3 minute read
Fallegur golfvöllur - gerir íþróttabæ eins og Grindavík að betri íþróttabæ
Öllum er kunnugt um mikilvægi sveitarfélaga fyrir íþróttafélög og Grindavík getur með stolti kallað sig íþróttabæ. Grindavík hefur í gegnum tíðina verið þekkt af keppnisliðum sínum í knattspyrnu og körfuknattleik og um tíma voru báðar greinar með bæði kynin í efstu deild þessara greina á Íslandi. Minna hefur farið fyrir afreksstarfi í golfíþróttinni og má kannski rekja sökina beint til aðstöðuleysis yfir vetrarmánuðina.
Þegar ný stjórn Golfklúbbs Grindavíkur tók til starfa fyrir sumarið 2020 og Helgi Dan Steinsson tók við framkvæmdastjórastöðunni, þá var fljótlega ljóst að þessir aðilar gengu í takt og voru sammála um, að nauðsynlegt væri að bæta úr aðstöðuleysinu yfir vetrarmánuðina. Eins og íþróttabæjar eins og Grindavík er von og vísa, var erindi golfklúbbsins mjög vel tekið og er komið á framtíðarfjárhagsáætlun Grindavíkurbæjar, uppbygging við Húsatóftavöll.
Ég settist niður með sviðsstjóra frístunda- og menningarsviðs, Eggerti Sólberg Jónssyni en hann er úr Borgarnesi og kynntist golfíþróttinni aðeins þar: „Ég æfði golf í Borgarnesi eitt sumar sem gutti og hafði gaman af. Núna er elsti strákurinn minn áhugasamur um golfið og byrjaður að æfa. Mig langar þess vegna til þess að dusta rykið af kylfunum einhvern tímann enda golf kjörin afþreying fyrir fjölskyldur, að geta verið saman úti í náttúrunni og sameinað hreyfingu og jafnvel keppni, er mjög spennandi finnst mér.“
Eggert er stoltur af aðkomu Grindavíkurbæjar að starfi GG: „Mikið ofboðslega hefði ég viljað geta valið um íþróttir þegar ég var í grunnskóla en í dag fylgja valfög meira áhuga barnanna og það er mjög góð þróun að mínu mati. Stjórnendur grunnskólans hafa verið duglegar við að leita nýrra valfaga. Vonandi verður samstarf milli skólans og golfklúbbsins með bættri aðstöðu hér innanbæjar. Klúbburinn hefur metnaðarfullar hugmyndir um uppbyggingu á næstu árum. Bæjarstjórn hefur tekið jákvætt í þá uppbyggingu og framkvæmdir við golfvöllinn eru komnar inn á áætlun næstu ára. Það er mjög jákvætt að klúbburinn hafi fundið aðstöðu hér innanbæjar þangað til uppbyggingu lýkur á vallarsvæðinu. Sú aðstaða verður bylting fyrir alla golfara í bænum, bæði unga sem aldna. Það má nefnilega ekki gleyma að þessi framtíðaruppbygging mun ekki bara nýtast börnum, hún mun stuðla að bættri aðstöðu fyrir hinn almenna Grindavíkurkylfing.“
Grindavíkurbær er að vinna að nýrri lýðheilsustefnu og golf passar fullkomlega inn í hana: „Grindavíkurbær hefur stutt mjög vel við íþróttastarf í gegnum tíðina og golfið mun örugglega falla vel að þeirri lýðheilsustefnu sem nú er í vinnslu þar sem íþróttin sameinar svo margt; hreyfingu, útiveru og fyrir þá keppnishörðu þá er golfið einig kjörinn vettvangur. Síðan býr forgjöfin til sanngjarnan leik þar sem kylfingar geta keppt sín á milli. Ég er líka hrifinn af því að sá sem byrjar ungur geti leikið golf allt sitt líf. Í Golfklúbbi Grindavíkur er elsti meðlimurinn 87 ára og sá yngsti 8 ára og þessir aðilar geta keppt sín á milli.“
Grindavíkurbær leggur mikið upp úr jafnrétti og gerir þá kröfu á íþróttafélög í bænum að jafnréttis sé gætt: „Grindavíkurbær gerir kröfu um að vel sé staðið að jafnréttismálum hjá íþróttafélögum í sveitarfélaginu. Ef við ætlum að kalla okkur íþróttabæ þá verða öll kynin að hafa jöfn tækifæri til að stunda og iðka sína íþrótt. Við þurfum þá að horfa til aðstöðu, þjálfunar og fjármagns. Markmið sveitarfélagsins með myndarlegum fjárstuðningi er einnig að tryggja öllum börnum og unglingum möguleika á að stunda íþróttir óháð efnahag, kynferði, þjóðerni eða litarhætti. Eitt af mínum hlutverkum hjá Grindavíkurbæ, er að hafa eftirlit með að jafnréttisáætlunum sé fylgt eftir og ég hlakka til samstarfsins við forsvarsfólk klúbbsins.“
Golfklúbburinn vinnur að því að verða fyrirmyndarfélag ÍSÍ: „Ég lýsi sérstakri ánægju minni með þá stefnu GG að gera klúbbinn að fyrirmyndarfélagi ÍSÍ. Það er verðugt verkefni og ég hef fulla trú á að klúbburinn nái þeim áfanga.“
„Það er gaman að fylgjast með uppganginum hjá golfklúbbnum og ég er bjartsýnn fyrir hönd klúbbsins og Grindavíkurbæjar. Góður og fallegur golfvöllur gerir íþróttabæ eins og Grindavík að ennþá meiri og betri íþróttabæ.“