18 minute read

Á Tóftum í júní 2002

Á Tóftum í júní 2002

Golf gangan er hafin Glæsileg sem fyrr Tóftin tengir staðinn Tíminn stendur kyrr.

I

Hann kemur gangandi neðan frá sjónum, maður á sjötugsaldri, frakkaklæddur, berhöfðaður. Hárið er gráspengt og flaksandi í norðangolunni. Bíllinn stendur við veginn rétt fyrir neðan golfskálann, gamla húsið á Tóftum. Maðurinn er vel á sig kominn, gengur hraustlega og ber höfuðið hátt, býsna öruggur í fasi. Það sem vakti athygli aðkomumannsins voru flöggin í stöngum á hólnum fyrir utan húsið. Það er margt fólk þarna að snúast um. Þetta var þá veitingastaður hugsaði gesturinn.

Vertinn bauð hann velkominn og aðkomumaður fékk sér kaffibolla og heimabakaða köku. Af hverju er flaggað? spurði hann forvitinn. Það er Þriðjudagsmót sagði Vertinn og brosti út í annað, þegar komumaður sagði að það væri fimmtudagur. Þetta er mótaröð, tíu mót. Sá sem stendur uppi að lokum með flest stig verður sigurvegari. Þriðjudagsmótin eru mjög lífleg og halda uppi góðu félagstarfi og lífi í klúbbnum, arfur frá Golfklúbbi Suðurnesja, úr Leirunni. Þeir hjálpuðu okkur að stíga fyrstu skrefin og starfsemin mótaðist í upphafi svolítið eftir þeirra kerfi. Leiran hafði þessi mót á þriðjudögum, en það hentaði okkur betur að hafa þau á fimmtudögum. Við létum nafnið halda sér.

Aðkomumaðurinn leit í kring um sig ánægður á svipinn. Það voru myndir á veggjunum úr atvinnulífinu í Grindavík. Margar bátamyndir sem glöddu hann. Hann þekkti suma bátanna og útgerðamennina líka. Margar þekktar persónur báru fyrir augun sem hann kannaðist við. En hvaða spjöld eru þarna á veggnum með nöfnum og ártölum ? spurði hann.

Þetta eru nöfn þeirra sem unnið hafa meistaramót klúbbsins í karla og kvennaflokki, sagði Vertinn. Þarna eru líka nöfn þeirra sem hafa unnið Stigamótin (þriðjudagsmótin) bætti hann við. Stjórnarmenn klúbbsins fóru til útlanda í vor til að spila golf í Devon á suður Englandi. Þeir voru hugfangnir af andrúmslofti og stemmningu í enskum golfskálum. Þar voru svona plattar uppi á veggjunum á mjög áberandi stöðum. Plattarnir voru með nöfnum meistara klúbbanna í samfelldri röð frá 19. Öld. Golfklúbbarnir áttu langa sögu að baki, stofnaðir 1878 til 1890. Þetta var mjög áhrifamikið. Þeir hryntu þessu í framkvæmd í Golfklúbbi Grindavíkur um leið og þeir snéru til baka, sagði Vertinn.

Vallarstjórinn kom upp traðirnar að skálanum og fór mikinn. Skömmu síðar kallaði hann á Vertinn og sagðist örugglega fara til himna. Hann var að slá fimmtu brautina. Allt í einu sá hann örlitla hreyfingu beint fyrir framan sláttuvélina. Hann varð að stöðva snögglega til að forða árekstri. Lítill æðarungi stóð stjarfur í grasinu og starði á sláttumanninn með tárin í augunum. Hann tók litla kollubarnið upp, þau horfast í augu og barnið sagði hágrátandi að það væri búið að týna mömmu sinni. Vallarstjórinn, ættaður frá Akureyri, nýútskrifaður frá skóla í Skotlandi þar sem hann lærði umhirðu golfvalla, varð svo mikið um að hann fór líka að kjökra. Hann labbaði með ungann niður að sjó þar sem hundrað kollur og mörg hundruð ungar syntu í hringi þarna í flæðarmálinu. Þegar unginn kom í spegilsléttan sjóinn í góða veðrinu, synti hann rakleitt að kollunni sem var næst landinu með fimm unga. Kollubarnið fann mömmu sína, sem tók á móti honum með kostum og kynjum.

II

Eruð þið með fólk í vinnu til að slá golfvöllinn alla daga spyr sá ókunnugi. Já, segir Vertinn, hámenntaðan í faginu og stjórnin nýbúin að kaupa handa honum splunkunýjar sláttuvélar frá Englandi. Ég er svo aldeilis hissa segir ferðamaðurinn. Það er svo sem ekkert nýtt að Tóftamenn standi í heyskap, bætti hann við.

„Það var fyrir löngu síðan að margt fólk var hér uppi á Tóftatúni að snúa heyi, hélt hann áfram. Veðrið var mjög gott, stafalogn, þurrkur og spegilsléttur sjórinn. Það örlaði ekki við stein. Þetta var þegar séra Kristján Eldjárn var prestur á Stað. Einhver kíkti út á sjóinn og tók þá eftir svartri þúst úti við sjóndeildarhring í suð-austri. Þústin virtist alltaf vera að breyta lögun, verða stærri eða minni um sig í sífellu. Fljótlega skýrðist hún, virtist fara nokkuð hratt og stefna til lands.

Þegar upp undir landið kom, þóttist fólkið sjá, að hér væru höfrungar á ferðinni, en því sýndist líka að einhver stór skepna væri þarna á undan og höfrungarnir sem eltu, börðu stöðugt á henni. Þessi hópferð stefndi á mikilli ferð upp í Garðafjöru. Þarna reyndist vera stór steypireyður að forða sér undan höfrungunum og strandaði í fjörunni en litlu hvalirnir sluppu við strandið. Hún var rifin og tætt eftir þá, einkum á hausnum. Flestir Staðhverfingar voru komnir í fjöruna þegar hvalurinn strandaði, þeirra á meðal séra Kristján. Hann átti korða sem hann hafði með sér á strandstað. Strax og reyðurin var landföst, tók presturinn sverðið og lagði til skepnunnar undir annað bægslið.

Á þessum árum þótti það merkilegur viðburður þegar hvalreki átti sér stað. Þar var mikill matur sem venjulega var af skornum skammti. En þarna var sagt að farið hefði eins og fyrri daginn, þegar átti að skipta verðmætum. Eitthvert ósætti var milli prestsins og jarðeigendans. Deilt var um hve stóran hlut presturinn átti að fá fyrir sverðslagið í hvalinn. Jarðeigandinn sagði að það hefði verið hreinn óþarfi, presturinn hefði ekki fellt dýrið því hvalurinn hefði drepist hvort sem var.

Gamla fólkið sem sagði mér þessa sögu vissi ekki hvernig endanlega var gengið frá þessum skiptum. Það sagði að þetta ósætti hefði flýtt fyrir því að séra Kristján Eldjárn sagði starfi sínu lausu skömmu síðar og flutti frá Stað.“ (Guðsteinn)

Ókunni maðurinn sagði þessa sögu með miklum tilþrifum og þunga svo að Vertinn fór og náði í dramm honum til hressingar.

III

Stjórnin sem nú ræður ríkjum í golfklúbbnum tók við árið 1999, sagði Vertinn. Félagið átti enga peninga þegar hún tók við. Það þurfti að finna einhverjar fjáraflanir til viðbótar við ársgjöld félagsmanna. Fyrirtækin í Grindavík voru mjög hjálpleg og sýndu klúbbnum mikið vinarþel. Þau studdu við bakið á þeim og sköffuðu verðlaun í golfmótin. Þeim fjölgaði og starfið óx. Fólk streymdi hvaðanæva að í golf í Grindavík og völlurinn naut mikilla vinsælda. Allir sinntu þessu sjálfboðastarfi af miklum dugnaði og samviskusemi. Þetta skapaði félaginu peninga þar sem enginn kostnaður fylgdi þessu fyrir klúbbinn.

Golfvöllurinn var níu holur og tók ekki nema 40 keppendur, þess vegna þurfti að ræsa tvisvar til að taka 80 keppendur. Seinni ræsingin var ekki möguleg fyrr en allir voru búnir með fyrri 9 holurnar. Þetta tók svona 8 til 9 klukkutíma. Stundum stálust þau til að ræsa 50 golfara á 9 holur og þá fór þátttakan stundum yfir 100. Þetta var gert til þess að auka tekjurnar. Það var þröngt á vellinum og margir þurftu að bíða. Það kom fyrir að menn kvörtuðu yfir hægum leik, voru ekki ánægðir, en allt fór vel að lokum.

Það var á Sjómannadaginn árið 2000 sem fyrsta Bláa-lóns mótið fór fram. Þessi keppni var arfur frá fyrri stjórn. Kristmundur læknir Ásmundsson var mikill hvatamaður að því. Bláa-lónið hf. gaf vegleg verðlaun fyrir tuttugu efstu sætin eftir þrjú mót undir sama nafni.

Fyrsta mótið var haldið í Grindavík, svo í Sandgerði og lokamótið var í Leirunni. Tilgangurinn var að auka samvinnu Suðurnesjamanna í íþróttinni og Bláa-lónið naut athyglinnar fyrir sína starfsemi. Hagsmunir voru víða. Félagar í

Golfklúbbi Grindavíkur unnu mikla sjálfboðavinnu. Það þurfti að ræsa út þrisvar á völlinn. Það komu 174 keppendur í mótið, fleiri komust ekki að. Fyrsta hollið fór út klukkan 7 um morguninn. Síðustu keppendur komu í land klukkan hálf þrjú um nóttina. Það þurftu margir að fara út aftur í bráðabana til að knýja fram úrslit.

Eitt mót var sérstaklega hannað til fjáröflunar. Þeir nefndu það í höfuðið á frumkvöðlinum Jóhanni Möller, Möllersmótið. Þetta var fyrirtækjakeppni. Þau sendu lið og borguðu dálaglega upphæð fyrir hverja sveit. Mótið var um miðjan ágúst og alltaf á miðvikudögum, keppendur fengu frí í vinnu til að keppa. Möllersmótið varð gríðarlega vinsælt. Kostnaðurinn var sáralítill, peningar sem komu inn fóru beint í félagssjóð. Það munaði um fjármuni úr Möllernum. Klúbburinn gat gert ýmislegt til að byggja upp völl og félag. Þetta kostaði gríðarlega sjálfboðavinnu hjá félögunum. Vertinn sagði við aðkomumanninn að það væri ótrúlegt hvað félagsmenn væru duglegir að sjá um mótin og að afla fjár til starfseminnar.

Starfseminn á golfvellinum var mjög þétt framan af. Tóftavöllur er tilbúinn fyrr á vorin en flestir aðrir vellir. Hann þornar mjög snemma, svo er völlurinn á suðlægari breiddargráðu en aðrir íslenskir golfvellir. Það vorar fyrr á Reykjanesi en Langanesi. Þegar komið var fram á mitt sumar þá minnkaði skipulögð starfsemi. Það var þess vegna sem stjórnin skipulagði nýtt mót sem þau kölluðu Tóftabóndann. Þetta er holukepnni sem entist fram á haustið. Umferðin óx til mikilla muna. Klúbbfélagar kepptu sín á milli eftir því sem mótinu vatt fram. Félagar spiluðu ekki alltaf í sömu grúppunni, heldur skoruðu hver á annan eftir ákveðnum reglum holukeppninnar. Það var farið eftir svokölluðum „ Titleist ramma“. Tóftabóndinn tókst mjög vel og gerði það að verkum sem stefnt var að, allir spiluðu við alla.

Það voru níu brautir á vellinum. Stjórnin tók sig til og seldi þær allar tímabundið þessum góðviljuðu fyrirtækjum sem studdu klúbbinn með ráðum og dáð. Þau keyptu brautina fyrir háa upphæð og borguðu með skuldabréfi sem átti að greiðast upp á átta árum. Félagið var komið með verðbréf í hendurnar. Golfklúbbur Grindavíkur gerði samning við Sparisjóðinn í Keflavík sem tók bréfin og lét þau fá aura til að kaupa sláttuvélar, með dyggri aðstoð fermingarbræðranna, Hermanns Ólafssonar í Stakkavík og Gísla Sigurðssonar á Hrauni. Völlurinn breytti snarlega um svip, varð röndóttur og flottur.

IV

Nú heyrist umgangur í stiganum. Holl að klára sig eftir átján holu hring í góða veðrinu. Þetta voru tvenn hjón úr Golfklúbbi Reykjavíkur sem voru að spila Tóftavöllinn í fyrsta sinn. Mennirnir voru úr Múrarameistarafélagi Reykjavíkur og nutu sérkjara á völlinn þar sem félagið studdi starfsemina vel og rækilega. Þau voru yfir sig ánægð með daginn. Náttúran var efst í huga þeirra. Kríurnar, tjaldurinn og kollan voru út um allt í kring um völlinn. Þegar þau voru kominn niður á tangann þar sem flötin er í kvosinni við varnargarðinn og ætluðu að fara að pútta, þá heyra þau einkennileg hljóð upp úr fjörunni. Það lá urta úti á klettunum og tveir stórir brimlar syntu í hringi í sjónum fyrir neðan. Þeir urruðu lágt hvor framan í hinn. Allt í einu ruku þeir hvor á annan í rosalegum slagsmálum. Það var greinilega barist upp á líf og dauða. Fólkið náði myndum af þessu og gaf sér tíma til að fylgjast með góða stund. Þau sáu að það fossblæddi úr öðrum brimlinum og skömmu síðar synti hann í burtu sigraður með lafandi skott. Sigurvegarinn svamlaði til urtunar sem stökk brosandi í sjóinn og saman syntu þau út í sker til að búa til „urtubörn“. Sjórinn var rauður á litinn.

Gestirnir voru nú vestast á vellinum úti við Reynisstað að leggja í síðustu holurnar, þá hleypur refur með loðið skott og kolluegg í kjaftinum, rétt fyrir aftan þau á teignum. Annar múrarinn fékk mjög góðan fugl. Hann missti teighöggið, dróg ekki fram fyrir kvennateig, annað höggið fór langt út í kafloðið röffið vinstra megin, en þriðja höggið fór beint í holu úr röffinu af 150 metra færi. Hollið fór heim til sín og fullvissaði viðstadda að þau kæmu fljótlega aftur.

V

Það fór á vel á með aðkomumanni og Vertinum. Gesturinn var ættaður úr Staðarhverfinu en bjó alltaf í Reykjavík. Foreldrarnir fluttu þegar áraskipin og trillurnar urðu úreltar. Húsið í Staðarhverfinu var rifið og endurbyggt í Reykjavík. Ræturnar draga hingað, en það er langt síðan hann kom síðast. Það er starfandi átthagafélag Staðhverfinga, Staðhverfingafélagið.

Vertinn og konan hans eru úr Hafnarfirði og leigja húsið á Efri-Tóftum af golfklúbbnum. Þau reka golfskálann og sinna skráningum fyrir klúbbinn. Húsið opnar í marz og lokar í byrjun nóvember. Húsráðendur eru eins og farfuglarnir, fljúga til Höfðaborgar í Suður Afríku og dvelja þar á meðan skammdegið ríkir á Íslandi. Fjölskylda þeirra býr þar að hluta til. Hjónin hafa gert félaginu gott, eru ómetanleg fyrir golfklúbbinn.

Félagarnir héldu áfram að spjalla um starfið. Það vantaði svolítið unga fólkið í félagið, sagði Vertinn, já eru þau ekki öll í fótboltanum sagði hinn. Það voru samt börn klúbbfélaga sem voru að leika sér á vellinum en í smáum stíl. Það var ekki almennt að krakkar kæmu út á golfvöll, hann er ekki alveg við bæjardyrnar, það er nokkur fyrirhöfn að koma sér út á golfvöll, sérstaklega fyrir þá sem ekki hafa bíl.

Stjórnin skipulagði æskulýðsstarf. Það byrjaði smátt. Helgi Birkir Þórisson úr Keflavík var fenginn til að sinna því til að byrja með. Golfklúbburinn bjó til aðstöðu í Kálfinum við Íþróttahúsið. Forstöðumaðurinn Guðjón Sigurðsson sýndi þessu mikinn áhuga. Netaverkstæðið bjó til fjóra bása úr loðnuneti sem auðvelt var að koma fyrir og það var mjög gott að slá í netið af fullum krafti. Það skemmdi ekki fyrir að kálfurinn var eins og speglasalur þannig að menn gátu séð hvað sveiflan var flott. Sigurður Sigurðsson úr Keflavík, frægur golfari og Íslandsmeistari var ráðinn til starfa fyrir krakkana. Þrír tímar í viku. Sigurður mætti í byrjun janúar klukkan tíu á sunnudagsmorgnum með fullt hús af börnum sem langaði að læra golf. Hann kenndi krökkunum í Íþróttahúsinu fram á vor, þá fór hann með þá út á golfvöll. Þetta gekk mjög vel hjá Sigga og krökkunum. Næsti unglingakennari var Sigurður Hafsteinsson. Hann er mjög góður golfari, en hefur getið sér gott orð sem golfkennari. Allur kostnaður var greiddur af velviljuðum fyrirtækjum í Grindavík.

VI

Gesturinn sem ættaður er héðan úr Staðarhverfinu fór að segja Vertinum frá staðháttum og örnefnum í kringum golfvöllinn. „Jarðirnar eru tvær“ sagði hann, kirkjujörðin Staður og Húsatóftir sem var konungsjörð. Það eru fimm tómthús á Tóftum í beinni línu hér vestur af sagði hann og benti, öll inni á golfvellinum. Hamrar, Blómsturvellir, Dalbær, Vindheimar og Reynisstaður. Jóhann og Elísabet Möller keyptu Reynisstað fyrir sumarbústað. Það er eina tómthúsið sem enn stendur, sagði gesturinn.

Vertinn spurði gestinn hvort hann hefði heyrt að það rigndi mikið í Grindavík hér áður fyrr. Það vita nú allir sagði gesturinn, þetta suðvesturhorn landsins er það blautasta. Já en hérna á golfvellinum lentu þeir í miklum vandræðum vegna þurrka. Það skapaðist stór hætta á því að flatirnar skrælnuðu. Það var svo mikið vandamál, næstum því neyðarástand, svo mikið að Slökkvilið Grindavíkur var ræst út hvað eftir annað til að bjarga málum. Þetta kostað mikið fé.

Stjórnin réðist í það stórvirki að leggja vatnslögn út um allan völlinn. Þau voru í nánu sambandi við fiskeldisfyrirtæki sem er hér í næsta nágrenni. Fyrirtækið hafði þá virkjað gjána Baðstofu sem er hér rétt við golfvöllinn. Gjáin er ógnvekjandi, 18 faðma djúp með hamraveggjum allt í kring. Hún er hálffull af vatni. Það er gott vatn í Baðstofunni, það var sótt vatn í gjánna í gamla daga þegar brunnar spilltust í stórflóðum.

Eldisfyrirtækið byggði brú yfir Baðstofuna. Þeir notuðu brúna til að koma fyrir dælu sem færði fyrir þá vatn í fiskeldiskerin. Þá vantar mikið vatn. Klúbburinn sá sér leik á borði og samdi við Stofnfisk hf. Fyrirtækið tók þeim vel. Golfvöllurinn þurfti sambærilega dælu og fékk leyfti til að nota brúna og vatnið. Eldisfyrirtækið fékk í staðinn að nota vallardæluna til vara í neyðartilfellum. Samstarfið var ánægjulegt og býsna náið. Stofnfiskur hf. aðstoðaði klúbbinn við að ná í allar lagnir, golfararnir fengu að njóta þeirra viðskiptakjara.

Dælan var stór og mikil, fengin hjá Grundfoss í Danmörku í gegn um vélsmiðju í Grindavík sem heitir EP VERK hf. Þeir hönnuðu kerfið og reiknuðu út vatnsþörf til að fóðra 18 holu golfvöll.

Lögninni var skipt í þrjá meginhluta sem fóðraði 6 holur hver. Þetta var mikið framfaraspor og hefur reynst vel í alla staði, það skortir aldrei vatn, alltaf hægt að vökva flatirnar þó þurrkurinn sé langvarandi.

VII

Félagarnir í golfskálanum, Vertinn og sá sem er ættaður úr Staðarhverfinu héldu áfram skrafinu, í mestu rólegheitum. Staðhverfingurinn sagði sögur úr gömlum tíma og Vertinn sagði gestinum sögur úr starfi Golfklúbbs Grindavíkur á Tóftum. Fyrri stjórnir höfðu undirbúið stækkun vallarinns. Hannes Þorsteinsson frá Akranesi teiknaði stækkun sem fjölgaði brautunum í 18 holur sem er fullvaxinn golfvöllur. Það var búið að ýta fyrir brautunum. Stækkunin var allt of mikið verk til að gera í einu vetfangi. Klúbburinn var ekki nógu stór. Brautirnar sem var búið að ryðja voru grjóthreinsaðar. Grasfræi var sáð í þær og smám saman tóku brautirnar við sér, urðu grænar og býsna vel grónar.

Gísli á Hrauni var fenginn á aldamótaárinu til að búa til þrjár flatir á efri hluta vallarins og eina niðri á bökkunum. Þeir fengu átta brautir fyrir ofan veg og fimm fyrir neðan. Það var byrjað að leika niður á Tóftadalinn og eftir 13 holur var hann leikinn aftur til að fá 18 holu hring.

Grasið á flatirnar fékkst af Tóftatúninu. Það reyndist vera bezta grasið sem völ var á um haustið 2001. Þeir voru að tyrfa í sjálboðavinnu fram í desember. Stækkaður völlurinn var tekinn í notkun haustið 2002.

Vertinn sagði að félagsstarfið og samstaðan væri til fyrirmyndar og smám saman væri kominn góður golfvöllur sem þróaðist hægt og bítandi í rétta átt. Það er gott til þess að vita að til eru áhugamenn um uppbyggingu á Húsatóftum, sagði gesturinn. Þetta er staður þar sem fólkið hefur háð harða lífsbaráttu og sagan er við hvert fótmál, bætti hann við.

„Það strandaði enskur togari hérna rétt hjá, snemma í janúarmánuði árið 1902 sagði gesturinn. Hann hét Anlaby. Það fórust allir úr áhöfninni, 11 manns. Þetta strand var nokkuð sögulegt. Skipstjórinn á Anlaby var einhver mesti þrjótur og landhelgisbrjótur sem verið hefur hér við land, fyrr og síðar á enskum togurum og er þá nokkuð mikið sagt. Hann var skipstjóri á togaranum sem varð þremur mönnum að bana á Dýrfirði nokkrum árum fyrr.

Hannes Hafstein þáverandi sýslumaður fór um borð í togarann sem var á veiðum uppi í landsteinum. Það var grunur um að sleppt hefði verið vír úr tolla á togaranum, sem hefði hvolt bátnum með vilja. Það var ekki gerð tilraun til að bjarga mönnum sem voru að hrekjast í sjónum. Hér var um verulegan þrjót að ræða. Skipstjórinn var ekki tekinn þarna fyrir vestan. Hann var kærður fyrir þennan verknað til danskra yfirvalda í Kaupmannahöfn. En sennilega hefði það ekki komið að miklu gagni, ef þessi sami skipstjóri hefði ekki svo víða komið við. Hann var tekinn í landhelgi við strendur Jótlands skömmu síðar og fyrir þá tilviljun fékk hann dóm fyrir Dýrafjarðarglæpinn. Sagt var að hann hefði verið dæmdur í tveggja ára fangelsi og verið í sinni fyrstu ferð hingað til lands eftir að hafa tekið út sína refsingu.

Skipstjórinn hét Carl Nilson og kallaður Sænski Carl. Það var sagt að hann hefði verið búinn að heita því að velgja Íslendingum undir uggum, þegar hann kæmi þar á miðin aftur. Þarna á strandstaðnum í Staðarhverfinu átti þessi þjarkur sitt síðasta uppgjör við tilveruna, sagði þessi fróði gestur í golfskálanum.“ (Guðsteinn)

Það hefur oft verið mikið vandamál á golfvellinum þegar hleypur ofvöxtur í Atlantshafið og sunnanáttin ryður því yfir Tóftadalinn í Arfadalsvíkinni.

Félagsmenn golfklúbbsins hafa frá fyrstu tíð þurft að hreinsa Dalinn eftir stórflóð. Landbrotið er mjög mikið eftir svona hamfarir. Stærðartorfur rifna upp úr fjörukantinum og skolast langt inn á landið. Gamlir menn sem muna tímana tvenna fullyrða að ströndin hafi gengið inn um tugi, ef ekki hundruð metra, síðustu áratugina. Landið er hæst frammi við sjóinn og lækkar svo allt inn á við. Það er nokkuð ljóst segir Vertinn að fjaran væri komin upp að vegi ef golfararnir hefðu ekki búið til golfvöll og barist við náttúruöflin til að bjarga landinu.

Í kring um síðustu aldamót voru miklar framkvæmdir við Grindavíkurhöfn. Það voru byggðir stórir varnargarðar fyrir höfnina. Grjótnáman sem notuð var er skammt frá golfvellinum. Verktakinn við höfnina var Suðurverk hf. Þeir kláruðu verkið með sóma. Ólafur Ragnar Sigurðsson skipstjóri bjó um tíma austur í Rangárvallasýslu og kynntist Dofra Eysteinssyni sem stofnaði Verktakafyrirtækið sem hefur heimili á Hvolsvelli. Dofri forstjóri fyrirtækisins og Ólafur skipstjóri voru kunnugir hvor öðrum, þeir höfðu báðir stundað hestamennsku af miklum móð austur á Rangárvöllum á slóðum Gunnars Hámundarsonar frá Hlíðarenda.

Ólafur sannfærði Dofra, sem er skynsamur maður um það, að þegar fyrirtæki fengi svona stórt verk í bæjarfélagi eins og Grindavík, þá væri ekki vitlaust að skila einhverju til íþróttafélaga á staðnum. Suðurverk hafði komið mjög vel fram í Grindavík. Það var til þess tekið hvað þessi stóra framkvæmd fór kurteisilega fram án þess að trufla nokkuð daglegt líf. Garðarnir hafa reynst afburða vel.

Það var töluvert af grjóti til á lager í námunni. Þarna voru steinar sem voru ekki nothæfir í hafnarmannvirki en voru alveg upplagðir í vörn fyrir golfvöllinn. Sprengigrjótið var auðfengið hjá Grindavíkurbæ. Suðurverk lagði til vélar, flutningabíla og mannskap. Þetta voru miklir fagmenn og margverðlaunaðir fyrir hleðsu á steinum við svipaðar aðstæður.

Þeir skiluðu þessu verðmæta verki fyrir golfvöllinn án þess að taka krónu fyrir. Grindvíkingum þykir vænt um Suðurverk hf. sagði Vertinn og færði gestinum nýjan kaffibolla.

Gesturinn leit á klukkuna og Jesúsaði sig. Tíminn leið hratt í þessum góða félagsskap. Hann hafði alveg gleymt sér í spjalli við húsráðandann á Tóftum. Konan kom með honum til Grindavíkur og skrapp í heimsókn til frændfólks. Hann ætlaði bara aðeins að skreppa út í Staðarhverfið á meðan, ætlaði að vera fljótur. Hann snéri sér að Vertinum og báðir þökkuðu fyrir mjög ánægjulegt spjall.

Þeir byrja að fara á barinn

Blindir í sinni neyð

Áfram allur skarinn

Alltaf á réttri leið.

Golfararnir kalla

Ég verð að gegna þeim

Ég veit ekki hvort eða hvernig

Eða hvenær ég kem heim.

melurinn

Heimildir: Prentsmiðja Hafnarfjarðar hf, - 1960. Frá Valahnúk til Seljabótar. Guðsteinn Einarsson. Bókaútgáfan Örn og Örlygur.- 1975. Mannfólk mikilla sæva. Gísli Brynjólfsson Óbyggðirnar kalla – Magnús Eiríksson.

This article is from: