9 minute read
Slysavarnaskóli sjómanna
Slysavarnir sjómanna
Árið 2020 hófst á ósköp venjubundinn hátt en eins og alþjóð veit leið ekki á löngu þar til blikur voru á lofti um að nú færi þjóðin inn í algjörlega nýja tíma. Tímar sem höfðu áhrif á alla þjóðina og heimsbyggðina. Þegar ljóst var að skollinn var á heimsfaraldur fór allt líf úr venjubundnum skorðum og var starfsemi Slysavarnaskólans þar engin undantekning. Engu að síður var unnt að halda úti námskeiðum á árinu en þó með verulega breyttu sniði.
Á árinu voru haldin 139 námskeið sem 1.743 nemendur sóttu sem er rúmlega 9% fækkun nemenda milli ára. Námskeiðum fækkaði um 10 milli ára og samanlagðir námskeiðsdagar voru 357 sem er tæplega 3% fækkun. Námskeiðin sem skólinn hélt á árinu má sjá í meðfylgjandi töflu:
2020 2019
Námskeið Nemendur Námskeið Dagar Nemendur Námskeið Dagar
Öryggisfr. STCW A-VI/1-1, 1-2, 1-3 & 1-4 289 22 110 351 22 110 Endurmenntun öryggisfr. STCW A-VI/1 594 34 68 744 46 92 Endurm. öryggisfr. STCW A-VI/1 fjarn. 126 12 24 Framhaldsnámsk. eldvarna STCW A-VI/3 32 5 20 58 7 28 Líf- og léttbátar utan hrað STCW A-VI/2-1 34 6 12 68 7 14 Hraðskreiðir léttbátar STCW A-VI/2-2 12 3 9 5 1 3 Endurm. STCW A-VI/1, A-VI/2-1, A-VI/3 133 9 27 122 7 21 Framhaldsskyndihjálp STCW A-VI/4-1 51 4 12 7 1 3 Sjúkrahjálp skip STCW A-VI/4-1 og 4-2 57 4 16 84 7 28 Hóp- og neyðarstjórnun STCW A-V/2 39 4 8 139 7 14 Hóp- og neyðarstjórnun STCW A-V/2 EM 68 4 4 57 5 5 Mannauðsstj. skipa (BRM/ERM) STCW 30 5 15 37 6 18 Verndarskylda STCW A-VI/6-1 og 6-2 34 2 2 31 4 4 Verndarfulltrúi skips 10 1 2 Verndarfulltrúi útgerða 3 1 3 Verndarfulltrúi hafnaraðstöðu 26 2 6 Öryggisfræðsla smábáta 57 4 4 46 5 5 Endurmenntun öryggisfræðslu smábáta 73 4 2 76 4 2 Skyndihjálp fyrir smábáta 15 2 2 Slöngufarþegabátar undir 6m 19 2 2
Sérnámskeið
Öryggisfræðsla með OM flugrekanda 21 5 5 17 4 4 Wet drill æfing flugliða 1 1 1 Sérnámskeið fyrirtækja 39 6 6 72 9 9
Samtals 1.743 139 357 1.934 145 363
Frá stofnun Slysavarnaskóla sjómanna til ársloka 2020 hafa verið haldin 3.577 námskeið sem 58.603 manns hafa sótt.
Árið markaði 35 ára sögu Slysavarnaskóla sjómanna en þann 29. maí 1985 lauk fyrsta námskeiði skólans og var sá dagur valinn sem stofndagur skólans. Ekki var unnt að bjóða til veisluhalda vegna sóttvarnatakmarkana en nemendum sem voru á námskeiði þennan dag ásamt starfsmönnum var boðið upp á afmælistertu í tilefni dagsins.
Erfitt er að bera saman árin 2019 og 2020 enda var starfsemi skólans í margt frábrugðin venjubundnu skólastarfi. Þann 13. mars stöðvaðist starfsemi Slysavarnaskóla sjómanna í kjölfar sóttvarnareglna vegna covid-19. Í fyrstu var starfsmönnum skipt í tvo hópa og voru til skiptis um borð í Sæbjörgu við vinnu. Þegar ástandið fór versnandi var skólanum alfarið lokað og starfsmenn unnu heiman frá. Kennarar skólans hófu gerð fjarnámsefnis og samtímis var gengið til samninga við fyrirtækið LearnCove um notkun á samnefndum fjarkennslubúnaði.
Þegar samkomutakmörkunum var aflétt í byrjun maí var farið að bjóða upp á fjarnám á endurmenntunarnámskeiðum skólans samhliða venjulegu námskeiðahaldi. Með fjarnáminu tóku nemendur allan bóklega hluta námskeiðsins á netinu og gengust að því loknu
undir próf áður en þeir mættu til verklegra æfinga um borð í skólaskipið Sæbjörgu. Varð þetta til þess að unnt var að bregðast við þeim uppsafnaða fjölda sjómanna sem höfðu misst af námskeiði meðan skólinn var lokaður sem og að nemendur utan af landi gátu stytt verutíma sinn í höfuðborginni. Á þessu tímabili voru felld niður 16 námskeið sem samtals 245 nemendur voru skráðir á.
Eftir að þriðja bylgja faraldursins hófst þann 6. október var allri verklegri kennslu hætt þar sem settar voru bæði fjölda- og fjarlægðartakmarkanir sem gerðu ómögulegt að halda út þessari kennslu. Frá þeim tíma voru öll námskeið skólans kennd með fjarfundabúnaði. Alls höfðu 314 nemendur tekið endurmenntunarnámskeið og lokið prófi frá því lokunin hófst á haustdögum en um 50 manns áttu eftir að ljúka prófum úr þeim hópi um áramót.
Námskeiðshald utan Reykjavíkur varð ekki svipur hjá sjón miðað við fyrri ár. Einungis var haldið námskeið á Akureyri í hóp- og neyðarstjórnun en önnur áformuð námskeið á landsbyggðinni voru felld niður vegna sóttvarnareglna. Hins vegar gátu allir þeir sem sóttu fjarnámskeið skólans tekið þau í sinni heimabyggð en þurfa að sækja verklega hluta námskeiðs þegar sóttvarnareglum hefur verið aflétt að fullu.
Ekki var unnt að taka þátt í fyrirhuguðum heimsóknum kennara skólans til tveggja erlendra skóla í tengslum við Erasmus+ starfsmenntaáætlunina eins og áætlanir gerðu ráð fyrir. Þeir skólar voru í Bretlandi og Hollandi en bæði þessi lönd höfðu þá lokast sem og að flug til og frá landinu hafði að mestu lagst af. Ákveðið var að fara fram á ársframlengingu á verkefninu sem átti að ljúka í maí 2021 og fékkst samþykki fyrir því. Það er von okkar að mögulegt verði að ljúka þessu verkefni í tíma.
139
námskeið árið 2020
58.603
nemendur frá upphafi 1.743
nemendur árið 2020
Allri dagskrá Sjómannadagsins í Reykjavík var aflýst en engu að síður völdu starfsmenn skólans þá áhöfn sem skyldi veittur Sjómannabikar Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Að þessu sinni var það áhöfnin á Þórunni Sveinsdóttur frá Vestmannaeyjum sem valin var og við hátíðahöld í Vestmannaeyjum afhenti Arnþór Arnþórsson, formaður Björgunarfélags Vestmannaeyja, fyrir hönd Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Gylfa Sigurjónssyni skipstjóra og áhöfninni bikarinn. Var þetta í 16. sinn sem farandbikarinn er afhentur og óskum við skipstjóra og áhöfn til hamingju með góðan árangur í öryggismálum og sameiginlegri þátttöku í námskeiði skólans.
Í júlí varð gert samkomulag milli Slysavarnaskóla sjómanna, Samgöngustofu og Tækniskólans um að þrjú námskeið er snúa að vernd skipa, útgerða og hafnaraðstöðu flyttust til Slysavarnaskólans. Námskeið þessi eru hluti af alþjóðakröfu um siglingavernd, svokallaðra ISPS krafna, og lúta að aðstöðu þar sem skip í millilandasiglingum hafa viðkomu sem og áhöfnum þeirra skipa er hlut eiga að máli. Fyrsta námskeiðið, Verndarfulltrúi skipa (SSO) fór fram í lok október og fylgdu námskeiðin Verndarfulltrúi útgerða (CSO) og hafnaraðstöðu (PFSO) strax í kjölfarið. Í þjónustusamningi Slysavarnafélagsins við samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið um rekstur Slysavarnaskóla sjómanna eru siglingaverndarnámskeið meðtalin í þeim verkefnum sem skólanum er ætlað að sinna.
Lítið gekk í að koma upp nýju æfingasvæði til slökkvistarfa við slökkvistöðina í Skútahrauni í Hafnarfirði. Öll tilskilin leyfi hafa fengist en heimsfaraldurinn kom í veg fyrir frekari framkvæmdir en von er til þess að hefjast handa á ný á vormánuðum 2021. Eru miklar vonir bundnar við að uppbyggingaverkefninu ljúki á því ári.
Lokið var við gerð stuttra öryggismyndbanda fyrir samgöngu- og sveitastjórnarráðuneyti, Siglingaráð og Samgöngustofu af hálfu sjónvarpstöðvarinnar N4. Tveir starfsmenn skólans fóru yfir lokafrágang myndbandanna með framleiðanda og voru þau frumsýnd í marsmánuði. Hafa þau verið notuð við kennslu í Slysavarnaskólanum síðan. Samhliða frumsýningu var N4 með umfjöllun um öryggismál sjómanna. Til stóð að haldin yrði öryggismálaráðstefna á vegum samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytis, Siglingaráðs og Samgöngustofu í tengslum við Alþjóða siglingadaginn í september þar sem þema dagsins var: „Sjálfbærar siglingar í sjálfbærri framtíð.“ Ráðstefnunni var frestað um óákveðinn tíma.
Um miðjan febrúar fékk Grönlands Maritime Centre kennslustofu og aðstöðu til leigu í Slysavarnaskóla sjómanna til námskeiðahalds. Var verið að halda grunnnámskeið fyrir sjómenn frá austurströnd Grænlands en hópurinn, sem taldi 13 nemendur, var hér á landi í tæpar þrjár vikur á ýmsum námskeiðum. Tveir grænlenskir kennarar önnuðust kennsluna, sem fram fór á grænlensku en einnig aðstoðuðu okkar kennarar þá eftir þörfum. Að lokum var þeim boðið að taka þátt í sameiginlegri þyrluæfingu Slysavarnaskólans og Landhelgisgæslunnar þar sem alls 25 nemendur beggja skólanna voru hífðir upp í þyrlu LHG. Þá var haldið eitt grunnnámskeið fyrir Pólverja sem reyndar var haldið á íslensku en með aðstoð túlks.
34
banaslys sjómanna 1973
1
banaslys sjómanna 2015 0
banaslys sjómanna 2017-20
Eins og verið hafði á undanförnum árum fékk skólinn fjöldann allan af heimsóknum frá aðilum sem vildu kynna sér starfsemi skólans, en slíkar heimsóknir lögðust alfarið niður á árinu. Þá var gert hlé á heimsóknum starfsmanna skólans ásamt fulltrúa tryggingafélagsins VÍS í skip, sem það tryggir, til að efla öryggismenningu að einni heimsókn undanskilinni þegar farið var um borð í Pál Jónsson sem þá var nýkominn til landsins. Skömmu síðar fóru svo starfsmenn skólans aftur um borð í skipið þar sem áhöfnin var aðstoðuð í að skipuleggja og halda æfingar.
Þrátt fyrir erfiðleika í þjóðfélaginu samhliða heimsfaraldrinum bárust skólanum góðar gjafir. Þar skal fyrst nefna gjöf sem skólanum barst fyrir tilstilli Tækniskólans en verið var að gera upp Styrktarsjóð nemenda Stýrimannaskólans í Reykjavík og var ákveðið af sjóðsstjórn að færa Slysavarnaskóla sjómanna fjármagn það sem sjóðurinn átti. Ákvæði var í lögum sjóðsins að við slit hans ætti að ráðstafa eignum hans í þágu sjómanna og fjölskyldna þeirra og var það mat sjóðsstjórnar að það ákvæði væri best uppfyllt með þessum hætti. Strax og þetta varð ljóst var hafist handa við að reisa á æfingaþilfari nýja kennslustofu til að hýsa þrjá herma fyrir stjórnun á líf- og léttbátum sem notaðir verða í framtíðinni við þjálfun sjómanna. Fyrsti hermirinn barst á haustmánuðum en verkinu verður ekki að fullu lokið fyrr en á vordögum 2021 vegna ferðatakmarkana söluaðila búnaðarins.
Landsstjarnan gaf skólanum Ruth Lee æfingabrúðu og var þetta þriðja brúðan sem fyrirtækið færði skólanum að gjöf. Faxaflóahafnir hafa stutt starfsemi skólans dyggilega með niðurfellingu hafnargjalda fyrir skólaskipið og hefur sá styrkur verið veittur allt frá því að skólinn eignaðist skólaskip árið 1986. Þá færðu þeir skólanum að gjöf björgunarbúninga og björgunarvesti til nota við æfingar skólans. Sem og áður fyrr bárust skólanum gjafir frá skipum sem aðallega voru gúmmíbjörgunarbátar og annar búnaður sem endurnýja þurfti en hægt var að nota áfram til æfinga. Minni-Borg í Grímsnesi færði skólanum þvottavél að gjöf til að nota við þvott á reykköfunargrímum. Er öllum þessum aðilum færðar hinar bestu þakkir fyrir þann stuðning og hlýhug sem þeir sýndu skólanum.
Einn fundur var haldinn í skólanefnd Slysavarnaskóla sjómanna en í henni sitja Gunnar Tómasson formaður (SL), Jón Svanberg Hjartarson (SL), Lilja Sigurðardóttir (SL), Valmundur Valmundsson (SSÍ) og Árni Bjarnason (FS).
Í árslok voru 11 starfsmenn í fullu starfi við skólann en þeir eru: Hilmar Snorrason skólastjóri, Bogi Þorsteinsson aðstoðarskólastjóri, Bjarni Þorbergsson kennari, Steinunn Einarsdóttir kennari, Jón Snæbjörnsson leiðbeinandi, Georg Arnar Þorsteinsson leiðbeinandi, Pétur Ingjaldsson yfirvélstjóri, Ingimundur Valgeirsson gæða- og verkefnastjóri, Sigríður Tómasdóttir skrifstofumaður og Vidas Kenzgaila við ræstingu. Þráinn E. Skúlason aðstoðarskólastjóri lauk störfum eftir 25 ára farsælan starfsferil við skólann. Er honum þökkuð góð störf við fræðslu til sjómanna sem og annarra nemenda skólans. Óskum við honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.
Auk fastra starfsmanna annaðist Stefán Smári Skúlason öryggisköfun á þyrluæfingum skólans auk þess sem læknar og hjúkrunarfólk frá LHS önnuðust kennslu á námskeiðum í Sjúkrahjálp um borð í skipum og starfsmenn LHG fluggæslu sáu um kennslu í þyrlubjörgun við skólann.