2 minute read
Hótel Hamar er alvöru „Golf Resort“
Sérstaða Hamarsvallar er ekki síst fólgin í því að þar er starfrækt eina golfhótelið á Íslandi, Hótel Hamar. Hótelið hefur notið mikilla vinsælda, ekki síst hjá innlendum kylfingum sem hafa sótt stíft að dvelja á hótelinu og leika golf. Fyrir kylfinga er dvölin að mörgu leyti á pari við golfferð til útlanda enda hefur uppbygging hótelsins tekið mið af helstu „Golf Resort“ í heiminum. Ekki hefur því þótt verra að það tekur klukkutíma að skjótast í Borgarnes frá höfuðborgarsvæðinu.
Hótelið var tekið í notkun árið 2005 en það var reist að frumkvæði hjónanna Hjartar B. Árnasonar og Unnar Halldórsdóttur. Árið 2011 keyptu hjónin Sigurður Ólafsson og Ragnheiður K. Nielsen hótelið og hafa rekið það allar götur síðan ásamt fjölskyldu sinni af myndarskap og snyrtimennsku svo eftir er tekið. Lengstum var hótelið hluti af Icelandair Hotels keðjunni en stendur í dag sjálfstætt undir merkjum Hótels Hamars.
Frá 2018 hefur Hótel Hamar jafnframt þjónað sem golfskáli GB en þar hefur verið afgreiðsla Hamarsvallar og veitingasala. Er óhætt að segja að sú breyting hafi verið mikið framfaraskref fyrir rekstur klúbbsins, aðgengi að Hamarsvelli og mætt betur öllum þeim kröfum sem kylfingar gera til 18 holu golfvalla. „Það er bara eins og að vera í útlöndum að koma hingað að Hamri,“ hafði einn gestur vallarins að orði í kjölfar breytinganna og eru það orð að sönnu.
Hótel Hamar og Hamarsvöllur eru í reynd tvær hliðar á sama peningnum. Hér er horft yfir hótelið og 18. flöt.
Veröndin við 18. flöt á HótelHamri er mikill sælureitur. Þar slaka kylfingar á eftir góðan hring. Hér má sjá keppendur í Hjóna- og paramóti GB 2023 njóta tilverunnar að lokinni keppni. Mótið er einn stærsti viðburðinn í mótahaldi klúbbsins og hefur notið mikilla vinsælda.