3 minute read
Velvilji og hlýhugur á bakvið trjáræktina á Hamarsvelli
Séu myndir frá fyrstu árum Hamarsvallar skoðaðar er ekki trjáhríslu að sjá á vellinum. Nú hálfri öld síðar er völlurinn þakinn trjám og víða að finna myndarlega lundi og þétt trjábelti sem veita bæði skjól og hlýju en einnig áskorun þegar kemur að sjálfu golfinu.
Trjárækt á Hamarsvelli hófst í reynd árið 1980 þegar haldið var uppi á Ár trésins. Mikið af trjám voru gróðursett í Borgarnesi að því tilefni, m.a. á Hamarsvelli þar sem um 6000 trjám var plantað. Næsta stórátak í trjáræktinni verður 1997 þegar Rarik hefur skógræktarátakið „Tré fyrir staur“. Eitt af svæðunum sem Rarik valdi til trjáræktar var Hamarsvöllur en raflínur lágu lengi vel í gegnum vallarsvæðið. Þúsundir plantna voru gróðursettar á næstu árum í átaki Rariks og GB sem var vel heppnað og myndaðist góð stemning á skógræktardögum.
Annað stórt skógræktarátak hófst 2004 þegar klúbburinn fékk aðgengi að öspum í Klafastaðalandi á Grundartanga. Á næstu árum á eftir voru þúsundir aspa fluttar frá Grundartanga að Hamri og var stórum hluta plantað á nýju brautir vallarins sem þá voru í uppbyggingu vegna stækkunar í 18 holur. Jón Georg Ragnarsson var sérstakur drifkraftur í þessum Grundartangaferðum sem margir félagar komu að.
Klúbburinn hefur notið mjög mikils velvilja vegna trjáræktar á Hamarsvelli í gegnum árin og fengið margar og veglegar trjágjafir frá einstaklingum og félagasamtökum sem hefur verið plantaðar hér og þar um völlinn. Fyrir það vill Golfklúbbur Borgarness þakka af miklum hlýhug. Hirðing „Hamarsskógar“ fyrr og nú er því mikilvægt verkefni. Að því tilefni má nefna hlut Guðríðar Ebbu Pálsdóttur frá Grenigerði í þeirri hirðingu en í árafjöld hefur hún sinnt trjám og blómabeðum að Hamri af alúð og óeigingirni sem seint verður fullþakkað. Fyrir vinnu sinna á vellinum var Ebba valin „Sjálfboðaliði ársins“ af GSÍ árið 2014.