2 minute read
46 keppendur í karlaflokki með 0 eða lægri forgjöf
Alls eru 108 keppendur í karlaflokknum á Íslandsmótinu í golfi 2022 og er hlutfall karla 71% af heildarfjöldanum, 152.
Alls eru 108 keppendur í karlaflokknum á Íslandsmótinu í golfi 2022 og er hlutfall karla 71% af heildarfjöldanum, 152. Frá árinu 2001 hefur fjöldi keppenda í karlaflokki verið að meðaltali 113. Færri komust að en vildu inn í mótið og fór fram undankeppni í síðustu viku á Urriðavelli þar sem fimm leikmenn kepptu um 2 laus sæti á Íslandsmótinu. Slík undankeppni hefur aldrei áður farið fram.
Tveir keppendur í karlaflokki hafa upplifað það áður að sigra á Íslandsmótinu í golfi. Kristján Þór Einarsson, GM, sem fagnaði titlinum í Eyjum árið 2008, og Aron Snær Júlíusson, GKG, sem hefur titil að verja á þessu móti.
Axel Bóasson, GK, Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús eru í verkefnum á atvinnumótaröðum á meðan Íslandsmótið fer fram í Eyjum.
Það er að miklu að keppa fyrir atvinnukylfingana þar sem verðlaunaféð fyrir Íslandsmeistaratitil hjá atvinnukylfingum er 500 þúsund kr.
Flestir keppendur í karlaflokki eru úr GR eða 17 alls, GKG er með 16, GM 15 og GK 14. Yngsti golfklúbbur landsins, Golfklúbburinn Esja, sem stofnaður var 2019, er með 4keppendur í karlaflokki.
Meðalaldurinn í karlaflokki er 26,4 ár. Helgi Anton Eiríksson, GE, er elsti keppandinn í karlaflokki, 55 ára, en alls eru 6 keppendur yfir fimmtugu í mótinu.
Yngsti keppandinn í karlaflokki er Arnar Daði Svavarsson úr GKG en hann er fæddur árið 2009 og er því aðeins 13 ára. Arnar Daði sigraði á sterku alþjóðlegu móti í síðustu viku á Norður-Írlandi og það gerði einnig félagi hans úr GKG, Gunnlaugur Árni Sveinsson, sem er á meðal keppenda í Eyjum. Gunnar Þór Heimisson, GKG, er næstyngstur keppenda í karlaflokki en hann er 14 ára, fæddur 2008.
Meðalforgjöfin í karlaflokknum er 0,4. Aron Snær Júlíusson, GKG, og Rúnar Arnórsson, GK, eru með lægstu forgjöfina í karlaflokknum eða +4,1. Alls eru 46 leikmenn í karlaflokknum með 0 eða lægri forgjöf. Hæsta forgjöf mótsins er 5,2 í karlaflokknum.
Markús Marelsson, GK, er í fjölmennum hópi ungra og efnilegra keppenda á Íslandsmótinu í golfi 2022. Hér fagnar hann Íslandsmeistaratitli í flokki 14 ára og yngri á Hvaleyrarvelli.