2 minute read

Kveðja frá Borgarbyggð:

Afmæliskveðja með þakklæti

Þau sem hafa staðið að starfi og uppbyggingu golfvallarins að Hamri geta litið stolt á það starf sem þar hefur verið unnið síðustu áratugi. Hamarsvöllur í Borgarbyggð er einn glæsilegasti golfvöllur landsins og mikil skrautfjöður í hatt sveitarfélagsins. Það má segja að þrekvirki hafi verið unnið þegar golfklúbburinn og Borgarbyggð unnu að því í samstarfi fyrir nokkrum árum að stækka völlinn í 18 holur. Það þarf bæði eldmóð og stórhug til að ráðast í slíkar framkvæmdir í ekki stærra sveitarfélagi. Og því ber að þakka fyrir þá framsýni sem félagsmenn golfklúbbsins í samstarfi við sveitarfélagið sýndu með því að stíga það gæfuspor.

Kylfingum á öllum aldri hefur fjölgað og áhugi landsmanna á golfi hefur aldrei verið meiri. Þá er gott að sjá hvað félagsstarf golfklúbbsins hefur verið, og er enn í dag, drifið áfram af jákvæðum anda og vilja til þess að vera í stöðugum endurbótum og vexti. Félagsstarf klúbbsins er öflugt og sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu vel hefur verið haldið um barna- og unglingastarf síðustu ár.

Golfvöllurinn hefur mikið aðdráttarafl og ófáir kylfingar sem ákveða að sækja sveitarfélagið eða dvelja hér aðeins vegna nálægðar við hann. Hamarsvöllur

dregur gesti að sveitarfélaginu sem nýta fjölbreytta þjónustu og auðga mannlífið. Við þekkjum það sem höfum spilað á Hamarsvelli hversu vel vellinum er alltaf haldið við og hreint ótrúlegt að við eigum þennan gimstein þar sem allir geta gleymt stað og stund. Leikur í góðum félagsskap í fallegu umhverfi innan um trjágróður, plöntur og fuglalíf.

Tækifærin til frekari vaxtar á Hamarssvæðinu eru mikil. Nú hefur sveitarfélagið sett á fót í samstarfi við golfklúbbinn vinnuhóp til að skoða framtíðarmöguleika svæðisins m.t.t. frekari uppbyggingar og notkunarmöguleika. Það verður spennandi að sjá útkomuna. Eftir sem áður er það hinn öflugi hópur fólks sem kemur að starfi golfklúbbsins sem hefur sýnt framsækni í sínum hugmyndum og áformum.

Ég vil fyrir hönd sveitarstjórnar þakka öllum þeim sem hafa með einhverjum hætti komið að starfi Golfklúbbs Borgarness síðustu 50 árin fyrir þeirra framlag. Afraksturinn er einn glæsilegasti völlur landsins.

Ég hvet þá íbúa sveitarfélagsins sem ekki hafa nýtt sér þá aðstöðu sem er í boði á Hamarsvelli að prufa. Ykkar bíður ævintýraheimur.

Golfklúbbur Borgarnes til hamingju með 50 árin. Hann lengi lifi húrra, húrra, húrra!

Guðveig Lind Eyglóardóttir Forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar

This article is from: