6 minute read
Upprifjun á nokkrum golfreglum
„Leikmannaútgáfa golfreglnanna“ er stytt útgáfa reglnanna þar sem lögð er áhersla á þig, kylfinginn.
GSÍ og Tryggingafélagið Vörður eru í samstarfi í þessu verkefni en ritinu var dreift til allra kylfinga á Íslandi innan raða GSÍ í byrjun ársins 2019.
Markmiðið með leikmannaútgáfunni er að kynna reglurnar á auðskildari hátt og með áherslu á það sem þú, kylfingurinn, þarft að vita til að leika samkvæmt reglunum. Eftirfarandi eru nokkur aðalatriði leikmannaútgáfunnar: Hún er gild reglubók. Hún lítur út eins og aðalreglubókin og er með sambærilegri uppbyggingu. Þótt texti hennar sé styttur veitir hún sömu svör og aðalreglubókin. Í leikmannaútgáfunni er lögð áhersla á þær reglur sem skipta þig mestu sem leikmann. Þar á meðal eru reglurnar sem lýsa grunnatriðum golfs – til dæmis að leika samkvæmt reglunum og í anda leiksins, ólíkir hlutar vallarins og útbúnaðurinn sem þú mátt nota – auk þeirra reglna sem oftast þarf að nota. Þótt útgáfan nái ekki til sumra aðstæðna sem koma sjaldan við sögu í golfleiknum vísar hún til nánari upplýsinga um aðstæðurnar í aðalreglubókinni með tilvísun. Leikmannaútgáfan er skrifuð þannig að hún vísar til „þín“ kylfingsins. Þessi stíll, að setja kylfinginn í forgrunn, er annað lykilskref í að gera reglurnar aðgengilegri. Útgáfan inniheldur skýringamyndir og töflur til að útskýra reglurnar á sjónrænan hátt. Á næstu blaðsíðum eru nokkur fréttaskot frá dómaranefnd GSÍ sem tengjast þeim breytingum sem gerðar voru á golfreglunum þann 1. janúar 2019. Alls eru fréttaskotin 45 og er hægt að lesa þau öll á golf.is í fréttaflokknum golfreglur.
Púttað með flaggstöngina í holunni
Nú máttu pútta með flaggstöngina í holunni, jafnvel þótt boltinn sé á flötinni. Áður en þú púttar þarftu samt að ákveða hvort þú viljir fjarlægja flaggstöngina, láta standa við hana eða hafa flaggstöngina í holunni. Sömu reglur gilda því alltaf um flaggstöngina, hvort sem boltinn er á flötinni eða utan hennar. Vonast er til að þessi breyting flýti leik, einkum þegar leikmenn hafa ekki kylfubera.
SJÁ REGLU 13.2
Golfreglur 2019 Boltamerki
Ef þú notar boltamerki til að merkja legu bolta verður þú að fjarlægja boltamerkið áður en boltanum er leikið. Þrengri skorður eru nú settar við því hvað megi nota sem boltamerki. Nota verður kylfu eða einhvern annan manngerðan hlut. Ekki má lengur t.d. nota lausung eða að skrapa línu í flötina.
SJÁ REGLU 14.1A OG SKILGREININGU Á BOLTAMERKI
Nú er boðið upp á nýtt leikform, hámarksskor
Hámarksskor er afbrigði höggleiks þar sem hámark er sett á skor hverrar holu. Mótsstjórn ákveður hámarkið fyrir hverja holu, það getur t.d. verið skrambi eða tvöfalt par. Ef þú leikur á fleiri höggum en hámarkið er á viðkomandi holu skráist hámarkið sem skor þitt á holunni. Leikmenn eru hvattir til að taka boltann upp á holu þegar fyrirsjáanlegt er að þeir muni fá hámarksskor á holunni. Leikmaður í hámarksskori þarf ekki að ljúka hverri holu. Ljúki hann ekki einhverri holu er hámarksskorið einfaldlega skráð á þá holu. Auk þessa viðurkenna golfreglurnar nú önnur leikform sem reglurnar náðu ekki til, svo sem Texas Scramble og Greensome.
SJÁ REGLUR 21.2 OG 21.5
Vítalaust þótt boltinn hreyfist óvart við leit
Vítalaust þótt þú hreyfir bolta þinn óvart við leit
Nú er vítalaust þótt þú hreyfir bolta þinn óvart við leit að honum. Þú leggur boltann einfaldlega á fyrri stað. Oft muntu ekki vita nákvæmlega hvar boltinn var og þá áætlarðu staðinn og leggur boltann þar. Ef boltinn lá ofan á, undir eða upp að einhverju þarf að leggja boltann aftur í sömu aðstæður. Ef boltinn var í sandi þarf að endurgera legu boltans í sandinum. Einn tilgangur þessarar breytingar er að flýta leik á þann hátt að leikmaður og kylfuberi hans geti óhræddir leitað að bolta leikmannsins. Í fyrri reglum hlaut leikmaðurinn eitt vítahögg ef hann eða kylfuberi hans ollu því að boltinn hreyfðist við leit. Leiddi það oft á tíðum til þess að leikmaðurinn og kylfuberinn héldu sig til hlés ef aðrir voru tiltækir við leitina. Leitartíminn er nú þrjár mínútur
Þrjár mínútur til að leita að bolta
Nú hefurðu þrjár mínútur til að leita að bolta þínum. Ef boltinn hefur ekki fundist innan þriggja mínútna frá því þú eða kylfuberi þinn hófuð leit að honum er boltinn týndur og þú verður að taka fjarlægðarvíti. Ef boltinn finnst eftir að þriggja mínútna leitartíminn er liðinn telst boltinn samt týndur og þú mátt alls ekki leika honum. Mikilvægt er að kylfingar temji sér að taka tímann þegar leit hefst. Tilgangur þessarar breytingar er fyrst og fremst að flýta leik. Reynslan sýnir að flestir boltar sem finnast á annað borð finnast innan þriggja mínútna. Þótt týndum boltum muni fjölga eitthvað við breytinguna er talið að leikhraði muni almennt aukast. Kylfingar ættu almennt að temja sér að leika varabolta ef upphaflegi bolti kann að vera út af eða týndur utan vítasvæðis.
SJÁ REGLU 18.2
Að standa klofvega yfir leiklínunni
Lengi hefur verið bannað að standa vísvitandi klofvega yfir leiklínunni eða framlengingu hennar aftan við boltann þegar högg er slegið á flötinni. Nú nær þetta bann til allra högga, jafnt á flötinni og utan hennar. Undantekning er að standa má svona ef þess þarf t.d. til að standa ekki í leiklínu annars leikmanns. Þetta þýðir að ef boltinn er t.d. skorðaður á milli steina máttu ekki lengur standa klofvega yfir leiklínunni og slá boltann í gegnum klofið. Slóstu vindhögg á teignum?
Slóstu vindhögg á teignum?
Ef svo illa vill til að bolti þinn er enn innan teigsins eftir upphafshöggið gilda áfram sömu reglur og fyrir upphafshöggið. Þú mátt þá færa boltann innan teigsins, tía boltann upp og svo framvegis, án vítis. Það er vítalaust þótt þú tvísláir boltann óvart
Það er vítalaust þótt þú tvísláir boltann óvart
Ef þú slærð boltann óvart tvisvar (eða oftar) í sama högginu er það vítalaust. Þú telur eitt högg og leikur boltanum þar sem hann stöðvast. Ef þú hins vegar tvíslærð boltann viljandi þarftu að telja eitt högg og bæta við tveimur vítahöggum fyrir að hafa áhrif á bolta á hreyfingu. Að tvíslá boltann gerist yfirleitt alltaf óvart. Hvar boltinn hafnar er ófyrirsjáanlegt og sjaldnast hagnast leikmaðurinn nokkuð á því. Þess vegna var talið sanngjarnt að fella þetta víti niður.
SJÁ REGLU 10.1A
Leikhraði
Í nýjum golfreglum er sérstaklega hvatt til þess að leikið sé rösklega, t.d. með því að: (a) Leikmenn geri sér grein fyrir að leikhraði þeirra hefur áhrif á aðra leikmenn og allir leiki rösklega, t.d. með því að undirbúa högg sín tímanlega og að ganga rösklega á milli högga og á næsta teig. (b) Hvert högg taki ekki lengri tíma en 40 sekúndur og oftast styttri tíma, eftir að leikmaðurinn getur leikið vegna ráshópsins á undan eða annarra truflana. (c) Undirstrika að leikmenn í höggleik geta leikið í þeirri röð sem hentar hverju sinni, til að flýta leik. (d) Staðfesta að leikmönnum í holukeppni er heimilt að komast að samkomulagi um að leika í annarri röð en reglurnar kveða á um. (e) Hvetja mótsstjórnir til að setja reglur um leikhraða.
SJÁ REGLU 5.6B
Nú læturðu bolta falla úr hnéhæð
Ef þú þarft að láta bolta falla (t.d. við að taka víti eða við að taka lausn frá göngustíg) áttu að láta boltann falla úr hnéhæð. Miðað er við hnéhæð þegar þú stendur upprétt(ur) en þú mátt standa hvernig sem þú vilt þegar þú lætur boltann falla. Ef boltinn snertir þig eða útbúnað þinn áður en hann lendir á jörðinni þarftu að láta boltann falla aftur. Hins vegar er í lagi þótt boltinn skoppi óvart í þig eftir að hann hefur lent á jörðinni. Ef þú, af gömlum vana, lætur boltann óvart falla úr axlarhæð geturðu leiðrétt mistökin með því að láta boltann falla aftur og færð ekki víti ef þú leiðréttir mistökin áður en þú leikur boltanum.