5 minute read
Skýrsla stjórnar
Skýrsla stjórnar 2020
Eftirtaldir einstaklingar sátu í stjórn félagsins árið 2020 og fundað var 22 sinnum yfir árið. Stjórn varð að aðlaga sig breyttum aðstæðum vegna heimsfaraldurs covid 19 og fóru langflestir fundir fram í gegnum fjarfundabúnað.
Stjórn
Þór Þorsteinsson, formaður Otti Rafn Sigmarsson, varaformaður Þorsteinn Þorkelsson, gjaldkeri Auður Yngvadóttir, ritari Gísli Vigfús Sigurðsson Hallgrímur Óli Guðmundsson Valur S. Valgeirsson Borghildur Fjóla Kristinsdóttir Hildur Sigfúsdóttir
Ofanflóð, óvissustig almannavarna og heimsfaraldur
Náttúruöflin minntu svo sannarlega á sig á árinu 2020. Árið hófst með tveimur snjóflóðum sem fóru yfir leiðigarðana á Flateyri og grönduðu m.a. bátum í höfninni. Í lok janúar var lýst yfir óvissustigi almannavarna í Grindavík vegna jarðhræringa og landriss vestan Þorbjarnar. Árinu lauk svo með aurskriðum á Seyðisfirði sem skemmdu á annan tug húsa og á annað hundrað íbúar þurftu að rýma hús sín. Það reyndi mikið á björgunarsveitir og slysavarnadeildir í þessum bæjarfélögum en sýndi sig sem áður hverju ómetanleg samstaða félaga alls staðar af landinu skilar í aðgerðum af slíkri stærðargráðu.
Í lok janúar var lýst yfir óvissustigi vegna covid-19 heimsfaraldurs og fáum vikum síðar var faraldurinn kominn til Íslands. Þetta kostaði gjörbreytt verklag í öllu starfi félagsins og einingum þess, vegna sóttvarna og samkomutakmarkana sem ríktu allt árið.
Nýjar áskoranir og fjarfundir
Sóttvarnir og samkomutakmarkanir settu allt félags- og björgunarstarf í mjög þröngar skorður. Aðgangur að húsum eininga um allt land var mjög takmarkaður. Á skrifstofu félagsins í Skógarhlíð var starfsfólki félagsins gert að vinna heiman frá sér stóran hluta ársins og félagsstarf fluttist að mestu á rafrænt form. Stjórn og nefndir funduðu reglulega í fjarfundum, sem og vinnuhópar sem settir voru á laggirnar, m.a. um stefnumótun félagsins og endurskoðun umhverfisstefnu og jafnréttisstefnu.
Um vorið var hringt út í formenn allra eininga til að taka stöðuna á starfinu í covid-ástandi. Um haustið var svo farið í rafrænan erindrekstur þar sem haldnir voru 17 fjarfundir þar sem stjórnum eininga var boðin þátttaka. Alls tóku stjórnarmenn úr 41 einingu þátt í fundunum.
Björgunarskólinn aðlagaði sig breyttum aðstæðum og hélt fjölda fjarnámskeiða, regluleg fræðslukvöld í streymi og ný eða uppfærð netnámskeið litu dagsins ljós. Um haustið hóf svo tímaritið Björgun aftur göngu sína en blaðið var gefið út í rafrænu formi tvisvar á árinu. Landsbjargarvarpið, fyrsti hlaðvarpsþáttur félagsins fór í loftið í nóvember og hefur komið reglulega síðan.
Formannafundur
Formannafundur var haldinn í fjarfundi og var honum streymt frá húsnæði Hjálparsveitar skáta Reykjavík. Stjórn tók þá ákvörðun að fundurinn væri opinn öllu félagsfólki en ekki einungis formönnum félagseininga eins og heiti fundarins gerir ráð fyrir.
Björgun 2020
Vegna sóttvarnarreglna og samkomutakmarkana yfirvalda í heimsfaraldri var ráðstefnan blásin af. Ráðstefnan átti að fara fram dagana 16.-18. október í Hörpu.
Fulltrúaráðsfundur
Fulltrúaráðsfundur var haldinn í gegnum fjarfund í fyrsta skipti og var hann sendur út frá anddyri Björgunarmiðstöðvarinnar. Á fundinum höfðu 79 félagseiningar atkvæðarétt og voru um 100 manns skráðir á hann. Einnig var fundinum streymt svo allir félagar gátu fylgst með honum.
Endurnýjun björgunarskipa
Ríkisstjórnin samþykkti á árinu áframhaldandi samstarf ríkisins og Slysavarnafélagsins Landsbjargar um kaup á þremur nýjum björgunarskipum. Gert er ráð fyrir 150 milljóna króna árlegri fjárveitingu úr ríkissjóði í þrjú ár með fyrirvara um breytingar og samþykki Alþingis. Samhliða verður gert samkomulag við félagið um fjármögnun og viðhald björgunarskipanna til lengri tíma. Þetta stóra verkefni hófst því formlega á árinu 2020 og verða í það minnsta kominn þrjú ný skip fyrir árslok 2023 þaðan sem síðan verður hægt að endurmeta stöðuna.
Samningar/aðalstyrktaraðilar
Aðalstyrktaraðilar félagsins hafa verið fimm, en á árinu óskaði Landsbankinn eftir endurskoðun á samningi og Icelandair Group átti afar erfitt rekstrarlega þar sem landamæri voru nánast lokuð um allan heim og flug í algjöru lágmarki. Þó hafa hvorugt þessara fyrirtækja yfirgefið okkur og samningar um framhald standa yfir. Sjóvá, Olís og Vodafone standa enn þétt við bak félagsins og á haustdögum hafa staðið yfir samningaviðræður við Mjólkursamsöluna sem lofa góðu.
Erlend samskipti og ráðstefnur
Í febrúar, rétt áður en heimfaraldur skall á, var haldið heimsþing samgönguráðherra um umferðaröryggi í Stokkhólmi. Samhliða því var haldið heimsþing unga fólksins um umferðaröryggi undir yfirskriftinni „Hingað og ekki lengra“ (Enough is enough). Fjögur íslensk ungmenni sátu ráðstefnuna, öll félagar í Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Í framhaldi voru allar fyrirhugaðar ferðir á ráðstefnur og námskeið felldar niður og samskipti við erlenda samstarfsaðila fóru fram í fjarfundum og streymi það sem eftir lifði ársins.
Fjáröflunarverkefni
Íslandsspil
Slysavarnafélagið Landsbjörg er einn þriggja eigenda Íslandsspila, sem starfrækir söfnunarkassa, og er hlutur félagsins 26,5% en aðrir eigendur eru Rauði krossinn á Íslandi og SÁÁ. Öllum söfnunarkössum Íslandsspila var lokað 20. mars vegna covid-19 og voru þeir lokaðir meira og minna allt árið.
Bakverðir
Bakverðir félagsins eru ómetanlegur stuðningur við starfið og á árinu 2020 bættust 6.837 Bakverðir í þann hóp sem fyrir var.
Neyðarkall
Sölu Neyðarkallsins var frestað fram til fyrstu helgar í febrúar 2021 vegna sóttvarnareglna og fjöldatakmarkana sem voru í gildi í byrjun nóvember.
Flugeldar
Flugeldasalan gekk framar vonum í samkomutakmörkunum og var aukning í sölu frá síðasta ári hjá flestum einingum. Engar ábendingar bárust um slys af völdum flugelda og tilkynningar um galla á vöru voru mjög fáar.
Skjótum rótum
Sala á Rótarskotum verkefnisins Skjótum rótum í samstarfi félagsins og Skógræktarfélags Íslands dróst enn saman og nokkuð ljóst að endurskoða þarf verkefnið.
Slysavarnir
Leitað var nýrra leiða og unnið eftir aðstæðum og sóttvarnareglum á hverjum tíma og má segja að skilaboð félagsins í slysavörnum hafi verið sterkari við þessar skrítnu aðstæður en oft áður. Skilaboð félagsins voru mjög sýnileg á samfélagsmiðlum og með góðu samstarfi við styrktaraðila og opinbera aðila og aðlögun félaga tókst 111 einingum að vinna nokkur frábær verkefni.