7 minute read

Sálfræðiþjónusta fyrir félagsmenn LSS

Next Article
Neyðarljósmyndun

Neyðarljósmyndun

Undanfarin fjögur ár hafa Sálfræðingarnir ehf. starfað sem þjónustuaðili fyrir Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Á þeim tíma hefur aðkoma okkar verið bæði í formi viðtala við aðila á stofu og á vettvangi og hafa fleiri tugir meðlima LSOS sótt sér stuðning síðastliðin ár. Brugðist hefur verið fljótt við stórum atburðum þar sem Sálfræðingarnir ehf. hafa dvalið á vettvangi jafnvel í einhverja daga, eins og í nýliðinni aurskriðu á Seyðisfirði. Öll þessi þjónusta er möguleg og sjálfsögð og hefur skipt sköpum hvað suma aðila hefur varðað. Aðilar leita LSOS þjónustu Sálfræðinganna vegna ýmiskonar vanda m.a. atvika sem upp hafa komið í vinnu, erfiðra stöðu heima fyrir sem hefur áhrif á vinnugetu eða samskiptaerfiðleika á vinnustað.

Árið 2019 var gerð grunnrannsókn á líðan slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna annars vegar og lögreglumanna hins vegar sem og björgunarsveita hjá Rannsóknarsetri áfalla við Háskólann í Reykjavík og liggja niðurstöður hennar fyrir. Svörun hjá lögreglumönnum var langbest sem gerir upplýsingar um þá marktækari. Rannsóknin skoðaði hversu algeng greining á Áfallastreituröskun gæti hugsanlega verið og hvort alvarlegir atburðir í starfi síðastliðna 12 mánuði væri áhættuþáttur á meðan félagslegur stuðningur frá fjölskyldu og vinum væri verndandi þáttur fyrir áfallastreitu. Sendur var spurningalisti á alla slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn sem og lögreglu og björgunarsveitir gegnum tölvupóst og var þýðið 234 lögreglumenn, 168 slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn (89 sem skilgreindu sig fyrst og fremst í sjúkraflutningum og 79 slökkviliðsmenn) og 133 sjálfboðaliðar úr björgunarsveitum.

Advertisement

Niðurstöður sýndu að 17,3% lögreglumanna og 11,6% sjálfboðaliða í björgunarsveitum hafði það mikil einkenni áfallastreitu að grunur er um að þau uppfylli viðmið um svokallaða áfallastreituröskun. Hún er greind þegar einkenni eru það mikil að þau fari yfir ákveðin greiningarviðmið í spurningalista en er aldrei formlega greind nema með klínísku viðtali. Þessi tíðni hjá lögreglumönnum og sjálfboðaliðum er marktækt hærri heldur en hjá slökkviliði og sjúkraflutningum þar sem 7,7% greindust yfir svokölluðum viðmiðunarmörkum. Hjá öllum hópunum voru þeir sem höfðu upplifað fleiri alvarleg atvik í vinnu líklegri til að greinast yfir viðmiðunarmörkum um áfallastreituröskun. Það kom einnig í ljós að þau sem voru einhleyp og þau sem unnu úti á landi sýndu tengsl við aukin áfallastreitueinkenni hjá lögreglumönnum. Hjá öllum hópunum var félagslegur stuðningur verndandi þáttur þar sem góður stuðningur var tengdur minni einkennum um áfallastreitu. Þessar niðurstöður sýna mikilvægi þess að sinna vel sálrænum stuðningi við alla viðbragðsaðila. Það sem kemur á óvart í niðurstöðunum er hversu lítil áfallastreitueinkenni eru hjá slökkviliðs- og sjúkraflutningsmönnum á Íslandi og er þetta ekki í samræmi við erlendar niðurstöður þar sem tíðnin er oftast í kringum 14% hjá slökkviliði og sjúkraflutningum en frekar í kringum 12% hjá lögreglu1. Eflaust skýrast þessar niðurstöður af því hversu fáir aðilar frá LSOS svöruðu listanum og sýna tölurnar því mögulega skekkta mynd af tíðni áfallastreitu í þeim hópi. En hvað er áfallastreituröskun og hverjir fá hana helst? Það er eðlilegt að alvarlegir atburðir hreyfi við okkur og það taki einhvern tíma að jafna sig. Margir sem lent hafa í áföllum fara í felur með þá líðan sem fylgt getur í kjölfarið og finna jafnvel til skammar yfir því að „jafna sig ekki“ eins fljótt og margir aðrir. Þessi skömm leiddi það af sér hér áður fyrr að aðilar leituðu sér ekki aðstoðar og voru oft komnir í öngstræti með líðan sína. Þetta hefur sem betur fer breyst mikið á undanförnum 5-10 árum. Þegar við stöndum frammi fyrir ógn eða hættu upplifum við oft mikla hræðslu og jafnvel skelfingu, hrylling eða vanmátt. Fara þá í gang ferli í líkamanum sem miða að því að verjast eða forðast ógnina. Um er að ræða frumviðbrögð sem hvetja okkur annað hvort til að berjast eða flýja. Sterk tilfinningaviðbrögð eru því eðlileg eftir alvarlega atburði en þau einkenni eiga smám saman að minnka í styrkleika sínum. Því þarf meira en mánuður að líða frá atburði þar til greiningu um áfallastreituröskun er varpað fram. Þó flestir jafni sig fljótt eftir alvarlega atburði er alltaf einhver hópur fólks eða viðbragðsaðila, mismunandi eftir atburðum, sem þróar með sér áfallastreitueinkenni sem valdið geta veru-

Sigríður Björk Þormar

1 Lewis-Schroeder, N. F., Kieran, K., Murphy, B. L., Wolff, J. D., Robinson, M. A., & Kaufman, M. L. (2018). Conceptualization, Assessment, and Treatment of Traumatic Stress in First Responders: A Review of Critical Issues. Harvard review of psychiatry, 26(4), 216–227. https://doi.org/10.1097/HRP.0000000000000176

legri vanlíðan og ef einkennin eru mikil þá nær fólk greiningarviðmiðum um áfallastreituröskun „post traumatic stress disorder“. Það kemur einnig fyrir að einkenni séu lítil í kjölfar atburðar og byrji ekki fyrr en árum síðar og þá stundum í tengslum við streitufullar aðstæður. Það hefur þó sýnt sig að ekki allir sem þróa röskunina með sér hafa upplifað hættulegan atburð heldur frekar atburð sem ógnar öryggi okkar eða vellíðan á einhvern hátt. Skyndilegur dauði ættingja getur, sem dæmi má gefa, einnig valdið áfallastreituröskun, sérstaklega ef tengslin við viðkomandi voru djúp.

Röskunin þróast á mismunandi hátt og margir ná bata innan sex mánaða á meðan aðrir eru að fást við þetta árum saman, sér í lagi ef þeir leita sér ekki aðstoðar. Samansafn einkenna í hegðun, hugsun eða tilfinningalífi okkar ræður úrslitum um hvort hægt er að greina áfallastreituröskun. Það eru einkenni eins og ágengar minningar, martraðir, endurupplifun af atburðinum og sterkar tilfinningar og/eða líkamleg viðbrögð þegar eitthvað minnir okkur á atburðinn. Við höfum tilhneigingu til að forðast að hugsa um, tala um eða upplifa tilfinningar eða mæta aðstæðum og/eða fólki sem minna á atburðinn. Forðunin leiðir jafnvel til breytinga á venjum okkar eða hegðun svo sem að vilja helst ekki setjast undir stýri eftir bílslys þrátt fyrir að hafa alltaf viljað vera ökumaðurinn fyrir slysið. Vangeta til að muna mikilvægar upplýsingar um atburðinn getur verið til staðar, rangtúlkun á því sem gerðist eða afleiðingum þess sem leiðir oft til sjálfsásökunar eða ásökunar í garð annarra. Einnig getur borið á áhugaleysi fyrir því sem áður var skemmtilegt, sumir fjarlægjast eða detta úr tengslum við fólk og tala um vangetu til að upplifa jákvæðar tilfinningar eða tilfinningadofa. Reiði og pirringur er algengur, óábyrg eða sjálfseyðandi hegðun getur verið til staðar, við erum stöðugt á varðbergi og okkur bregður auðveldlega. Margir upplifa einbeitingarörðugleika og svefntruflanir. Þessi viðbrögð annað hvort hefjast eða versna í kjölfar atburðarins og ekki er hægt að skýra þau til dæmis með höfuðáverka eða neyslu. Þessi einkenni, sérstaklega reiði og pirringur, geta orðið til þess að okkur finnist erfitt að vera í kringum aðra eða aðrir forðast að vera í kringum okkur, sem verður oft til þess að félagslegur stuðningur minnkar. Áfallastreituröskun verður því oft félagslegur sjúkdómur sem áhrif getur haft á nærumhverfi og fjölskyldu. Eins og áður sagði reyna margir að fela einkennin eða