2 minute read
Hressir krakkar í barna- og unglingastarfi GB
Klúbburinn hefur gert sér far um að skipuleggja starf fyrir börn- og unglinga í starfsemi sinni og hafa mörg ungmenni tekið sín fyrstu skref í golfíþróttinni á Hamarsvelli. Það er barna- og unglinganefnd sem skipuleggur starfið hverju sinni og hefur nefndin bryddað upp á ýmsu skemmtilegu til að glæða áhugann, eins og æfingum, golfmótum, ferðum og öðru húllumhæi.
Skipuleg kennsla með golfkennara og öðrum leiðbeinendum á æfingasvæðinu og úti á velli hefur verið fastur liður. Margir hafa komið að þessari kennslu á liðnum árum t.d. Kristvin Bjarnason, Guðmundur Daníelsson, Haraldur Már Stefánsson og Bjarki Pétursson. Í dag sér Anton Elí Einarsson um að halda utan um æfingar krakkana.
Meðal unglingamóta á liðnum árum er Sjóvá mótaröðin hvað þekktust en hún var haldin um árabil. Að jafnaði hafa verið barna- og unglingaflokkar í Meistaramót GB en það hefur þó tekið mið af þátttöku hverju sinni. Hverju tímabili hefur síðan lokið með lokahófi á hausti þar sem verðlaun og viðurkenningar eru veitt fyrir tímabilið.
GB unglingar hafa síðan tekið þátt í mótum á vettvangi GSÍ og náð frábærum árangri. Bjarki Pétursson varð fyrsti Íslandsmeistari ungmenna í sögu GB þegar hann vann flokk 13. ára og yngri á Íslandsmóti unglinga 2007. Árin á eftir var Bjarki alltaf í baráttunni um Íslandsmeistaratitla og varð t.d. Íslandsmeistari unglinga og stigameistari 2010, og átti sæti í unglingalandsliðum. Arnór Tumi Finnsson og Þorkell Már Einarsson kepptu einnig á stigamótum unglinga og náðum góðum árangri á Áskorendamótaröð GSÍ.