var framarlega í flokki unglinga og náði að verða klúbbmeistari einu sinni, árið 1992 eins og fram kemur í þessari grein um fjóra af klúbbmeisturum GG.
Sigrún var tiltölulega fljót að komast upp á lagið með golfið enda heltók golfbakterían hið daglega líf.
„ Ég er frá Sandgerði og flutti til Grindavíkur árið 1974. Jonni minn tók þátt frá byrjun Golfklúbbs Grindavíkur og var alltaf virkur í starfinu og árið 1986 vorum við Alda hans Sveins Ísaks en þau bjuggu við hliðina á okkur, orðnar leiðar á að hanga einar heima á meðan karlarnir léku sér í golfi og ákváðum bara að skella okkur líka. Eins og gengur og gerist með byrjendur, þá gekk þetta nú brösuglega til að byrja með og áttum við Alda í mesta basli með að ná að lyfta kúlunni, en degi fyrir meistaramótið var hringt í mig, það vantaði konur í mótið og lagt hart að mér að vera með og ég lét til leiðast – en hefði betur sleppt því… Ég var komin með einhver 130 högg eftir fyrri níu en var líka að drepast úr millirifjagigt svo ég lauk leik eftir níu holur í mínu fyrsta meistaramóti… Tók síðan alltaf þátt ef ég man rétt en átti ekki séns í Erlu Adólfs sem vann fjögur ár í röð áður en mér tókst svo loks að vinna árið 1991. Ég vann meistaramótið 1991-1994 og tók minn fjórða titil 1995. Faðir minn dó árið 1996 svo ég tók ekki þátt þá en flutti svo til Reykjavíkur, gekk í GR og vann 1. flokkinn á fyrsta ári mínu í þeim klúbbi.“
Hvað var eftirminnilegast frá þessum meistaramótum?
„Á þessum árum kláruðum við konurnar okkar mót á föstudögum og gátum þá leyft okkur að vera eftir þegar karlarnir okkar þurftu að fara heim til að hvíla sig fyrir sinn lokadag, og var oft kátt á hjalla hjá okkur þegar við röltum heim frá skálanum í góðum gír. Svo var alltaf lokahóf á laugardagskvöldinu þar sem allir komu og gerðu sér glaðan dag, mjög skemmtilegt og gaman að eiga þessar minningar frá tímanum í GG. Fyrsti sigurinn er líklega eftirminnilegastur en það ár varð Jonni klúbbmeistari karla svo við hjónin tókum tvennuna það árið, og árið eftir fylgdi Siggi sonur okkar í fótspor pabba síns svo við mæðgininin stóðum uppi sem sigurvegarar þá, mjög gaman!“
Sigrún hefur alltaf verið mikil keppnismanneskja, ekki bara í golfinu og þegar kom að því að ryðjast aftur inn á atvinnumarkaðinn, þá kom keppnisskapið sér vel: „Þegar ég var um sextugt, kom upp sú staða að ég reyndi að komast inná vinnumarkaðinn, eftir að hafa verið búin að vera í eigin rekstri frá unga aldri. En enga vinnu var að fá, ég fékk ekki einu sinni svar frá atvinnurekendum. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á fasteignum, er mikill fagurkeri og mér bauðst vinna hjá Allt fasteignum sem þá voru með starfsstöð í Hafnarfirði. Ég var búin að vinna þar í um sex mánuði þegar ný lög voru samþykkt á alþingi varðandi fasteignasölu, þá þurfti 2ja ára háskólanám til að öðlast löggildingu. Það kom smá hik á mig en keppnisskapið tók yfir og ég dreif mig í námið og kláraði. Í dag er ég svo heppin að vinna hjá Lind fasteignasölu en þar starfa aðeins löggiltir fasteignasalar og fagmennskan í fyrirrúmi.“
Er eitthvað annað minnisstætt frá þessum árum í Grindavík?
„Það er tvennt sem ég man mjög vel eftir. Við Fanný Erlings fórum einu sinni í kvennamót og á gömlu 9. holunni [er 12. flötin í dag - Innskot blaðamanns] sjankaði ég upphafshöggið en fyrir neðan grínið var kartöflukofi og það var opið inn í hann. Annað höggið mitt tókst ekki betur en svo að ég sló inn í fjandans kofann í nokkur skipti, þurfti auðvitað alltaf að taka víti og Fanný var næstum búin að pissa í sig úr hlátri! Svo loksins þegar mér tókst að komast frá kofanum þá lenti ég í bönker og þá tók ekki betra við! Ég var glötuð í bönker og þurfti ansi margar tilraunir til að komast upp úr og endaði með 27 högg á þessari par 3 holu! Mikið hefði verið gott ef punktaleikur hefði verið kominn til sögunnar þarna!“ „Hitt atvikið sem er mér eftirminnilegt, þegar ég fékk golfbolta í mig, beint á milli augnanna og það þurfti að sauma sjö spor í ennið á mér! Þetta var í hjóna- og paramóti, hinn óheppni kylfingur var góður vinur, Arnar Sigurþórsson. Hann sló drævið sitt í grjót og allt í einu stóð ég bara og blóðið spýttist úr enninu á mér! Það er ekki skrýtið, en enn þann dag í dag er ég smeyk þegar ég veit af golfbolta á flugi í kringum mig.“
Sigrún hlakkar til að koma í „Meistari a“, mót sem haldið verður á afmælisárinu, en þá koma vonandi saman allir fyrrum klúbbmeistarar, stigamótsmeistarar, formenn og fleiri: „Ég á mjög góðar minningar frá árunum í GG og það verður gaman að koma og spila gamla heimavöllinn – sem þó hefur breyst ansi mikið síðan ég var í klúbbnum. Skemmtilegast verður þó að hitta gamla félaga, ég hlakka mikið til!“
Þrjár af klúbbmeisturum kvenna; Bylgja, Fanný og Sigrún á góðri stundu