Golfreglur 2019
Leikmannaútgáfu dreift á Íslandi „Leikmannaútgáfa golfreglnanna“ er stytt útgáfa reglnanna þar sem lögð er áhersla á þig, kylfinginn.
GSÍ og Tryggingafélagið Vörður eru í samstarfi í þessu verkefni en ritinu var dreift til allra kylfinga á Íslandi innan raða GSÍ í byrjun ársins 2019. Markmiðið með leikmannaútgáfunni er að kynna reglurnar á auðskildari hátt og með áherslu á það sem þú, kylfingurinn, þarft að vita til að leika samkvæmt reglunum. Eftirfarandi eru nokkur aðalatriði leikmanna útgáfunnar: Hún er gild reglubók. Hún lítur út eins og aðalreglubókin og er með sambærilegri uppbyggingu. Þótt texti hennar sé styttur veitir hún sömu svör og aðalreglubókin. Í leikmannaútgáfunni er lögð áhersla á þær reglur sem skipta þig mestu sem leikmann. Þar á meðal eru reglurnar sem lýsa grunnatriðum golfs – til dæmis að leika samkvæmt reglunum og í anda leiksins, ólíkir hlutar vallarins og útbúnaðurinn sem þú mátt nota – auk þeirra reglna sem oftast þarf að nota. Þótt útgáfan nái ekki til sumra aðstæðna sem koma sjaldan við sögu í golfleiknum vísar hún til nánari upplýsinga um aðstæðurnar í aðalreglubókinni með tilvísun. Leikmannaútgáfan er skrifuð þannig að hún vísar til „þín“ kylfingsins. Þessi stíll, að setja kylfinginn í forgrunn, er annað lykilskref í að gera reglurnar aðgengilegri. Útgáfan inniheldur skýringamyndir og töflur til að útskýra reglurnar á sjónrænan hátt. Á næstu blaðsíðum eru nokkur fréttaskot frá dómaranefnd GSÍ sem tengjast þeim breytingum sem gerðar voru á golfreglunum þann 1. janúar 2019. Alls eru fréttaskotin 45 og er hægt að lesa þau öll á golf.is í fréttaflokknum golfreglur.
68
GOLF.IS