4 minute read

Íslandsmeistaratitilinn sá sætasti

Bjarki Pétursson afrekskylfingur frá Borgarnesi tekinn tali

Fremsti afrekskylfingur Golfklúbbs Borgarness fyrr og síðar, og núverandi klúbbmeistari, er Bjarki Pétursson. Bjarki, sem verður 29 ára á árinu, hefur verið í eldlínunni á erlendri grundu undanfarin ár ásamt bestu kylfingum landsins og slær ekki slöku við í ár. „Ég er með keppnisrétt á bæði Nordic League, og Challenge Tour í ár sem gerir skipulagið aðeins erfiðara,“ segir Bjarki í samtali við Afmælisblaðið um verkefni tímabilsins.

„Ég er eingöngu búin að spila á Nordic League í ár og sé fram á að spila nokkur á Challenge Tour einnig. Sumarið er búið að vera fínt, ég er sem stendur í 28. sæti á peningalistanum og var hársbreidd frá því að ná mínum fyrsta sigri í Noregi fyrir 2 vikum. Ég er búin að spila 8 mót og alltaf farið í gegnum 40 manna niðurskurð af 160 keppendum. Stöðugleikinn er mikill, og með áframhaldandi vinnu og elju munu frábærir hlutir gerast,“ bætir hann við um núverandi form sitt.

Hamarsvöllur félagsheimili

Það eru engar ýkjur að segja að Bjarki hafi byrjað í golfi um sama leyti og hann gat loftað kylfu í fyrsta sinn. „Ég hef náttúrulega átt heima að Hamri frá því ég var í barnakerru með foreldrum mínum. Þetta var algjör paradís fyrir ungan kylfing að alast upp á,“ svarar Bjarki spurður æskuár sín í golfinu á Hamarsvelli. „Þegar ég hugsa um Hamarsvöll þá koma fyrst og fremst minningar frá því að vera þarna ungur að leika mér. Þetta var ekki bara golfvöllur, heldur var þetta félagsheimili fyrir mig og marga aðra þar sem dagarnir fóru í golf, slaka á í skálanum, týna bolta og hafa gaman. Ég hef alltaf haft þá skoðun að það að alast upp í þessari dásamlegu íþrótt er mjög mótandi fyrir ungt fólk. Maður lærir aga, kurteisi og eljusemi þegar kemur að því að glíma við sjálfan þig,“ rifjar Bjarki upp.

Gefandi að aðstoða með sveifluna

Eftir að hafa lokið stúdentsprófi frá Menntaskóla Borgarfjarðar fór Bjarki vestur um haf og stundaði nám við Kent State háskólann í Bandaríkjunum þar sem hann keppti fyrir hönd skólans í golfi. Eftir að námi lauk hóf Bjarki að reyna fyrir sér sem atvinnumaður og hefur meðfram því unnið ýmis störf á vettvangi golfíþróttarinnar, t.d. golfkennslu og fararstjórn. „Farastjórn er frábær leið fyrir atvinnukylfinga til þess að vera á launum og koma sér í góðar aðstæður til þess að æfa og spila. En þetta er vissulega krefjandi vinna þegar hóparnir eru stórir og þess vegna hef ég eingöngu verið aðstoðarfarastjóri í þeim ferðum sem ég hef farið í“ segir Bjarki.

„Varðandi kennslu, þá finnst mér það synd að bjóða ekki fólki upp á kennslu eftir áratuga reynslu. Við sem kylfingar þurfum að taka ábyrgð á okkar eigin sveiflum þar sem er verið að skoða ítarlegustu smáatriði og því finnst mér í raun að atvinnukylfingar séu með frábæran grunn til að kenna. Ég sjálfur hrífst líka af því að aðstoða fólk með leikinn sinn, og er það mjög gefandi þegar þú getur aðstoðað fólk að komast úr allskonar erfiðleikum og byrja að spila betra golf,“ bætir hann við.

Bjarki ásamt unnustu sinni Kristrúnu Kúld Heimsdóttur og syni þeirra Birni Kúld.

Íslandsmeistaratitilinn sá sætasti

Bjarki hefur unnið marga glæsta sigra á vellinum á ferlinum og fengið fjölda viðurkenninga, t.d. orðið Íslandsmeistari unglinga bæði í höggleik og í holukeppni, klúbbmeistari GB oft og mörgum sinnum og einnig leikið fyrir Íslands hönd á erlendri grundu. Stærsti sigur Bjarka hingað til á ferlinum er þó Íslandsmeistaratitillinn í golfi árið 2020. Mótið fór fram á Hlíðavelli í Mosfellsbæ og sigraði Bjarki í mótinu með yfirburðum. „Íslandmeistaratitillinn var mjög sætur og það gerði hann ennþá sætari að spila á lægsta skori frá upphafi,“ segir Bjarki að lokum og má vera stoltur af.

Bjarki ásamt foreldrum sínum, Pétri Sverrissyni og Fjólu Pétursdóttur.

8. hola á Hamarsvelli, Kringlan eða „Eyjan“, er sennilega frægasta hola vallarins. Fyrirmyndin að henni er 17. holan á Sawgrass vellinum í Flórída í Bandaríkjunum.

This article is from: