3 minute read

Pútthópur Hamars í 15 ár

Ingimundur Ingimundarson segir frá

Eldri borgarar í Borgarbyggð hafa verið duglegir við púttæfingar og keppni undanfarin ár. Allt byrjaði þetta rólega eins og gengur. Þrír einstaklingar hittust upp á púttvelli á Hamri 2008. Smá saman stækkaði hópurinn og komið var á reglulegum æfingum. Nú hefur hópurinn sem kallar sig „Pútthóp Hamars Borgarbyggð“ æft skipulega á annan áratug tvisvar í viku allt árið. Á síðasta ári mættu um 27 að jafnaði á æfingu. Á Hamri eru nú tveir 18 holu púttvellir og þar hafa verið haldin mót innan hópsins og tvö síðustu árin opna mótið „Septembermót“ annan fimmtudag í september. Áætlað er að mótið fari fram árlega í framtíðinni.

GB og eldri borgarar komu sér upp góðri aðstöðu í gamla sláturhúsinu í Brákarey en var skyndilega vísað á dyr í febrúar 2020. Tvo síðustu vetur hefur verið æft í kjallara Menntaskólans í Borgarnesi, en þar er ekki sambærileg aðstaða og í Brákarey. Hefur hópurinn skroppið í Mosfellsbæ einu sinni í mánuði til að fá tilbreytingu, en þar eru aðstæður mjög góðar og skemmtilegar.

Ingimundur Ingimundarson hefur séð um æfingarnar frá upphafi. Eftir hverja æfingu fá þátttakendur tölvupóst yfir árangur dagsins og oft er beðið með eftirvæntingu eftir því hvernig hafi gengið. Hópurinn hefur tekið þátt í Íslandsmóti 60+ og náð þar góðum árangri.

Á síðasta ári fór mótið fram á Ísafirði. Þar varð Berghildur Reynisdóttir Íslandsmeistari í kvennaflokki og A. liðið skipað Þóru Stefánsdóttur, Guðrúnu B. Haraldsdóttur og Ásdís B. Geirdal vann liðakeppnina. Kvennaliðin urðu í fjórum fyrstu sætunum. Einnig hefur hópurinn tekið þátt í Landsmóti UMFÍ 50+ og unnið góða sigra. Má nefna að hópurinn vann fjórfalt í liðakeppninni á mótunum í Neskaupsstað og á Sauðárkróki.

Vorið 2013 boðaði íþróttanefnd félags eldri borgara á Akranesi þá Flemming og Ingimund á fund í Geirabakaríi. Þar komu fulltrúar Akurnesinga með stóran bikar sem Húsasmiðjan á Akranesi gaf til keppni milli eldri borgara á Akranesi og Borgarbyggðar. Einnig var gefinn einstaklingsbikar sem högglægsti einstaklingurinn myndi hampa í hverri keppni. Mót þetta fer fram þrisvar á ári. Keppa á um „Húsasmiðjubikarinn“ í 20 ár en síðan verður hann geymdur hjá gefandanum á Akranesi. Öllum félögum er heimiluð þátttaka en árangur sjö bestu telja í hvert sinn. Í ár verður keppt um hann í 11. sinn. Lið Borgarbyggðar hefur verið sigursælt undanfarin ár. Hópurinn hefur æft vel í vetur og stefnir að góðum árangri í sumar.

Fleming Jessen og Ingimundur Ingimundarson eftir púttmót í Brákarey. Þeir hafa haldið uppi íþróttastarfi eldriborgara í mörg ár.

Verðlaunalið Borgarbyggðar í kvennaflokki á Íslandsmóti 60+ á Ísafirði 2022. Ljósmynd: Ingimundur.

Púttkeppni á Hamarsvelli. Ljósmynd: Guðrún Helga Andrésd.

Myndir úr sögu klúbbsins

Frá 10 ára afmælishófi GB 1983 á Hamri.

F.v. Guðleif Andrésdóttir, Anna Karelsdóttir, Auðbjörg Pétursdóttir, Ingunn Lárusdóttir, Kristinn Eldjárnsson og Sigríður Guðmundsdóttir.

Glatt á hjalla í í Hamarsbænum 1978. Hér er sungið í kaffipásu.

F.v. Bragi Jónsson, Jóhann Waage, Þórður Sigurðsson, Einar B. Jónsson og Magnús Thorvaldsson.

This article is from: