Eymdin
Eitt af því sem þurfti að leysa var sótthreinsiaðstaða fyrir bíla og tæki sem notuð voru í flutningum á COVID-19 sjúklingum. Í Skógarhlíðinni var að losna húsnæði sem áður hýsti bílamiðstöð ríkislögreglustjóra og var allt kapp lagt á að fá húsnæðið fyrir þetta verkefni. Fljótlega kom einnig í ljós að nauðsynlegt var að fá aðstöðu fyrir starfsmenn sem hugsanlega höfðu sinnt smituðum sjúklingi án viðeigandi varna. Ef slík staða kom upp þurftu starfsmenn að bíða á meðan niðurstöður úr sýnatöku sjúklings lágu fyrir, slíkar aðstæður komu nokkrum sinnum upp. Starfsmenn þurftu einnig að komast í sturtu og geta skipt um fatnað. Þessi aðstaða fékk fljótlega nafnið Eymdin enda ekki skemmtileg staða að vera í þegar beðið er eftir stóra „dómi“ og er því nafnið viðeigandi. Starfsmenn okkar sáu um að setja upp milliveggi, sturtur o.fl. í Eymdinni. Aðstaðan nýttist fyrir SHS, LRH, LHG sem og alla aðra viðbragðsaðila sem höfðu lent í smiti óháð því hvar þeir voru á landinu. Í upphafi sá vaktin í Skógarhlíðinni alfarið um þrif á bílunum og tækjum en í mars var samið við Sólar ehf. um að sjá um þrifin og mönnuðu þeir aðstöðuna allan sólarhringinn alla daga vikunnar á meðan mesta álagið var. Aðstaðan gjörbreytti möguleikum okkar á að glíma við faraldurinn og var enn eitt dæmi um gott samstarf allra viðbragðsaðila.
25. maí Opnun í Skógarhlið
Bílaflotinn í Skógarhlíð ásamt COVID bílum
18
Á vakt fyrir Ísland
Uppskipting vakta og fjölgun stöðva
Til að minnka líkur á smiti milli starfsmanna var verklagi við vaktaskipti breytt í byrjun mars. Á vaktaskiptum gengu starfsmenn frá sínum persónulega búnaði áður en ný vakt kom á svæðið og var umgengni milli vakta bönnuð, sem fólst í að engin blöndun var á milli þeirra þ.e.a.s. sú vakt sem var að ljúka störfum fór út af stöðinni á öðrum stað en sú vakt sem var að koma til starfa. Öll samskipti sem þurftu að fara á milli vakta fóru fram símleiðis eða minnismiðar skildir eftir. Allir álagsfletir, þ.e. fjarskiptabúnaður, hurðahúnar, handföng o.fl. voru sótthreinsaðir af þeirri vakt sem var að koma. Leitast var við að vera með sömu mönnun alla vaktatörnina og allar færslur á milli stöðva, milli vakta og skiptivaktir voru bannaðar. Hver og ein útstöð var skilgreind sem sérstakt sóttvarnasvæði. Starfsmenn voru hvattir til að minnka einnig samneyti milli eininga í frítíma sínum sem þeir gerðu. Þannig að segja má að starfsmenn hafi verið í hálfgerðri sóttkví þar sem þeir stunduðu sína vinnu og fóru síðan heim og gættu þess að vera ekki innan um margmenni. Líklega munum við alltaf minnast þessa tíma sem tímans þegar SHS fór í sóttkví. Fjölgað var á sólarhringsvöktum, farið úr 23 í 31 starfsmann þegar mest var. Á móti var fækkað á dagsjúkrabílum, enda datt álagið í millistofnanaflutningum niður á þessu tímabili. Sjúkraflutningum fækkaði einnig, en þeir urðu lengri og flóknari, vegna aukinna sóttvarna. Til að þetta gengi allt upp var ein forsenda að óska eftir því að starfsmenn myndu breyta vetrarorlofum, fresta fríum og hætta við utanlandsferðir. En við þurftum ekki að biðja um eitt eða neitt því starfsmenn sýndu frumkvæði, lásu í stöðuna og breyttu sínum áformum og lögðu allt til hliðar enda „sannir viðbragðsaðilar“. Heil vakt tók t.d. þá ákvörðun að hætta við skíðaferð sem var fyrirhuguð, ferðinni var ekki heitið á þekkt smitsvæði á þeim tíma. Það hefði verið mjög slæmt fyrir okkur að missa alla vaktina í mögulega 14 daga sóttkví við heimkomu og er ég þeim gríðarlega þakklátur fyrir það að hafa ekki farið í ferðina. Ráðningu sumarstarfsmanna var flýtt hjá þeim sem gátu það. Öllum námskeiðum var frestað og starfsmenn settir á vaktir. Með þessum aðgerðum jukust líkurnar á því að við myndum ekki missa marga úr vinnu ef það kæmi upp smit hjá okkur og við næðum að tryggja órofna þjónustu. Þessar aðgerðir voru flóknar en allir starfsmenn tóku vel í þær og fyrir það ber að þakka.