finna til skammar yfir líðan sinni á meðan margir þættir spila inn í hvort einstaklingur þrói með sér áfallastreituröskun eða ekki. Að greinast með áfallastreituröskun þýðir ekki að við séum á einhvern hátt ekki jafn seig og aðrir. Það skiptir til dæmis máli hvort um líkamleg meiðsli hafi verið að ræða, hvort lífshætta var upplifuð, hvort við höfum góðan félagslegan stuðning af nánasta umhverfi ef aðrir erfiðir atburðir eru að gerast á sama tíma s.s. alvarleg veikindi í fjölskyldu og hvort saga sé um fleiri alvarleg áföll. Daglegt form okkar hefur því mikil áhrif á hversu vel við getum unnið úr erfiðum atburði. Þeir sem kannski eru að ganga í gegnum erfiðan skilnað, eiga veikan ættingja eða annað sem er að valda streitu væru verr til þess fallnir að taka á móti alvarlegu atviki í starfi. Sálfræðingar hafa náð góðum árangri í meðhöndlun áfallastreituröskunar og eru ákveðnar tegundir hugrænnar atferlismeðferðar og þá sérstaklega hugræn úrvinnslumeðferð mjög árangursríkar. Einnig hefur EMDR (Eye Movement Desensitization and Reprocessing) reynst vel. Að leita sér sálfræðimeðferðar sem fyrst, þegar ljóst er að einkenni minnka ekki þegar frá líður, hefur sýnt sig að dregur úr líkum á að þróa með sér langvarandi áfallastreituröskun sem síðan getur haft áhrif á náin tengsl í lífi manns því hæfni til samskipta, þol fyrir streitu og félagsskap fólks verður minni. Auk þess hjálpar góð meðferð fólki að snúa fyrr til góðrar virkni og/eða vinnu og dregur jafnvel úr líkamlegum einkennum s.s. krónískum verkjum. Þegar áfallastreituröskun er látin ómeðhöndluð getur hún leitt af sér mikla vanlíðan, þunglyndi, félagslega einangrun, samskipta- og tengslavanda og jafnvel misnotkun á vímugjöfum. Ef þú hefur lent í alvarlegum atburði og kannast við þessa líðan er gott að leita sér aðstoðar sem fyrst til að vinna gegn þeim áhrifum sem einkennin eða röskunin getur haft á þig og þá sem standa þér næst. Að þessu sögðu er ljóst að síðastliðið ár hefur reynt á hjá meðlimum LSOS hvað varðar COVID-19 faraldurinn. Sjúkraflutningar við streitufullar aðstæður þar sem ógnin var ósýnileg, breyting á vaktaskipulagi (og þar með daglegu stuðningskerfi) og rofin tengsl á milli starfsfélaga er allt líklegt til að ýta undir erfiðar tilfinningar. Rannsóknarsetur áfalla við Háskólann í Reykjavík hefur því farið af stað aftur til að mæla líðan félagsmanna. Seinna í sumar eða snemma í haust mun verða send út krækja á spurningalista sem mikilvægt er fyrir sem flesta að svara vel. Vel útfylltur listi frá sem flestum aðilum gefur okkur góða mynd af raunverulegri líðan hópsins og getur þá leitt af sér góðar upplýsingar um hvers konar viðbragð og/eða stuðningsúrræði væri skynsamlegast að þróa og bjóða upp á fyrir félagsmenn.

Sigríður Björk Þormar

doktor í sálfræði og eigandi Sálfræðinganna ehf.

This article is from: