6 minute read

Fagdeild sjúkraflutningamanna

Árið hefur á margan hátt verið óvenjulegt svo ekki sé meira sagt en fagdeildin hefur eins og aðrir þurft að laga sig að aðstæðum í heimsfaraldri. Sum verkefna hafa verið keyrð áfram og fundir verið færðir í rafrænt form en öðrum hefur þurft að draga úr eða fresta eins og raunin varð með aðalþing félagsins og þar með ársfund fagdeildarinnar. Stjórn fagdeildar fundaði í byrjun árs og er einnig í reglulegum samskiptum á hinum ýmsu miðlum. Eitt af fyrirferðamestu verkum fagdeildarinnar undanfarið er stefnumótunarvinna fyrir málaflokk sjúkraflutninga hjá heilbrigðisráðuneytinu. Stofnaður var verkefnahópur og var honum falið að gera tillögur að framtíðarskipulagi sjúkraflutninga á Íslandi í samræmi við heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Það er sérstaklega ánægjulegt að geta þess að í þessum verkefnahópi átti fagdeild sjúkraflutninga tvo fulltrúa og þar af einn í stýrihópi verkefnisins. Auk þess voru fleiri löggildir sjúkraflutningamenn í hópnum sem fulltrúar annarra stofnana. Aðkoma sjúkraflutningamanna að verkefninu var því mikil og er það vel, en lengi hefur verið kallað eftir að við fáum aukna aðkomu að stóra borðinu. Stuðningshópur, sem hafði áður verið stofnaður til þess að fara yfir hugmyndir LSS um MBUS, var virkjaður sem bakland fulltrúa fagdeildarinnar í þessu verkefni. Þetta var stórt verkefni og afar þýðingarmikið fyrir okkur en það tekur á nánast öllum þeim helstu málum sem fagdeildin hefur beitt sér í undanfarin ár. Verkefnahópnum var samkvæmt skipunarbréfi falið að taka fyrir mönnun, menntun, þjálfun og endurmenntun þeirra sem sinna sjúkraflutningum, fjalla um þjónustuviðmið, gæðamælikvarða og eftirlit með sjúkraflutningum og einnig um faglegan stuðning með notkun fjarheilbrigðistækni, greiðslufyrirkomulag og fleiri þætti. Hópurinn skilaði af sér niðurstöðum í tveimur skýrslum í byrjun árs 2020. Önnur skýrslan dregur upp framtíðarsýn í málaflokknum með hliðsjón af markmiðum heilbrigðisstefnu stjórnvalda til ársins 2030. Hin skýrslan er nánari umfjöllun um megin

Advertisement

tillögu hópsins en lagt er til að stofnuð verði sérstök miðstöð um bráðaþjónustu og sjúkraflutninga sem hafi víðtækt hlutverk þegar kemur að samræmingu þjónustunnar, faglegum stuðningi, gæðaeftirliti og muni koma að þjálfun, þróun og endurmenntun fagstétta á þessu sviði. Stigað kerfi viðbragðs landið um kring var tekið fyrir og þar með hlutverk vettvangsliða. Seinni skýrslunni fylgja jafnframt drög að þjónustuviðmiðum sem lagt er til að verði lögð til grundvallar að skipulagi bráðaþjónustu og sjúkraflutninga. Viðmiðin taka til þátta eins og viðbragðstíma, þjálfunar mannskaps, tækjabúnaðar og lyfja, sérhæfðrar meðferðar og tíma þar til komið er á sérhæft sjúkrahús. Með slíkum viðmiðum yrði lagður grundvöllur að samræmdri þjónustu fyrir alla landsmenn og með tilkomu miðstöðvarinnar yrði fagleg leiðbeinandi umsjón á einni hendi svo enn fremur megi tryggja þá samræmdu þjónustu við ólíkt rekstrarfyrirkomulag. Formaður verkefnahópsins var Viðar Magnússon yfirlæknir bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa og vill fagdeild sjúkraflutningamanna koma fram þökkum til hans. Skýrslurnar eru báðar aðgengilegar á vef stjórnarráðsins en þær heita: • Stefna í bráðaþjónustu og sjúkra- flutningum til ársins 2030 – tillögur starfshóps • Miðstöð um bráðaþjónustu og sjúkra- flutninga OG drög að þjónustu- viðmiðum

Birkir Árnason

Annað fyrirferðarmikið mál á borði fagdeildarinnar hefur verið endurnýjun sjúkrabílaflotans. Formaður átti sæti í ráðherraskipuðum hópi sem var ráðgefandi um málefni sjúkrabifreiða og vann einnig að gerð útboðs á vegum heilbrigðisráðuneytisins áður en samningar náðust milli ríkis og Rauða krossins. Eftir að samningar tókust og Rauði krossinn tók yfir útboðið með heimild til enn frekari endurnýjunar var áfram óskað eftir aðkomu okkar og hefur sú vinna staðið síðan. Þar ber að nefna eftirfylgni og samskipti við tilboðshafa og framleiðanda og einnig undirbúning næsta útboðs. Nú í vor gerðist það einnig að keypt var sjúkrabifreið með kassayfirbyggingu eða af svokölluðum C-flokki (e. C-type). Fagdeild sjúkraflutninga og fleiri aðilar þ.m.t. SHS hafa lengi talað fyrir því að til þurfi að vera ákveðinn fjöldi C-flokks bifreiða þar sem veita á sérhæfða þjónustu (ALS) og aðra þjónustu á borð við gjörgæsluflutninga þar sem starfsaðstaða og nægt rými skipta enn meira máli. Þegar Covid-19 faraldurinn var í hvað mestum vexti var samþykkt að keypt yrði bifreið til prufu en eintakið er notuð bifreið sem var til hjá framleiðanda og fékkst á hagstæðu verði, ásamt því að hægt var að afgreiða hana með mjög skömmum fyrirvara. Þetta er mikið fagnaðarefni og verður áhugavert að sjá og meta hvernig bifreiðin reynist en talsverð þróun

hefur átt sér stað í framleiðslu slíkra bifreiða síðan samskonar bifreið var seinast prófuð hér á landi. Hlutfall Cflokks bifreiða fer vaxandi í Evrópu og með hagkvæmari framleiðslu minnkar kostnaðarbil þeirra og hinna ,,venjulegu” B-flokks bifreiða (e. B-type).

Fagráð sjúkraflutninga

Fagráðið fundar reglulega og aukalega ef upp koma sérstök mál. Ráðið hefur átt í reglulegum samskiptum við heilbrigðisráðuneytið og átti fund með heilbrigðisráðherra nú í byrjun árs. Ráðið hefur einnig átt í samskiptum við Embætti landlæknis, meðal annars vegna mála tengdum starfsleyfi sjúkraflutningamanna en einnig um önnur mál. Sem dæmi um verkefni sem ráðið hefur komið að nýlega má nefna vinnu í verkefnahóp fyrir heilbrigðisráðuneytið. Átakshópur um lausnir á vanda bráðamóttöku Landspítalans skilaði heilbrigðisráðherra skýrslu þar sem tilgreindar voru tíu tillögur til úrbóta. Ein af þeim tillögum snýr að því að auka möguleika sjúkraflutningamanna á höfuðborgarsvæðinu til að afgreiða tilfelli í heimahúsi og fækka þannig flutningum á bráðamóttöku. Fagráð sjúkraflutninga tók þátt í útfærslu þeirrar tillögu.

Og svo kom COVID

Hlutverk fagdeildarinnar kemur skýrt fram í þessu ástandi sem á okkur hefur dunið. Facebook-síðan okkar hefur verið notuð til þess að miðla leiðbeiningum og gagnlegu efni um verklag og eðli sjúkdómsins. Síðan hefur einnig verið vettvangur almennrar umræðu um veiruna og ástandið. Fagdeildin lagði sitt af mörkum við að halda umræðunni gangandi út á við og minna á hlutverk sjúkraflutningamanna í faraldrinum. Einnig hefur fagdeildin verið þátttakandi í alþjóðlegum stuðningshópi um COVID-19. Það er ljóst að sumir hafa fengið þyngra högg en aðrir en tónninn í umræðunum er samt jákvæður og uppbyggjandi. Menn bera þar saman bækur sínar, viðmið og aðgerðir í spjallforriti. Heimurinn minnkar stöðugt með aukinni tækni og má gera ráð fyrir því að samskipti af þessu tagi munu aukast við starfsbræður okkar og systur í öðrum löndum. Rafrænar sjúkraflutningaskýrslur voru settar á bið í faraldrinum en vinnan er langt komin og prófanir á smáforritinu hefjast í haust. Stofnaður var í byrjun árs hópur á vegum fagdeildarinnar sem ætlað er að fara yfir hugmyndir að lausnum á uppfærslu vinnuferla. Vinna hópsins var á grunnstigum en hann lagðist einnig í dvala sökum heimsfaraldurs. Hann verður virkjaður á ný þegar líður að hausti. Það hefur dregið til tíðinda í menntunarmálum sjúkraflutningamanna varðandi mögulegt framhaldsnám. Háskólinn á Akureyri leiðir nú vinnu um gerð sam-evrópskrar námskrár fyrir bráðatækna. Að verkefninu koma einnig fulltrúar háskóla frá hinum Norðurlöndunum. Verkefnið var kynnt fyrir stjórn fagdeildarinnar á skrifstofu Landssambandsins nú í vetur. Þá var það einnig nýlega tilkynnt að nám sjúkraliða verði útfært og kennt á háskólastigi á Íslandi en það er eitthvað sem við munum fylgjast með og skoða hvort læra megi af með tilliti til innleiðingar og námsfyrirkomulags. Fagdeild sjúkraflutningamanna og formaður LSS, Magnús Smári Smárason, hafa óskað eftir fundi með menntamálaráðherra til þess að fara yfir málið. Meðal annarra mála tók fagdeildin einnig þátt í stefnumótunarvinnu fyrir Sjúkraflutningaskólann sem sett var í gang á seinni hluta síðasta árs. Starfsemi Landssambandsins og fagdeildanna var kynnt fyrir þingmönnum í kjördæmaviku. Þetta er frumkvæðisvinna sem gaf góða raun í fyrra. Kynningin gekk vel, hún var vel sótt og tóku þingmenn framtakinu vel. Með þessu komum við málum okkar áfram og búum til nýjar tengingar við þá sem vilja leggja baráttu okkar lið. Facebook-hópurinn okkar er virkur og stækkar sífellt, hann er í senn faglegur samskiptamiðill og rafræn félagsmiðstöð þessa samfélags. Að lokum viljum við svo minna á að Bráðavarpið, hlaðvarp um bráðaþjónustu og sjúkraflutninga er enn í fullum gangi og nýir þættir settir í loftið reglulega. Landssambandið er áfram stoltur stuðningsaðili. Nefnd hafa verið helstu verkefni fagdeildar á árinu en starfsemin nær einnig til fjölda smærri verka. Stjórnin vill benda félagsmönnum á að hafa endilega samband ef óskað er eftir að sérstök mál séu tekin fyrir og bendir á netfangið sjukra@lsos.is

Það er búið að vera lærdómsríkt og hvetjandi að fylgjast með á þessum fordæmalausu tímum. Sjúkraflutningamenn sanna enn á ný að hægt er að treysta á þá við erfiðar aðstæður. Fram hefur verið gengið af fagmennsku og ósérhlífni, öllu tekið eins og hagléli á bringuna. Klapp á bakið er við hæfi. Fyrir hönd fagdeildarinnar vil ég óska félagsmönnum öllum gæfu og velfarnaðar í starfi.

Birkir Árnason

formaður fagdeildar sjúkraflutningamanna LSS, slökkviliðsmaður og bráðatæknir hjá SHS.

This article is from: