2 minute read

Nokkur skjöl úr skjalasafni GB

Skjöl sem lýsa starfsemi GB sl. 50 ár hafa varðveist vel og er skjalasafn klúbbsins meira og minna varðveitt á Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar í Borgarnesi. Þar eru t.d. mörg skjöl frá fyrstu starfsárum klúbbsins. Upplýsingar um starfsemi klúbbsins í gegnum tíðina eru einnig að finna í ársskýrslum sem lagðar eru fram á aðalfundi hvers árs. Þar má t.d. lesa skýrslu stjórnar og starfsnefnda, nálgast upplýsingar um framkvæmdir,

fjárhagslega afkomu klúbbsins og helstu tölfræði. Ársskýrslurnar eru varðveittar í skjölum klúbbsins á héraðsskjalasafninu. Skjöl um starfsemi GB eru einnig að finna í öðrum skjalasöfnum, t.d. í skjalasafni Félagsheimilasjóðs ríkisins sem varðveitt er á Þjóðskjalasafni Íslands og að auki í skjalasafni GSÍ.

Hér koma nokkur sýnishorn af völdum skjölum sem hafa varðveist.

Á fyrstu starfsárum klúbbsins þurfti að gera grein fyrir úrslitum á golfmótum með skýrslum til GSÍ. Hér má sjá skýrslu um Einnarkylfukeppni frá 1. maí 1977 þar sem keppendur notuðu eina kylfu og pútter. Kalt var í veðri eins og sjá má en kom þó ekki í veg fyrir að 13 mættu til leiks. Skjalið er varðveitt í Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar.

Það hefur oft verið glatt á hjalla í starfi klúbbsins, líka yfir háveturinn. Hér má sjá auglýsingu sem var dreift til félaga um Afmæli-þorrablót á Hamri, líklega í tilefni af 10 ára afmæli klúbbsins 1983. Athygli vekur að strax daginn eftir var aðalfundur klúbbsins á dagskrá.

Félagar í GB sáu sjálfir um hirðingu Hamarsvallar í sjálfboðavinnu lengi vel, t.d. að slá flatir, brautir og teiga og snyrta glompur. Hér má lesa skilaboð Þórðar Sigurðssonar formanns vallarnefndar um verkaskiptingu sumarið 1981.

Skjalið er varðveitt í Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar.

Drifkrafturinn í uppbyggingu og framgangi klúbbsins hefur alla tíð verið sjálfboðavinna félaga. Eitt stærsta átakið á fyrstu árum klúbbsins var enduruppbygging Hamarsbæjarins sem golfskála á árunum 1978-1979. Við framkvæmdir naut klúbburinn styrks frá Félagsheimilasjóði ríkisins en eitt af skilyrðum fyrir greiðslum var sjálfboðavinna við framkvæmdir. Hér má sjá yfirlit yfir vinnustundir félaga við framkvæmdir í bréfi Gísla Kjartanssonar formanns GB til Félagsheimilasjóðs.

Skjalið er varðveitt í Þjóðskjalasafni.

This article is from: