9 minute read

Perla Sól skrifaði nýjan kafla í golfsögu Íslands

15 ára Evrópumeistari stefnir á að ná eins langt og hægt er í golfíþróttinni

Perla Sól Sigurbrandsdóttir sigraði með eftirminnilegum hætti á Evrópumeistaramóti 16 ára og yngri, European Young Masters, sem fram fór í Finnlandi og lauk þann 25. júlí sl. Sigur Perlu er sögulegur þar sem þetta er í fyrsta sinn sem íslenskur kvenkylfingur sigrar á þessu móti. Og aðeins í þriðja sinn sem íslenskur kylfingur fagnar Evrópumeistaratitli.

Áþessu ári hefur Perla Sól tekið risastökk á heimslista áhugakylfinga og farið upp um rúmlega 1.300 sæti. Hún er í sæti nr. 295 og er efst íslenskra áhugakylfinga á heimslistanum.

Perla Sól er fædd árið 2006 og verður 16 ára í september. Hún prófaði margar íþróttir áður en hún tók þá ákvörðun að byrja æfa golf – samhliða því að vera í fremstu röð hópfimleikastúlkna á landinu.

„Ég þakka bróður mínum, Dagbjarti, að ég fékk áhugann og fór að mæta á golfæfingar hjá GR. Hann er fjórum árum eldri en ég og byrjaði að æfa ungur. Ég fékk áhugann í gegnum Dagbjart og ég var átta ára að verða níu þegar ég byrjaði,“ segir Perla Sól þegar viðtalið var tekið á heimavelli hennar, klúbbhúsinu í Korpu.

„Ég prófaði margar íþróttir áður en ég fór í golfið. Ég var að æfa ballett þegar ég var fimm eða sex ára, og hafði mjög gaman af því. Í ballettskólanum var stelpa að æfa sem síðar átti eftir að verða besta vinkonan mín, Helga Signý Pálsdóttir, sem er að æfa með mér í golfhópnum hjá GR. Mér finnst flestar íþróttir skemmtilegar og ég var mikið í fótbolta, körfubolta með pabba, bróður mínum og krökkunum í hverfinu. Ég byrjaði æfa áhaldafimleika með Fjölni sex ára og fór í hópfimleika 10 ára. Í minningunni var erfitt að velja fimleika og hætta í balletnáminu. En ég sé ekki eftir því í dag.“

Stutt að fara á golfvöllinn

Eins og áður segir á Dagbjartur bróðir Perlu Sólar stóran þátt í því að hún fór að mæta á golfæfingar þar sem að Snorri Páll Ólafsson sem var á þeim tíma golfþjálfari hjá GR tók á móti Perlu Sól.

„Við búum rétt við Korpúlfsstaðavöll og það var einfalt að rölta á æfingar. Tekur bara 2-3 mínútur að fara í Korpuna. Dagbjartur og vinir hans tóku vel á móti mér. Þeir leyfðu mér alltaf að vera með í vipp- og púttkeppnum. Mér fannst það mjög skemmtilegt og fljótlega fór ég að vinna þá, sérstaklega í vippkeppnunum. Um haustið fór ég í fyrsta sinn áÍslandsmót golfklúbba sem fram fór áFlúðum. Sú ferð var virkilega skemmtileg og áhuginn varð enn meiri. Vinkonur mínar úr fimleikunum og skólanum prófuðu nokkrar að mæta á æfingar með mér. Þeim fannst golfið ekki eins skemmtilegt og mér, og þær hættu allar. Ég kynntist því nýjum vinkonum hér í golfhópnum og það er góður liðsandi hjá okkur.“

Fimleikar og golf – góð blanda

Það er áhugavert að systkinin hafi valið golfið þar sem að foreldrar þeirra, Rakel G. Magnúsdóttir og Sigurbrandur Dagbjartsson hafa aldrei stundað golf og eru enn ekki byrjuð að stunda golfíþróttina sjálf þrátt fyrir að vera mikið úti á golfvelli með börnunum sínum.

Eins og áður segir er Perla Sól kraftmikil fimleikakona og hún segir að það séu margir kostir við að stunda báðar íþróttirnar.

„Ég æfi mikið en reyni að spila sem mest og fá leikæfingu samhliða. Ég er ekki týpan sem slær 1.000 bolta á æfingasvæðinu á hverjum degi. Ég reyni frekar að spila meira, stundum 36 holur á dag. Best finnst mér að fara mjög snemma á morgnana og ég er oft ein. Ég er ekki með tónlist í eyrunum að æfa eða spila golf, mér finnst gott að heyra í náttúrunni og líka hvernig hljóðið er í boltanum þegar ég hitti hann. Það skiptir máli. Ég og Dagbjartur förum mikið yfir hásumarið út á Korpu seint á kvöldin og leikum nokkrar holur. Það er gott að hafa völlinn í næsta nágrenni.“

„Ég fæ styrk, úthald, liðleika, og einbeitingu í fimleikunum sem ég nýti í golfið. Ég æfi ekki fimleika yfir sumartímann en ég mæti vel yfir vetrartímann. Golfið er vissulega alltaf að taka meiri og meiri tíma. En ég ætla að hafa þetta svona eins lengi og ég hef gaman af þessu.“ Dagskráin hjá mér er þétt á hverjum degi yfir sumartímann í golfinu hjá Perlu Sól og hver stund er nýtt til þess að æfa og spila.

Perla Sól horfir hér á eftir upphafshögginu á 7. teig á Vestmannaeyjavelli árið 2018 - þá 11 ára gömul á sínu fyrsta Íslandsmóti í fullorðinsflokki.

Stefnir á háskólanám í Bandaríkjunum

Perla Sól útskrifaðist úr grunnskóla sl. vor og fer í haust í framhaldsskóla. Hún ætlar að halda sig við golfíþróttina í náminu næstu misserin og jafnvel árin.

„Í haust fer í í Borgarholtsskóla á afreksbraut í íþróttum, golftengt. Það verður spennandi að æfa með krökkum úr alls konar íþróttum – samhliða golfæfingum á golfafreksbrautinni. Ég stefni á að fara í háskóla í Bandaríkjunum. Helst þar sem að það er heitt yfir vetrartímann, Flórída eða Kaliforníu. Það eru ýmsir valkostir hjá mér en þetta er allt á hugmyndastigi og ég er ekki búin að ræða formlega við einhverja skóla.“

Sögulegur sigur á EM í Finnlandi

Perla Sól sigraði á Evrópumeistaramóti kylfinga 16 ára og yngri í lok júlí. Sögulegur sigur í íslensku golfi þar sem hún er fyrsta stúlkan sem nær slíkum árangri og í þriðja sinn sem Íslendingar fagna Evrópumeistaratitli í golfi – eins og lesa má á öðrum stað hér í þessu blaði.

Í fyrra keppti Perla Sól á þessu móti og endaði þá í 7. sæti. Eftir það mót var hún staðráðinn í því að gera enn betur og sigra árið 2022. Hún stóð við þau orð sín en hvernig ákveður maður að sigra á Evrópumeistaramóti og standa við það?

„Ég veit ekki hvernig ég fór að þessu – en ég var búin að segja við mitt fólk að ég ætlaði að vinna þetta mót. Það tókst og ég var bara efsta sæti eftir lokaholuna á lokahringnum. Ég var í fjórða sæti eftir fyrsta hringinn og í öðru sæti fyrir lokahringinn, þremur höggum frá efsta sætinu. Sú sem var efst tapaði tveimur höggum á næst síðustu holunni og ég átti því eitt högg þegar ég kom á 18. teig. Þar sló ég með dræver af teig, um 220 metra, og átti um 115 metra eftir inn að flagginu á flötinni. Það eru hættur allt í kringum flötuna, vatn og glompur.

Þaðan sló ég með 9-járni og var um fimm metra frá. Púttið var frekar erfitt og ég ætlaði bara að tryggja parið –koma boltanum nálægt holunni. Púttið fór of langt yfir holuna og ég átti um meter eftir til þess að tryggja sigurinn. Ég var frekar stressuð og mikið pressa undir púttinu. Þegar svona gerist þá reyni ég að anda út og inn, og róa mig aðeins niður. Þegar ég er í svona aðstöðu þá hugsa ég bara að þetta pútt skipti engu máli og það fari bara eins og það fer. Það var góð tilfinningin að sjá boltann fara ofan í holuna. Eftir mótið rigndi yfir mig skilaboðum og margir óskuðu mér til hamingju með árangurinn. Það er gaman að finna fyrir þessum stuðningi. Mamma var reyndar sú allra síðasta sem óskaði mér til hamingju – þar sem hún var uppi á fjöllum og ekkert net – eða símasamband þar,“ segir Perla Sól sem lék hringina þrjá átveimur höggum undir pari Linna vallarins þar sem að mótið fór fram. Hún lék samtals á 214 höggum (72- 72-70). Þrír keppendur voru jafnir á –1 samtals.

Foreldrarnir tala aldrei um golf úti á golfvelli

Jafnaðargeð er ágæt lýsing á Perlu Sól sem virðist sjaldan fara úr jafnvægi þegar illa gengur á golfvellinum. Móðir hennar segir að það komi örsjaldan fyrir að hún verði reið – en það standi aðeins yfir í smástund. Þrátt fyrir að Rakel og Sigurbrandur leiki ekki golf sjálf fer drjúgur tími hjá þeim að aðstoða börnin á golfmótum víðsvegar um landið. Sigurbrandur hlustar yfirleitt á hljóðbækur á meðan hann er að fylgjast með og Rakel talar um allt annað en golf við dóttur sína þegar hún er aðstoðarmaður Perlu Sólar á golfvellinum.

„Mamma og pabbi tala aldrei um golf á meðan við erum úti á velli. Við tölum saman um allt annað. Hundurinn okkar, Moli, er vinsælt umræðuefni. Mamma er stundum að vinna við fara með hópa á fjöll. Ég fer stundum með henni og við ræðum oft hvaða fjöll eða fjall væri gaman að ganga á í framtíðinni. Við rifjum einnig upp eitthvað skemmtilegt sem við höfum verið að gera á síðustu vikum og komum auga á ýmislegt sem er í náttúrunni í kringum okkur. Fjöll, fugla og hvaðeina. Aðalmálið er að vera í núinu og njóta þess að spila.“

Rakel Magnúsdóttir, Dagbjartur, Perla Sól og Sigurbrandur Dagbjartsson. Á myndina vantar heimilishundinn, Mola.

Perla Sól hefur æft fimleika í mörg ár með Fjölni samhliða golfíþróttinni.

Ljósmynd/Fimleikasambandið

Markmiðið að gera mitt besta á Íslandsmótinu

Perla Sól er að taka þátt í annað sinn á Íslandsmóti í Vestmannaeyjum en hún var aðeins 11 ára þegar hún

keppti á sínu fyrsta Íslandsmóti í fullorðinsflokki árið 2018 í Eyjum. Hún segir að það sé tilhlökkun að keppa í Eyjum og fjölskyldan ætli að njóta þess að vera saman með góðum vinum á meðan mótinu stendur.

„Markmiðið mitt fyrir Íslandsmótið er að gera mitt allra besta og hafa gaman. Það eru allir þeir bestu í kvennaflokkum með á Íslandsmótinu íár. Sú sem sigrar þarf að leika mjög vel. Ég ætla bara að halda mig við leikplanið, slá eitt gott högg, og síðan annað gott högg og þannig er þetta út hringinn. Ég set mér aldrei markmið um að leika á einhverju skori. Ég bý bara til gott leikplan og held mig við það.“

Á Íslandsmótinu 2022 mun Perla Sól keppa við helstu fyrirmyndir sínar í íslensku kvennagolfinu, konur sem hafa rutt brautina og sett ný viðmið fyrir þá sem yngri eru í atvinnuog háskólagolfi. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Ragnhildur Kristinsdóttir eru þar á meðal.

„Þær hafa allar náð frábærum árangri og ég stefni á að feta svipaða leið og þær. Fara í háskóla og reyna að komast eins langt og hægt er í golfinu. Ég veit að ég á alveg möguleika á ná langt ef ég legg mig fram og held áfram að æfa vel,“ segir Perla Sól Sigurbrandsdóttir.

This article is from: