14 minute read

þing LSS

Eymdin

Eitt af því sem þurfti að leysa var sótthreinsiaðstaða fyrir bíla og tæki sem notuð voru í flutningum á COVID-19 sjúklingum. Í Skógarhlíðinni var að losna húsnæði sem áður hýsti bílamiðstöð ríkislögreglustjóra og var allt kapp lagt á að fá húsnæðið fyrir þetta verkefni. Fljótlega kom einnig í ljós að nauðsynlegt var að fá aðstöðu fyrir starfsmenn sem hugsanlega höfðu sinnt smituðum sjúklingi án viðeigandi varna. Ef slík staða kom upp þurftu starfsmenn að bíða á meðan niðurstöður úr sýnatöku sjúklings lágu fyrir, slíkar aðstæður komu nokkrum sinnum upp. Starfsmenn þurftu einnig að komast í sturtu og geta skipt um fatnað. Þessi aðstaða fékk fljótlega nafnið Eymdin enda ekki skemmtileg staða að vera í þegar beðið er eftir stóra „dómi“ og er því nafnið viðeigandi. Starfsmenn okkar sáu um að setja upp milliveggi, sturtur o.fl. í Eymdinni. Aðstaðan nýttist fyrir SHS, LRH, LHG sem og alla aðra viðbragðsaðila sem höfðu lent í smiti óháð því hvar þeir voru á landinu. Í upphafi sá vaktin í Skógarhlíðinni alfarið um þrif á bílunum og tækjum en í mars var samið við Sólar ehf. um að sjá um þrifin og mönnuðu þeir aðstöðuna allan sólarhringinn alla daga vikunnar á meðan mesta álagið var. Aðstaðan gjörbreytti möguleikum okkar á að glíma við faraldurinn og var enn eitt dæmi um gott samstarf allra viðbragðsaðila.

Advertisement

25. maí Opnun í Skógarhlið Bílaflotinn í Skógarhlíð ásamt COVID bílum

Uppskipting vakta og fjölgun stöðva

Til að minnka líkur á smiti milli starfsmanna var verklagi við vaktaskipti breytt í byrjun mars. Á vaktaskiptum gengu starfsmenn frá sínum persónulega búnaði áður en ný vakt kom á svæðið og var umgengni milli vakta bönnuð, sem fólst í að engin blöndun var á milli þeirra þ.e.a.s. sú vakt sem var að ljúka störfum fór út af stöðinni á öðrum stað en sú vakt sem var að koma til starfa. Öll samskipti sem þurftu að fara á milli vakta fóru fram símleiðis eða minnismiðar skildir eftir. Allir álagsfletir, þ.e. fjarskiptabúnaður, hurðahúnar, handföng o.fl. voru sótthreinsaðir af þeirri vakt sem var að koma. Leitast var við að vera með sömu mönnun alla vaktatörnina og allar færslur á milli stöðva, milli vakta og skiptivaktir voru bannaðar. Hver og ein útstöð var skilgreind sem sérstakt sóttvarnasvæði. Starfsmenn voru hvattir til að minnka einnig samneyti milli eininga í frítíma sínum sem þeir gerðu. Þannig að segja má að starfsmenn hafi verið í hálfgerðri sóttkví þar sem þeir stunduðu sína vinnu og fóru síðan heim og gættu þess að vera ekki innan um margmenni. Líklega munum við alltaf minnast þessa tíma sem tímans þegar SHS fór í sóttkví. Fjölgað var á sólarhringsvöktum, farið úr 23 í 31 starfsmann þegar mest var. Á móti var fækkað á dagsjúkrabílum, enda datt álagið í millistofnanaflutningum niður á þessu tímabili. Sjúkraflutningum fækkaði einnig, en þeir urðu lengri og flóknari, vegna aukinna sóttvarna. Til að þetta gengi allt upp var ein forsenda að óska eftir því að starfsmenn myndu breyta vetrarorlofum, fresta fríum og hætta við utanlandsferðir. En við þurftum ekki að biðja um eitt eða neitt því starfsmenn sýndu frumkvæði, lásu í stöðuna og breyttu sínum áformum og lögðu allt til hliðar enda „sannir viðbragðsaðilar“. Heil vakt tók t.d. þá ákvörðun að hætta við skíðaferð sem var fyrirhuguð, ferðinni var ekki heitið á þekkt smitsvæði á þeim tíma. Það hefði verið mjög slæmt fyrir okkur að missa alla vaktina í mögulega 14 daga sóttkví við heimkomu og er ég þeim gríðarlega þakklátur fyrir það að hafa ekki farið í ferðina. Ráðningu sumarstarfsmanna var flýtt hjá þeim sem gátu það. Öllum námskeiðum var frestað og starfsmenn settir á vaktir. Með þessum aðgerðum jukust líkurnar á því að við myndum ekki missa marga úr vinnu ef það kæmi upp smit hjá okkur og við næðum að tryggja órofna þjónustu. Þessar aðgerðir voru flóknar en allir starfsmenn tóku vel í

þær og fyrir það ber að þakka.

