4 minute read

Málefni sjóbjörgunar

2020

Árið 2020 verður minnisstætt í langan tíma fyrir margra hluta sakir, heimsfaraldur covid-19 markar stórt og mikið spor í minni okkar allra og hafði það ekki síður áhrif á starf sjóbjörgunar heldur en annað á árinu. Þrátt fyrir „kófið“ þá voru allmargir merkilegir atburðir í starfi sjóbjörgunar hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg og reynt verður að tíunda þá hér.

Árið byrjaði á nokkuð óvenjulegu verkefni fyrir eitt af björgunarskipum félagsins. Elsta Arun Class skip félagsins hafið lokið sínu hlutverki sumarið 2019 og var búið að vera í sölu í nokkurn tíma og legið verkefnalaust í höfn á Rifi. Í janúar féllu síðan snjóflóð á nokkrum stöðum á norðanverðum Vestfjörðum, þar á meðal féllu flóð sem náðu í byggð bæði á Flateyri og á Suðureyri, vissulega höfðu þessi flóð mismikil áhrif á þessi tvö byggðarlög og sínu meiri á Flateyri. Þegar eitthvað af rykinu var sest á Flateyri áttuðu menn sig á því að ljóst væri að tjónið sem hafði orðið á hafnarsvæðinu þar gerði það að verkum að ekki voru lengur neinir bátar á svæðinu sem gátu brugðist við í neyð og siglt með fólk og búnað inn að Holtsbryggju eins og íbúar höfðu treyst á. Fljótt kom upp sú hugmynd að staðsetja björgunarskipið Björg (eldri) á Flateyri tímabundið til þess að tryggja þessa neyðarþjónustu fyrir heimamenn. Heimamenn á Rifi brugðust við þessu og gerðu á mettíma skipið klárt til þjónustu fyrir vestan. Var skipið haft þar fram á sumar en fljótlega eftir sjómannadag var það síðan selt einkaaðila á Akranesi og lauk þar með sautján ára þjónustu þess fyrir félagið.

Áfram verður þörf á að leysa þetta brýna verkefni fyrir Flateyringa og standa vonir til þess að komið verði á varanlegri lausn á þessu málefni í það minnsta á meðan höfnin er óvarin fyrir svo válegum atburðum eins og urðu í janúar 2020.

Framkvæmdastjórn björgunarbátasjóða og Faghópur um sjóbjörgun funduðu samanlagt þrettán sinnum á árinu 2020. Málefnin eru fjölbreytt sem áður, ný björgunarskip, merkingarmál sjófara, námskeiðsmál, réttindamál og svo margt fleira. Covid setti auðvitað sinn svip á þetta starf sem færðist nánast að öllu leyti í fjarfundi og auðvitað sem annað tafðist nokkuð að vinna áfram að einhverjum málum á meðan menn lærðu að vinna með heimsfaraldri. Góður taktur komst þó í hlutina seinni hluta árs. Fresta varð Landsæfingu á sjó sem halda átti 2020 en vonir standa þó til að mögulegt verði að halda hann einhvern tímann á árinu 2021.

Endurnýjun sjóbjörgunartækja varð á árinu 2020 í ýmsu formi, einingar endurnýja slöngu-

báta, pantaðir voru harðbotna bátar og Rescu Runnerar á nokkra staði. Björgunarsveitin Ársæll tók síðan ákvörðun um að láta smíða fyrir sig Rafnar 1100 sem hlaut nafnið Sjöfn og var formlega afhentur á árinu. Ekki varð nein á skipastóli björgunarskipa á árinu 2020 fyrir utan söluna sem nefnd er hér að ofan. Viðbúið er þó að á árinu 2021 verði í það minnsta eitt skip selt og endurnýjað fyrir notað skip erlendis frá.

Í nýsmíðamálum hafa orðið nokkrar sveiflur. Í lok febrúar voru klárar tillögur sem leggja átti fyrir forsætisráðherra um nýsmíðamál björgunarskipa. Tillögurnar snéru að allt að helmings fjárstuðningi við kaup á 13 nýjum björgunarskipum. Blikur voru þó á lofti með covid og var fyrsta smitið á Íslandi staðfest einungis nokkrum dögum eftir að tillögur þessar voru klárar. Fljótlega voru allir hlutir settir á ís og að mati undirritaðs var á tímabili allt eins líklegt að ekkert yrði af verkefni nýsmíða. Eftir því sem leið á árið tók þó við að vinna því brautargengi að ekki væri beðið lengur með þetta verkefni enda núverandi skipastóll farinn að öskra á að fá að komast á eftirlaun. Fengust með aðstoð forsætisráðherra um mitt ár staðfestingar á því að mögulegt yrði að fjármagna helming af endurnýjun þriggja skipa næstu þrjú árin og því lagt af stað um haustið í útboðsferli, enda fjármögnun ríkisins háð því að ferlið færi fram í útboði. Þetta stóra verkefni er því formlega hafið á árinu 2020 og verða í það minnsta komin þrjú ný skip fyrir árslok 2023 þaðan sem síðan verður hægt að endurmeta stöðuna. Það verður þó að segjast að allar líkur eru á áframhaldandi stuðningi ríkis umfram þessi þrjú skip en óráðlegt annað en að stíga varlega til jarðar á svona viðsjárverðum tímum.

Heildarútköll á sjó á árinu 2020 eru nokkuð nærri meðallagi þó að ljóst sé að hluti þeirrar fjölgunar útkalla sem hefur átt sér stað vegna aukinnar ferðamennsku hurfu öll á einu bretti. Alvarleiki útkalla er þó áfram áhyggjuefni. F1 útköll ársins voru flest tengd smáskipum og óhöppum í rekstri þeirra. Betur má ef duga skal og standa vonir til að væntanlegar lagabreytingar taki á í það minnsta þeirri þróun að skipstjórar eru í síauknu mæli sofandi við stjórn skipa þegar þessir atburðir verða. Eitt útkall er þó sérstaklega minnisstætt þegar horft er um öxl yfir árið. Leitað var að skipverja sem féll útbyrðis af skipi við Vopnafjörð í maí. Leituðu einingar félagsins sleitulaust í rúma viku, einingar allt vestur á Rif fóru austur til að aðstoða við þessa leit til þess að ganga fjörur og sigla til leitar.

Sjóbjörgun heldur áfram sem áður að vera mikilvægur þáttur í starfi Slysavarnafélagsins Landsbjargar og ljóst að sjálfboðaliðum félagsins er áfram umhugað að geta aðstoðað sjófarendur eins vel og hratt og mögulegt er við Íslandsstrendur.

This article is from: