Samkaup endurvekja Meistaramánuð Samkaup, sem eiga og reka Nettó, eru nýr bakhjarl Meistaramánaðar, sem fer fram 1.-31. október 2021. Á meistaramanudur.is er hægt að skrá sig til leiks og skora á aðra þátttakendur, fá aðgang að rafrænni fyrirlestraröð. Opnunarfyrirlesturinn heldur Magnús Scheving.
V
ið erum ótrúlega stolt af því að gerast bakhjarl Meistaramánaðar. Þetta er eitt vinsælasta verkefni undanfarinna ára þar sem fólk er hvatt til að setja sér markmið og jafnvel deila þeim með öðrum,“ segir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs hjá Samkaupum. „Meistaramánuður fellur vel að starfsemi og gildum Samkaupa. Félagið hefur sett sér markmið er snúa að heilsueflingu, bæði fyrir viðskiptavini og starfsfólk, og er með sérstöðu og framsækni þegar kemur að heilsutengdum vörum.“ Allir sem vilja geta tekið þátt í Meistaramánuði. Eina skilyrðið er að fólk setji sér markmið, stór eða smá. Tilgangurinn með markmiðunum er að öðlast betri lífsgæði og láta öðrum líða vel, hvort sem þau snúast um að styrkja gott málefni, hreyfa sig meira, borða hollari mat, minnka skjátíma, sofa betur eða njóta fleiri gæðastunda með fjölskyldunni. Samkaup bjóða þátttakendum upp á rafræna fyrirlestraröð um alls konar heilsutengd málefni meðan á Meistaramánuði stendur. Opnunarfyrirlesturinn heldur íþrótta- og athafnamaðurinn Magnús Scheving, en hann mun fjalla um góðar leiðir til þess að setja sér markmið og standa við þau. „Það góða við að setja sér MARKMIÐ er að MARKMIÐIÐ er ekki MARKMIÐIÐ í rauninni heldur leiðin að því, ferðalagið. Hvert lítið skref sem þú tekur í áttina að MARKMIÐINU er meistarasigur sem ber að fagna og njóta,“ segir Magnús og bætir við: „Meistari er sá sem brýtur sig ekki niður þótt stundum gangi illa, heldur sá sem gefst ekki upp, stendur upp aftur eftir fall og nýtur ferðalagsins.“
124