Strax í byrjun mars fór undirbúningur á fullt við að finna bráðabirgðahúsnæði svo hægt væri að skipta slökkviliðsog sjúkraflutningamönnum meira upp. Sú vinna gekk vel og mættum við alls staðar góðum hug hjá þeim sem við leituðum til, kunnum við þeim miklar þakkir fyrir það. Á tímabilinu 17. mars til 6. apríl var sjö stöðvum bætt við en þær voru; •

Grand hótel Sigtúni – 2 starfsmenn á hverri vakt og einn sjúkrabíll.

Flugbjörgunarsveitarhúsnæði við Flugvallarveg –2 starfsmenn á hverri vakt og einn sjúkrabíll.

World Class Ögurhvarfi – 2 starfsmenn á hverri vakt og einn sjúkrabíll.

Jötunheimar í Garðabæ – 2 starfsmenn á hverri vakt og einn sjúkrabíll.

Frumherji á Hólmaslóð – 2 starfsmenn á hverri vakt og einn sjúkrabíll.

Ársæll á Grandagarði – 4 starfsmenn á hverri vakt, 2 sjúkrabílar og 1 dælubíll.

Aukaaðstaða í Skógarhlíðinni – 4 starfsmenn á dagvöktum og tveir sjúkrabílar. Verkefnin á stöðinni okkar í Skógarhlíð breyttust talsvert þar sem hún varð miðstöð fyrir COVID bílana okkar og kom það oft fyrir að starfsfólk var í hlífðarfatnaði alla vaktina. Þegar smitum fór að fækka í þjóðfélaginu í maí og fyrirhugað að samkomubann yrði rýmkað mikið þann 25. maí var farið að huga að fækkun stöðva. Mikil áhersla var lögð á að stíga varlega til jarðar varðandi afléttingu hjá okkur. Þann 6. maí lokuðum við aðstöðunni í Frumherja þar sem þeir þurftu að fá húsnæðið til baka, næsta stöð sem lokaði var Ögurhvarf þann 20. maí. Síðasta stöðin sem var lokað var í húsnæði Björgunarsveitarinnar Ársæls þann 1. júní sl.

Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð lokað

Þann 6. mars fórum við af hættustigi yfir á neyðarstig og í kjölfarið var starfsemin í björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð með talsvert öðru sniði heldur en vanalega. Húsnæðinu var upphaflega skipt skipt upp í átta svæði síðan bættist eitt svæði við seinna. Í húsnæðinu höfðu eingöngu þeir sem voru að styðja við framlínuverkefni aðstöðu í húsinu, aðrir fóru út úr húsi. Inn í húsnæðið kom meðal annars rakningateymi lögreglunnar sem var með umfangsmikla starfsemi og unnu þau á vöktum í sínu mikilvæga verkefni. Rakningateymið var staðsett í upphafi á skrifstofu Forvarnasviðs. Ef horft er framhjá alvarleika málsins má segja að lífið í Skógarhlíðinni þessar vikur hafi minnt á svolítið á leikskóla þar sem hvert svæði fyrir sig var með ákveðinn lit sem ekki mátti blandast öðrum, þ.e. gulir, rauðir, bláir, grænir, appelsínugulir, hvítir og fjólubláir. Það fór allt á hvolf hjá okkur en engu að síður virkuðu allar einingar 100%. Það var ótrúlegt að fylgjast með því hvernig starfsemin hélst óskert í þessum aðstæðum, allir lögðust á eitt við að láta þetta ganga upp svo að notendur þjónustunnar yrðu sem minnst varir við þessa röskun. Þegar Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð var lokað hafði hún verið opin samfellt allan sólarhringinn í 5.830 daga eða 832 vikur og 6 daga. Þann 25. maí var neyðarstigi aflétt og Skógarhlíðin opnuð á ný fyrir skrifstofufólk og samskipti milli starfseininga leyfð en þó með takmörkunum. Þá hafði húsið verið lokað í 81 dag. Varðliðið okkar var viku lengur uppskipt en sú ráðstöfun var talin nauðsynleg þar sem um samfélagslega mikilvæga þjónustu er að ræða. Við vildum hafa vaðið fyrir neðan okkur varðandi tilslökunina og sjá hvernig til tækist í þjóðfélaginu. Það var mikil ánægja þann 1. júní þegar við héldum upp á 20 ára afmæli SHS og öllum takmörkunum var aflétt meðal starfsfólks. Ekki var hægt að halda upp á afmælið með hefbundnu sniði en farið var með tertur á allar starfsstöðvar og stefnt er að því að halda upp á afmælið þegar það verður hægt m.t.t. lækkunar á viðbragðsstigi.

Sjúkraflutningar og slökkvistarf

Í þessari uppskiptingu á starfsfólkinu okkar má segja að við höfum verið með varðliðið í 44 starfseiningum, þar sem við vorum með 11 stöðvar og fjórskiptar vaktir. Eitt lítið dæmi er að inni-varðstjórinn sem við köllum 70 mátti ekki umgangast sína vakt. Á tímabili vorum við með tvo inni-varðstjóra þar sem álagið var gífurlegt í COVID flutningum og utanumhald mikið. Starfsfólk okkar sýndi ótrúlegt æðruleysi við þessar aðstæður og var fljótt að bregðast við nýjum verklagsreglum og breyttu vinnuumhverfi. Það var einnig eftirtektarvert að fylgjast með hversu vel nýráðið starfsfólk og sumarstarfsfólk brást við þessum sérstöku aðstæðum. Það hlýtur að vera sérstakt að byrja á nýjum vinnustað í svona óvenjulegum og krefjandi aðstæðum. Þrátt fyrir mikið annríki vegna COVID-19 þá vorum við einnig í okkar hefðbundnu verkefnum, þ.e. sjúkraflutningum og slökkvistarfi. Á tímabilinu 1. mars – 1. júlí var fjöldi flutninga 10.634, þar af voru 2.779 forgangsflutningar. Lögð var áhersla á að styrkja slökkviliðshlutann með því að hafa dælubíl staðsettan á Grandagarði í húsnæði björgunarsveitarinnar Ársæls. Uppskipting stöðva hafði í för með sér að nýtt og krefjandi verklag þurfti að viðhafa í stórum eldsvoðum þar sem margar stöðvar vinna saman. Á því tímabili sem uppskipting varði lentum við í þremur slíkum, sá fyrsti var 18. mars þegar kviknaði í Pablo Discobar, næsti varð 5. apríl við Malbikunarstöðina Höfða og sá þriðji þann 13. apríl á Hverfisgötunni. Í öllum útköllum var allt tiltækt slökkvilið sent á staðinn sem þýðir að kalla þurfti út litla úthringingu til að sinna öðrum verkefnum.

Eins og gefur að skilja þá hafði uppskipting stöðva mikið að segja á vettvangi, en vel tókst til í þeim og voru allir starfsmenn á tánum varðandi sóttvarnir og skipulag. Þessi stóru útköll höfðu einnig mikil áhrif á þrif á reykköfunarbúnaði þar sem gæta þurfti fyllstu sóttvarna með flutning á þeim milli stöðva.

Verkstæðið

Verkstæðið sinnir mikilvægu hlutverki er snýr að því að halda bílum og búnaði í lagi hjá okkur, einnig sinnir það útkallseiningum með allt sem kemur upp á hjá þeim, en þeim fjölgaði á þessum tíma úr fjórum í ellefu. Til að koma í veg fyrir smit milli starfsmanna verkstæðisins voru teknar upp tvískiptar vaktir á virkum dögum. Vegna álags fengu starfsmenn verkstæðis aðstoð frá kollegum sínum á forvarnasviðinu. Þetta fyrirkomulag gekk mjög vel og reyndist vel að fá kærkomna aðstoð frá starfsmönnum forvarnasviðsins. Talsvert álag var í hreinsun á reykköfunarbúnaði þar sem stórir brunar voru á tímabilinu auk annarra minni verkefna. Flutningur á reykkútum var flóknari þar sem verklag var mun stífara vegna sóttvarna. Verkstæðið á mikinn heiður skilinn fyrir sitt framlag en þeir eiga stóran þátt í því hversu vel gekk að fjölga stöðvum.

Forvarnasvið

Þegar Skógarhlíðinni var lokað var fyrirséð að verkefni hjá Forvarnasviðinu myndu raskast. Hefðbundið eftirlit lá niðri en eftirlitsmenn hjálpuðu til á verkstæðinu þar sem mikilvægt var að sú starfsemi myndi haldast óskert. Lokaog öryggisúttektum sem og stuðningi við byggingafulltrúa og hönnuði var haldið úti en með talsvert breyttu sniði þar sem starfsmenn unnu heiman frá sér og var reynt að leysa flest verkefni rafrænt. Einungis tveir starfsmenn voru í úttektum útí bæ og aðrir fóru þegar á þurfti að halda en reynt var að vinna sem mest að heiman. Það var samt ýmislegt gert þessa 46 vinnudaga eins og: • 42 lokaúttektir • 25 öryggisúttektir • 28 veitingaleyfi / rekstrarleyfis úttektir • 59 beiðnir um umsagnir • 56 umsagnir gefnar • 580 mál vegna yfirferðar teikninga og stundum oftar en einu sinni í hverju máli Þannig að þrátt fyrir að nokkrir dagar hafi farið í að setja upp heimastöðvar til vinnu þá vannst hellingur að heiman og gekk vel, einnig var tíminn notaður til að taka fundi á Teams og koma þannig málum áfram. Góður hópur sem gerði það sem hægt var til að tryggja lágmarks þjónustu sem var bara afbragðs þjónusta.

Skrifstofa

Þegar Skógarhlíðinni var lokað þann 6. mars fóru næstum allir starfsmenn skrifstofu úr húsi og útbúin var vinnuaðstaða heima hjá þeim. Starfsmenn tölvudeildar höfðu hraðar hendur við að koma upp heimatengingu hjá þeim á nokkrum dögum. Þegar þeir fóru inn á heimili og á milli starfsstöðva voru þeir með hanska og grímur til að gæta fyllstu sóttvarna.

Varðliðið opnar Skógarhlíðina 1. júní

Starfsmenn tóku upp nýjar aðferðir í samskiptum og voru Teams fundirnir ófáir og ýmis málefni leyst þar sem og í símtölum. Það var ótrúlegt hversu vel gekk að halda allri starfsemi óskertri hvort sem um var að útborgun launa, greiðslu reikninga eða önnur verkefni, allir lögðust á eitt að láta þetta ganga sem best upp.

Sóttkví, einangrun og veikindi

Mikil áhersla var og er lögð á sóttvarnir á öllum starfsstöðvum og er starfsfólk meðvitað um mikilvægi þeirra. Starfsfólk okkar hefur verið hvatt til að koma ekki til vinnu ef það er m.a. með einhver flensueinkenni eða hefur verið erlendis, í slíkum tilfellum á að hafa samband við yfirmann varðandi næstu skref. Þessi viðmið hafa verið í gildi frá 1. mars en þann dag fengu allir starfsmenn smáskilaboð (sms) þar sem þessir þættir voru ítrekaðir enda mikilvægt að fá ekki smit inn í okkar einingu. Þrátt fyrir allar þær varúðarráðstafanir sem við fórum í mjög snemma í faraldrinum þá sluppum við ekki alveg við COVID-19 og veiktust fimm starfsmenn, þar af einn alvarlega. Alls fóru fimm starfsmenn í einangrun, fimmtán í sóttkví og sex í úrvinnslusóttkví. Þetta sýnir okkur hversu mikilvægt það var fyrir okkur að grípa strax til aðgerða og gera frekar meira en minna til að vernda okkar fólk sem iðulega er fyrst á vettvang, í aðstæður þar sem ekki er alltaf vitað um heilsufar einstaklinga. Starfsmaður frá okkur hringdi daglega í alla sem voru í einangrun og sóttkví, hann svaraði einnig öllum spurningum og vangaveltum frá starfsmönnum varðandi stöðu þeirra. Á þessum tíma fengum við leyfi frá HMS til að fella niður tímabundið læknisskoðanir, þrekpróf og styrktarpróf sem okkur ber skylda að fylgja eftir skv. reglugerð, þar sem ekki var hægt að framkvæma þessi verkefni vegna smitvarna.

Bylgja tvö og þrjú skella á

Önnur bylgja í COVID hófst því miður í lok júlí og þegar þetta er ritað er staðan óljós, ný smit að greinast flesta daga. Strax og bylgjan hófst gripum við til ráðstafana hjá okkur, Skógarhlíðin var hólfuð niður eins og í vor, samgangur á milli vakta var aftur minnkaður. Varðliðinu í Skógarhlíð var skipt upp og fengum við aðstöðu hjá Flugbjörgunarsveitinni, gámarnir voru teknir í notkun á ný og einnig er Eymdin nýtt fyrir dagvaktir. Eins og áður voru starfsmenn æðrulausir í þessu og voru allir fljótir að aðlagast á ný að breyttu verklagi. Starfsmenn okkar á skrifstofu og á Forvarnasviðinu voru einnig í fjarvinnu eins og verið hafði í fyrstu bylgjunni og einungis nokkrir unnu á skrifstofunni. Það mun breytast á næstu dögum en engu að síður verður samgangur milli viðbragðsaðila í Skógarhlíðinni áfram aðskilinn. Við tökum enga áhættu með starfsfólk okkar eða starfsemi, það er mikilvægt að halda smitum frá okkar fólki. Við höfum alltaf átt mjög gott samstarf við samstarfsfélaga okkar innan heilbrigðisgeirans og það hefur sýnt sig vel í þessum faraldri hversu dýrmæt slík samvinna er. Enginn hafði upplifað viðlíka aðstæður áður og höfum við oft þurft að hafa hraðar hendur þegar verið var að breyta verklagi sem gekk alltaf vel með samstilltu átaki. Önnur bylgjan hafði varla kvatt okkur þegar sú þriðja skall á með miklum látum hér á höfuðborgarsvæðinu um miðjan september. Vikuna 14-20. september voru ný smit í landinu 216 og þar af 195 á höfuðborgarsvæðinu eða 90%. Veiran var að greinast í yngra fólki og meirihluti þeirra var einkennalaus. Það sýnir okkur hversu skæð hún er og hversu víða hún er að leynast. Við hertum enn frekar á samskiptum starfsfólks og var stærsti hluti skrifstofu og forvarnarsviðs í heimavinnu enn á ný. Samskipti milli vakta er einnig takmörkuð. Því miður eru engar galdralausnir til í þessari baráttu heldur erum við að nota sama verklagið og í vor.

Hvað svo?

Á svona tímamótum er ágætt að staldra við og draga lærdóm af þessu, COVID-19 tók margt frá okkur en það má líka horfa á jákvæða þætti sem það hafði áhrif á. Enn og aftur sýndum við Íslendingar hversu vel við þjöppum okkur saman þegar við lendum í hremmingum. Allir leggjast á eitt til að láta hlutina ganga upp og lausna er leitað hjá fagfólki. Þær voru ófáar gjafirnar sem bárust okkar framlínustarfsfólki, sem þakklætisvottur fyrir þeirra ómetanlega framlag. Við fengum enn og aftur staðfestingu á því sem við vissum að hjá okkur starfar ótrúlega öflugur lausnamiðaður hópur sem vinnur af heilindum, oft við mjög krefjandi aðstæður. Annað sem við lærðum að tileinka okkur á þessum vikum var vinna með fjarfundarbúnað, þar sem allir fundir voru haldnir í Teams. Vaktir tóku upp samskipti sem sín á milli á Teams og þar fór t.d. fram fræðsla um nýjan búnað o.þ.h. og eru þær enn að nýta tæknina á þennan hátt. Enginn veit hvernig þróunin verður hér á landi en vonandi náum við að halda veirunni niðri svo ekki þurfi að koma aftur til meiri hafta í samfélaginu. Við erum engu að síður á tánum og erum tilbúin ef veiran nær sér aftur á flug. Að öllum líkindum þurfum við samt að læra að lifa með henni og ef til vill hefur hún nú þegar breytt samfélaginu til frambúðar. Það var mögnuð upplifun fyrir mig að sjá tæplega 200 manns leggjast á eitt til að okkar mikilvæga samfélagslega grunnþjónusta héldist óskert. Eftir þessu var tekið og hafa margir haft á orði við mig þvílíkt þrekvirki hefur verið unnið hér hjá okkur og fyrir það er ég þakklátur. Stundum eru það líka litlu hlutirnir sem gleðja og það var gaman að endurheimta skrifstofuna mína eftir fyrstu bylgjuna en hún var notuð sem mötuneyti á þeim tíma og ég er enn að finna borðbúnað hér og þar. Það er alltaf mikilvægt að tapa aldrei gleðinni þó verkefnin séu krefjandi og ég tel að okkur hjá SHS hafi tekist það.

Fjármálaskrifstofa

This article is from: